Ferill 5. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1994. – 1064 ár frá stofnun Alþingis.
118. löggjafarþing. – 5 . mál.


5. Frumvarp til laga



um breyting á lyfjalögum, nr. 93/1994.

Flm.: Ingibjörg Pálmadóttir, Finnur Ingólfsson, Valgerður Sverrisdóttir.



1. gr.


    4. mgr. 30. gr. laganna orðast svo:
    Lyfjaheildsölum er heimilt að selja lyf lyfsöluleyfishöfum, stofnunum sem reknar eru samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu eða öðrum sérlögum, læknum, tannlæknum og dýralæknum og þeim tilraunastofum sem vinna að rannsóknum lyfja. Kostnaður lækna og tannlækna vegna slíkra lyfjakaupa fellur undir rekstrarkostnað, en dýralæknar hafa heimild til að selja dýralyf á allt að hámarksútsöluverði sem ákveðið er af lyfjaverðsnefnd, sbr. 40. gr.

2. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Í lok 117. löggjafarþings hlutu afgreiðslu ný lyfjalög. Minni hluti heilbrigðis- og trygginganefndar gagnrýndi frá upphafi ýmis atriði frumvarps til lyfjalaga og telur hin nýju lög í heild sinni meingölluð. Auk þess hafa komið í ljós einstakir gallar á lögunum sem nauðsynlegt er að leiðrétta án tafar og er frumvarp þetta flutt af því tilefni.
    Við þinglega meðferð frumvarps til lyfjalaga gerði meiri hluti heilbrigðis- og trygginganefndar fjölmargar breytingar, þar á meðal varðandi lyfsölu dýralækna. Samkvæmt 58. gr. laga nr. 76/1982, um lyfjadreifingu, sem ný lyfjalög leystu af hólmi, höfðu héraðsdýralæknar heimild til lyfjasölu og bar skylda til að sjá um sölu lyfjanna í þeim héruðum þar sem ekki voru lyfjabúðir. Kveðið er á um lyfsölu dýralækna í 30. gr. nýrra lyfjalaga. Samkvæmt ákvæðinu er öllum dýralæknum nú heimilt að kaupa lyf í heildsölu og nota á eigin stofum og í sjúkravitjunum og fram kom í máli sérfræðinga heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis að með breytingunni væri ætlunin að rýmka starfsmöguleika dýralækna. Síðan hefur komið á daginn að í raun er verið að þrengja þá verulega. Þannig hefur heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti úrskurðað að með lyfjaafhendingu dýralækna sé einungis átt við að þeir megi afhenda lyf til að sinna meðferðarþörf þar til hægt sé að ná í lyf í lyfjabúð. Breytingin felur því í raun í sér verulega skerðingu á þjónustu við bændur og aukinn kostnað þeirra þar sem dýralæknar gátu áður skilið eftir hjá bændum nauðsynleg lyf til eftirmeðferðar. Samkvæmt túlkun 30. gr. núgildandi lyfjalaga er gert ráð fyrir að bændur verði sjálfir að nálgast slík lyf og reyndar einnig fyrirbyggjandi lyf sem þeir gátu áður keypt af dýralæknum, en bent skal á að í sex dýralæknishéruðum eru ekki lyfjaverslanir. Stéttarsamband bænda, sem hefur innan sinna vébanda um 4.500 bændur, og einstök hagsmunasamtök önnur hafa hvatt til þess að þegar verði gerðar breytingar í þessu efni þar sem mikið óhagræði fylgi hinu nýja fyrirkomulagi. Stéttarsambandið telur að eldra fyrirkomulag hafi reynst vel og m.a. átt þátt í því að lyfjanoktun í landbúnaði sé, eins og rannsóknir sýni, minni hér en víða annars staðar. Þá hafa dýralæknar bent á að í reglum sem Evrópusamband dýralækna hefur samþykkt er stefnt að því að skilja lyf ætluð mönnum frá dýralyfjum.
    Með vísan til framangreinds er hér lagt til að sú takmörkun, sem felst í 30. gr. lyfjalaga, verði afnumin og dýralæknum veitt svigrúm til að veita sömu þjónustu og áður.