Ferill 62. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.1994. – 1064 ár frá stofnun Alþingis.
118. löggjafarþing. – 62 . mál.


62. Frumvarp til lagaum ferðaþjónustu.

Flm.: Steingrímur J. Sigfússon.I. KAFLI


Markmið.


1. gr.


    Tilgangur laga þessara er að stuðla að þróun ferðamála með það að markmiði:
 —    Að þróa og viðurkenna ferðaþjónustu sem mikilvægan og arðgæfan atvinnuveg.
 —    Að bæta lífskjör almennings með fjölbreyttu framboði ferða á hagstæðum kjörum bæði innan lands og til annarra landa.
—    Að valda sem minnstri röskun á íslenskri náttúru og samfélagi með ferðamennsku.
 —    Að hafa jákvæð áhrif á viðskiptajöfnuð landsmanna.
 —    Að auka fjölbreytni atvinnulífs í landinu og nýta vaxtarmöguleika ferðaþjónustunnar.
 —    Að renna stoðum undir þróun byggðar sem víðast á landinu.
 —    Að stuðla að því að sem flestir geti notið ferðalaga og útivistar við góðar aðstæður.
 —    Að hvetja Íslendinga til ferðalaga um eigið land til að efla þekkingu sína á náttúru þess, sögu og menningu.

II. KAFLI


Stjórn ferðamála.


2. gr.


    Samgönguráðuneytið fer með yfirstjórn þeirra mála er lög þessi taka til. Ráðuneytið ann­ast tengsl vegna ferðamála innan stjórnkerfisins og leitar eftir samstarfi við önnur ráðuneyti eftir því sem við á.

3. gr.


    Halda skal ferðaþing árlega. Það er ráðgefandi samkoma um málefni ferðaþjónustunnar, gerir tillögur um breytingar á opinberri ferðamálastefnu og annað er lýtur að þróun ferða­mála. Þingið kýs aðal- og varafulltrúa í Ferðamálaráð, sbr. 4. gr.
    Ferðaþing sitja fulltrúar frá hagsmunasamtökum, fyrirtækjum, samtökum neytenda og samtökum launafólks í ferðaþjónustu. Einnig hafa seturétt fulltrúar opinberra aðila sem tengjast ferðaþjónustu, umhverfisvernd, menntunarmálum og rannsóknum á sviði ferðamála. Heimilt er öðrum að fylgjast með störfum þingsins sem áheyrnarfulltrúar.
    Nánar skal kveðið á um ferðaþing í reglugerð sem samgönguráðherra setur. Í henni skal m.a. kveðið á um rétt aðila til að tilnefna fulltrúa á þingið, réttindi þeirra á þinginu og um helstu verkefni þess.
    

4. gr.


    Ferðamálaráð er tengiliður hins opinbera og ferðaþjónustu. Það vinnur að málefnum at­vinnugreinarinnar undir yfirstjórn samgönguráðuneytis.
    Ferðamálaráð er skipað níu mönnum og jafnmörgum til vara. Ráðherra skipar formann ráðsins til tveggja ára og varamann hans sem jafnframt er varaformaður. Varaformaður situr fundi ráðsins með málfrelsi og tillögurétti og tekur sæti formanns í forföllum hans.
    Á ferðaþingi eru valdir átta fulltrúar í Ferðamálaráð til tveggja ára í senn, þar af fjórir samkvæmt tilnefningu, en fjórir kosnir óhlutbundinni kosningu. Félag íslenskra ferðaskrif­stofa, Flugleiðir hf., Náttúruverndarráð og Samband veitinga- og gistihúsa tilnefna einn mann hvert í ráðið, svo og varamenn þeirra. Tilkynna skal nöfn þessara fulltrúa til kjörnefnd­ar á ferðaþingi.
    Kjósa skal á ferðaþingi í óhlutbundinni kosningu fjóra fulltrúa í ráðið, tvo hvert ár, og skulu þeir vera í forsvari fyrir aðra en þá sem tilnefna í ráðið. Varamenn þeirra eru kosnir á sama hátt.
    Samtök, sem tilnefna fulltrúa í Ferðamálaráð, standa straum af kostnaði við störf þeirra í ráðinu. Kostnaður vegna annarra fulltrúa greiðist af Ferðamálaráði.

5. gr.


    Ferðamálaráð starfar að þróun ferðaþjónustu í samræmi við markaða ferðamálastefnu með aðstoð skrifstofu ferðamála og ferða- og upplýsingamiðstöðva í kjördæmum landsins, sbr. 7. og 9. gr.
    Verkefni ráðsins eru einkum eftirtalin:
         Að gera árlega tillögur til ráðherra um ráðstöfun fjár til helstu málaflokka og ákvarða síðan skiptingu þess til einstakra verkefna.
         Að starfa að landkynningar- og markaðsmálum í þágu ferðaþjónustu í samvinnu við aðra.
         Að vinna að umhverfis- og skipulagsmálum vegna ferðaþjónustu í samvinnu við hlutað­eigandi aðila, sbr. 11. gr.
         Að örva rannsóknir og þróunarstarf í þágu ferðamála.
         Að vera ráðgefandi um námsframboð og þjálfun fyrir starfsfólk í ferðaþjónustu í sam­vinnu við hagsmunasamtök og fræðsluyfirvöld.
         Að kanna réttmæti kvartana um misbresti á þjónustu við ferðamenn.
         Að miðla upplýsingum um hagtölur, samkeppnisstöðu og rekstrarskilyrði ferðaþjónustu.
         Að annast tengsl við ferðamálasamtök, áhugafélög og björgunarsveitir.
         Að undirbúa ferðaþing í samræmi við reglugerð.
         Að halda ráðstefnur um afmörkuð málefni sem snerta atvinnugreinina.
         Að taka þátt í alþjóðlegu samstarfi um ferðaþjónustu.

6. gr.


    Ráðherra skipar framkvæmdastjóra Ferðamálaráðs til fimm ára að fenginni umsögn ráðs­ins og ber hann starfsheitið ferðamálastjóri. Hann er jafnframt forstöðumaður skrifstofu ferðamála, sbr. 7. gr. Ferðamálastjóri situr fundi Ferðamálaráðs með málfrelsi og tillögu­rétti.

7. gr.


    Skrifstofa ferðamála starfar á vegum Ferðamálaráðs og sinnir verkefnum í umboði þess.
    Ferðamálastjóri veitir skrifstofu ferðamála forstöðu og ber ábyrgð á daglegum rekstri. Ferðamálastjóri ræður starfsmenn skrifstofu ferðamála að höfðu samráði við Ferðamálaráð.
    Í reglugerð skal kveðið á um skipulag skrifstofunnar og gjöld sem ákveðin kunna að verða fyrir þjónustu hennar.

8. gr.


    Ferðamálaráð skal leita samstarf við utanríkisráðuneytið og Útflutningsráð Íslands um landkynningu og markaðsmál erlendis. Halda skal reglulega samráðsfundi Ferðamálaráðs og þessara aðila.

9. gr.


    Í því skyni að treysta þróun og uppbyggingu ferðaþjónustu er Ferðamálaráði heimilt að gerast meðeigandi og taka þátt í rekstri ferða- og upplýsingamiðstöðva er komið verði á fót í kjördæmum landsins, enda liggi fyrir samkomulag um skipan slíkrar starfsemi í viðkomandi kjördæmi í heild. Frumkvæði að stofnun miðstöðvanna er í höndum ferðamálasamtaka lands­hlutans, samtaka sveitarfélaga og annarra aðila eftir atvikum. Heimilt er að láta starfsemi þessara miðstöðva ná yfir fleiri en eitt kjördæmi.
    Hlutverk miðstöðvanna er m.a. að hafa með höndum ráðgjöf og þróunarstarfsemi í þágu ferðamála, miðlun upplýsinga og tengsl við sveitarstjórnir og samtök þeirra. Slíkar mið­stöðvar skulu starfa samkvæmt stofnsamningi og hafa sjálfstæðan fjárhag.

10. gr.


    Ákveði ferðamálasamtök landshluta að ráða ferðamálafulltrúa til starfa á sínum vegum er heimilt að greiða úr ríkissjóði framlag vegna starfa þeirra. Framlagið miðast við launa­kostnað vegna starfa eins manns í kjördæmi.

11. gr.


    Ferðamálaráð hlutast til um að komið verði á samstarfi við opinberar stofnanir um vernd­un fjölsóttra ferðamannastaða, einkum við Hollustuvernd ríkisins, Náttúruverndarráð, Skipu­lag ríkisins, Skógrækt ríkisins og Vegagerð ríkisins. Þessir aðilar mynda með sér samstarfs­nefnd og er hlutverk hennar að gera tillögur um skipulag og verndun fjölsóttra ferðamanna­staða og fjárveitingar til nauðsynlegra framkvæmda. Nefndin skal hafa samráð við hlutaðeig­andi sveitarstjórn eftir því sem við á.
    Ráðherra er heimilt að fenginni tillögu nefndarinnar að takmarka aðgang að fjölsóttum stöðum eða láta loka þeim fyrir nýtingu í atvinnuskyni uns gerðar hafa verið nauðsynlegar úrbætur í þágu náttúruverndar.

III. KAFLI


Fjármögnun ferðamála.


12. gr.


    Starfsemi Ferðamálaráðs skal m.a. fjármögnuð með sérstöku gjaldi er nemur eigi minna en 10% af árlegri vörusölu fríhafna í landinu. Fríhafnir skulu greiða gjald þetta beint til Ferðamálaráðs af sölu hvers mánaðar og fellur það í gjalddaga eigi síðar en 15 dögum eftir lok mánaðarins. Af þessum tekjum skal Ferðamálaráð fjármagna starfsemi sína aðra en laun og almennan kostnað vegna aðalskrifstofu sem skal greitt úr ríkissjóði samkvæmt fjárlögum.

13. gr.


    Ferðamálaráði er heimilt að setja það skilyrði fyrir fjárhagslegri þátttöku í einstökum verkefnum, m.a. á sviði landkynningar og markaðsmála, að framlög komi frá hagsmunaaðil­um.

14. gr.


    Starfrækja skal Ferðamálasjóð sem stofnlánasjóð ferðaþjónustunnar. Sjóðurinn er eign ríkisins og lýtur stjórn samgönguráðherra.
    Ferðamálasjóður er undanþeginn öllum sköttum til ríkis og sveitarfélaga, svo og stimpil­gjöldum af lánsskjölum varðandi eigin lántökur sjóðsins en ekki af útlánsskjölum.
    Sjóðstjórn tekur ákvarðanir um vistun sjóðsins og vörslu að höfðu samráði við ráðherra.
    Reikningar Ferðamálasjóðs skulu endurskoðaðir af Ríkisendurskoðun.

15. gr.


    Samgönguráðherra skipar þrjá menn í stjórn Ferðamálasjóðs til tveggja ára í senn. Þar af skal Ferðamálaráð tilnefna tvo menn, en samgönguráðherra skipar formann án tilnefning­ar. Varamenn eru skipaðir á sama hátt.

16. gr.


    Tekjur Ferðamálasjóðs eru:
         Framlag úr ríkissjóði eins og ákveðið er í fjárlögum hverju sinni.
         Tekjur af starfsemi sjóðsins.

17. gr.


    Ferðamálasjóði er heimilt að fengnu samþykki ríkisstjórnarinnar að taka lán til starfsemi sinnar, annaðhvort í eigin nafni eða fyrir milligöngu annarra, þannig að hann geti á viðun­andi hátt gegnt hlutverki sínu.
    Fjármálaráðherra er heimilt að ábyrgjast slík lán fyrir hönd ríkissjóðs.

18. gr.


    Fé Ferðamálasjóðs má ráðstafa á eftirgreindan hátt:
         Lán til framkvæmda á vegum einkaaðila og opinberra aðila gegn fullnægjandi tryggingu.
         Lán til annarra þátta ferðamála en greinir í 1. tölul., enda sé með þeim stuðlað að þróun íslenskra ferðamála.
         Framlög í formi hlutafjár til uppbyggingar í ferðaþjónustu.
    Samþykktir stjórnar Ferðamálasjóðs skulu reglubundið kynntar Ferðamálaráði.
    Stjórn Ferðamálasjóðs skal hafa samráð við Ferðamálaráð um almenna útlánastefnu og tilkynna skal ráðinu um lánveitingar úr sjóðnum hverju sinni.

19. gr.


    Lán úr Ferðamálasjóði skulu veitt til allt að 40 ára og mega vera afborgunarlaus fyrstu tvö árin.
    Ráðherra ákveður vexti og önnur kjör þeirra lána er sjóðurinn veitir.

20. gr.


    Ferðamálasjóður skal starfrækja áhættulánadeild sem veitir lán til þróunarverkefna í ferðaþjónustu samkvæmt ákvörðun sjóðstjórnar að höfðu samráði við Ferðamálaráð.

21. gr.


    Telji Ferðamálaráð að heimavist skóla, sem ríkissjóður kostar að einhverju leyti, henti til starfrækslu sumargistihúss getur það farið fram á að byggingarteikningum sé hagað svo að húsnæðið fullnægi þeim kröfum sem gerðar eru til rekstrar gistihúss. Menntamálaráðu­neytið skal í þessu skyni kynna skrifstofu ferðamála byggingaráform um heimavistir og leita álits hennar á þeim á frumstigi hönnunar.
    Ferðamálaráð skal leitast við að hafa áhrif á hönnun annarra mannvirkja þannig að tekið sé tillit til ferðaþjónustu eftir því sem við á.

IV. KAFLI


Ferðamiðlun.


22. gr.


    Ferðamiðlun er í lögum þessum samheiti yfir ferðaskrifstofur, ferðaskipuleggjendur, ferðaumboðssala og upplýsinga- og bókunarþjónustu:
         Ferðaskrifstofa er fyrirtæki, félag eða einstaklingur sem tekur að sér að veita í atvinnu­skyni alla almenna þjónustu við miðlun ferða, gistingar og frístundaiðju og selur al­menna farseðla.
         Ferðaskipuleggjandi er fyrirtæki, félag eða einstaklingur sem skipuleggur ferðir hópa eða einstaklinga og býður ferðaskrifstofum til umboðssölu. Einnig fyrirtæki sem annast móttöku hópa eða einstaklinga og skipuleggur fyrir þá dvöl og frístundaiðju eða fundi og ráðstefnur og þjónustu tengda þeim en annast að öðru leyti hvorki almenna farmiða­sölu né umboðssölu.
         Ferðaumboðssali er fyrirtæki, félag eða einstaklingur sem annast sölu farmiða og ferða­þjónustu í umboði löggiltrar ferðaskrifstofu eða samgöngufyrirtækis og á ábyrgð þess.
         Upplýsinga- og bókunarkerfi merkir í lögum þessum fyrirtæki sem á eða rekur tölvu­kerfi er veitir milliliðum og kaupendum ferðaþjónustu upplýsingar um framboð seljenda og/eða tekur við bókunum.
    Samgönguráðuneytið sker úr ef ágreiningur verður um hvort starfsemi telst falla undir of­angreindar skilgreiningar, svo og um það hvort um ferðamiðlunarstarfsemi er að ræða í skiln­ingi laga þessara.

23. gr.


    Engum er heimilt að stunda þau störf er greinir í 1. og 2. tölul. 22. gr. eða nota í nafni fyr­irtækja eða auglýsingum orðin ferðaskrifstofa eða ferðaskipuleggjandi eða hliðstæð erlend heiti nema hafa til þess leyfi ráðherra.
    Hver sá, sem vill reka slíkt fyrirtæki, skal sækja um leyfi til ráðuneytisins. Leita skal um­sagnar Ferðamálaráðs um allar slíkar umsóknir. Skal ráðið ganga úr skugga um að skilyrðum laga og reglugerða sé fullnægt. Leyfi til rekstrar skal gefið út til tiltekins tíma, eins árs hið minnsta, fimm ára hið mesta í senn.

24. gr.


    Leyfi til starfsemi á sviði ferðamiðlunar eru eftirfarandi:
    a. Leyfi fyrir ferðaskrifstofur.
    b. Leyfi fyrir ferðaskipuleggjendur.
    Skilyrði fyrir leyfi er að forstöðumaður ferðamiðlunar hafi fjárræði og forræði á búi sínu, sé íslenskur ríkisborgari eða búsettur á Íslandi og hafi verið það í að minnsta kosti þrjú ár og hafi víðtæka þekkingu á ferðaþjónustu.
    Það skal einnig vera skilyrði fyrir leyfi að a.m.k. einn starfsmaður ferðaskrifstofunnar hafi haldgóða þekkingu í útgáfu ferðaskjala og hafi starfsreynslu úr ferðamiðlun.
    Leyfi má veita félagi eða fyrirtæki enda sé það að meiri hluta í eigu Íslendinga og stjórnin innlend og hafi aðsetur hér á landi. Gilda um slíka ferðamiðlun sömu ákvæði og að ofan greinir.
    Setja skal í reglugerð nánari ákvæði um ferðamiðlun, m.a. um opnunartíma.

25. gr.


    Ferðaskrifstofa, ferðaskipuleggjandi eða samtök slíkra aðila skulu leggja fram tryggingu fyrir rekstraröryggi og neytendavernd sem ráðherra metur nægjanlega.

26. gr.


    Leyfi til reksturs ferðaskrifstofu skv. 24. gr. fellur niður:
         Ef skilyrðum 24. gr. er ekki lengur fullnægt.
         Ef leyfishafi verður gjaldþrota eða er sviptur fjárræði.
         Ef reksturinn fullnægir ekki öðrum þeim kröfum sem ráðherra setur.
         Ef forstöðumaður fyrirtækis flyst af landi brott, lætur af störfum eða andast nema ráðinn sé nýr forstöðumaður sem uppfyllir skilyrði laga þessara innan þess frests sem ráðu­neytið setur.

27. gr.


    Ferðaumboðsaðili skal starfa á ábyrgð ferðaskrifstofu eða samgöngufyrirtækis. Ferðaum­boðssala er ekki heimilt að skipuleggja ferðir fyrir hópa og einstaklinga né annast móttöku ferðamanna án slíkrar ábyrgðar.

28. gr.


    Almenn tölvustýrð upplýsinga- og bókunarkerfi ætluð fyrir ferðaþjónustu skulu vera opin öllum seljendum sem þess óska. Kerfin skulu vera hlutlaus og ekki mismuna seljendum. Ráð­herra er heimilt að setja reglur um slíka starfsemi.

29. gr.


    Ráðuneytið setur reglur um á hvern hátt sérleyfishöfum er heimilt að skipuleggja og selja ferðir á eigin leiðum þannig að fæði og næturgisting fylgi. Binda má slíka heimild tilteknum skilyrðum um hreinlætisaðstöðu og annan aðbúnað, svo og tryggingarfé.
    Ráðuneytið ákveður einnig að hve miklu leyti starfsemi íslenskra ferðafélaga fellur undir ákvæði laga þessara.

30. gr.


    Ráðherra er heimilt að ákveða að þeir sem skipuleggja hópferðir um Ísland skuli sam­kvæmt nánari reglum, sem settar yrðu þar að lútandi, kaupa tryggingu hjá viðurkenndu trygg­ingafélagi vegna kostnaðar sem hljótast kynni af leit eða björgun farþega sem ferðast á þeirra vegum.

31. gr.


    Þeir sem skipuleggja hópferðir um Ísland í atvinnuskyni skulu að jafnaði hafa í ferðum sínum menn með íslensk leiðsögumannaréttindi samkvæmt frekari ákvæðum í reglugerð. Ráðherra getur veitt undanþágu frá þessu ákvæði ef sérstakar ástæður bjóða.

V. KAFLI


Veitinga- og gististaðir og afþreyingarþjónusta.


32. gr.


    Ákvæði þessa kafla taka til sölu á gistingu, sölu veitinga annarra en áfengis og leigu á samkomusölum í atvinnuskyni.
    Enginn má stunda rekstur skv. 1. mgr. nema hafa til þess leyfi.
    Þá er í kaflanum kveðið á um skráningarskyldu fyrirtækja er leigja út tæki eða hafa í boði afþreyingu, m.a. fyrir ferðamenn.

33. gr.


    Til þess að öðlast leyfi skv. 32. gr. þarf umsækjandi að:
         vera fjárráða,
         hafa forræði á búi sínu,
         vera búsettur á Íslandi og hafa verið það sl. þrjú ár.
    Leyfi samkvæmt þessum kafla má veita félagi fullnægi ábyrgðarmaður þess ofangreindum skilyrðum.

34. gr.


    Lögreglustjóri veitir leyfi skv. 1. gr. að fenginni umsögn sveitarstjórnar, eldvarnaeftirlits, heilbrigðisnefndar og vinnueftirlits.
    Leyfið er veitt til allt að fjögurra ára í senn og fellur þá úr gildi nema endurnýjað hafi ver­ið í kjölfar umsóknar. Leyfið skal vera bundið við stað og nafn og er ekki framseljanlegt.
    Synja má leyfisumsókn geri sérstakar aðstæður starfsemina óæskilega. Umsækjanda skal tilkynnt slík ákvörðun skriflega og ástæður tilgreindar.
    Synjun eða veitingu leyfis má skjóta til samgönguráðuneytis.

35. gr.


    Verði leyfishafi eða fyrirtæki sem hann er í ábyrgð fyrir gjaldþrota er þrotabúi heimilt að halda starfsemi áfram meðan á skiptum stendur. Andist leyfishafi er dánarbúi leyfishafa eða erfingjum heimilt að halda starfsemi í allt að eitt ár eftir andlát leyfishafa án nýs leyfis. Taki nýr aðili við rekstri sem leyfi þarf til samkvæmt lögum þessum skal sótt um nýtt leyfi.
    Meðan umsókn er til afgreiðslu gildir fyrra leyfi.

36. gr.


    Lögreglustjóra er heimilt að innkalla til lengri eða skemmri tíma leyfi er hann hefur veitt:
         ef skilyrðum 2. gr. er ekki lengur fullnægt,
         ef leyfishafi hefur verið dæmdur til refsingar fyrir brot gegn lögum þessum eða reglum sem settar eru samkvæmt þeim.
    Úrskurði lögreglustjóra um innköllun leyfis má skjóta til ráðuneytis innan 14 daga frá uppkvaðningu og heldur leyfishafi rétti sínum óskertum þar til úrskurður ráðuneytis er feng­inn. Kærufrestur telst frá þeim degi er leyfissvipting var tilkynnt leyfishafa skriflega.

37. gr.


    Samgönguráðherra setur með reglugerð ákvæði um flokkun veitinga- og gististaða þar sem m.a. skulu koma fram kröfur um þjónustu og neytendavernd. Nafngiftir gisti- og veit­ingastaða samkvæmt reglugerðinni skulu gefa vísbendingu um þá þjónustu sem í boði er.

38. gr.


    Afþreyingarþjónusta, sem rekin er í atvinnuskyni fyrir ferðamenn, svo sem hesta-, hjóla-, báta- eða vélsleðaleigur og skemmtigarðar, skal sækja um skráningu til ráðuneytisins. Ráð­herra setur reglugerð um starfsemi afþreyingarþjónustu þar sem m.a. eru ákvæði um holl­ustu-, öryggis- og gæðakröfur, tryggingar, eftirlit og annað er lýtur að neytendavernd.

39. gr.


    Lögreglustjóri heldur skrá yfir veitt leyfi og skráningarskyldan rekstur samkvæmt ákvæð­um þessa kafla. Á skránni skal vera nafn leyfishafa eða forstöðumanns fyrirtækis, hvar starf­semin er rekin, hvenær leyfi var afhent, hvenær það gekk í gildi og annað það er ráðuneytið kann að ákveða.

VI. KAFLI


Eftirlit og upplýsingaskylda.


40. gr.


    Almennt eftirlit með framkvæmd laga þessara, þar með töldum leyfisveitingum, er á hendi samgönguráðuneytis í samvinnu við hlutaðeigandi embætti, stofnanir og samtök.

41. gr.


    Um eftirlit með veitinga- og gististöðum fer samkvæmt lögum og reglugerðum um holl­ustuhætti og heilbrigðismál, lögum um eftirlit með aðbúnaði, hollustuháttum og öryggi á vinnustöðum og lögum um brunavarnir og brunamál.

42. gr.


    Kvörtunarnefnd ferðaþjónustu tekur við rökstuddum aðfinnslum neytenda í garð fyrir­tækja í ferðaþjónustu og úrskurðar í ágreiningsmálum. Nefndin skal skipuð þremur fulltrú­um: Einum tilnefndum af Neytendasamtökunum, einum af hagsmunasamtökum viðkomandi fyrirtækis og oddamanni sem skipaður er af samgönguráðherra. Úrskurðir nefndarinnar eru bindandi. Fyrirmæli um starfssvið og starfshætti nefndarinnar skulu sett í reglugerð. Skrif­stofa ferðamála skal veita nefndinni aðstoð í störfum hennar.

43. gr.


    Allir þeir, sem undir þessi lög falla, skulu veita stjórnvöldum upplýsingar samkvæmt nán­ari fyrirmælum Hagstofu Íslands eða ráðuneytis. Slíkar upplýsingar skulu einungis notaðar til könnunar og skipulagningar á ferðaþjónustunni sem atvinnugrein.

44. gr.


    Fyrirtækjum, sem starfa samkvæmt lögum þessum, er skylt að láta ráðuneytinu í té endur­skoðaða ársreikninga sína eftir því sem óskað kann að verða.

VII. KAFLI


Ýmis ákvæði.


45. gr.


    Nafn á fyrirtæki og/eða atvinnustarfsemi samkvæmt lögum þessum skal falla að hljóð­kerfi og beygingum í íslensku máli.
    Ágreiningi, sem rísa kann út af nafni, má skjóta til örnefnanefndar.

46. gr.


    Ráðherra er heimilt að ákveða að fenginni umsögn Ferðamálaráðs að greitt skuli sann­gjarnt gjald fyrir þjónustu sem veitt er á stöðum í umsjá ríkisins enda sé fé það, sem þannig safnast, að frádregnum innheimtukostnaði notað til verndar, fegrunar og snyrtingar viðkom­andi staðar og til að bæta aðstöðu til móttöku ferðamanna.
    Ákvæði þessi taka þó ekki til þjóðgarða eða annarra svæða á vegum Náttúruverndarráðs nema samþykki þess komi til.

47. gr.


    Ráðherra setur með reglugerðum nánari reglur um framkvæmd laga þessara. Við undir­búning þeirra skal haft samráð við hlutaðeigandi samtök og stofnanir eftir því sem við á.

48. gr.


    Brot gegn lögum þessum og reglugerðum, settum með heimild í þeim, varða sektum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum.
    Með brot gegn lögunum skal fara að hætti opinberra mála.

49. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda 1. janúar 1994. Þá falla úr gildi lög um skipulag ferðamála, nr. 79/1985, og lög um veitinga- og gististaði, nr. 67/1985.

Ákvæði til bráðabirgða.


I.


    Gistihúsa- og veitingaleyfi samkvæmt ákvæðum eldri laga um veitinga- og gististaði skulu halda gildi sínu þann tíma sem þau kveða á um.

II.


    Endurnýja skal leyfi til rekstrar ferðaskrifstofa, sem gefin eru út samkvæmt ákvæðum laga nr. 79/1985, með umsókn til ráðuneytis fyrir árslok 1993. Leyfi gefin út samkvæmt eldri lögum halda gildi sínu uns afstaða ráðuneytis til nýrra umsókna liggur fyrir.

III.


    Þrátt fyrir ákvæði laganna skal Ferðamálaráð starfa samkvæmt eldri lögum þar til fyrsta ferðaþing, sbr. 3. gr., hefur verið haldið og skal það gerast á fyrri hluta árs 1994.
    Við upphaf fyrsta ferðaþings tilkynnir ráðherra um skipun formanns og varaformanns Ferðamálaráðs til tveggja ára.

IV.


    Þrátt fyrir ákvæði 4. gr. þess efnis að á ferðaþingi skuli kjósa í „óhlutbundinni kosningu fjóra fulltrúa í ráðið, tvo hvert ár, . . .  “ skal á fyrsta ferðaþingi kjósa fjóra fulltrúa, þar af tvo aðeins til eins árs.

Greinargerð.


    Frumvarp þetta er nú endurflutt í annað sinn. Fyrst var það flutt sem stjórnarfrumvarp á 113. löggjafarþingi eins og nánar er fjallað um hér á eftir og síðan aftur sem þingmanna­frumvarp á 116. löggjafarþingi. Nú líður að lokum þessa kjörtímabils og virðist ljóst að engra úrbóta er að vænta hvað viðkemur löggjöf ferðaþjónustunnar í tíð þessarar ríkis­stjórnar. Verður ekki hjá því komist að átelja það að gefist skuli upp með þessum hætti við löngu tímabæra endurskoðun lagaákvæða og starfsskilyrða ferðaþjónustunnar. Því hefur flutningsmaður ákveðið að leggja frumvarpið enn fram og nú í upphafi þings. Frumvarpið er flutt óbreytt eins og það kom frá ferðamálanefnd á sínum tíma en eðli málsins samkvæmt er orðin þörf á að aðlaga nokkur ákvæði að breyttum aðstæðum, svo sem ákvæði 24. gr. um ríkisborgararétt vegna aðildar okkar að EES-samningnum sem ekki var kominn til sögunnar þegar frumvarpið var fyrst flutt.
    Hér fara á eftir þær athugasemdir sem fylgdu frumvarpinu þegar það var áður endurflutt og hin upphaflega greinargerð:
    Í svari við fyrirspurn frá flutningsmanni fyrir nokkrum dögum upplýsti samgönguráðherra að ekki væri í vændum frumvarpsflutningur af hans hálfu varðandi málefni ferðaþjónustunnar og fylgdi sú skýring af hálfu ráðherra að ekki hefði náðst samkomulag milli hans og fjár­málaráðherra um fjárhagshlið slíkrar endurskoðunar laga um ferðamál. Enn fremur upplýsti ráðherra að ekki stæði til af sinni hálfu að nýta þá vinnu sem lá að baki þingmálinu um ferða­mál í tíð fyrri ríkisstjórnar.
    Í ljósi þessara aðstæðna hefur flutningsmaður ákveðið að leggja frumvarp þetta fyrir þingið á nýjan leik. Með öllu er ótækt að ágreiningur í ríkisstjórn eða milli ráðuneyta valdi því að brýn endurskoðun á lagaákvæðum um ferðamál frestist ár eftir ár.
    Fjárhagsmál eða fjárveitingar til ferðamála eru aðeins einn þáttur af mörgum sem taka þarf á og ótækt að öll málefni greinarinnar frjósi föst vegna ágreinings ráðherra um þann þátt.
    Eins og fram kemur í greinargerðinni sem hér fer á eftir og fylgdi frumvarpinu á sínum tíma lá þar að baki mikið starf og fulltrúar úr öllum stjórnmálaflokkum og frá öllum helstu hagsmunaaðilum lögðu þar hönd á plóginn og nokkuð víðtæk samstaða hafði tekist um málið. Það er von flutningsmanns að með frumvarpinu komist þessi mál á dagskrá á nýjan leik. Ljóst er að ferðaþjónustan þarf nú á stuðningi að halda ef vonir manna um áframhaldandi vöxt greinarinnar og auknar tekjur eiga að rætast. Á síðastliðnu ári drógust gjaldeyristekjur af ferðaþjónustu saman í fyrsta sinn um langt árabil og erlendum ferðamönnum fækkaði. Á sama tíma er ríkisstjórnin að ákveða nýja skattlagningu í formi virðisaukaskatts á margar greinar innan ferðaþjónustunnar.
     Að öllu samanlögðu er meira en tímabært að taka málefni ferðaþjónustunnar á dagskrá og þar sem nú liggur fyrir að ekki er að vænta neins frumkvæðis frá ríkisstjórninni í þeim efnum er frumvarpið nú flutt. Því fylgdi á sínum tíma svohljóðandi greinargerð:

1. Undirbúningur frumvarpsins.


    Frumvarp þetta er undirbúið af nefnd sem samgönguráðherra skipaði 1. júní 1990 og köll­uð hefur verið ferðamálanefnd samgönguráðuneytisins. Verkefni nefndarinnar samkvæmt skipunarbréfi voru eftirtalin:
    Að fjalla um ferðamál á breiðum grundvelli og stefnumörkun í þeim. Felur nefndarstarfið m.a. í sér eftirfarandi þætti:
          Könnun á samkeppnisstöðu og rekstrarskilyrðum ferðaþjónustu hér á landi í samanburði við nágrannalöndin.
          Endurskoðun á opinberri stefnu í ferðamálum og tillögur um æskilega þróun þeirra mála.
          Endurskoðun laga um ferðamál.
     Í nefndina voru skipuð: Hjörleifur Guttormsson alþingismaður, formaður, Árni Þór Sig­urðsson deildarstjóri, starfsmaður nefndarinnar, Áslaug Alfreðsdóttir hótelstjóri, Birgir Þor­gilsson ferðamálastjóri, Bjarni Sigtryggsson ferðamálafræðingur, Friðjón Þórðarson alþing­ismaður, Kristín Einarsdóttir alþingismaður, Reynir Adolfsson framkvæmdastjóri og Unnur Stefánsdóttir verkefnisstjóri.
    Nefndin hefur nú lokið þeim meginverkefnum sem henni var ætlað að sinna. Hún hefur haldið 73 bókaða fundi frá því hún var skipuð, átt marga fundi með hagsmunaaðilum, kynnt hugmyndir sínar og fengið viðbrögð við þeim á opnum fundum víða um land. Á ráðstefnu Ferðamálaráðs í febrúar 1990 lágu fyrir drög að tillögum nefndarinnar, bæði varðandi opin­bera ferðamálastefnu og endurskoðun laga um skipulag ferðamála. Þá hefur verið safnað upplýsingum frá ýmsum löndum um stefnu í ferðamálum og kannaðar þær breytingar sem eru að verða í ferðaþjónustu í Evrópu.

Ferðamálastefna.
    
Ferðamálanefndin skilaði tillögu um opinbera ferðamálastefnu til samgönguráðherra í mars 1990 og var hún flutt á Alþingi skömmu síðar sem þingsályktunartillaga í nafni ríkis­stjórnar. Í greinargerð með tillögunni er lýst hugmyndum nefndarinnar um skipulag ferða­mála og um lagabreytingar. Þingsályktunartillögunni var að lokinni umræðu vísað til at­vinnumálanefndar sameinaðs þings sem sendi hana mörgum aðilum til umsagnar.
    Ferðamálanefnd samgönguráðuneytisins hefur nú endurskoðað þingsályktunartillöguna, m.a. með tilliti til þeirra mörgu umsagna sem atvinnumálanefnd bárust. Var tillagan endur­flutt með nokkrum breytingum fyrr á þessu þingi og hefur verið vísað til nefndar. Með af­greiðslu hennar mun liggja fyrir almenn stefnumörkun um ferðamál af hálfu Alþingis.
    
Samkeppnisstaða og rekstrarskilyrði.
    
Ferðamálanefndin kallaði til sérstakan starfshóp sérfræðinga til að vinna að athugun á samkeppnisstöðu og rekstrarskilyrðum ferðaþjónustu hérlendis og söfnun og úrvinnslu hag­rænna upplýsinga þar að lútandi. Að þessu máli störfuðu með nefndinni starfsmenn frá Hag­stofu Íslands, Seðlabanka Íslands og Þjóðhagsstofnun. Greinargerð þeirra fylgdi með þings­ályktunartillögunni um ferðamálastefnu og var aukið nokkru efni við sl. sumar. Jafnframt eru gerðar tillögur um framhald slíkrar vinnu til nota fyrir atvinnugreinina á hverjum tíma, svo og til að varpa ljósi á þýðingu ferðaþjónustunnar fyrir efnahags - og atvinnulíf þjóðarinnar.
    
Endurskoðun laga um ferðamál.
    Þau lög sem nefndin tók til endurskoðunar voru lög nr. 79/1985, um skipulag ferðamála og lög nr. 67/1985, um veitinga - og gististaði. Fyrirliggjandi frumvarp tekur á efnisþáttum þessara laga og bætt er við ýmsum nýjum þáttum. Nefndin ákvað í upphafi að binda sig ekki við texta eða ramma gildandi laga og komst fljótlega að því að rétt væri að semja nýtt frum­varp til laga um ferðaþjónustu þótt margt væri nýtilegt í gildandi löggjöf. Farið var yfir efni viðkomandi laga lið fyrir lið og því haldið sem vel hefur gefist að mati nefndarinnar og viðmælenda hennar. Niðurstaðan er því sambland af nýmælum og ákvæðum sem haldið er úr gildandi löggjöf.
    Nefndin kynnti sér þróun í löggjöf erlendis á sviði ferðamála og hugsanleg áhrif aðlögun­ar að samþykktum Evrópubandalagsins.
    Mikil kynning hefur farið fram á starfi og hugmyndum nefndarinnar, einnig að því er varðar efni þessa frumvarps. Nefndin hefur fengið fjölda aðila á sinn fund og þingsályktunar­tillaga um ferðamálastefnu ásamt greinargerð var send mörgum til umsagnar. Nefndin hafði þannig úr miklu safni hugmynda að moða og fékk viðbrögð við tillögum sínum á mótunar­stigi. Í fylgiskjali með frumvarpinu er skrá yfir þá aðila sem komu á fundi nefndarinnar.
    

2. Meginbreytingar frá gildandi lögum samkvæmt frumvarpinu.


    Hér verða nefnd helstu nýmæli í frumvarpinu í þeirri röð sem þau koma fyrir. Síðan er gerð nánari grein fyrir efnisþáttum einstakra kafla frumvarpsins.
    1. Tilgangur laganna er skilgreindur í sérstökum markmiðskafla og eru markmið hin sömu og í tillögu nefndarinnar að ferðamálastefnu.
    2. Kveðið er á um árlegt Ferðaþing sem ráðgefandi samkomu um málefni ferðaþjónust­unnar.
    3. Fækkað er í Ferðamálaráði úr 23 fulltrúum í níu og ekki gert ráð fyrir framkvæmda­stjórn eins og nú er. Ráðherra tilnefnir einn fulltrúa (formann) í stað fimm. Fjórir eru til­nefndir af öðrum, en fjórir kosnir af ferðaþingi.
    4. Verkefni Ferðamálaráðs verða meira á sviði stefnumótunar en nú er og taka mið af ferðamálastefnu á hverjum tíma.
    5. Skrifstofa ferðamála fær meira sjálfstæði en nú er um daglegan rekstur undir forustu ferðamálastjóra.
    6. Kveðið er á um samstarf Ferðamálaráðs við utanríkisráðuneyti og Útflutningsráð Ís­lands um landkynningu og markaðsmál.
    7. Heimild er veitt fyrir aðild Ferðamálaráðs að ferða - og upplýsingamiðstöðvum í kjör­dæmum landsins í samvinnu við heimaaðila.
    8. Ferðamálafulltrúar starfi á vegum ferðamálasamtaka landshlutanna með stuðningi rík­isins.
    9. Mikil áhersla er á umhverfisvernd sem eitt af verkefnum Ferðamálaráðs og Náttúru­verndarráði tryggð aðild að ráðinu.
  10. Komið verði á formlegu samstarfi Ferðamálaráðs við opinbera aðila um málefni fjöl­sóttra ferðamannastaða til að tryggja umhverfisvernd og heimild veitt til að takmarka aðgang að slíkum stöðum.
  11. Markaður tekjustofn vegna Ferðamálaráðs er óbreyttur, en skilyrði má setja um mót­framlög frá hagsmunaaðilum til einstakra verkefna.
  12. Lánstími lána úr Ferðamálasjóði er lengdur úr 15 árum í allt að 40 ár.
  13. Sett skal á fót áhættulánadeild við Ferðamálasjóð vegna þróunarverkefna.
  14. Nýstárleg ákvæði eru um ferðamiðlun, sem taka m.a. til ferðaskrifstofa, skipuleggjenda ferða, umboðssala og fyrirtækja sem reka tölvukerfi fyrir bókanir og upplýsingar.
  15. Í stað lagaákvæða um flokkun veitinga - og gistihúsa er gert ráð fyrir að setja hliðstæð ákvæði í reglugerð.
  16. Ýmiss konar þjónustu - og afþreyingarstarfsemi fyrir ferðamenn er gerð skráningar­skyld.
  17. Meiri áhersla er lögð á neytendavernd en í eldri löggjöf.
    Ekki er kveðið sérstaklega á um fræðslumál í ferðaþjónustu í frumvarpinu, að öðru leyti en því að gert er ráð fyrir samstarfi þar að lútandi við menntamálaráðuneyti. Í tillögu til þingsályktunar um ferðamálastefnu er hins vegar fjallað allítarlega um fræðslumál vegna ferðaþjónustu og gert ráð fyrir að stofnað verði til fræðsluráðs ferðaþjónustu samkvæmt heimild í lögum um framhaldsskóla.
    

3. Um einstaka kafla frumvarpsins.


I. kafli. Markmið.
    
Sett eru fram átta markmið varðandi þróun ferðamála samkvæmt frumvarpinu. Þau eru hin sömu og sett eru fram í þingsályktunartillögu um ferðamálastefnu, enda sama hugsun að baki hennar og lagafrumvarpsins. Í þingsályktunartillögunni er fjallað ítarlega um hvert ein­stakt markmið og leiðir til að ná þeim. Vísast um það efni til þingsályktunartillögunnar, 164. máls sameinaðs þings 1990 1991.

II. kafli. Stjórn ferðamála.
    
Uppbyggingin í stjórnkerfi ferðamála kemur fram í eftirfarandi skipuriti:(Skipurit myndað. Athugið pdf-skjalið)

    Samgönguráðuneytið fer sem hingað til með yfirstjórn ferðamála. Samstarfsnefnd nokk­urra ráðuneyta auðveldar samhæfingu varðandi ferðaþjónustu innan Stjórnarráðsins. Opinber ferðamálastefna sem tillaga liggur fyrir um og væntanlega hlýtur afgreiðslu á Alþingi myndar rammann um samskipti ríkisins við ferðaþjónustuna sem atvinnugrein.
    Árlegt ferðaþing verður umræðu - og tillöguvettvangur um málefni ferðaþjónustunnar og setur ráðherra reglugerð um þingið. Ferðamálaráð verður áfram tengiliður milli opinberra aðila ferðaþjónustunnar, en breyting er gerð á skipan ráðsins. Fulltrúum er fækkað í ráðinu úr 23 í níu; verða fimm þeirra tilnefndir til tveggja ára, en fjórir kosnir á ferðaþingi, tveir til skiptis hvert ár. Með þessu verður komist hjá að skipa sérstaka framkvæmdastjórn fyrir Ferðamálaráð og er stjórnkerfi ferðamála þannig einfaldað.
    Verkefni Ferðamálaráðs, sem talin eru upp í ellefu töluliðum, eru einkum þríþætt:
    Þróunar - og skipulagsmál ferðaþjónustunnar.
    Fjárhagsmál, bæði áætlanagerð og skipting á einstök verkefni.
    Markaðs - og kynningarmál ferðaþjónustu, m.a. í samvinnu við utanríkisráðuneyti og Út­flutningsráð.
    Greint er með skýrari hætti en nú er milli Ferðamálaráðs sem stefnumarkandi aðila og skrifstofu ferðamála sem starfar í umboði ráðsins samkvæmt almennum fyrirmælum undir stjórn ferðamálastjóra. Hann er í senn framkvæmdastjóri Ferðamálaráðs og yfirmaður skrif­stofu ferðamála, skipaður af ráðherra til fimm ára.
    Heimild er veitt til að Ferðamálaráð gerist meðeigandi að ferða - og upplýsingamiðstöðv­um í kjördæmum landsins ásamt heimamönnum, þ.e. ferðamálasamtökum, samtökum sveitar­félaga og fleiri eftir atvikum. Skulu þær starfa samkvæmt stofnsamningi og hafa sjálfstæðan fjárhag. Hlutverk þeirra er m.a. að hafa með höndum ráðgjöf, vinna að þróun í ferðaþjónustu og miðla upplýsingum. Í tengslum við þær munu starfa ferðamálafulltrúar, ráðnir af ferða­málasamtökum viðkomandi landsluta. Heimild er veitt til að ríkissjóður greiði framlag sem svarar til launa eins ferðamálafulltrúa í kjördæmi. Með framkvæmd þessara ákvæða yrði gjörbreyting á stöðu ferðamála um land allt og er hér um að ræða mikilvæga og róttæka breytingu.
    Staða umhverfismála í tengslum við ferðaþjónustu er treyst til muna. Náttúruverndarráði er ætlað að eiga fastan fulltrúa í Ferðamálaráði og koma skal á fastri samstarfsnefnd á vegum Ferðamálaráðs til að gera tillögur um skipulag og verndun fjölsóttra ferðamannastaða. Í nefndinni er gert ráð fyrir fulltrúum frá nokkrum opinberum stofnunum, svo og frá viðkom­andi sveitarstjórn. Í ferðamálastefnu er auk þess fjallað ítarlega um umhverfisvernd í tengsl­um við ferðaþjónustu, bæði varðandi markmið og leiðir.
    
III. kafli. Fjármögnun ferðamála.
    
Ákvæði frumvarpsins um tekjuöflun til að fjármagna starfsemi Ferðamálaráðs er óbreytt frá gildandi lögum, þ.e. eigi minna en 10% af árlegri vörusölu fríhafna í landinu. Hér er gert ráð fyrir að fríhöfnum fjölgi í náinni framtíð og gildi þetta ákvæði um þær allar. Eftir sem áður er reiknað með að kostnaður vegna aðalskrifstofu Ferðamálaráðs, laun og almennur skrifstofukostnaður, verði greiddur af ríkissjóði samkvæmt fjárlögum.
    Fyrir liggur að fríhafnaviðskipti muni leggjast af innan Evrópubandalagsins með tilkomu innri markaðar þess. Hins vegar hefur verið gert ráð fyrir að slík viðskipti haldist í EFTA-ríkjum, einnig þótt samið yrði um svokallað Evrópskt efnahagssvæði.
    Fleiri hugmyndir um tekjuöflun í þágu ferðamála hafa verið ræddar í nefndinni, m.a. að samhliða lækkun eða afnámi launaskatts hjá fyrirtækjum í ferðaþjónustu, greiði þau ákveðið hlutfall af sama gjaldstofni til Ferðamálaráðs. Vissir erfiðleikar kunna að vera á framkvæmd slíkrar gjaldtöku, m.a. að skilgreina þátt ferðaþjónustu í fyrirtækjum með blandaðan rekstur.
    Gert er ráð fyrir að fyrirtæki í ferðaþjónustu leggi fram aukið fé til einstakra verkefna á móti framlögum frá Ferðamálaráði. Í nágrannalöndum, m.a. í Noregi, er nú í vaxandi mæli farið út á þá braut. Ættu slík mótframlög að tengja fyrirtæki betur en nú er einstökum verk­efnum og auka heildarfjármagn til þróunarstarfs í ferðaþjónustu.
    Gert er áfram ráð fyrir starfrækslu Ferðamálsjóðs sem stofnlánasjóðs ferðaþjónustunnar með líku sniði og verið hefur. Stefnt verði að mun lengri lánstíma en nú er, þ.e. allt að 40 árum í stað 15 ára hámarks eins og nú er kveðið á um. Þá eru felld niður ákvæði um sérstakar tryggingar vegna lána í formi fasteignaveða, en sjóðstjórn ætlað að meta stöðu lántakenda hverju sinni.
    Nýmæli er um sérstaka áhættulánadeild við Ferðamálasjóð er veitt geti lán til þróunar­verkefna í ferðaþjónustu. Er gert ráð fyrir samráði sjóðstjórnarinnar og Ferðamálaráðs um þau efni. Einnig mun ráðið sem hingað til tilnefna tvo menn af þremur í stjórn sjóðsins.
    
IV. kafli. Ferðamiðlun.
    
Þessi kafli laganna svarar til IV. kafla eldri laga um almennar ferðaskrifstofur. Ákvæði hans eru hins vegar mikið breytt og aukið við nýjum þáttum. Við undirbúning málsins var m.a. haft samráð við talsmenn Félags íslenskra ferðaskrifstofa.
    Hugtakið ferðamiðlun er ekki aðeins látið ná yfir hefðbundna starfsemi ferðaskrifstofa heldur hvers konar atvinnustarfsemi á vegum fyrirtækja, félaga og einstaklinga sem miðar að ferðalögum og upplýsingum þar að lútandi. Þannig eru auk ferðaskrifstofa skilgreind hug­tökin ferðaskipuleggjandi, ferðaumboðssali og upplýsinga - og bókunarkerfi sem mismunandi rekstrarform. Fæst með því betri yfirsýn fyrir viðskiptavini og unnt er að gera hnitmiðaðri kröfur en ella af opinberri hálfu til viðkomandi starfsemi og ná yfirsýn í þágu neytenda­verndar.
    Starfsemi ferðaskrifstofa og ferðaskipuleggjenda er háð leyfum, sem samgönguráðherra veitir, en ekki er krafist leyfa vegna ferðaumboðssölu og upplýsinga - og bókunarkerfa, þótt gerð séu skráningarskyld og heimild veitt til að gera tilteknar kröfur til slíkrar starfsemi. Um leyfisveitingar eru ítarleg ákvæði sem taka mið af gildandi lögum, en þó með ýmsum nýmæl­um. Leyfi verða tvenns konar, annars vegar fyrir ferðaskrifstofur og hins vegar fyrir ferða­skipuleggjendur og gefin út tímabundið til eins til fimm ára í senn.
    Sett eru ýmis skilyrði fyrir leyfisveitingum, m.a. að forstöðumenn ferðamiðlunar hafi ver­ið búsettir hér á landi í a.m.k. þrjú ár eða séu íslenskir ríkisborgarar. Þá þurfa þeir hinir sömu að geta sýnt fram á reynslu af störfum í ferðaþjónustu. Með þessu á að tryggja að þeir sem í ferðamiðlun starfa hér á landi séu hluti af íslensku samfélagi og hafi til að bera faglega þekkingu í ferðamiðlun. Einnig skulu ferðaskrifstofur hafa í sinni þjónustu einhverja starfs­menn með haldgóða þekkingu í útgáfu farseðla og reynslu af ferðamiðlun. Ef um félög er að ræða er auk þess gert að skilyrði að þau séu að meiri hluta í íslenskri eigu og stjórn þeirra sé innlend. Til að öðlast leyfi til ferðamiðlunar þurfa umsækjendur að leggja fram fullnægj­andi tryggingar fyrir rekstraröryggi að mati samgönguráðherra. Gert er ráð fyrir að ferða­miðlarar geti byggt upp tryggingasjóði á eigin vegum. Aðild að tryggingarsjóði getur auð­veldað fyrirtækjum í ferðamiðlun að uppfylla skilyrði um tryggingar.
    Sérstakt ákvæði er um ferðamiðlun á vegum sérleyfishafa. Er þeim heimilt svipað og í nú­verandi löggjöf að skipuleggja og selja þjónustu vegna eigin starfsemi, þ.e. ferðir fyrir far­þega á eigin leiðum með fæði og næturgistingu, enda sé lögboðnum skilyrðum til starfsem­innar fullnægt. Ekki er öðrum heimilt að vera með ferðir nema þá lokuðum hópum.
    Með ákvæðum frumvarpsins um ferðamiðlun og afþreyingarþjónustu er leitast við að setja í lög ákvæði sem tryggja neytendavernd á þessu sviði og auðvelda jafnframt yfirsýn og miðlun upplýsinga til hagsbóta fyrir atvinnugreinina. Þá er í kaflanum m.a. að finna ákvæði um að þeir sem skipuleggja hópferðir um landið þurfi að kaupa tryggingu vegna kostnaðar við leit eða björgun ferðamanna á þeirra vegum.
    Gefin eru ákveðnari fyrirmæli en verið hefur um að leiðsögumenn með tilskilin réttindi skuli að jafnaði vera í hópferðum hér á landi. Er það m.a. æskilegt vegna umgengni við land­ið og öryggis og þjónustu við fólk í slíkum ferðum. Ráðherra er ætlað að kveða nánar á um þessi efni í reglugerð. Fyrir liggur að í nokkrum Evrópulöndum eru sett hliðstæð skilyrði um leiðsögumenn í hópferðum og áskilin réttindi til leiðsagnar í viðkomandi landi. Nýlega hefur 7. náttúruverndarþing ályktað um þetta efni.
    
V. kafli. Veitinga - og gististaðir og afþreyingarþjónusta.
    
Sú leið var valin, m.a. að höfðu samráði við Samband veitinga og gistihúsa að fella ákvæði laga um veitinga - og gistihús inn í frumvarp um ferðamál, en frá 1926 hafa verið í gildi sérlög á þessu sviði. Með þessari breytingu er staðfest það viðhorf, að hótel - og veit­ingarekstur sé hluti af ferðaþjónustu. Rekstur veitinga - og gististaða nýtist vissulega stað­bundnu umhverfi í ríkum mæli, en er jafnframt einn af grunnþáttum í ferðaþjónustu. Rekstur veitinga - og gististaða verður áfram leyfisbundinn eins og ferðamiðlun og ýmis ákvæði, m.a. um eftirlit og neytendavernd eru hin sömu um þessa starfsemi.
    Engar róttækar breytingar eru gerðar á ákvæðum laga um veitinga - og gististaði. Nokkur atriði sem óljós eru í gildandi lögum eru gerð skýrari og um önnur er gert ráð fyrir reglugerð­um í stað þess að binda þau í lögum. Á það m.a. við um flokkun veitinga - og gististaða.
    Skilyrði um leyfisveitingu eru svipuð og verið hefur. Sett er sem skilyrði að til að öðlast leyfi þurfi umsækjandi að hafa verið búsettur hér á landi samfleytt undangengin þrjú ár. Sé skilyrðum um leyfisveitingu ekki lengur fullnægt, eða gegn þeim brotið, er lögreglustjóra heimilt að innkalla leyfi til lengri eða skemmri tíma í stað afturköllunar sem kveðið er á um í gildandi lögum.
    Þá er í kaflanum ákvæði um skráningarskyldu afþreyingarþjónustu sem rekin er í atvinnu­skyni fyrir ferðamenn, þar á meðal útleiga á tækjum af ýmsu tagi, hestaleigur og rekstur skemmtigarða. Er það nýmæli og gert ráð fyrir heimild til ráðherra að setja reglugerð um slíka starfsemi, er tilgreini nánar hvaða rekstur falli undir skráningarskyldu, svo og kröfur um hollustu og öryggi og annað er lýtur að neytendavernd.
    
VI. kafli. Eftirlit og upplýsingaskylda.
    
Efni þessa kafla er að mestu nýmæli, þar eð engin ákvæði hafa verið í lögum um ferðamál um almennt eftirlit með framkvæmd laga á þessu sviði. Hér er gert ráð fyrir að samgöngu­ráðuneytið sinni slíku eftirliti í samvinnu við þau embætti, stofnanir og samtök sem veita leyfi eða hafa eftirlitsskyldu samkvæmt ákvæðum sérlaga.
    Sett er á fót sérstök kvörtunarnefnd til að fjalla um og skera úr um ágreiningsmál sem neytendur koma á framfæri við nefndina vegna samskipta við fyrirtæki í ferðaþjónustu. Slíkt fyrirkomulag hefur um skeið verið reynt með samkomulagi ferðaskrifstofa og Neytendasam­takanna og þótt gefa góða raun. Hér er kvörtunarnefnd ferðaþjónustu veitt lagastoð sem úr­skurðaraðila til að styrkja neytendavernd á þessu sviði.
    Þá er í kaflanum kveðið á um upplýsingaskyldu fyrirtækja og rekstraraðila í ferðaþjón­ustu til að auðvelda gagnasöfnun og hagskýrslugerð, m.a. á vegum Hagstofu Íslands og Þjóð­hagsstofnunar.

VII. kafli. Ýmis ákvæði.
    
Haldið er óbreyttum ákvæðum um að ráðherra geti heimilað gjaldtöku fyrir þjónustu sem veitt er á stöðum í umsjá ríkisins og renni afraksturinn til að bæta aðstöðu á viðkomandi svæði. Ákvæðið gildir ekki um svæði í umsjá Náttúruverndarráðs nema samþykki þess komi til. Vaxandi umræða er um gjaldtöku á ferðamannastöðum, en nefndin taldi ekki rétt að kveða fastar á um slíkt í lögum þar eð hugmyndir um þetta eru enn umdeildar og lítt mótaðar. Æskilegt er m.a. að afla fyllri upplýsinga en fyrir liggja um gjaldtöku á ferðamannastöðum erlendis, ekki síst annars staðar á Norðurlöndum.
    Gert er ráð fyrir að lögin taki strax gildi og komi til framkvæmda frá ársbyrjun 1994 að telja. Tíminn fram að því yrði m.a. notaður til að kynna efni laganna og undirbúa reglugerðir. Kveðið er á um að fyrsta ferðaþing skuli haldið fyrri hluta árs 1994 og að því búni ætti nýtt Ferðamálaráð þá að taka til starfa.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Með greininni er kveðið á um almenn markmið opinberrar ferðamálastefnu og eru þau hin sömu og fram koma í sérstakri þingsályktunartillögu um ferðamálastefnu sem lögð var fram á síðasta þingi og endurflutt var í byrjun yfirstandandi þings.

Um 2. gr.


    Greinin kveður á um yfirstjórn ferðamála. Gert er ráð fyrir að ferðaþjónusta verði vistuð í samgönguráðuneyti. Er það sama skipan og verið hefur og gert er ráð fyrir í drögum að frumvarpi til nýrra laga um Stjórnarráð Íslands.
    Auk tengsla ráðuneytisins við ferðaþjónustuna sem atvinnugrein fyrir milligöngu Ferða­málaráðs er hér gert ráð fyrir samstarfi við önnur ráðuneyti, sem tengjast ferðamálum. Þar koma einkum við sögu forsætisráðuneyti, umhverfisráðuneyti, fjármálaráðuneyti, mennta­málaráðuneyti og utanríkisráðuneyti. Æskilegt er að komið verði á skipulegu samstarfi þess­ara ráðuneyta um ferðamál, t.d. með samstarfsnefnd undir forustu samgönguráðuneytis.

Um 3. gr.


    Með árlegu ferðaþingi er skapaður vettvangur fyrir ferðaþjónustuna sem atvinnugrein með hliðstæðum hætti og fiskiþing á vettvangi sjávarútvegs og búnaðarþing fyrir landbúnað.
    Vegna þess hve ferðaþjónusta er fjölþættur atvinnuvegur og í örri þróun er brýn þörf fyrir slíkan samráðsvettvang og til að koma á framfæri sjónarmiðum gagnvart stjórnvöldum. Hingað til hefur Ferðamálaráð staðið fyrir opnum ferðamálaráðstefnum á eins til tveggja ára fresti og hafa þær verið gagnlegar. Eftir sem áður er gert ráð fyrir að Ferðamálaráð efni til ráðstefna um afmarkaða þætti ferðamála.

Um 4. gr.


    Hér er gert ráð fyrir að Ferðamálaráð sé skipað níu fulltrúum í stað 23 eins og verið hef­ur. Með þessari tilhögun er ekki þörf á sérstakri framkvæmdastjórn ráðsins. Þetta felur í sér einföldun á stjórnkerfi ferðamála. Með árlegu ferðaþingi og auknu starfi að ferðamálum í kjördæmum landsins á að tryggja betri tengsl hagsmunaaðila af öllu landinu en hingað til við stjórn ferðamála.
    Þá kveður greinin á um að á ferðaþingi verði valdir átta fulltrúar af níu í Ferðamálaráð til tveggja ára í senn, þar af eru fjórir tilnefndir, en hinir fjórir kjörnir óhlutbundinni kosn­ingu. Til að ekki komi til örra mannaskipta samtímis í ráðinu er í ákvæði til bráðabirgða gert ráð fyrir að á öðru ferðaþingi sem haldið verður gangi tveir út þannig að sú regla skapist að árlega verði kosnir tveir fulltrúar í ráðið. Ekki eru sett ákvæði um hversu oft megi endurkjósa sömu menn. Kveðið er á um að sérstök kjörnefnd starfi á ferðaþingi og leggi hún fram tillögu um kjör manna í ráðið og tilkynni jafnframt um tilnefningar.

Um 5. gr.


    Greinin kveður á um helstu verkefni Ferðamálaráðs og eru þau einkum þríþætt:
    1. Þróunar - og skipulagsmál ferðaþjónustu, þ.e. framkvæmd markaðrar ferðamálastefnu, samræming og tengsl við marga aðila vegna umhverfismála, menntunarmála, fræðslu og ráð­gjafar, miðlunar upplýsinga og svæðisbundinnar þróunar, m.a. með aðstoð ferðamálafulltrúa.
    2. Fjárhagsmál Ferðamálaráðs, þ.e. fjárhagsáætlanir og tillögur til ráðherra um megin­sk iptingu þess fjármagns sem ráðið hefur til umráða. Í framhaldi af því ákvarðar ráðið fjár­veitingar, þar á meðal styrkveitingar og framlög til einstakra landkynningarverkefna, upp­byggingar og endurbóta á ferðamannastöðum, rannsókna og svæðisbundinnar starfsemi.
    3. Markaðs - og kynningarmál ferðaþjónustu, þ.e. landkynning, markaðsfærsla, rannsóknir og þróun og alþjóðlegt samstarf.
    Alþingi fjallar nú um þingsályktunartillögu um ferðamálastefnu, sem gert er ráð fyrir að verði afgreidd sem ályktun Alþingis. Nauðsynlegt er að ferðamálastefnan sé stöðugt til end­urmats, m.a. á ferðaþingi, og þannig verður hún leiðbeinandi fyrir Ferðamálaráð á hverjum tíma. Því er ástæðulaust að kveða í lögum með ítarlegri hætti en hér er gert á um verkefni Ferðamálaráðs.

Um 6. gr.


    Ráðning ferðamálastjóra er með sama hætti og í gildandi lögum, nema miðað er við fimm ára ráðningu hliðstætt því sem tekið hefur verið upp varðandi forstöðumenn margra stofnana á vegum hins opinbera. Endurráða má ferðamálastjóra að þeim tíma liðnum. Auk þess að vera framkvæmdastjóri Ferðamálaráðs er ferðamálastjóri forstöðumaður skrifstofu ferða­mála sem kveðið er á um í 7. gr.

Um 7. gr.


    Nauðsynlegt er að greina skýrt á milli Ferðamálaráðs sem stefnumarkandi nefndar annars vegar og skrifstofu ferðamála sem embættisskrifstofu og framkvæmdaraðila hins vegar. Skrifstofan starfar á vegum ráðsins og vinnur verkefni fyrir það samkvæmt almennri stefnu­mótun. Ferðamálaráði er þannig ekki ætlað að hafa afskipti af daglegum rekstri. Auk þess að starfa fyrir Ferðamálaráð er skrifstofa ferðamála tengiliður við svæðisbundnar stofnanir og fyrirtæki í ferðaþjónustu, svo og við almenning.
    Kveðið verður á um skipulag skrifstofunnar og verkefni í reglugerð, svo og um gjöld fyrir þjónustu hennar. Þar getur verið um að ræða gjöld vegna vinnu við afgreiðslu leyfisveitinga, skráningu starfsemi í ferðaþjónustu, upplýsingar o.fl.

Um 8. gr.


    Greinin kveður á um samstarf Ferðamálaráðs við utanríkisráðuneytið og Útflutningsráð um landkynningu og markaðsmál í þágu ferðaþjónustu erlendis.
    Æskilegt er að nýta sem best fjármuni og mannafla þessara aðila við kynningarstarf, þannig að það gagnist ferðaþjónustu, m.a. með samvinnu um skrifstofuhald erlendis og tengsl við sendiráð Íslands og ræðismenn.
    Til að tryggja samráð í þessum efnum er gert ráð fyrir að reglubundið, t.d. ársfjórðungs­lega, verði haldnir fundir Ferðamálaráðs með fulltrúum utanríkisráðuneytis og Útflutnings­ráðs.

Um 9. gr.


    Greinin kveður á um heimild til Ferðamálaráðs að gerast þáttakandi í ferða - og upplýs­ingamiðstöðvum í kjördæmum landsins, um samstarfsaðila, fjárhag og hlutverk. Skilyrði fyr­ir fjárhagsstuðningi frá Ferðamálaráði er að ferðaþjónustuaðilar innan kjördæmisins hafi komið sér saman um tilhögun slíkrar starfsemi. Með því á að tryggja árangursríkt samstarf og að sem flestir í ferðaþjónustu innan kjördæmisins taki þátt í því.
    Gert er ráð fyrir að ferðamálasamtök, sem nú starfa í kjördæmunum sem vettvangur hags­munaaðila í ferðaþjónustu, verði í hópi eigenda miðstöðvanna. Í stofnsamningi verði m.a. kveðið á um tilhögun starfseminnar, staðsetningu hennar, eignarhlut og stjórn.

Um 10. gr.


    Í greininni er veitt heimild til að ríkið greiði framlag vegna starfa ferðamálafulltrúa, sem ráðnir eru af ferðamálasamtökum landshluta. Þeim er ætlað að vinna að ráðgjöf við fyrirtæki í ferðaþjónustu, aðstoða sveitarstjórnir vegna ferðamála og hafa tengsl við Ferðamálaráð, skrifstofu ferðamála og ferða - og upplýsingamiðstöðvar. Æskilegt er að ferðamálafulltrúi eigi samvinnu við aðra ráðgjafa, stofnanir og félög innan kjördæmisins, svo sem atvinnuþró­unarfélög, iðnráðgjafa, skipulagsstofur og náttúrustofur.

Um 11. gr.


    Greinin kveður á um að Ferðamálaráð hafi frumkvæði að samstarfi við aðra vegna fjöl­sóttra ferðamannastaða, m.a. til að koma aðstöðu til móttöku ferðamanna í viðunandi horf. Nefndin skal hafa samráð við hlutaðeigandi sveitarstjórnir um tillögur eftir því sem við á.
    Þá gerir greinin ráð fyrir að ráðherra verði heimilað, að fenginni tillögu nefndarinnar, að takmarka aðgang að fjölsóttum stöðum eða láta loka þeim fyrir nýtingu í atvinnuskyni, uns gerðar hafa verið nauðsynlegar úrbætur í þágu náttúruverndar.

Um 12. gr.


    Greinin er hliðstæð gildandi ákvæði í lögum um ferðamál að öðru leyti en því að hér er gert ráð fyrir fjölgun fríhafna og gildi um þær hliðstæð ákvæði um greiðslur til Ferðamála­ráðs.
    Verði grundvallarbreytingar gerðar á vörusölu í fríhöfnum hér á landi vegna samninga innan Evrópu þannig að fríhafnaverslun dragist stórlega saman þarf að koma til annar tekju­stofn fyrir Ferðamálaráð.

Um 13. gr.


    Ákvæði greinarinnar er nýmæli og sett sem heimild fyrir Ferðamálaráð að binda fjárhags­lega þátttöku í verkefnum því skilyrði að mótframlag fáist. Skal að því stefnt að slík mót­framlög verði regla fremur en undantekning.
    Sameiginleg verkefnabundin fjármögnun er tíðkuð í vaxandi mæli við úthlutun úr sjóðum hér á landi. Í Noregi hefur þessi háttur verið tekinn upp af NORTRA, norska ferðamálaráð­inu, sérstaklega í tengslum við landkynningu og markaðsmál.

Um 14. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 15. gr.


    Greinin er efnislega samhljóða ákvæði í gildandi lögum, nema gert er ráð fyrir tveggja ára skipunartíma í stað fjögurra ára og kveðið er á um varamenn. Um skeið hefur Ferðamála­ráð valið annan stjórnarmanna úr röðum fulltrúa af landsbyggðinni og er æskilegt að sá hátt­ur verði viðhafður framvegis.

Um 16. gr.


    Ákvæði greinarinnar eru óbreytt frá gildandi lögum, nema fellt er niður ákvæði um að framlag úr ríkissjóði sé „eigi lægra en 12 Mkr.“.

Um 17. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 18. gr.


    Ákvæði greinarinnar eru svipuð og í gildandi lögum. Gert er ráð fyrir að veita megi óaft­urkræf framlög úr sjóðnum til uppbyggingar í ferðaþjónustu. Sé um gistirými að ræða, er eðlileg forsenda að um sé að ræða rekstur allt árið.
    Með tilnefningu Ferðamálaráðs á tveimur fulltrúum í stjórn sjóðsins eiga að vera tryggð góð tengsl við ráðið. Þar að auki er hér gert ráð fyrir að stjórnin tilkynni Ferðamálaráði jafn­óðum um samþykktir sínar og samráð sé við ráðið um útlánastefnu.

Um 19. gr.


    Með ákvæðum greinarinnar er hámarkslánstími lána úr Ferðamálasjóði lengdur úr 15 árum í allt að 40 ár. Eðlilegt er að gert sé ráð fyrir breytilegum lánstíma og lánskjörum eftir aðstæðum.
    Felld eru niður ákvæði varðandi tryggingar lána úr sjóðnum, m.a. fasteignaveð, og lagt í vald sjóðstjórnar að meta stöðu lántakenda.
    Við ákvörðun á lánskjörum sjóðsins þarf m.a. að gæta að kostnaði vegna endurfjármögn­unar.

Um 20. gr.


    Ákvæði 1. málsl. greinarinnar um stofnun sérstakrar áhættulánadeildar er nýmæli, en í gildandi lögum er Ferðamálasjóði heimilt að leggja fram styrki og óafturkræf framlög til gistirýmis og annarrar starfsemi til þróunar ferðamála. Til að áhættulánadeild verði annað en nafnið tómt þarf að tryggja sjóðnum sérstakar tekjur í þessu skyni.

Um 21. gr.


    Svipuð heimild hefur verið í lögum. Hér er ekki kveðið á um þátttöku Ferðamálaráðs eða Ferðamálasjóðs vegna hugsanlegs viðbótarkostnaðar við heimavistarhúsnæði vegna ferða­þjónustu þar eð heimildir þar að lútandi falla undir almenn ákvæði um þessar stofnanir.
    Með ákvæði greinarinnar á fyrst og fremst að tryggja ráðgjöf af hálfu skrifstofu ferða­mála, þannig að unnt sé að taka tillit til hugsanlegra nota heimavistarrýmis fyrir ferðaþjón­ustu strax við upphaf hönnunar.
    Einnig er lagt til að Ferðamálaráð leitist við að hafa víðtækari áhrif á hönnun annarra mannvirkja vegna hagsmuna ferðaþjónustu eftir því sem við getur átt. Höfð eru m.a. í huga íþróttamannvirki og aðstaða til funda og ráðstefnuhalds.

Um 22. gr.


    Í þessari grein er leitast við að skilgreina ferðamiðlun og ólík rekstrarform á sviði ferða­miðlunar. Í gildandi lögum er ekki gerður greinarmunur á rekstrarformi mismunandi starf­semi í ferðamiðlun. Það er hins vegar talið eðlilegt til að neytandi geti betur áttað sig á við hvers konar fyrirtæki hann er að skipta hverju sinni og hvaða kröfur má gera til viðkomandi aðila.

Um 23. gr.


    Greinin er efnislega að mestu samhljóða 15. og 16. gr. núgildandi laga en gert er ráð fyrir að leyfin verði gefin út til tiltekins tíma.
    Með greininni eru tekin af tvímæli um að erlendum ferðamiðlurum sé óheimilt að stunda atvinnurekstur hér á landi nema hafa til þess tilskilin leyfi. Um nokkurt skeið hafa erlendir aðilar skipulagt hópferðir til Íslands og haft með sér atvinnutæki, starfsfólk og vistir og þannig komist undan því að greiða opinber gjöld eins og innlendum aðilum er gert að greiða. Koma þarf í veg fyrir þessa ólögmætu starfsemi þar eð samkeppnisstaða íslenskra fyrirtækja sem í hlut eiga er til muna lakari en hinna erlendu keppinauta á meðan hún viðgengst.

Um 24. gr.


    Greinin er mikið breytt frá ákvæðum í gildandi lögum. Gert er ráð fyrir tvenns konar leyf­um til starfsemi á sviði ferðamiðlunar, annars vegar vegna ferðaskrifstofa og hins vegar vegna ferðaskipuleggjenda. Starfssvið þessara tveggja tegunda ferðamiðlunar er um margt ólíkt. Ferðaskrifstofu ber að veita alhliða þjónustu á sviði ferðamiðlunar en ferðaskipuleggj­andi (á ensku tour operator eða tour producer) getur verið með mjög afmarkaða starfsemi, t.d. einungis skipulagt ferðir íþróttahópa eða fjallaferðir. Þar eð ferðaskrifstofu ber að selja allar tegundir farseðla er mikilvægt að a.m.k. einn starfsmaður hafi haldgóða þekkingu í út­gáfu farseðla en þessi krafa er ekki gerð til ferðaskipuleggjenda.
    Eitt af skilyrðum þess að veitt sé leyfi til ferðamiðlunar er að forstöðumaður hafi verið búsettur hér á landi samfleytt í þrjú ár eða sé íslenskur ríkisborgari. Rétt þykir að hafa í lög­um ákvæði um íslenskan ríkisborgararétt vegna manna sem starfa um skeið erlendis og eru búsettir þar en snúa síðan heim á ný.

Um 25. gr.


    Ákvæði þessarar greinar koma í stað ákvæða 18. og 19. gr. gildandi laga um bankatrygg­ingu. Áfram er gert ráð fyrir að ráðuneytið setji kröfur um tryggingar fyrir rekstraröryggi og neytendavernd, sem geti verið mismunandi eftir eðli og umfangi starfseminnar. Ekki þykir nauðsynlegt að binda form tryggingarinnar í lög. Hún getur t.d. verið í formi bankatryggingar, greiðslumiðlunarkerfis (bank settlement plan), tryggingar hjá viðurkenndu tryggingafélagi eða í formi ábyrgðasjóðs fleiri aðila eftir því sem ráðuneytið metur hverju sinni.

Um 26. gr.


    Hér er kveðið á um að starfsemi ferðaumboðssala sé háð ábyrgð leyfisskyldrar ferða­skrifstofu eða samgöngufyrirtækis.

Um 27. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 28. gr.


    Upplýsinga - og bókunarkerfin sem hér um ræðir eru almenn tölvukerfi, en ekki er átt við bókunarkerfi sem einstök fyrirtæki nota vegna eigin reksturs. Í slíkum kerfum eru upplýsing­ar af margs konar toga, t.d. um flugsamgöngur, ferjusamgöngur, áætlanir sérleyfisbíla, hótel og skoðunarferðir. Markmið með lagagreininni er að tryggja að upplýsingar komi fram með þeim hætti sem þjónar hagsmunum neytandans. Vegna sívaxandi notkunar slíkra tölvukerfa í ferðaþjónustu er talið brýnt að kveðið sé á um þau í lögum.

Um 29. gr.


    Greinin er efnislega samhljóða 22. gr. í gildandi lögum. Hér er t.d. átt við að sérleyfishaf­ar í flugi og á landi hafi heimild samkvæmt sérstökum reglum til að skipuleggja og selja í ferðir á eigin leiðum og enn fremur láta fæði og gistingu fylgja án þess að þurfa leyfi skv. 24. gr. þessara laga. Ekki er til þess ætlast að hér sé um umfangsmikla starfsemi að ræða.
    Enn fremur er í greininni gert ráð fyrir að ráðuneytið ákveði um stöðu íslenskra ferðafé­laga gagnvart lögum þessum. Starfsemi ferðafélaga hefur verið gildur þáttur í að ryðja ís­lenskri ferðaþjónustu braut, ekki síst í óbyggðum. Ferðafélög leggja mörg hver mikið af mörkum við byggingu og viðhald skála sem standa öllu ferðafólki opnir. Hins vegar er eðli­legt að þess sé gætt að félögin stundi ekki óeðlilega samkeppni við almennan rekstur í ferða­þjónustu.

Um 30. gr.


    Ákvæði þessi eru hliðstæð ákvæðum í gildandi lögum. Samþykkt var á Alþingi 22. febr­úar 1990 þingsályktun um öryggi í óbyggðaferðum og er unnið að því að móta tillögur þar að lútandi, m.a. um hugsanlegar lagabreytingar, reglur og fræðslu á þessu sviði.

Um 31. gr.


    Með ákvæðum þessum er kveðið á um að þeir sem skipuleggja hópferðir um landið í at­vinnuskyni skuli að jafnaði hafa í ferðunum leiðsögumenn sem hafi aflað sér réttinda til leið­sagnar hér á landi. Samgönguráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um skyldur og viðmið­anir samkvæmt greininni, m.a. um lágmarksfjölda í hópferðum og ferðir þar sem fyrirmæli greinarinnar eiga ekki við. Einnig er gert ráð fyrir að ráðherra veiti undanþágu frá megin­reglunni við sérstakar aðstæður, m.a. ef ekki fást leiðsögumenn með tilskilin réttindi til leið­sagnar. Leiðsögn veitt af kunnáttufólki er liður í að tryggja fræðslu og góða umgengni um landið og um leið er í henni fólgið ákveðið öryggi fyrir ferðamanninn.

Um 32. gr.


    Ákvæði greinarinnar taka til hvers kyns sölu á gistingu á gististöðum og heimilum, þar með talin Ferðaþjónusta bænda; einnig til sölu veitinga til almennings, annarra en áfengis, þar á meðal á skyndibitastöðum, sjoppum og bensínafgreiðslum samkvæmt nánari skilgrein­ingu í reglugerð. Einnig til leigu á samkomusölum í atvinnuskyni, þar á meðal í félagsheimil­um.
    Ákvæðið um skráningarskyldu vegna útleigu tækja og rekstrar afþreyingarþjónustu eru nýmæli í lögum hér á landi.

Um 33. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 34. gr.


    Ákvæði greinarinnar eru í aðalatriðum óbreytt frá gildandi lögum. Þó er kveðið á um að leyfi sé veitt í allt að fjögur ár. Þá eru gerðar nokkrar orðalagsbreytingar til að taka af tví­mæli.

Um 35. gr.


    Ákvæði greinarinnar eru efnislega hliðstæð ákvæðum í gildandi lögum nr. 67/1985, 4. 6. gr. Með þeim eru veittar tímabundnar heimildir til rekstrar við sérstakar aðstæður, svo sem gjaldþrot, andlát leyfishafa og þá nýr aðili tekur við rekstri.

Um 36. gr.


    Efni greinarinnar er óbreytt frá gildandi lögum, nema í stað þess að afturkalla leyfi er heimild til tímabundinnar innköllunar þess við tilgreindar aðstæður.

Um 37. gr.


    Með greininni er gert ráð fyrir að flokkun gisti - og veitingastaða verði ákveðin með reglu­gerð í stað þess að vera bundin í lögum eins og nú er. Áhersla er lögð á að í slíkri flokkun komi fram kröfur um þjónustu og annað er lýtur að neytendavernd og að þjónustustig endur­speglist í nafngiftum.

Um 38. gr.


    Í þessari grein er gert ráð fyrir að öll afþreyingarstarfsemi sem rekin er í atvinnuskyni fyrir ferðamenn og staðbundinn markað verði skráningarskyld. Hér er ekki um eiginlegar leyfisveitingar að ræða, heldur að gerðar verði ákveðnar lágmarkskröfur til þessarar starf­semi, m.a. með tilliti til gæða þjónustunnar og til neytendaverndar. Gert er ráð fyrir að ráðu­neytið, eða skrifstofa ferðamála eftir því sem ráðuneytið ákveður, annist skráningu á slíkri starfsemi og umfangi hennar. Margvísleg starfsemi í ferðaþjónustu er nú rekin án eftirlits eða leyfisskyldu sem falla mundi undir ákvæði þessarar greinar.

Um 39. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 40. gr.


    Ákvæði greinarinnar er nýmæli þar eð ekki er kveðið á um almennt eftirlit með fram­kvæmd laga um ferðaþjónustu í gildandi lögum, m.a. með leyfisveitingum. Rétt þykir að kveða á um að samgönguráðuneytið hafi slíkt eftirlit með höndum og fylgist með framkvæmd laganna til viðbótar við sértækt eftirlit einstakra stofnana.

Um 41. gr.


    Þörf er á sértæku eftirliti með gisti - og veitingastöðum í þágu öryggis og neytendavernd­ar. Slíkt eftirlit þarf þó að vera tengt almennu eftirliti með framkvæmd laganna á vegum sam­gönguráðuneytis.

Um 42. gr.


    Um nokkurt skeið hefur verið starfrækt kvörtunarnefnd ferðaskrifstofa og Neytendasam­takanna með oddamann frá samgönguráðuneyti. Nefndin hefur enga stoð í lögum eða reglu­gerð og hefur þess verið óskað af hagsmunaaðilum að ákvæði um nefndina verði lögfest.
    Þegar mál er tekið til úrskurðar í nefndinni skal hún skipuð þremur mönnum, þ.e. fulltrúa ráðuneytis og Neytendasamtaka og fulltrúa samtaka hlutaðeigandi fyrirtækis sem kvörtun hefur borist út af. Séu ekki starfandi samtök í viðkomandi grein skal fyrirtæki sem í hlut á benda á önnur hagsmunasamtök sem tilnefni fulltrúa í kvörtunarnefnd fyrir þess hönd.

Um 43. gr.


    Svipað ákvæði er í lögum um veitinga - og gististaði. Hagstofan hefur um árabil safnað hagrænum upplýsingum vegna ferðaþjónustu, einkum yfirliti um gistingu. Þótt slík gagna­söfnun ætti að vera sjálfsögð og atvinnugreininni í hag er talið rétt að kveða á um hana í lög­um. Áhersla er lögð á að við úrvinnslu úr slíkum upplýsingum sé gætt trúnaðar gagnvart ein­stökum fyrirtækjum.

Um 44. gr.


    Ákvæði um skil ársreikninga og tölfræðilegar upplýsingar frá fyrirtækjum í ferðaþjónustu eru sett vegna gagnasöfnunar um atvinnugreinina og eftirlits. Skylt er að gæta fyllsta trúnað­ar um meðferð slíkra upplýsinga eftir því sem við á.

Um 45. gr.


    Óbreytt frá ákvæðum gildandi laga. Örnefnanefnd starfar samkvæmt lögum nr. 35/1953, um bæjanöfn o.fl. og er henni ætlað að skera úr um ágreining er rísa kann um ákvæði þessar­ar greinar.

Um 46. gr.


    Greinin er efnislega óbreytt frá gildandi lögum. Þykir rétt að hafa slíka heimild til gjald­töku þótt hún hafi lítið sem ekkert verið notuð hingað til.

Um 47. gr.


    Ákvæði greinarinnar taka til laganna í heild. Styðjast má við ákvæði í reglugerðum, sem settar hafa verið með stoð í eldri lögum og sem ekki brjóta gegn ákvæðum þessara laga uns nýjar reglugerðir koma í þeirra stað.

Um 48. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 49. gr.


    Miðað er við að frumvarpið verði þegar að lögum. Framkvæmd laganna verði undirbúin á árinu 1993, m.a. reglugerðir er setja þarf. Að því búnu koma lögin til framkvæmda í ársbyrjun 1994, sbr. einnig ákvæði til bráðabirgða.


Fylgiskjal I.


Endurskoðun laga á sviði ferðamála yfirlit.


    Á undanförnum árum hafa nokkrar nefndir verið settar á laggirnar til að endurskoða lög­gjöf á sviði ferðamála. Árið 1987 var skipuð nefnd á vegum samgönguráðuneytisins til að endurskoða lög um skipulag ferðamála. Sú nefnd lauk ekki störfum og skilaði ekki tillögum til ráðuneytisins. Árið 1983 var skipuð nefnd til að endurskoða lög um ferðamál og skilaði hún tillögum um breytingar á lögum um skipulag ferðamála. Þær tillögur voru lagðar fyrir Alþingi og samþykktar sem lög um skipulag ferðamála, nr. 79/1985. Árið 1975 starfaði nefnd á vegum ráðuneytisins til að endurskoða lög um ferðamál og samdi hún frumvarp sem lagt var fram á Alþingi. Það frumvarp var síðan samþykkt sem lög nr. 60/1976. Árið 1972 var skipuð nefnd til að endurskoða lög nr. 4/1969, um ferðamál. Nefndin lauk ekki störfum. Árið 1974 var skipuð nefnd til að gera tillögur um úrbætur á vanda veitinga - og gististaða. Nefndin skilaði tillögum en þær fjölluðu ekki um lagabreytingar.
    

Lög um skipulag ferðamála og reglugerðir tengdar þeim.Lög um skipulag ferðamála, nr. 79/1985, sbr. lög nr. 59/1988.
    Tilgangur er að stuðla að þróun ferðamála sem atvinnugreinar og skipulagningu ferða­þjónustu fyrir íslenskt og erlent ferðafólk sem mikilvægs þáttar í íslensku atvinnu - og félags­lífi, bæði með hliðsjón af þjóðhagslegri hagkvæmni og umhverfisvernd.
    Kveðið er á um skipan 23ja manna Ferðamálaráðs með fjölþættum verkefnum.
    Ákvæði eru um Ferðaskrifstofu ríkisins og sagt að ríkisstjórnin skuli beita sér fyrir stofn­un hlutafélags um Ferðaskrifstofu ríkisins sem skuli annast fyrirgreiðslu og skipulagningu ferða fyrir íslenska og erlenda ferðamenn.
    Ákvæði eru um almennar ferðaskrifstofur, þ.e. skilyrði til leyfis, upphæð tryggingafjár og brottfall leyfis.
    Ákvæði eru um Ferðamálasjóð og er hlutverk hans að stuðla að þróun íslenskra ferðamála með lánum og styrkveitingum.
    Þá var kveðið á um heimild ráðherra að ákveða að þeir sem skipuleggja hópferðir kaupi tryggingu vegna kostnaðar sem hljótast kann af leit eða björgun farþega og að sömu aðilar skuli hafa leiðsögumenn, sem hlotið hafa til þess sérstaka þjálfun.
    Með lögum 59/1988 er kveðið á um heimild fyrir ríkisstjórnina að beita sér fyrir stofnun hlutafélags er taki við rekstri Ferðaskrifstofu ríkisins og hvað ríkisstjórninni er heimilt að gera í þessu skyni.

Auglýsing um tryggingarfé ferðaskrifstofa nr. 23/1990.
    Bankatrygging er nú 6 milljónir króna. Áður gilti auglýsing 567/1987 (4 m.), 409/1985 (2,6 m.), 47/1984 (1,7 m.), 573/1982 (800.000), 613/1980 (400.000), 372/1978 (15 m.) og 153/1965 (350.000), en lagaheimildin um tryggingarfé kom fyrst í lög 29/1964 þegar einka­réttur Ferðaskrifstofu ríkisins var afnuminn.
    
Reglugerð um eftirlit með hópferðum erlendra aðila til Íslands í atvinnuskyni nr. 175/1983.
    Þetta er fyrsta og eina reglugerðin sem sett hefur verið um þetta efni, en lagaheimildin kom fyrst í lög 60/1976.

Reglugerð um starfsmenntun leiðsögumanna ferðafólks nr. 130/1981.
    Áður gilti reglugerð 80/1981 sem bar sama heiti og var hún fyrsta reglugerðin um þetta efni, en lagaheimildin kom fyrst í lög 60/1976.
    
Reglugerð um almennar ferðaskrifstofur nr. 266/1978.
    Áður giltu reglur um tryggingarfé ferðaskrifstofa 153/1965, en það það var árið 1964 sem fyrst var kveðið á um almennar ferðaskrifstofur í lögum þegar einkaréttur Ferðaskrifstofu ríkisins var afnuminn.

Reglugerð um Ferðamálasjóð nr. 265/1978.
    Áður gilti reglugerð 272/1964 sem var sú fyrsta um Ferðamálasjóð, en kveðið var á um stofnun Ferðamálasjóðs með lögum 29/1964.

Reglugerð um Ferðaskrifstofu ríkisins, eftirlit með gistihúsum og umboðsmenn er­lendra ferðaskrifstofa nr. 30/1936.
    Reglugerð þessi var sett samkvæmt lögum 33/1936 og er formlega í gildi, en flest ákvæði hennar samrýmast ekki gildandi lögum.
    

Lög sem áður hafa gilt.Lög um skipulag ferðamála, nr. 60/1976, sbr. lög nr. 45/1980 og 15. gr. laga nr. 75/1982.
    Heiti laganna er breytt og tilgangur þeirra að stuðla að þróun ferðamála og skipulagningu ferðaþjónustu fyrir íslenskt og erlent ferðafólk sem mikilvægs þáttar í íslensku atvinnu - og félagslífi, bæði með hliðsjón af þjóðhagslegri hagkvæmni og umhverfisvernd.
    Kveðið er á um skipan 13 manna Ferðamálaráðs með fjölþættum verkefnum.
    Ákvæði eru um Ferðaskrifstofu ríkisins og sagt að ríkisstjórnin skuli láta starfrækja ferðaskrifstofu sem einkum skuli annast fyrirgreiðslu og skipulagningu ferða fyrir íslenska og erlenda ferðamenn.
    Ákvæði eru um almennar ferðaskrifstofur, þ.e. skilyrði til leyfis, upphæð tryggingarfjár og brottfall leyfis.
    Ákvæði eru um Ferðamálasjóð og er hann sagður vera stofnlánasjóður þeirra starfsgreina, sem ferðaþjónusta einkum byggist á. Hlutverk hans er að stuðla að þróun íslenskra ferðamála með lánveitingum.
    Þá var kveðið á um heimild ráðherra að ákveða að þeir sem skipuleggja hópferðir kaupi tryggingu vegna kostnaðar sem hljótast kann af leit eða björgun farþega og að sömu aðilar skuli hafa leiðsögumenn sem hlotið hafa til þess sérstaka þjálfun.
    Með lögum nr. 45/1980 er Stéttarsambandi bænda gert að tilnefna fulltrúa í Ferðamála­ráð.

Lög um ferðamál, nr. 4/1969, sbr. lög nr. 62/1971, nr. 42/1972 og nr. 71/1972.
    Engar efnisbreytingar áttu sér stað með þessum lögum heldur voru breytingar á lögum 29/1964 færðar inn í meginmál þeirra og þau síðan gefin út á nýjan leik.
    
Lög um ferðamál, nr. 29/1964, sbr. lög nr. 71/1964, nr. 36/1966, 12. gr. laga nr. 5/1968 og lög nr. 91/1968.
    Afnuminn var einkaréttur Ferðaskrifstofu ríkisins til að reka ferðaskrifstofu og settar reglur um almennar ferðaskrifstofur, þ.e. um starfsemi þeirra, nauðsyn leyfis og skilyrða fyr­ir því, tryggingarfé og um brottfall leyfis.
    Kveðið var á um skipan níu manna Ferðamálaráðs til að vera ráðgefandi fyrir ríkisstjórn og Alþingi, gera áætlanir og tillögur um skipan gistihúsamála og örva heilbrigða samkeppni o.fl. Ákvæði voru um starfssvið og hlutverk Ferðaskrifstofu ríkisins.
    Kveðið á um stofnun sérstaks Ferðamálasjóðs til að stuðla að byggingu gisti - og veitinga­húsa í landinu og bæta þannig skilyrði til að veita innlendu og erlendu ferðafólki sem bestar móttökur og aðbúð.
    Með lögum nr. 91/1968 var breytt ákvæðum um almennar ferðaskrifstofur, þ.e. skilyrðum til leyfis, upphæð tryggingarfjár og brottfall leyfis.
    
Lög um Ferðaskrifstofu ríkisins, nr. 33/1936, sbr. lög nr. 20/1947.
    Samkvæmt þeim er sett á stofn Ferðaskrifstofa ríkisins til að veita fræðslu um landið inn­an lands og utan með fræðsluritum, úvarpserindum auglýsingum o.fl. Hún hafði ein rétt til þess að starfrækja ferðaskrifstofu fyrir erlenda menn. Henni var einnig ætlað það hlutverk að „veita ókeypis leiðbeiningar um ferðalög umhverfis landið og á landinu“. Hún hafði heim­ild til að breyta gjaldskrám gistihúsa, veitingahúsa og fólksflutningabifreiða ef þær virtust ósanngjarnar að fengnum tillögum nefndar sem viðkomandi aðilar höfðu rétt til að tilnefna í. Þá átti hún að hafa eftirlit með hreinlæti á gistihúsum og veitingahúsum. Til að afla henni tekna var sett stimpilgjald af farseðlum með bifreiðum í áætlunarferðum.
    Með lögum 20/1947 var stimpilgjaldið fellt niður og þess í stað heimilað að sérleyfisgjald samkvæmt lögum um skipulag á fólksflutningum með áætlunarbifreiðum skyldi notað til að greiða kostnað við rekstur Ferðaskrifstofu ríkisins. Þá var Ferðaskrifstofu ríkisins falið að skipuleggja ódýrar orlofsdvalir og orlofsferðir og semja um afslátt af þeim.


Fylgiskjal II.


Myndrit.
Fylgiskjal III.


STOFNSAMNINGUR


Upplýsingamiðstöðvar ferðamála á Íslandi.


1. gr.


    Við undirritaðir aðilar eigum og rekum í sameiningu sameignarfélag undir nafninu „Upp­lýsingamiðstöð ferðamála á Íslandi“.
    Heimili og varnarþing félagsins er í Reykjavík.
    Stefnt skal að því að koma upp útibúum í einstökum landshlutum í samvinnu við ferða­málasamtök viðkomandi landshluta. Enn fremur skal stefnt að því að koma upp beinu sam­bandi á milli Upplýsingamiðstöðvarinnar og flughafnar Leifs Eiríkssonar, Keflavík.

2. gr.


    Tilgangur og verksvið Upplýsingarmiðstöðvar ferðamála á Íslandi skal m.a. vera eftirfar­andi:
    a. Að vera miðstöð upplýsingamiðlunar ferðamála í landinu. Starfsemin miðast eingöngu við ferðalög um Ísland.
    b. Að samræma og vera ráðgefandi um útgáfu kynningarefnis ferðaþjónustunnar í landinu.
    c. Að vera, í samstarfi við Ferðamálaráð, dreifingarmiðstöð á bæklingum, myndböndum og ritum ferðaþjónustunnar.
    d. Að gefa ferðaþjónustuaðilum kost á að kynna starfsemi sína í húsnæði Upplýsingamið­stöðvarinnar í sýningaraðstöðu sem þar skal gera ráð fyrir.
    e. Að sinna almennum fyrirspurnum sem lúta að ferðamöguleikum á Íslandi og annast bókunarþjónustu á gistingu eftir nánari ákvörðun eignaraðila.

3. gr.


    Eignarhluti hvers aðila um sig í félaginu er þannig: Ferðamálaráð Íslands 50%, Ferða­málanefnd Reykjavíkur, vegna Reykjavíkurborgar, 25%, og Ferðamálasamtök landshlutanna 25%.
    Kostnaður af rekstrinum skiptist milli aðila í hlutfalli við eignarhlutföll hvers um sig, en gagnvart lánadrottnum ábyrgjast aðilar skuldir einn fyrir alla og allir fyrir einn.

4. gr.


    Stjórn Upplýsingamiðstöðvarinnar skal skipuð sjö mönnum, þremur frá Ferðamálaráði Íslands, tveimur frá ferðamálanefnd Reykjavíkurborgar og tveimur frá ferðamálasamtökum landshlutanna. Aðilar skipa jafnframt varamenn í stjórnina. Formleg tilnefning stjórnar­manna fer, sbr. 7. gr., fram á aðalfundi Upplýsingamiðstöðvarinnar.
    Stjórnarmenn skulu skipaðir til tveggja ára í senn og hafa fullt umboð eignaraðila til töku allra nauðsynlegra ákvarðana vegna reksturs Upplýsingamiðstöðvarinnar. Stjórnin skiptir með sér verkum.
    Stjórnin skal koma saman a.m.k. fjórum sinnum á ári eða þegar að einhver stjórnarmanna krefst þess og tilgreinir fundarefni. Stjórnin er ákvörðunarbær þegar helmingur stjórnar­manna sækir fund, þó því aðeins að fulltrúar allra eignaraðila séu á fundi. Mikilvæga ákvörðun má þó ekki taka án þess að allir stjórnarmenn hafi haft tök á því að fjalla um málið. Stjórnin skal halda gjörðabók yfir fundi sína. Ferðamálastjóri hefur rétt til að sitja stjórnar­fundi með málfrelsi og tillögurétt.

5. gr.


    Stjórnin ræður forstöðumann Upplýsingamiðstöðvarinnar og annað nauðsynlegt starfs­fólk. Daglegur rekstur Upplýsingamiðstöðvarinnar er í höndum forstöðumanns. Í starfssamn­ingi er stjórnin gerir við forstöðumann skal kveða nánar á um verksvið hans og ábyrgð gagn­vart stjórn.
    Forstöðumaður Upplýsingamiðstöðvarinnar hefur prókúruumboð. Einungis stjórn félags­ins getur veitt öðrum aðilum prókúruumboð.
    Stjórn Upplýsingarmiðstöðvarinnar ber ábyrgð á gerð fjárhagsáætlunar fyrir komandi starfsár. Fyrstu drög hennar skulu liggja frammi á samráðsfundum, sbr. 7. gr., og skulu þau jafnframt send eignaraðilum. Athugasemdir eignaraðila við fyrirliggjandi drög að fjárhags­áætlun skulu berast stjórn eigi síðar en 15. desember ár hvert. Stjórn Upplýsingamiðstöðvar­innar skal ganga frá og samþykkja endanlega fjárhagsáætlun starfsársins fyrir 15. janúar.

6. gr.


    Halda ber aðalfund Upplýsingamiðstöðvar ferðamála á Íslandi fyrir 1. apríl ár hvert. Hver eignaraðili á rétt á að senda á eigin kostnað allt að þrjá fulltrúa á aðalfund. Atkvæðis­réttur á aðalfundi er í samræmi við eignarhlutdeild aðila. Aðalfund skal boða bréflega með a.m.k. tveggja vikna fyrirvara. Dagskrá aðalfundar er svohljóðandi:
          Skýrsla stjórnar.
          Lagðir fram endurskoðaðir reikningar til samþykktar.
          Lögð fram samþykkt fjárhagsáætlun.
          Tilnefningar eignaraðila í stjórn skv. 4. gr.
          Kosnir tveir fjármálalegir skoðunarmenn.
          Önnur mál.

7. gr.


    Í október ár hvert skal halda samráðsfund eignaraðila. Hver eignaraðili skal senda eigi færri en þrjá fulltrúa, sem ekki sitja í stjórn Upplýsingamiðstöðvarinnar, á samráðsfund þennan. Eignaraðilar greiða sjálfir kostnað við þátttöku fulltrúa sinna.
    Tilgangur samráðsfunda er að vera leiðbeinandi fyrir stjórn Upplýsingamiðstöðvarinnar við mótun starfseminnar. Samráðsfundirnir eru vettvangur skoðanaskipta en ekki ákvörðun­artöku. Á samráðsfundum skal, sbr. 3. mgr. 5. gr., leggja fram fyrstu drög að fjárhagsáætlun komandi árs. Stjórnin boðar til samráðsfundar bréflega með a.m.k. tveggja vikna fyrirvara. Tillaga að dagskrá samráðsfundar skal koma fram í fundarboði.

8. gr.


    Yfir viðskipti félagsins og hag skulu gerð nákvæm reikningsskil á ári hverju við áramót. Skal þeim lokið í síðasta lagi fyrir 15. febrúar næstan á eftir.
    Á fyrsta stjórnarfundi eftir að nýskipuð stjórn kemur saman skal hún kjósa löggiltan end­urskoðanda sem í samræmi við góða endurskoðunarvenju endurskoðar ársreikninga Upplýs­ingamiðstöðvarinnar. Endurskoðaðir ársreikningar skulu sendir eignaraðilum fyrir 1. mars ár hvert.

9. gr.


    Hver einstakur aðili getur sagt sig úr félagi þessu með sex mánaða fyrirvara, þó þannig að úrsögn tekur ekki gildi fyrr en um næstu áramót eftir að uppsagnarfresturinn er liðinn. Ef félagið á þá ekki fyrir skuldum skal sá aðili sem segir sig úr félaginu greiða í samræmi við eignaraðild sína sinn hluta þeirra skulda sem umfram er eignir. Öðrum aðilum Upplýsinga­miðstöðvarinnar er heimilt að halda áfram rekstri félagsins með sama firmanafni, þrátt fyrir úrsögn einstakra aðila, svo lengi sem tilgangur félagsins er að reka sjálfstæða og óháða Upp­lýsingamiðstöð ferðamála á Íslandi.
    Ef félaginu er slitið skal gera upp reikninga þess og skiptast þá eignir þess og skuldir milli eignaraðila í samræmi við eignarhlutföll þeirra.

10. gr.


    Mál út af samningi þessum má reka fyrir bæjarþingi Reykjavíkur.
    Samningur þessi er gerður í níu samhljóða eintökum, eitt handa hverjum undirritaðra og eitt til varðveislu hjá lögmanni Upplýsingarmiðstöðvarinnar.Fylgiskjal IV.


Ferðamálasamtök landshlutanna.


    Tilgangur ferðamálasamtakanna er að stuðla að þróun og uppbyggingu í ferðaþjónustu, standa sameinginlega að kynningu og veita þeim er starfa við ferðaþjónustu ýmiss konar upp­lýsingar og ráðgjöf.
    Fyrstu ferðamálasamtökin voru stofnuð á Vesturlandi árið 1982 og síðan hefur þeim fjölgað smátt og smátt og eru nú ferðamálasamtök starfrækt í öllum kjördæmum landsins.
    Þau eru ferðamálasamtök Vesturlands, Vestfjarða, Norðurlands, Austurlands, Suður­lands, Suðurnesja og ferðamálasamtök höfuðborgarsvæðisins.
    Með lögum um skipulag ferðamála 1985 öðluðust samtökin rétt til setu í Ferðamálaráði.
    Ferðamálasamtökin eru samtök þeirra sem hagsmuna eiga að gæta í ferðaþjónustu á hverju svæði, sveitarfélög, einstaklingar og fyrirtæki. Í flestum þeirra eru sjö til níu manna stjórnir en ferðamálasamtökin eru misjafnlega uppbyggð í kjördæmunum.
    Í sumum er lögð áhersla á að hafa sérstök svæðafélög innan kjördæmisins sem síðan mynda ferðamálasamtökin í kjördæminu öllu og er þá stjórn samtakanna yfirleitt skipuð ein­um manni frá hverju ferðamálafélagi. Í öðrum kjördæmum er miðað við að fulltrúar séu frá sem flestum svæðum innan kjördæmisins.
    Í enn öðrum er reynt að gæta þess að í stjórn séu bæði sveitarstjórnarmenn og þeir sem starfa við ferðaþjónustu.
    Ferðamálasamtökin hafa með sér laustengt samstarf og halda reglulega samráðsfundi, hafa þau m.a. komið sameiginlega fram gagnvart stjórnvöldum. Ferðamálasamtökin hafa fjármagnað rekstur sinn með árgjöldum sem eru mjög breytilega en oftast er tekið mið af um­fangi fyrirtækja og stærð sveitarfélaga þegar þau eru ákveðin.
    

Upplýsingamiðstöð ferðamála á Íslandi.


    Upplýsingamiðstöð ferðamála á Íslandi var opnuð í Reykjavík í júlí 1987. Rekstur Upp­lýsingamiðstöðvarinnar er kostaður af stofnaðilum, þ.e. Ferðamálaráði 50%, ferðamálanefnd Reykjavíkurborgar 25% og ferðamálasamtökum landshlutanna 25%.
    Starfsemi Upplýsingamiðstöðvarinnar er enn sem komið er eingöngu í Reykjavík en í stofnsamningi er gert ráð fyrir því að komið verði upp útibúum í einstökum landshlutum í samvinnu við ferðamálasamtök í viðkomandi landshluta. Upplýsingamiðstöðin í Reykjavík hefur náið samband við aðrar upplýsingamiðstöðvar sem reknar eru víða um land af einkaað­ilum, svo sem á Akureyri, Egilsstöðum og Ísafirði. Tilgangur og verksvið Upplýsingamið­stöðvar ferðamála er samkvæmt stofnsamningi m.a.:
Að vera miðstöð upplýsingamiðlunar ferðamála í landinu.
Að samræma og vera ráðgefandi um útgáfu kynningarefnis fyrir ferðaþjónustuna.
Að sjá um dreifingu bæklinga.
Að svara almennum fyrirspurnum um ferðalög um Ísland.Fylgiskjal V.


Drög að reglugerð um ferðaþing.

    

1. gr.


    Ferðaþing kemur saman árlega. Ferðamálaráð boðar til þingsins, undirbýr dagskrá þess og leggur fyrir það skýrslu um störf sín.

2. gr.


    Ferðaþing er ráðgefandi samkoma um málefni ferðaþjónustunnar. Það fylgist með og met­ur þróun ferðamála og gerir tillögur um breytingar á opinberri ferðamálastefnu eftir því sem nauðsynlegt er talið. Þingið fjallar um aðsend erindi. Það kýs aðal - og varafulltrúa í Ferða­málaráð samkvæmt ákvæðum 5. gr. reglugerðarinnar.

3. gr.


    Rétt til setu á ferðaþingi hafa:
          Fulltrúar frá eftirtöldum samtökum: (upptalning).
          Ferðamálaráð, aðalmenn og varamenn.
          Einn fulltrúi fyrir hvern þingflokk á Alþingi.
          Eftirtaldir embættismenn: (upptalning).
    Áheyrnarfulltrúum er heimilt að fylgjast með störfum þingsins eftir því sem húsrúm leyfir.

4. gr.


    Formaður Ferðamálaráðs setur þingið og stýrir því uns það hefur kosið forseta. Þingið setur sér þingsköp.
    Seta á ferðaþingi er ólaunuð, en hlutaðeigandi greiða kostnað sinna fulltrúa. Annar nauð­synlegur kostnaður af þinghaldinu greiðist úr ríkissjóði samkvæmt úrskurði ráðherra.

5. gr.


    Ferðamálaráð er skipað níu mönnum. Ráðherra skipar formann ráðsins til tveggja ára og varamann hans sem jafnframt er varaformaður. Tilkynna skal um skipun formanns við upphaf fyrsta ferðaþings. Á þinginu eru valdir átta fulltrúar til tveggja ára í senn, fjórir samkvæmt tilnefningu, en fjórir kosnir óhlutbundinni kosningu.
          Eftirtaldir tilnefna einn fulltrúa hver í Ferðamálaráð og varamann: Félag íslenskra ferðaskrifstofa, Flugleiðir hf., Náttúruverndarráð, Samband veitinga - og gistihúsa. Til­kynna skal nöfn þessara fulltrúa til kjörnefndar á ferðaþingi.
          Kjósa skal á Ferðaþingi í óhlutbundinni kosningu fjóra fulltrúa í Ferðamálaráð til tveggja ára í senn, tvo hvert ár, svo og varamenn þeirra. Ekki eru kjörgengir stjórnar­menn eða aðrir forsvarsmenn þeirra sem tilnefna í ráðið.
          Atkvæðisrétt við kosningu í Ferðamálaráð hafa fulltrúar skv. a - , b - og c - liðum 3. gr.

6. gr.


    Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 3. gr. laga nr. ..., um ferðaþjónustu.


(31 síða mynduð. Athugið pdf-skjalið)