Ferill 95. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1994. – 1064 ár frá stofnun Alþingis.
118. löggjafarþing. – 95 . mál.


97. Beiðni um skýrslu



frá landbúnaðarráðherra um framkvæmd búvörusamnings.

    

Frá Ragnari Arnalds, Steingrími J. Sigfússyni, Ólafi Ragnari Grímssyni,


Svavari Gestssyni, Guðrúnu Helgadóttur, Hjörleifi Guttormssyni,


Ragnari Elbergssyni, Kristni H. Gunnarssyni og Margréti Frímannsdóttur.



    Með vísan til 46. gr. laga um þingsköp Alþingis óskum við ofangreindir alþingismenn eftir því að landbúnaðarráðherra flytji Alþingi skýrslu um framkvæmd búvörusamnings frá 11. mars 1991.
    Í skýrslunni skulu m.a. koma fram eftirtaldar upplýsingar:
     1.     Hvernig hefur tekist að ná eftirtöldum markmiðum:
                   a.     að stuðla að því að í landinu geti þróast hagkvæmur og öflugur landbúnaður,
                   b.     að lækka vöruverð til neytenda án þess að það komi niður á afkomumöguleikum bænda,
                   c.     að koma á og viðhalda jafnvægi í framleiðslu og sölu mjólkur- og sauðfjárafurða,
                   d.     að lækka opinber útgjöld til þessarar framleiðslu,
                   e.     að stuðla að því að landbúnaður verði í sem bestu samræmi við landkosti og æskileg landnýtingarsjónarmið?
     2.     Hvernig tókst að ná markmiðum um kaup á fullvirðisrétti í sauðfjárrækt? Var því fylgt eftir að þeir aðilar lóguðu fjárstofni sínum sem seldu fullvirðisrétt og fengu förgunarbætur fyrir fullorðið fé?
     3.     Hver var niðurskurður á greiðslumarki á einstökum svæðum í kjölfar kaupa ríkissjóðs?
     4.     Hvernig afsetti ríkissjóður þær birgðir kindakjöts sem voru til í landinu við lok fyrri búvörusamnings? Hver urðu áhrif þess fyrir sauðfjárbændur?
     5.     Hve mikið fjármagn hefur runnið til Framleiðnisjóðs landbúnaðarins á árunum 1992–94 í samræmi við viðauka II við búvörusamninginn?
     6.     Hve mikið fjármagn rann til Jarðasjóðs á árunum 1992 og 1993 í samræmi við viðauka II?
     7.     Hve mikið fjármagn hefur runnið til Byggðastofnunar á árunum 1992–94 í samræmi við viðauka II?
     8.     Hve mikið fjármagn hefur runnið til Lífeyrissjóðs bænda á árunum 1992–94, sbr. viðauka II?
     9.     Hver er niðurstaða í endurskoðunar á kerfi verðlagningar sauðfjárafurða og kostum umboðsviðskipta, sbr. bókun II?
     10.     Hver hefur orðið þróun í viðskiptum með fullvirðisrétt/greiðslumark með hliðsjón af tilflutningi greiðslumarks milli landshluta og verðlagningar þess?
     11.     Hafa viðskipti með greiðslumark orsakað hættu á umtalsverðri byggðaröskun eða gengið gegn hagræðingarsjónarmiðum, sbr. bókun III?
     12.     Hefur skipan fimmmannanefndar verið breytt, sbr. bókun IV?
     13.     Hefur uppgjöri framleiðsluársins verið breytt frá verðlagsári yfir í almanaksár, sbr. bókun VI, eða er það í undirbúningi?
     14.     Óskað er eftir suðurliðuðu yfirliti um þá fjármuni sem runnið hafa til landgræðslu- og skógræktarstarfa á árunum 1992–94, sbr. bókun VI, og að þær fjárveitingar séu bornar saman við framlög áranna þar á undan.
     15.     Hvaða skipulagsbreytingar hafa verið gerðar á rannsókna- og leiðbeiningastarfsemi í landbúnaði í framhaldi af bókun VII?
     16.     Hvernig hefur framkvæmd á bókun VIII um ráðgjöf og leiðbeiningar fyrir bændur og endurmenntun og þjálfun þeirra til annarra starfa verið háttað? Fengu þeir bændur aðstoð við að koma jörðum sínum í verð sem þurftu á því að halda?
     17.     Hafa einhver ákvæði samningsins verið endurskoðuð og ef svo er, á hvern hátt?
     18.     Hafa samningsaðilar ræðst við vegna breytinga á starfsumhverfi landbúnaðarins með tilkomu alþjóðasamninga og innflutnings búvara, sbr. ákvæði 9. gr.?
     19.     Er hafin úttekt á framkvæmd samningsins, sbr. 10. gr.? Hafa viðræður um áframhaldandi stefnumörkun verið undirbúnar, sbr. 10. gr.?
    Þess er óskað að skýrslan verði tekin til umræðu á Alþingi fljótlega eftir að henni hef ur verið útbýtt meðal þingmanna, einnig að skýrslubeiðnin verði birt fremst með svari ráðherra.

Greinargerð.


    Senn verða fjögur ár liðin frá því núgildandi búvörusamningur var gerður milli bændasamtakanna og ríkisvaldsins. Fram hefur komið að mikilsverður árangur hefur náðst á samningstímanum í þá átt að draga úr opinberum útgjöldum til landbúnaðarmála. Einnig hefur náðst samræmi milli þess hluta framleiðslunnar sem nýtur stuðnings og inn anlandsmarkaðar og þróun í vöruverði virðist hafa orðið neytendum hagstæð.
    Sú róttæka aðlögun að breyttum aðstæðum, sem hinn hefðbundni landbúnaður hefur gengið í gegnum, hefur orðið bændum erfið og kemur þar margt til, ekki síst versnandi atvinnuástand og þrengri atvinnumöguleikar samtímis því að framleiðslan og þar með tekjur bænda hafa dregist saman. Svo virðist sem mikið vanti upp á að ríkisvaldið hafi stutt við bakið á landbúnaðinum á þessu erfiða aðlögunar- og hagræðingartímabili eins og ætlunin var, sérstaklega hvað það varðar að ný störf og tekjur komi í stað þeirra sem horfið hafa með samdrætti í hefðbundinni framleiðslu.
    Íslenskur landbúnaður stendur á miklum tímamótum, bæði vegna mikilla breytinga og aðlögunar sem hann hefur gengið í gegn um en einnig vegna innflutnings landbúnað arvara sem samið hefur verið um. Óþarft er að fjölyrða um mikilvægi þess að greininni verði sköpuð lífvænleg skilyrði til að lifa af og blómgast með tilheyrandi verðmætasköp un og atvinnu. Slíkt er ekki síst mikilvægt nú á tímum fjöldaatvinnuleysis sem því miður hefur hafið innreið sína í tíð ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar, en ljóst er að landbúnaður inn og úrvinnsla landbúnaðarvara skapar þúsundir starfa.
    Mikilvæg forsenda þess að unnt sé að ræða stöðu landbúnaðarins er að fyrir liggi vandaðar upplýsingar um hvernig til hefur tekist með framkvæmd gildandi búvörusamn ings og hver séu áform stjórnvalda um áframhaldandi stefnumörkun í málefnum atvinnu greinarinnar.