Ferill 136. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1994. – 1064 ár frá stofnun Alþingis.
118. löggjafarþing. – 136 . mál.


142. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 61/1994, um Rannsóknarráð Íslands.

Flm.: Tómas Ingi Olrich, Björn Bjarnason, Guðjón Guðmundsson.



1. gr.

    1. og 2. mgr. 3. gr. laganna orðast svo:
    Menntamálaráðherra skipar ellefu einstaklinga í Rannsóknarráð Íslands til þriggja ára:
     a .     Þrjá samkvæmt tillögum skóla á háskólastigi þar sem rannsóknir eru stundaðar og stofnana á sviði þjóðlegra fræða og Vísindafélags Íslendinga.
     b .     Þrjá samkvæmt tillögum rannsóknastofnana atvinnuveganna og annarra rannsóknastofnana utan verksviðs menntamálaráðuneytis.
     c .     Þrjá samkvæmt tillögum Alþýðusambands Íslands og Vinnuveitendasambands Íslands.
     d .     Tvo án tilnefningar að höfðu samráði við ríkisstjórn.
    Aðilar, sem tilnefna menn til setu í Rannsóknarráði Íslands skv. a-, b- og c-liðum hér að framan, skulu hver tilnefna tiltekinn fjölda einstaklinga samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð sem ráðherra setur. Menntamálaráðherra skipar þrjá úr hverjum hópi og tvo sem tilnefndir eru að höfðu samráði við ríkisstjórn eða alls ellefu einstaklinga. Við skip un í ráðið skal menntamálaráðherra gæta þess að jafnvægi sé á milli vísinda og tækni og tryggja sjálfstæði ráðsins þannig að það geti sinnt eftirlitshlutverki skv. 7. tölul. 2. gr. Þá skipar menntamálaráðherra jafnmarga varamenn úr hópi þeirra sem tilnefndir eru með sama hætti.

2. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1996.

Greinargerð.


    Alþingi setti lög um Rannsóknarráð Íslands á 117. löggjafarþingi. Er þar orðinn til einn stjórnunarvettvangur rannsókna- og vísindastarfa í landinu þar sem áður voru tveir, Vísindaráð Íslands og Rannsóknaráð ríkisins. Hagnýtar rannsóknir í þágu atvinnuveg anna og grunnrannsóknir heyra þar með undir sama ráðið sem gegnir víðtæku samræm ingarhlutverki, stefnumörkun, ráðgjöf til stjórnvalda og eftirlits- og kynningarhlutverki.
    Í 3. gr. laganna er kveðið á um hverjir skuli gera tillögur um setu í ráðinu. Eru þar til nefndar m.a. vísindastofnanir og rannsóknastofnanir atvinnuveganna. Ekki er kveðið á um að atvinnulífið geti með beinum hætti haft áhrif á skipan í ráðið, eins og t.d. rann sóknastofnanir. Rannsóknarráð Íslands fjallar þó á mjög breiðum grundvelli um hagnýtar rannsóknir, nýsköpun í atvinnulífi og stefnumótun í rannsókna- og vísindastarfi. Ber því að beita sér fyrir áætlanagerð um rannsóknir og þróunarstarf í samráði við atvinnulífið.
    Rannsóknarráð Íslands veitir styrki til rannsókna, m.a. til þeirra stofnana sem tillögur gera um setu í ráðinu. Þess utan er ráðinu gert með lögum að meta árangur rannsókna starfs og gera tillögur til úrbóta ef starfsemin er ófullnægjandi, skipulag eða skilyrði ófullkomin eða ákveðin rannsóknasvið vanrækt. Af þessum sökum m.a. er ljóst að mikils er vert að ráðið sé óháð þeim rannsóknaraðilum sem það á að veita aðhald, sem og að at vinnulífið eigi aðgang í ráðið ekki síður en rannsókna- og vísindastofnanir.
    Þegar fjallað var um frumvarp til laga um Vísinda- og tækniráð Íslands í menntamála nefnd Alþingis bárust nefndinni ábendingar um þá meinbugi á málinu að ekki væri gert ráð fyrir fulltrúum frá atvinnulífinu við skipan ráðsins. Athugasemdir, sem lutu að þessu atriði, bárust menntamálanefnd frá Rannsóknaráði ríkisins, millifundanefnd háskólaráðs Háskóla Íslands, Samtökum iðnaðarins, Iðntæknistofnun, Alþýðusambandi Íslands og Rannsóknastofnun landbúnaðarins. Eru þessar umsagnir birtar sem fylgiskjöl með frum varpinu.
    Menntamálanefnd brást við þessum ábendingum með því að fella inn í 3. gr. laganna ákvæði um að menntamálaráðherra skyldi við skipan í ráðið gæta þess að jafnvægi yrði milli vísinda og tækni og að sjónarmið atvinnulífsins kæmu fram í ráðinu. Við fram kvæmd laganna hefur þessa ekki verið gætt að mati flutningsmanna, né heldur hins að stofnanir, sem Rannsóknarráð Íslands skal lögum samkvæmt veita aðhald, geti ekki haft óeðlilega mikil áhrif á störf þess.
    Í frumvarpinu er farin sú leið að fjölga ráðsmönnum um tvo. Gert er ráð fyrir að Al þýðusamband Íslands og Vinnuveitendasamband Íslands geri tillögur um ráðsmenn sam kvæmt ákvæðum þar að lútandi sem sett verði með reglugerð. Þeim einstaklingum sem ráðherra skipar án tilnefningar er fækkað um einn frá því sem er í lögunum. Ráðherra hef ur samkvæmt lögunum mikil áhrif á val í Rannsóknarráð og þykja áhrif hans á heildar skipan ráðsins tryggð með þessum hætti.
    Ákvæði frumvarpsins um gildistöku taka mið af því að nú þegar hefur nýskipað Rann sóknarráð Íslands ráðist í það mikla verkefni að skipuleggja starf ráðsins á nýjum for sendum. Því er gildistíminn miðaður við 1. janúar 1996 þannig að ráðinu gefist tækifæri til að ljúka því undirbúningsstarfi sem nú stendur yfir.
    Ekki er gert ráð fyrir að frumvarpið hafi áhrif á skipun fagráða ellegar á ráðningu framkvæmdastjóra.



Fylgiskjal.


Umsagnir um 3. gr. frumvarps til laga um Vísinda- og tækniráð Íslands


sem lutu að áhrifum atvinnulífsins á skipan í ráðið.



Rannsóknaráð ríkisins:
    Rannsóknaráð telur það fyrirkomulag skynsamlegt að tilnefningar til ráðsins séu fleiri en endanlega skipaðir fulltrúar. Með tilnefningum á hæfi fulltrúanna að vera tryggt, en með endanlegu vali ráðherra gefst svigrúm til að skapa jafnvægi sjónarmiða og losa um bein hagsmunatengsl þar sem ráðsmenn eru valdir persónulega úr stærri hópi.
    Hins vegar telur ráðið það einn meginágalla frumvarpsins að skipan ráðsins skv. 3. gr. gerir ekki ráð fyrir fulltrúum með tilnefningu frá samtökum atvinnulífsins. Með hliðsjón af heildarhlutverki hins fyrirhugaða ráðs er mikilvægt að nokkurt jafnræði ríki milli sjón armiða sem áður voru nefnd og að stjórnvöld, háskólar, rannsóknastofnanir og „notendur“ eigi þar sem jafnastan rétt. Rannsóknaráð leggur þunga áherslu á að svo stór hluti „neytendahópsins“, sem atvinnulífið er, eigi rödd í ráðinu. Ekki er sjálfgefið að menn úr atvinnulífi veljist heppilega með þeim hætti sem gert er ráð fyrir í greinargerð með frum varpinu og reiknað er með í væntanlegri greinargerð. Rannsóknaráð leggur því til að ann aðhvort verði t.d. tveimur fulltrúum atvinnulífs bætt við í ráðið og það skipað 11 manns í allt eða að skipan ráðsins verði endurskoðuð með ofangreinda fjórskiptingu í huga. Íhuga mætti að tveir fulltrúar atvinnulífs komi í stað eins fulltrúa ríkisstjórnar skv. c-lið og eins fulltrúa rannsóknastofnana utan verksviðs menntamálaráðuneytisins skv. b-lið og verði fulltrúar tilnefndir af læknaráðum Landspítala og Borgarspítala sameinaðir full trúaskipun frá háskólastiginu skv. a-lið. Fulltrúar atvinnulífs verði valdir úr hópi a.m.k. tvöfalt fleiri tilnefndra.

Millifundanefnd háskólaráðs:
    Mikilvægasta hlutverk sameinaðs Vísinda- og tækniráðs varðar ráðgjöf og stefnumót un fyrir ríkisstjórn og Alþingi, og þátttöku í fjölþjóðlegu samstarfi í vísinda- og tækni málum fyrir Ísland. Vísindastefna ráðsins þarf að taka mið af alþjóðlegum kröfum og ís lenskum aðstæðum. Hún þarf fyrst og síðast að byggjast á fræðilegum forsendum og hafa langtímamarkmið að leiðarljósi fremur en stefnu stjórnvalda hverju sinni. Á hinn bóginn munu stjórnvöld einnig leita álits ráðsins á málefnum sem varða pólitíska stefnumótun á hverjum tíma.
    Með hliðsjón af meginhlutverki Vísinda- og tækniráðs er mikilvægt að meiri hluti ráðsmanna hafi náð það góðum árangri í rannsóknastörfum að þeir njóti alþjóðlegrar við urkenningar og að þeir hafi jafnframt reynst hæfir stjórnendur. Einnig er mikilvægt að í ráðinu sitji reyndir og farsælir stjórnendur úr atvinnulífi.
    Vísbendingar um alþjóðlega viðurkenningu í rannsóknum eru m.a.:
     1 .     Birting greina í virtum fræðiritum.
     2 .     Beiðnir um að meta handrit að greinum fyrir alþjóðlega viðurkennd fagtímarit.
     3 .     Beiðnir um að skrifa yfirlitsgreinar í fagtímarit sem gera miklar kröfur eða kafla í bækur sem eru gefnar út af virtum forlögum.
     4 .     Boð um að flytja fyrirlestra á alþjóðlegum ráðstefnum.
     5 .     Beiðnir um að prófa doktorsefni við erlenda háskóla.
     6 .     Beiðnir um að taka þátt í úttektum á rannsóknastofnunum eða fræðasviðum erlendis.
     7 .     Þátttaka í ritstjórnarnefndum (Editorial Boards).
     8 .     Styrkveitingar úr virtum vísinda- og rannsóknasjóðum.
    Til að tryggja sem best að hæfustu og reyndustu vísinda- og rannsóknamenn Íslend inga veljist í Vísinda- og tækniráð væri æskilegt að lögbinda að menntamálaráðherra leiti umsagnar Vísindafélags Íslendinga um þá vísinda- og rannsóknamenn sem tilnefndir eru í ráðið. Sérstakur fjölfræðilegur ráðgjafahópur ætti að geta gefið slíka umsögn.
    A-liður verði svohljóðandi:
  a.    Þrjá samkvæmt tillögu Háskóla Íslands og annarra skóla á háskólastigi þar sem rannsóknir eru stundaðar og stofnana á sviði þjóðlegra fræða og vísinda.
    Á undan síðustu málsgrein 3. gr. komi viðbótarmálsgrein: „Ráðherra skipar í Vísinda- og tækniráð að fenginni umsögn Vísindafélags Íslendinga.“

Iðntæknistofnun:
    Varðandi skipun í ráðið er rannsóknastofnunum atvinnuveganna ætlaður hlutur í samræmi við hlut þeirra í rannsóknum hér á landi. Hins vegar er við skipun ráðsins ekki gert ráð fyrir atvinnulífsfulltrúum, nema fulltrúar menntamálaráðuneytis/ríkisstjórnar verði slíkir. Eins og ítrekað hefur komið fram í úttektum þarf að auka hlut atvinnulífsins bæði í fjármögnun og framkvæmd rannsókna. Þannig er hlutfall opinberra aðila í fjármögnun rannsókna hér á landi svipað og á Norðurlöndum en framlag atvinnulífs mun minna. Þó óraunhæft sé að hlutur atvinnulífs verði svipaður hér og gerist þar sem stórfyrirtæki eru burðarás rannsóknastarfsemi þarf að tryggja tengsl við atvinnulífið.

Vísindafélag Íslendinga:
    Stjórn félagsins er sammála um að megintillaga frumvarpsins um að sameina Vísinda ráð og Rannsóknaráð í eitt ráð geti stuðlað að markvissari stefnumótun á sviði vísinda og tækni.
    Hún lýsir einnig ánægju sinni yfir því að Vísindafélaginu skuli falið að tilnefna mann í hið nýja Vísinda- og tækniráð.
    Mjög er brýnt að í ráðið veljist hinir hæfustu menn hverju sinni og því leggur stjórnin til að settar verði viðmiðunarreglur sem tryggi hæfi manna til setu í ráðinu.
    Stjórnin vill taka undir tillögu Háskóla Íslands um að leitað verði umsagnar Vísinda félags Íslendinga um þá vísinda- og rannsóknamenn sem tilnefndir verða í Vísinda- og tækniráð. Unnið er að breytingum á störfum félagsins, sbr. afrit af bréfi til vísindanefndar Háskóla Íslands, og algengt er erlendis að vísindafélög gegni slíkum ráðgjafarhlutverk um. Ef Vísindafélag Íslendinga öðlast slíkt ráðgjafarhlutverk er ekki eðlilegt að það til nefni mann í Vísinda- og tækniráð.

Alþýðusamband Íslands:
    Miðstjórn ASÍ telur ákaflega mikilvægt að mótuð verði heilsteypt stefna í vísinda- og tæknimálum sem nýst geti til markvissari nýsköpunarstarfsemi í framtíðinni. Miðstjórn ASÍ telur það einnig mikilvægt að tryggt sé að sjónarmið og þarfir atvinnulífsins fái betur notið sín við ákvörðun verkefna og úthlutun styrkja en hingað til. Það flókna kerfi, sem hér er lagt til, telur miðstjórn ASÍ að veiti ráðherra of mikið sjálfsákvörðunarvald í skip un ráðsins þannig að óvissa geti ríkt um það hvort sjónarmið atvinnulífsins fái notið sín í umfjöllun þess.

Samtök iðnaðarins:
    Í ljósi mikilvægis virkra tengsla og jafnræðis milli háskóla, rannsóknastofnana og at vinnulífs vekur 3. gr. frumvarpsins furðu. Það er tryggilega gengið frá tilnefningum frá háskólaumhverfinu í a-lið og rannsóknastofnanaumhverfinu í b-lið. Ekki hefur þótt ástæða til að atvinnulífið tilnefni fulltrúa á sama hátt heldur á það að vera á hendi ráðherra að gæta þess að sjónarmið atvinnulífsins komi fram í ráðinu undir c-lið.
    Þessi tilhögun getur ekki talist viðunandi að mati Samtaka iðnaðarins í ljósi vaxandi samkeppni milli fyrirtækja og stofnana um fjármagn til nýsköpunar. Ef raunverulegur vilji er fyrir því að auka þátt fyrirtækja í rannsókna- og þróunarstarfsemi verður með markvissum hætti að byggja upp þekkinguna innan fyrirtækjanna. Til þess að svo geti orðið verða fyrirtækin að sitja við sama borð og stofnanirnar en ekki vera upp á náð og miskunn þeirra komin.
    Samtök iðnaðarins leggja til að 3. gr. frumvarpsins verði breytt, t.d. þannig að há skólaumhverfið, rannsóknastofnanirnar og atvinnulífið fengju hver sína tvo fulltrúa. Rík isstjórnin gæti síðan tilnefnt sína þrjá fulltrúa án þess að raska ofangreindu jafnvægi, en einnig kæmi til greina að auka vægi atvinnulífsins enn undir þessum lið.

Rannsóknastofnun landbúnaðarins:
    Frumvarpið leggur mikla áherslu á nauðsyn vísinda og tækni í þróun og uppbyggingu samfélagsins. Í ljósi þessa er mjög mikilvægt að tryggja sem best virka þátttöku atvinnu lífsins í störfum ráðsins. Á meðan Stjórnarráðið er að hluta skipt eftir atvinnugreinum er skynsamlegast að tryggja slíka þátttöku með því að atvinnuvegaráðuneytin tilnefni einnig til setu í ráðinu. Þetta mun einnig leiða til aukinnar vitundar um mikilvægi ráðsins í stjórnmálaumræðunni.
    Tilnefning til setu í ráðinu er „þungur“ ferill. Af þeim sökum mætti lengja skipunar tímann í fjögur ár. Samtímis væri þá einnig hægt að tryggja aukna samfellu í starfsemi ráðsins með því að skipa helming ráðsmanna til tveggja ára í upphafi þannig að stórfelld mannaskipti verði ekki á tilteknum degi. Þetta mun og draga úr líkum á því að stjórn málaskoðanir fái hlutfallslega þungt vægi við skipan í ráðið.