Ferill 50. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.



1994. – 1064 ár frá stofnun Alþingis.
118. löggjafarþing. – 50 . mál.


50. Frumvarp til laga



um breyting á lögum um atvinnuleysistryggingar, nr. 93/1993, með síðari breytingum.


Flm.: Anna Ólafsdóttir Björnsson, Guðrún J. Halldórsdóttir,
Jóna Valgerður Kristjánsdóttir, Kristín Ástgeirsdóttir,
Kristín Einarsdóttir.

1. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 18. gr. laganna:
     a .     1. málsl. 1. mgr. orðast svo: Sá sem gengst undir starfsþjálfun, stundar endurmenntun eða sækir námskeið til þess að öðlast hæfni í starfi sínu eða til að stunda ný störf nýtur á meðan atvinnuleysisbóta ef atvinnuleysi hefði skapað honum rétt til slíkra bóta þegar starfsþjálfun, endurmenntun eða dvölin á námskeiðinu hófst, enda njóti hann ekki launa, námslána eða námsstyrkja.
     b .     4. málsl. 1. mgr. orðast svo: Úthlutunarnefnd krefur bótaþega um sannanir um þátttöku hans á hverju missiri samkvæmt framansögðu.
     c .     5. málsl. 1. mgr. fellur brott.

2. gr.


    Við 2. málsl. 5. mgr. 22. gr. laganna bætist: enda stundi hann ekki aðra endurmenntun, sbr. 18. gr.

3. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Frumvarp þetta var flutt á 117. löggjafarþingi en kom ekki til umræðu.
    Fyrirkomulag atvinnuleysisbóta hefur verið mjög til umfjöllunar í kjölfar vaxandi at­vinnuleysis. Með breytingum á lögum um atvinnuleysistryggingar á sl. ári var stigið skref í átt til þess að auka svigrúm atvinnulausra til að afla sér frekari menntunar og starfsþjálfun­ar á meðan atvinnuleysi varir. Sá böggull fylgir þó skammrifi að aðeins er heimilt að sækja námskeið, starfsþjálfun og aðra endurmenntun í átta vikur á hverju ári. Er það varla í takt við þann veruleika sem atvinnulausir búa nú við. Það hlýtur að vera öllum til hagsbóta, jafnt atvinnulausum sem samfélaginu í heild, ef atvinnuleysistíminn er nýttur til endurmenntunar, námskeiða eða starfsþjálfunar. Ekki verður séð hvaða rök eru fyrir því að takmarka þessa heimild við átta vikna námskeið ef önnur skilyrði fyrir töku atvinnuleysisbóta eru uppfyllt.
    Í skýrslu félagsmálaráðherra um rannsókn á afleiðingum atvinnuleysis, sem lá fyrir 117. löggjafarþingi, kemur m.a. fram að atvinnuleysi er útbreiddast hjá þeim hópum sem minnsta menntun hafa og hjá yngra fólki fremur en hinu eldra. Því er eðlilegt að opna þeim möguleika á námi og starfsþjálfun eftir því sem kostur er. Einnig kemur fram í sömu skýrslu að um það bil 70% atvinnulausra hafa áhuga á starfsnámi og 4% þeirra eru í starfsnámi. Áhuginn er mestur í yngstu aldurshópunum og höfðu um 80% þeirra sem eru yngri en 40 ára áhuga á starfsnámi en aðeins um 30% hinna eldri. Af þessu má ráða að slíkt nám sé líklegt til að nýt­ast þeim atvinnulausa um langan tíma eftir að hann hefur lokið námi og fengið vinnu.
    Í frumvarpi þessu er gert ráð fyrir að unnt verði að stunda nám á grunnskólastigi, fram­haldsskólastigi og annað nám sem úthlutunarnefnd metur í eitt missiri í senn á meðan at­vinnuleysi varir. Atvinnulausir geta ekki á sama tíma þegið námslán eða námsstyrki og notið atvinnuleysisbóta samkvæmt frumvarpinu og gerir það ekki ráð fyrir að lánshæft nám sé stundað. Verulegur munur er á stöðu þeirra sem stunda nám á meðan á atvinnuleysi stendur og annarra námsmanna. Atvinnulausir geta ekki hafið nám fyrr en þeir eru komnir á atvinnu­leysisbætur og þurfa að uppfylla öll sömu skilyrði og aðrir sem þiggja atvinnuleysisbætur. Þeir sem stunda nám meðan atvinnuleysi varir eru þar með að nýta tíma, sem er flestum mjög erfiður, til jákvæðrar uppbyggingar jafnframt því að styrkja stöðu sína á vinnumarkaði. Markmiðið er að auka tækifæri þeirra sem eru þegar atvinnulausir til að nýta tímann á sem uppbyggilegastan hátt sér og sínum til hagsbóta.
    Frumvarpið gerir ráð fyrir að endurskoðað verði á hverju missiri hvort hinn atvinnulausi uppfylli þau skilyrði bótaréttar að stunda nám eða starfsþjálfun. Ef atvinnuástand batnar á meðan á námi stendur er með þessum hætti unnt að miða endurkomu hins atvinnulausa á vinnumarkaðinn við að ekki verði óeðlilegt rof á námi hans. Þannig gefist honum kostur á að ljúka sem svarar eins missiris námi áður en hann hefur á ný virka atvinnuleit. Beri at­vinnuleit ekki árangur og atvinnuástand batnar ekki er hægt að bæta við öðru missiri og meta stöðuna á nýjan leik í lok þess.
    Með frumvarpinu er aðeins stigið eitt skref af mörgum sem nauðsynleg eru í átt til virkari nýtingar atvinnuleysisbóta. Framkvæmd þessara breytinga hefur ekki verulegar breytingar í för með sér á núverandi löggjöf og ætti að vera tiltölulega auðvelt að koma þeim í kring. Þær ættu því að gagnast þeim sem þegar eru á atvinnuleysisskrá án þess að þeir þurfi að bíða eftir þeirri uppstokkun sem óhjákvæmilega þarf að gera á atvinnuleysisbótakerfinu. Í fyrrnefndri skýrslu félagsmálaráðherra er hreyft nokkrum hugmyndum í þá veru og einnig má nefna athyglisverðar hugmyndir Jóns Erlendssonar hjá Upplýsingaþjónustu Háskólans um „virkar“ atvinnuleysisbætur.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í greininni er í fyrsta lagi lögð til sú breyting á 1. mgr. 18. gr. laganna að auk þess að geta öðlast rétt til atvinnuleysisbóta með því að stunda starfsþjálfun eða sækja námskeið til að öðlast hæfni í starfi sínu eða til að öðlast ný störf verði slíkur réttur virkur stundi hinn at­vinnulausi endurmenntun, en slíkur réttur hefur ekki verið talinn felast í greininni. Áfram verður að sjálfsögðu skilyrði að atvinnuleysi hefði skapað þeim atvinnulausa rétt til bóta þegar starfsþjálfunin eða námið hófst. Í samræmi við fyrrgreinda breytingu er gert ráð fyrir að til að atvinnulausir eigi bótarétt samkvæmt framansögðu njóti þeir hvorki launa né heldur námslána eða námsstyrkja. Þá er lagt til að felld verði út tímamörk náms og starfsþjálfunar sem leyfilegt er að stunda á meðan atvinnuleysi varir en gert ráð fyrir að úthlutunarnefnd krefji bótaþega um sannanir um þátttöku hans á hverju missiri. Felld eru brott viðurlög um sviptingu bóta ef menn geta ekki sannað að þeir hafi stundað það nám sem þeir hafa fengið heimild til enda breytir það engu um stöðu Atvinnuleysistryggingasjóðs hvort bótaþegi stundar nám eða starfsþjálfun ef hann á bótarétt hvort sem er. Hins vegar er gert ráð fyrir að úthlutunarnefnd geti synjað viðkomandi um leyfi til áframhaldandi náms ef ástundun hefur verið ábótavant, jafnvel þótt atvinnuástand gefi tilefni til að framlengja leyfið.

Um 2. gr.


    Breytingin samkvæmt þessari grein er til samræmis við 1. gr. frumvarpsins. Miðar hún að því að koma í veg fyrir að hinn atvinnulausi falli af bótum, enda þótt hann sinni ekki til­boðum um endurmenntunar- og starfsþjálfunarnámskeið eða að taka þátt í átaksverkefnum samkvæmt greininni, stundi hann aðra endurmenntun, sbr. breytingarnar á 18. gr.

Um 3. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.