Ferill 15. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.



1994. – 1064 ár frá stofnun Alþingis.
118. löggjafarþing. – 15 . mál.


15. Tillaga til þingsályktunar



um að gera átak við að leggja jarðstrengi í stað loftlína.

.


Flm.: Gísli S. Einarsson, Jóna Valgerður Kristjánsdóttir, Eggert Haukdal,


Steingrímur J. Sigfússon, Jóhannes Geir Sigurgeirsson, Sigbjörn Gunnarsson.



    Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að hún beiti sér fyrir að gert verði sérstakt átak við að leggja jarðstrengi í stað loftlína í dreifikerfi á þeim svæðum þar sem mest veðurálag er eða æskilegt er frá umhverfissjónarmiði að þær hverfi. Ríkisstjórnin leggi fram, sem lið í atvinnuátaki, sérstakt fjármagn til þessara framkvæmda.

Greinargerð.


    Mjög mikið tjón hefur orðið á raflínum á undanförnum árum og hefur það valdið miklu tjóni, sérstaklega í sveitum og dreifðum byggðakjörnum. Varla þarf að lýsa þeim erfiðleik­um og hættum sem viðgerðarmenn hafa búið við og verið samfara viðgerðum við hrikaleg­ar veðurfarsaðstæður.
    Þar til fyrir 2–3 árum hefur ekki verið fjárhagslegur grundvöllur fyrir framkvæmdum af þessum toga en samkvæmt upplýsingum Rarik er orðið ódýrara að leggja jarðstreng en reisa nýjar loftlínur.
    Jarðstrengir hafa lækkað umtalsvert í verði og er heildarkostnaður um 80–90% af kostnaði við tréstauralínur.
    Rafdreifilínur eru um 7.000 km langar á Íslandi. Mjög víða hagar þannig til að auðvelt er að plægja niður strengi jafnvel þótt jarðvegur sé grýttur og væri þannig auðvelt að koma fyrir jarðstrengjum því að meginhluti lína liggur á þannig svæðum.
    Íbúar í sveitum hafa orðið að búa við kulda og ljósleysi vegna rafmagnsleysis allt að 7–8 dögum þegar verstu veður hafa gengið yfir. Mikil tæknivæðing við meðferð mjólkur og gripafóðrun hefur átt sér stað tengd raforku og skapast mikil vandamál einnig af þeim sökum þegar rafmagnsleysi verður eins og kunnugt er. Af þessum ástæðum, svo og af fjöl­mörgum öðrum, er eðlilegt að ríkisstjórnin setji fjármagn til þessa verks sem yrði tengt at­vinnuátaki sem skilar sér sem trygging fyrir öruggari búsetu á landinu.
    Hlutföll milli vinnu og efnis við framkvæmd þá sem hér er um rætt eru: Efni 65–70%, vélavinna 15–20% og mannvinna 10–20%. Í þessari tillögu er miðað við að vinnulaunaþáttur verði fjármagnaður af ríkisfé enda verði verkefnið atvinnuátakstengt.
    Oft er rætt um að sjónmengun sé af raflínum og að þær séu lýti á landslagi. Á það er ekki lagður dómur með þessari tillögu en hún kemur þó til móts við sjónarmið þar að lút­andi. Fyrst og fremst er verið að hugsa um öryggismál, hagkvæmni og atvinnuaukningu og má benda á að miðað við núverandi vaxtakjör stendur jákvæður mismunur á kostnaði við að leggja rafstreng í jörð undir kostnaði af lántöku vegna framkvæmdanna.




Fylgiskjal.


Rafmagnsveitur ríkisins:

Uppbygging og endurnýjun rafdreifikerfa til sveita.



(Texti er ekki til tölvutækur. Athugið pdf-skjalið)