Ferill 137. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


    
1994. – 1064 ár frá stofnun Alþingis.
118. löggjafarþing. – 137 . mál.


144. Tillaga til þingsályktunar



um vegasamband allt árið milli Austurlands og Norðurlands.

Flm.: Hjörleifur Guttormsson, Steingrímur J. Sigfússon.



    Alþingi ályktar að fela samgönguráðherra að láta Vegagerð ríkisins ljúka athugun á tengingu Austurlands og Norðurlands með öruggu vegasambandi allt árið um byggðir á Norðausturlandi og um Vopnafjörð, með jarðgöngum undir Hlíðarfjöll. Þessi kostur verði borinn saman við aðra möguleika og síðan mótuð stefna í tengslum við endurskoðun vegáætlunar.
     Við athugun málsins verði haft samráð við heimaaðila í báðum landshlutum og lokaáliti skilað til Alþingis fyrir 1. febrúar 1995.

Greinargerð.


    Mikil nauðsyn er á að bæta vegasamband milli Austurlands og Norðurlands. Núverandi vegur yfir Fjöllin er afar langt frá því að uppfylla kröfur sem gera verður um aðalleið milli þessara landshluta. Hann liggur á löngum köflum í óbyggðum í 500–650 metra hæð og hefur litlu verið til hans kostað um áratugi. Afleggjari frá þessum vegi til Vopnafjarðar er um 70 km á lengd og hann nýtist sáralítið þeim byggðum sem norðar liggja.
     Síðustu árin hefur nokkuð verið rætt um hvernig rétt sé að leggja vegi á Norðausturlandi, horft til framtíðar. Stærsta byggðarlagið á þessu svæði er Vopnafjörður og eðlilega hefur spurningin um samgöngur þaðan austur á Hérað og við nágrannabyggðirnar til norðurs verið ráðandi í umræðunni. Fyrir orð þingmanna Austurlands gerði starfshópur, skipaður fulltrúum frá Vegagerð ríkisins, ýmsar athuganir á vegasambandi á þessu svæði og skilaði í apríl 1990 skýrslu sem ber heitið „Vegasamband byggða á Norðausturlandi“; hefur hún margháttaðan fróðleik að geyma.
     Síðan hefur með endurbótum á vegi um Hellisheiði fengist bráðabirgðabót á vegasambandi milli Vopnafjarðar og Héraðs en áfram brennur á mönnum spurningin um frambúðarlausn sem aðeins getur fengist með jarðgöngum milli ofangreindra byggðarlaga.
    Snemma á árinu 1993 komu fram hugmyndir um að skynsamlegt gæti verið að stefna að því að vetrarleiðin eða svonefnd heilsárstenging milli Austurlands og Norðurlands lægi um Vopnafjörð, annaðhvort með ströndinni og yfir Öxarfjarðar- og Reykjaheiði áleiðis til Akureyrar eða upp úr Vesturdal í Vopnafirði og yfir Einbúasand að Grímsstöðum og áfram til Mývatns. Fyrsti flutningsmaður þeirrar þingsályktunartillögu, sem hér er flutt, skrifaði um mál þetta grein sem birtist m.a. í Tímanum og Degi í júní 1993. Þar var hvatt til að nýjar leiðir yrðu skoðaðar til hlítar áður en ráðist verður í að byggja upp nýjan veg yfir Fjöllin. Viðbrögð við þessum hugmyndum voru afar jákvæð, einkum í byggðarlögum á Norðausturlandi.
     Umræddar vegtengingar voru til umræðu á aðalfundi Samtaka sveitarstjórna í Austurlandskjördæmi, SSA, 26.–27. ágúst 1993 og viku síðar, 2.–3. september 1993, á aðalfundi Eyþings, sveitarstjórnarsamtakanna í Norðurlandskjördæmi eystra. Var á báðum fundunum ályktað með líkum hætti um málið og valdir fulltrúar í sameiginlegan starfshóp til að móta tillögur í samvinnu við yfirvöld samgöngumála um uppbyggingu vegar um Norðausturland sem fær sé allt árið. Eru samþykktir beggja þessara samtaka birtar sem fylgiskjöl hér á eftir.
    Veturinn 1993–94 beitti samgönguráðherra sér fyrir snjóruðningi á leiðinni yfir Fjöllin og kostaði hann samtals um tæpar 10 millj. kr. (sjá fskj. IV).
    Í maí 1994 skipaði vegamálastjóri samráðshóp um tengingu Norðurlands og Austurlands að ósk Eyþings og Sambands sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi. Í samráðshópnum eiga sæti Eymundur Runólfsson, Guðmundur Svafarsson og Einar Þorvarðarson frá Vegagerð ríkisins, Pétur Þór Jónasson, Jóhannes Sigfússon og Sigurður Rúnar Ragnarsson frá Eyþingi og Broddi Bjarnason, Vilmundur Gíslason og Björn Hafþór Guðmundsson frá SSA.
    Fyrsti fundur hópsins var haldinn þriðjudaginn 17. maí 1994 að Hótel Reynihlíð við Mývatn með þingmönnum Austurlands og Norðurlands eystra. Fóru þingmennirnir ásamt starfsmönnum Vegagerðar ríkisins í skoðunarferð landleið frá Akureyri um Húsavík og út fyrir Melrakkasléttu til Vopnafjarðar. Daginn eftir var ekið um Möðrudal austur á Jökuldalsheiði og um Mývatnssveit norður til Akureyrar. Í þessari skoðunarferð og á fundinum í Hótel Reynihlíð kynnti Vegagerðin áfangaskýrslu innanhússnefndar hjá Vegagerðinni, „Tenging Norðurlands og Austurlands“ (sjá fskj. VII), en vegamálastjóri skipaði þá nefnd í ársbyrjun 1993. Er formaður hennar Eymundur Runólfsson.
    Samráðsnefnd vegamálastjóra kom saman til annars fundar 21. október 1994.
    Nokkur umræða varð fyrri hluta októbermánuðar 1994 um yfirlýsingar samgönguráðherra um vegtengingu milli Norður- og Austurlands yfir Fjöllin og um jarðgangagerð á Austurlandi.
    Þann 4. október 1994 ályktar Verkalýðsfélag Húsavíkur um hugmyndir samgönguráðherra og „skorar á sveitarstjórnir á Norðausturlandi að taka upp samvinnu um það að við ákvarðanir um vegaframkvæmdir á svæðinu verði það haft að markmiði að þær þjóni þeim sem þar hafa búsetu öðrum fremur“ (sjá fskj. VIII).
    Þá fór fram utandagskrárumræða um afstöðu samgönguráðherra til jarðgangagerðar á Austurlandi 5. október 1994. að frumkvæði fyrri flutningsmanns þessarar tillögu og fléttuðust atriði varðandi tengingu milli landshluta inn í þá umræðu.
    Þann 14. október 1994 gekkst SSA fyrir fundi um jarðgöng á Austurlandi með sveitarstjórnarmönnum, alþingismönnum kjördæmisins og sérfræðingum frá Vegagerð ríkisins og Byggðastofnun. Fundurinn ályktaði samhljóða um jarðgangaframkvæmdir í Austfirðingafjórðungi (sjá fskj. IX).
    Þingsályktunartillaga svipuð þessari var flutt á 117. löggjafarþingi (97. mál) og er nú endurflutt með nokkrum breytingum í tillögutexta og greinargerð. Er tekið tillit til athugana sem fram hafa farið og umræðu frá því tillagan var fyrst flutt. Með flutningi hennar nú er lögð áhersla á að athugun á umræddri leið verði lokið í tæka tíð fyrir endurskoðun vegáætlunar síðari hluta vetrar 1994–95.
    Verður hér gerð stuttlega grein fyrir þeim leiðum sem einkum er rætt um til að tengja Austurland og Norðurland til frambúðar.

1. Með ströndinni og um Öxarfjarðar- og Reykjaheiði.
    Þessi vegur yrði byggður upp miðað við umferð allt árið og lægi í jarðgöngum frá Jökulsárhlíð til Vopnafjarðar og þaðan norður með ströndinni um Bakkafjörð, Þistilfjörð og yfir Öxarfjarðarheiði og Reykjaheiði áleiðis til Akureyrar. Þetta er núverandi vetrartenging byggðanna á Norðausturlandi við landsvegakerfið. Hún mundi styttast talsvert frá því sem nú er með uppbyggingu vegar um Öxarfjarðar- og Reykjaheiði en yrði rúmlega 100 km lengri en yfir Fjöllin.
     Þetta er sú leið sem best tengir byggðirnar saman og væntanlega yrði auðveldast að halda opinni að vetrarlagi. Eins og fram kemur á meðfylgjandi mynd (sjá fskj. II) færi vegurinn á þessari leið hvergi yfir 300 metra hæð og yrði hæsti kafli á honum þar sem hann nú liggur um Víkurskarð milli Fnjóskadals og Eyjafjarðar. Að meginhluta lægi vegurinn skammt yfir sjávarmáli frá Egilsstöðum til Akureyrar. Þá má einnig minna á að vegi með ströndinni út fyrir Melrakkasléttu og Tjörnes má nota sem varaleiðir ef óvenjuleg veðurharka eða snjóþyngsli hindra þjónustu á heiðum uppi.
     Rétt er að hafa í huga að á þessari leið er nú þegar veitt vetrarþjónusta og svo yrði að sjálfsögðu áfram þótt önnur tenging milli Austurlands og Norðurlands kæmi til. Á þessu svæði er um 2.500 manna byggð og 5.000 manna ef Húsavík er meðtalin.
     Eftir sem áður mætti byggja leiðina yfir Fjöllin upp sem góðan sumarveg með bundnu slitlagi án þess að leggja í þann mikla kostnað sem fylgdi því að halda honum opnum allan veturinn. Notkunartími þess vegar gæti hins vegar auðveldlega orðið 6–8 mánuðir í venjulegu árferði.

2. Um Jökuldalsheiði og Fjöllin.
    Þar er um að ræða uppbyggingu vegar nálægt núverandi hringvegi um Fjöllin, þó með nýlagningu um Jökuldalsheiði austan Möðrudalsfjallgarða yfir í Langadal eða jafnvel norðan Þjóðfells til Grímsstaða. Þessi leið liggur á meira en 100 km kafla í yfir 300 metra hæð, þar af eru um 70 km af leiðinni í milli 500–600 metra hæð yfir sjó. Kaflinn frá Jökuldal til Mývatns liggur þannig um öræfi, að mestu fjarri byggð. Vegalengd milli Egilsstaða og Akureyrar eftir þessari leið er svipuð og eftir núverandi vegi 1, þ.e. um 270 km í stað 273 km.
     Af þessum aðalvegi yrði afleggjari til Vopnafjarðar með svipuðum hætti og nú er og hringtenging austur á Hérað um Hellisheiði og síðar með jarðgöngum gegnum Hlíðarfjöll.
    Með þessari tilhögun yrði Vopnafjörður heldur betur settur en nú er en þó áfram úrleiðis miðað við landsumferð, a.m.k. mikinn hluta ársins. Leiðin frá Egilsstöðum „yfir Fjöllin“ til Vopnafjarðar mundi styttast um nálægt 40 km ef þjóðvegur er fluttur austur fyrir Möðrudalsfjallgarða.

3. Um Vopnafjörð og Einbúasand.
    Þessi leið gerir ráð fyrir jarðgöngum undir Hlíðarfjöll á sama hátt og í leið 1 en lægi síðan um Vesturdal í Vopnafirði og þaðan um Grímsstaðadal eystri og Einbúasand að Gömlu-Grímsstöðum og áfram til Mývatns. Með henni tengist Vopnafjörður landsumferðinni, þó með öðrum hætti en ef fylgt er ströndinni. Á Einbúasandi færi vegurinn eftir sem áður upp í 600 metra hæð yfir sjó og lægi um öræfi á alllöngum kafla milli Vopnafjarðar og Mývatns. Þessi leið yrði tæpum 40 km lengri milli Egilsstaða og Akureyrar en vegurinn yfir Fjöllin. Hún gæti í framtíðinni hugsanlega orðið aðalleið milli landshluta að sumarlagi í stað vegarins um Fjöllin milli Skjöldólfsstaða á Jökuldal og Grímsstaða.

..........

    Kostir þess að leggja veg sem opinn væri allt árið um byggðir á Norðausturlandi eru auðsæir:
—    Verulegur kostnaður sparaðist við að halda opinni einni leið í stað tveggja milli landshluta að vetrarlagi þegar mest eru snjóalög.
—    Stofnkostnaður við lagfæringar og uppbyggingu á vegi yfir Fjöllin yrði lægri ef ekki væri stefnt að vetrarvegi á þeirri leið.
—    Jarðgöng, sem leggja þarf milli Héraðs og Vopnafjarðar, yrðu arðbærari framkvæmd ef hún væri beinlínis í þágu landsumferðar og kæmu slík göng væntanlega í gagnið fyrr en ella.
—    Vopnafjörður og aðrar byggðir á Norðausturlandi tengdust aðliggjandi landshlutum og landinu sem heild mun traustari böndum ef þær yrðu í alfaraleið. Fátt er betur fallið til að treysta stöðu þessara byggða en framkvæmdir þær í samgöngumálum sem tillagan gerir ráð fyrir.
    Nokkur umræða hefur síðasta áratug verið um svonefnda hálendisvegi og er þá átt við miðhálendið milli jökla. Hugmyndin að baki þeirri umræðu er að finna sem stystar leiðir frá austanverðu Norðurlandi og Austurlandi til Reykjavíkur og þá jafnvel gert ráð fyrir að þeim mætti halda opnum að vetrarlagi.
     Ekki er ástæða til að hafa á móti vangaveltum af þessu tagi en flutningsmenn efast um að það sé raunhæft verkefni í náinni framtíð. Fyrst af öllu þarf að leysa það sjálfsagða verkefni að tengja byggðir landsins saman, einnig með jarðgöngum þar sem þeirra er brýn þörf.
     Valið á aðalvegi milli Norður- og Austurlands snertir með vissum hætti umræðuna um hálendisvegi og byggðavegi. Út frá sjónarhóli þeirra sem erindi eiga fyrst og fremst milli landshluta er eðlilega litið til stystu leiðar svo lengi sem hún er fær. Þar setja hins vegar veðurfar og kröfur um öryggi vegfarenda viss takmörk. Fyrir innbyrðis samskipti innan landshlutanna er tengivegur byggðanna það sem máli skiptir.
     Með þeirri tillögu, sem hér er flutt, er lögð áhersla á að vönduð athugun fari fram á kostum og göllum mismunandi leiða til að tryggja sem best vegasamband allt árið milli Austur- og Norðurlands. Fyrst að slíkri athugun lokinni á að taka ákvarðanir í þessu efni og verja takmörkuðu fjármagni til framkvæmda í samræmi við þá niðurstöðu.



Fylgiskjal I.


Vegagerð ríkisins:

Helstu leiðir til álita á Norðausturlandi.






(Kort á bls. 750 í 3. hefti 1993.


Ath. skipta út neðstu línunni með þessari sem fylgir.)






    Tölur innan sviga eru vegalengdir eftir aðgerðir.


Fylgiskjal II.


Vegagerð ríkisins:

Leið með ströndinni. Hæð yfir sjó.





(Repró á bls. 751 í 3. hefti 1993.)

















Fylgiskjal III.


Vegagerð ríkisins:

Leið um Jökulsdalsheiði og Fjöllin. Hæð yfir sjó.





(Repró á bls. 751 í 3. hefti 1993.)


Fylgiskjal IV.


Svar samgönguráðherra við fyrirspurn Hjörleifs Guttormssonar


um kostnað við snjómokstur yfir Fjöllin veturinn 1993–94.


(611. mál á 117. löggjafarþingi.)



    Hver er orðinn heildarkostnaður við snjómokstur á leiðinni yfir Fjöllin milli byggða í Mývatnssveit og á Jökuldal veturinn 1993–94?
    Kostnaður er um 9,6 millj. kr.

    Hvaða tækjakostur er notaður við moksturinn og hvernig er að honum staðið að öðru leyti?
    Aðallega er notast við vörubíla með snjóplógum og snjóblásara af stærstu gerð.
    Snjóplógarnir moka á meðan þeir geta en síðan taka snjóblásararnir við. Blásararnir eru einnig mikið notaðir við útmokstur.

    Hversu oft hefur leiðin verið opnuð og hversu lengi hefur hver opnun notast til umferðar að meðaltali?
    Frá því í desember og til aprílloka var vegurinn opnaður 27 sinnum og hann hélst opinn að meðaltali í fjóra daga. Geta má þess að unnið var við snjómokstur mun fleiri daga vegna útmoksturs og frágangs á snjó.

    Hvernig hafa snjóalög verið á þessu tímabili miðað við meðaltalsaðstæður á liðnum árum?
    Snjóalög hafa verið í rúmu meðallagi en óstöðugt tíðarfar hefur valdið því að kostnaður við snjómoksturinn er trúlega í hærra lagi. Þar sem þetta er fyrsti veturinn sem þessi vegur er opnaður reglulega frá hausti til vors vantar samanburð á kostnaði við önnur ár.



Fylgiskjal V.


Samþykkt SSA — Sambands sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi.


    Aðalfundur SSA, haldinn á Breiðdalsvík 26. og 27. ágúst 1993, samþykkir að beina því til stjórnar að setja á laggirnar vinnuhóp er móti tillögur um það hvernig staðið verði að uppbyggingu vegasamgangna á Norðausturlandi með tilliti til heilsárstengingar við samgöngukerfi Austurlands.
    Verði leitað til Eyþings um tilnefningu í slíkan vinnuhóp, landshlutasamtökin tilnefni þrjá menn hvort í starfshópinn. Þá verði þess óskað að yfirvöld samgöngumála tilnefni einn fulltrúa í vinnuhópinn.

Greinargerð.


    Framtíðartenging Norður- og Austurlands er stórt mál í samgöngulegu tilliti og mikilvægt að í því sambandi verði allir kostir skoðaðir. Þær leiðir, sem um virðist vera að ræða, eru í aðalatriðum þrjár, tenging með ströndinni, yfir öræfin um Vopnafjörð og yfir öræfin upp úr Jökuldal.
    Kosti og galla þessara meginleiða, mismunandi útfærslur þeirra auk annarra leiða sem til greina gætu komið þarf að vega og meta áður en ráðist verður í dýrar framkvæmdir á þessu sviði.
    Samnýting þeirra miklu samgöngumannvirkja, sem nauðsynleg eru í þessum landshluta, er lykilatriði. Því ber að leita lausna sem sameina tengingu fjarstaða og innbyrðis tengingu byggðanna. Slíkar lausnir munu bæði verða ódýrari í stofnkostnaði og ekki mun síður sparast fé í rekstrarkostnaði, þar með talið vegna vetrarþjónustu.



Fylgiskjal VI.


Samþykkt Eyþings — Sambands sveitarfélaga í Norðurlandskjördæmi eystra.


    Aðalfundur Eyþings 2.–3. september 1993 samþykkir að beina því til stjórnar að setja á laggirnar vinnuhóp er móti tillögur um það hvernig staðið verði að uppbyggingu vegasamgangna á Norðausturlandi með tilliti til heilsárstengingar við samgöngukerfi Austurlands. Verði leitað til Samtaka sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi um tilnefningu í slíkan vinnuhóp. Þá verði þess óskað að yfirvöld samgöngumála tilnefni einn fulltrúa í vinnuhópinn.

Greinargerð.


    Framtíðartenging Norður- og Austurlands er stórt mál í samgöngulegu tilliti og mikilvægt að í því sambandi verði allir kostir skoðaðir. Þær leiðir, sem um virðist vera að ræða, eru í aðalatriðum þrjár, tenging með ströndinni, yfir öræfin um Vopnafjörð og yfir öræfin upp úr Jökuldal.
     Kosti og galla þessara meginleiða, mismunandi útfærslur þeirra auk annarra leiða sem til greina gætu komið þarf að vega og meta áður en ráðist verður í dýrar framkvæmdir á þessu sviði.
     Samnýting þeirra miklu samgöngumannvirkja, sem nauðsynleg eru í þessum landshluta, er lykilatriði. Því ber að leita lausna sem sameina tengingu fjarstaða og innbyrðis tengingu byggðanna. Slíkar lausnir munu bæði verða ódýrari í stofnkostnaði og ekki mun síður sparast fé í rekstrarkostnaði, þar með talið vegna vetrarþjónustu.



Fylgiskjal VII.


Vegagerð ríkisins:

Tenging Norðurlands og Austurlands.


(Áfangaskýrsla — maí 1994.)





Repró 10 síður (1-7, 11-12 og 14).







Fylgiskjal VIII.


Ályktun Verkalýðsfélags Húsavíkur.


    Verkalýðsfélag Húsavíkur hvetur sveitarstjórnarmenn á svæðinu frá Húsavík til Vopnafjarðar til að gera athugasemdir við hugmyndir samgönguráðherra um að byggja upp veg með bundnu slitlagi yfir fjallvegi milli Mývatnssveitar og Egilsstaða áður en þessi byggðarlög hafa fengið viðunandi vegi með bundnu slitlagi sem færir séu allt árið.
    Fátt er þessum byggðarlögum mikilvægara en greiðar samgöngur með tilliti til sameiningar sveitarfélaga, atvinnuþróunar og búsetu. Bættar samgöngur milli þessara byggðarlaga eru lykill að samvinnu þeirra og frekari þróun í þeim atvinnugreinum sem stundaðar eru á svæðinu og til eflingar nýrra.
    Þegar horft er til framtíðar er bygging vegar eftir strönd Norðuausturlands hagkvæmasti kosturinn í samgöngumálum á svæðinu. Næsta skref í því máli er síðan að tengja þann veg Austurlandi frá Vopnafirði.
    Forgang í vegaframkvæmdum hlýtur að hafa sú framkvæmd sem þjónar byggðum á svæðinu best og er því þjóðhagslega hagkvæmust og skilar mestum arði.
    Verkalýðsfélag Húsavíkur skorar á sveitarstjórnir á Norðausturlandi að taka upp samvinnu um það að við ákvarðanir um vegaframkvæmdir á svæðinu verði haft að markmiði að þær þjóni þeim sem þar hafa búsetu öðrum fremur.
    Þannig samþykkt á stjórnarfundi í Verkalýðsfélagi Húsavíkur þriðjudaginn 4. október 1994.

Með kveðju.


F.h. Verkalýðsfélags Húsavíkur,



Aðalsteinn Árni Baldursson.





Fylgiskjal IX.


Ályktun fundar sveitarstjórnarmanna á Austurlandi.


    Almennur fundur sveitarstjórnarmanna á Austurlandi, haldinn í Hótel Valaskjálf, Egilsstöðum, föstudaginn 14. október 1994, ályktar eftirfarandi um jarðgangaframkvæmdir í Austfirðingafjórðungi:
    Fundurinn skorar á þingmenn kjördæmisins og samgönguráðherra að vinna að því að tryggja fjármagn til að framkvæmdir við jarðgöng í fjórðungnum geti hafist eigi síðar en árið 1998 í kjölfar verkloka við núverandi jarðgangaframkvæmdir á Vestfjörðum. Bendir fundurinn í þessu sambandi á nauðsyn þess að viðhalda þeirri verkþekkingu sem íslensk verktakafyrirtæki hafa öðlast vegna framkvæmda sem nú eru í gangi eða fyrir skömmu lokið.
    Við ákvörðun um framkvæmdaröð jarðganga á Austurlandi skal einkum litið til þess að með jarðgöngum verði rofin vetrareinangrun byggðarlaga í fjórðungnum og stuðlað að atvinnuuppbyggingu.