Ferill 16. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


1994. – 1064 ár frá stofnun Alþingis.
118. löggjafarþing. – 16 . mál.


16. Tillaga til þingsályktunar



um eldsneytissparnaðar- og mengunarvarnabúnað í bifreiðar ríkisins.

Flm.: Gísli S. Einarsson, Petrína Baldursdóttir.



    Alþingi ályktar að fela umhverfisráðherra að beita sér fyrir að allar bifreiðar í eigu rík­isins verði búnar eldsneytissparnaðar- og mengunarvarnabúnaði, svokölluðum brennslu­hvata.

Greinargerð.


    Með ítarlegum prófunum hefur verið sannað að sá búnaður, sem hér er lögð fram tillaga um að settur verði í ríkisbifreiðar, minnkar umtalsvert mengandi efni í útblæstri farartækja ásamt því að draga úr eldsneytisnotkun.
    Eldsneytissparnaður reynist mismunandi eftir vélategundum en liggur á bilinu 4–10% sem leitt getur til sparnaðar sem nemur tugum milljóna króna á ári hjá ríkinu. Minnkun skaðlegra efna og lofttegunda í útblæstri vegna betri brennslu og þar með lægri útblásturs­hita liggur á bilinu 15–60% eftir gastegundum. Minnkun er t.d. að meðaltali sem hér segir:

HC kolvetni 40%
NO x köfnunarefnisoxíð 18%
CO kolmónoxíð 60%
PAH í kolvetniskeðjum 50%

    CO 2 -mælingar sýna að hlutfallið í útblæstri eykst lítillega en gengur til baka vegna þess að brennt er minna magni af olíu/bensíni til þess að fá sömu orku út úr vélinni. Án þess að framkvæma kostnaðarsamar breytingar geta flestir bílar með notkun „Powerplus“ brennt blýlausu (blýminna) bensíni og þar af leiðandi minnkar blýmengun af völdum fólksbíla um u.þ.b. 20 tonn á ári.
    Tæknideild Fiskifélags Íslands hefur ásamt Vélskóla Íslands, með styrk frá LÍÚ og um­hverfisráðuneyti, gert mjög nákvæma rannsókn á vél togarans Snorra Sturlusonar þar sem niðurstöður sýna fram á að ef íslenski togara- og fiskiskipaflotinn notaði Cleanburn eða CEP Cleanburn brennsluhvatann gæti verið um að ræða 200–300 millj. kr. sparnað á ári. Niðurstöður tæknideildar Fiskifélags Íslands og Vélskóla Íslands staðfesta niðurstöður tæknideildar British Rail sem gert hefur ítarlega prófun á a.m.k. átta hraðlestum síðustu 18 mánuði. Að beiðni Vegagerðar ríkisins framkvæmdi Vélskóli Íslands mengunarmælingu á fjórum farartækjum, útbúnum með brennsluhvata. Eins og við fyrri mælingu á bv. Snorra Sturlusyni kom í ljós að mengandi efni í útblæstri minnkuðu og það bendir til betri nýtingar eldsneytisins. Í kjölfar jákvæðra niðurstaðna bíladeildar Eimskipafélags Íslands hf. var tek­in ákvörðun um að setja brennsluhvatann í öll stærri tæki og bíla þeirra.
    Dæmi um sparnað: Olíukostnaður íslenska fiskiskipaflotans er nálægt 4 milljörðum kr. á ári. Ef 4–5% sparnaður næst mun hann nema um 200 millj. kr. sem svarar til 650–1.120 þús. kr. á togara eftir olíutegundum.
    Útvegsmenn hafa vaxandi áhuga á Cleanburn og margir þeirra hafa sett þennan búnað í skip sín á grundvelli staðreynda frá þeim sem hafa notað og gert úttekt á búnaðinum und­anfarin fjögur ár. Eðlilegt væri að veita úr Fiskveiðasjóði sérstaka fyrirgreiðslu til að flýta fyrir uppsetningu þessa búnaðar í flotann með tilliti til sparnaðar og minni mengunar.
    DEB-þjónustan á Akranesi hefur safnað miklu efni um reynslu af brennsluhvatanum frá opinberum stofnunum víða í heiminum undanfarin fimm ár. Teknar hafa verið saman skýrslur með tæknilegum upplýsingum um niðurstöður prófana á íslenskum fiskiskipum og togurum. Þessar upplýsingar hafa m.a. verið notaðar í tæknilegar ritgerðir hjá British Rail og sem kynningarefni í Bandaríkjunum, Bretlandi og Noregi.
    Umhverfisráðherra hefur sagt að undir vissum kringumstæðum sé mengun frá útblæstri bifreiða á ákveðnum stöðum í Reykjavík mjög mikil. Sú staðreynd að unnt er að draga svo um munar úr þeirri mengun er óyggjandi og er hún ein helsta ástæðan fyrir flutningi þess­arar þingsályktunartillögu, svo og sparnaður sem kemur ríkissjóði til góða. Opinberum stofnunum hefur verið falið að leita leiða til þess að minnka olíunotkun og CO 2 -mengun til að standa við fyrirheit varðandi Ríó-sáttmálann. Ýmsar hugmyndir hafa komið fram í þessu sambandi, t.d. notkun vetnis- og rafmagnsvéla og aukin notkun rafmagns almennt. Sumt af þessari tækni er enn á þróunar- og tilraunastigi. Ef Íslendingar ætla að standa við Ríó-skuldbindingar sínar er margt sem bendir til að brennsluhvatinn sé hagkvæmasta leiðin sem við höfum til þess.
    Það er von flutningsmanna að þessi ályktun hljóti skjóta og góða afgreiðslu í þinginu.



Fylgiskjal.


Íslenskir rannsóknaraðilar kanna gagnsemi Cleanburn-brennsluhvata:


Leiðir til umtalsverðs olíusparnaðar.


(Úr Fiskifréttum, 17. desember 1993.)



    Síðustu missiri hafa ýmis bætiefni og búnaður, sem ætlað er að draga úr eldsneytisnotk­un, komið á markaðinn hérlendis. Útgerðarmenn hafa haldið að sér höndum eða haft ákveðnar efasemdir um ágæti þessara nýjunga og því var talin full ástæða til þess að gera faglega úttekt á þeim hérlendis sem unnin yrði af óháðum aðilum.
    LÍÚ, tæknideild Fiskifélagsins og Fiskveiðasjóðs og Vélskóli Íslands hafa tekið höndum saman um að vinna að slíkri úttekt og var fyrsta verkefnið að prófa Cleanburn-brennslu­hvatann á stórri hjálparvél í togaranum Snorra Sturlusyni RE. Annars vegar var mæld elds­neytiseyðsla og hins vegar mengandi snefilefni í útblæstri.
    Í frétt frá þessum aðilum segir að enginn ávinningur í olíunotkun hafi mælst við um 20% álag en jafnt vaxandi eftir það og mældist um 2,6% við 43% álag. Ekki reyndist unnt að fá marktækar mælingar á hærra álagi, en leiða má að því líkum að við 64% álag náist allt að 5% ávinningur í olíunotkun, segir í fréttinni. Samanburðarmælingar þessar voru tví­þættar, annars vegar í veiðiferðum og hins vegar í höfn, og hvor aðferðin studdi hina. Þá sýndu mælingar einnig merkjanlega minnkun mengandi snefilefna með notkun Cleanburn.
    Olíukostnaður íslenska fiskiskipaflotans er nálægt 4 milljörðum kr. á ári. Ef t.d. 5% olíusparnaður næst með notkun bætiefna og búnaðar er um verulegar upphæðir að ræða eða sem svarar 200 millj. kr. Sparnaðurinn er verulegur, jafnvel þótt sparnaðarprósentan sé lægri, en á móti kemur einhver kostnaður við kaup á bætiefnum og búnaði. Einnig hefur verið bent á minni viðhaldskostnað á vélbúnaði og loks dregur úr mengunaráhrifum með notkun efnanna.
    Bent er á í fréttinni að meðalskuttogari noti um 1,5 milljónir lítra af eldsneyti á ári og tilheyrandi olíukostnaður sé um 16–23 millj. kr. eftir því hvaða eldsneyti sé notað. Olíusparnaður á bilinu 4–5% gæti þá samkvæmt þessu gefið 650–1.150 þús. kr. lækkun á olíureikningi fyrir meðalskuttogara.
    David Butt á Akranesi, sem er umboðsaðili fyrir Cleanburn, sagði í samtali við Fiski­fréttir að þessi úttekt á gagnsemi Cleanburn staðfesti niðurstöður fjölda erlendra rann­sókna. Fram kom að 38 íslensk skip væru nú þegar komin með þennan búnað, en hann kostaði 150 þús. kr. fyrir vél af stærðinni 1.000–2.500 hestöfl.