Ferill 139. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1994. – 1064 ár frá stofnun Alþingis.
118. löggjafarþing. – 139 . mál.


146. Tillaga til þingsályktunar



um stofnun Vilhjálms Stefánssonar á Akureyri.

Flm.: Hjörleifur Guttormsson, Sturla Böðvarsson, Kristín Einarsdóttir,


Halldór Ásgrímsson, Sigbjörn Gunnarsson.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að undirbúa að sett verði á fót á Akureyri stofnun um heimskautamálefni sem kennd verði við Vilhjálm Stefánsson og hafi það hlutverk að stuðla að sem öflugustum rannsóknum innlendra aðila á norðurslóðum og alþjóðlegri þátttöku Íslendinga í málum er varða heimskautssvæðið.
    Meðal verkefna norðurstofnunar verði eftirfarandi:
 —    að vera íslensk miðstöð fyrir norðursamstarf og rannsóknir;
 —    að safna og miðla upplýsingum um heimskautamálefni;
 —    að eiga hlut að og skipuleggja rannsóknir sem m.a. varða umhverfisvernd í norðurhöfum;
 —    að samræma innlenda og alþjóðlega þátttöku Íslendinga í rannsóknum á norðurslóð;
 —    að annast tengsl við hliðstæðar miðstöðvar og stofnanir erlendis og laða þær til samstarfs;
 —    að vera ráðgefandi fyrir stjórnvöld og aðra um norðurmálefni.
    Stofnunin heyri undir umhverfisráðuneytið og verði að meginhluta kostuð af íslenska ríkinu. Hún skal rækta tengsl og samvinnu við innlenda og erlenda háskóla og rannsóknastofnanir.
    Sett verði á fót föst samvinnunefnd um norðurmálefni, skipuð fulltrúum tilnefndum af Háskóla Íslands, Háskólanum á Akureyri, Hafrannsóknastofnun, Náttúrufræðistofnun Íslands, Rannsóknastofnun landbúnaðarins, Veðurstofu Íslands, Rannsóknarráði Íslands, svo og formanni sem umhverfisráðherra skipi án tilnefningar. Samvinnunefndin velji tvo úr sínum hópi í stjórn stofnunar Vilhjálms Stefánssonar auk formanns.
    Miðað verði við að stofnunin hefji starfsemi í ársbyrjun 1996.

Greinargerð.


Vaxandi þýðing heimskautamálefna.
    
Heimskautasvæðin hafa að undanförnu fengið mjög aukna þýðingu í alþjóðasamstarfi, sérstaklega norðurskautssvæðið. Ástæður þessa eru margar en mestu skiptir þó minnkandi spenna á hernaðarsviði við lok kalda stríðsins. Í ræðu, sem Gorbatsjov, fyrrum forseti Sovétríkjanna, flutti í Murmansk árið 1987, hvatti hann til samvinnu á norðurslóðum og var boðskapur hans eins konar inngangur að því breytingaskeiði sem fylgdi í kjölfarið í málefnum norðurslóða. Meðal áfanga í aukinni samvinnu heimskautalanda má nefna stofnun Alþjóðaráðs norðurvísinda (IASC) 1990, Rovaniemi-samstarfið á sviði umhverfismála 1991, samvinnu um Barentshafssvæðið frá ársbyrjun 1993 og Norðurráðstefnuna á vegum Norðurlandaráðs í ágúst 1993, en hún var haldin í Reykjavík.
    Mikilvæg rannsóknaviðfangsefni á komandi árum á norðurslóðum tengjast rannsóknum á hnattrænum umhverfisbreytingum (e. global change) á einn eða annan hátt. Þar er m.a. um að ræða rannsóknir á loftslagsbreytingum, rannsóknir á ósonlaginu og afleiðingum aukinnar útfjólublárrar geislunar, rannsóknir á afleiðingum loftslagsbreytinga á lífkerfi til lands og sjávar, og rannsóknir á mengun og afleiðingum hennar. Það er þýðingarmikið fyrir árangur af starfi norðurstofnunar hér á landi að hún sé tengd samræmingu slíkra rannsókna. Þarf stjórn stofnunarinnar og samvinnunefndin um norðurmálefni, sem tillagan gerir ráð fyrir, að gefa þessu sérstakan gaum. Ýmsar gagnlegar ábendingar um slíka samræmingu er að finna í tillögum starfshóps umhverfisráðuneytisins „Efling umhverfisrannsókna á Norður-Atlantshafi“ frá desember 1993.
    Tillagan, sem hér er flutt um íslenska miðstöð fyrir norðurmálefni, tekur mið af breyttum aðstæðum á norðurskautssvæðinu og nauðsyn þess að Íslendingar taki fastar en hingað til á málum er snerta norðurslóðir á sviði rannsókna og alþjóðlegs samstarfs. Tillagan var flutt af fyrsta flutningsmanni á síðasta þingi en hlaut þá ekki afgreiðslu. Hún er nú flutt með lítils háttar breytingum og flutningsmenn eru úr öllum þingflokkum.

Þekking Íslendinga og rannsóknir á norðurslóðum hingað til.
    
Minna má á að í fornum ritum íslenskum er margan fróðleik að finna um norðurslóðir og að á fyrstu öldum Íslandsbyggðar bjuggu Íslendingar ásamt Grænlendingum yfir mestri vitneskju Evrópuþjóða um norðanvert Atlantshaf og Norður-Íshafið. Í Landnámabók segir um ferð Garðars Svavarssonar: „Hann kom at landi fyrir utan Horn et eystra; þar var þá fjögurra dægra haf til Svalbarða norðr í hafsbotn, en dægrsigling er til óbyggða á Grænalandi ór Kolbeinsey norðr.“ Í vesturátt náði þekking Íslendinga allt til Vínlands eins og fram kemur í heimildum um siglingu Leifs heppna.
    Á síðustu áratugum 19. aldar hófust rannsóknir á hafsvæðum norðan Íslands og stóðu að þeim einkum Danir og Norðmenn. Þegar kom fram á 20. öld hófu íslenskir náttúrufræðingar rannsóknir á íslenskum hafsvæðum, fyrst Bjarni Sæmundsson og síðar Árni Friðriksson. Eigin sjórannsóknir byrjuðu Íslendingar árið 1947. Árið 1937 gerðust Íslendingar aðilar að Alþjóðahafrannsóknaráðinu og síðar fleiri alþjóðastofnunum á sviði hafrannsókna. Hafa íslenskir vísindamenn átt samvinnu við ýmsar þjóðir um rannsóknir á hafsvæðunum í grennd við Ísland og er framlag þeirra orðið mikið á sviði haffræði og fiskifræði. Vorið 1960 áttu Íslendingar hlut að rannsóknum sex þjóða á hafsvæðinu milli Íslands og Færeyja en megintilgangur þeirra rannsókna var að kanna rennsli kalds djúpsjávar úr Norður-Íshafi í Atlantshaf á þessum slóðum. Síðan hefur aðild Íslendinga að fjölþjóðlegum hafrannsóknum aukist til muna auk eigin rannsókna sem taka að hluta til hafsvæðanna norður af landinu.
    Á sviði veðurfræði og hafísfræða hafa Íslendingar lagt talsvert af mörkum fyrr og síðar. Má þar nefna frá fyrri tíð heimildasöfnun og ritsmíðar Þorvalds Thoroddsens um hafískomur og frásagnir í fornum sögum og Konungsskuggsjá. Í jöklafræðum hafa Íslendingar staðið framarlega á alþjóðavísu allt frá dögum Þórðar Þorkelssonar Vídalíns og Sveins Pálssonar. Íslenskir vísindamenn hafa á 20. öld unnið nokkuð að rannsóknum á Grænlandi og komið við á Jan Mayen. Ekki verður þó sagt að Íslendingar hafi til þessa lagt mikið af mörkum til eiginlegra heimskautarannsókna utan Íslands. Er þá ekki meðtalinn hlutur Vestur-Íslendingsins Vilhjálms Stefánssonar.

Samstarf um heimskautsmálefni með aðild Íslands.
1. Alþjóðaráð norðurvísinda (IASC).
    Undirbúningur að stofnun þess hófst 1987 og voru Íslendingar þátttakendur í fundum þar að lútandi frá byrjun. Ráðið var stofnað 1990 af hinum átta norðurheimskautslöndum, en til þeirra teljast átta fullvalda ríki, þ.e. Bandaríkin (vegna Alaska), Danmörk (vegna Grænlands), Finnland, Ísland, Kanada, Noregur, Rússland og Svíþjóð. Að auki eiga nú aðild að IASC sex önnur ríki, þ.e. Bretland, Frakkland, Holland, Japan, Pólland og Þýskaland, sem öll láta sig norðurslóðir miklu varða og hafa um langt skeið átt þar hlut að rannsóknum. Átta ríkja hópurinn myndar svæðisnefnd (Regional Board) sem fjallar um sérhagsmuni norðurskautslandanna en annars starfa löndin fjórtán saman í ráði (Council) sem er aðalvettvangur starfseminnar.
    IASC er fjölfaglegt ráð þar sem aðild eiga vísindaakademíur eða rannsóknarráð viðkomandi landa. Hérlendis hefur Vísindaráð, nú Rannsóknarráð Íslands, verið aðili að IASC. Magnús Magnússon prófessor er forseti IASC frá hausti 1993. Meðal verkefna á starfssviði ráðsins má nefna:
 —    þróun samræmdrar áætlunar vegna rannsókna á umhverfisbreytingum á jörðinni að því er varðar norðurskautssvæðið; sett verður á fót skrifstofa og ráðið starfslið til að vinna að þessari áætlun í Arctic Centre í Rovaniemi í Finnlandi á kostnað finnska ríkisins;
 —    mótun samvinnuverkefna á sviði mannvísinda og félagsvísinda á norðurslóðum;
 —    alþjóðlega samvinnu um jarðeðlisfræðilega kortlagningu og gagnasöfnun á botni Norður-Íshafsins;
 —    samvinnu um athuganir á jöklum á norðurslóðum;
 —    rannsóknir á áhrifum ósóneyðingar á vistkerfi norðurskautssvæðisins;
 —    aðstoð við Rússland frá vestrænum ríkjum vegna þátttöku í norðurrannsóknum.
    Íslenskir vísindamenn eiga aðild að ýmsum verkefnum sem nú eru á dagskrá hjá ráðinu.
    Skrifstofa IASC er í Ósló, kostuð af norska ríkinu, og miðstöðvar fyrir einstök verkefni víðar.

2. Rovaniemi-samstarf norðurskautsríkja í umhverfismálum.
    Umhverfisráðherrar norðurskautsríkjanna átta undirrituðu 14. júní 1991 yfirlýsingu í Rovaniemi í Finnlandi um víðtækt samstarf í umhverfismálum á norðurslóðum. Þar er m.a. gert ráð fyrir samvinnu um vísindarannsóknir vegna umhverfismála, mati á umhverfisáhrifum vegna framkvæmda, stöðugum upplýsingum um breytingar á umhverfi, sérstöku vöktunar- og matsverkefni vegna mengunar á norðurslóðum (Arctic Monitoring and Assessment Programme, AMAP), svo og verndun sjávarauðlinda og verndun plöntu- og dýralífs á norðurskautssvæðinu. Í undirbúningi er alþjóðleg ráðstefna sem halda á um síðasttalda verkefnið hér á landi.
    AMAP-verkefnið hefur hingað til skilað mestum árangri af þessu samstarfi en það felst í mælingum og mati á ástandi umhverfis á norðurslóð og magni mengunarefna. Tekur verkefnið einkum til mengunar af völdum þrávirkra lífrænna efna, þungmálma og geislavirkra efna, svo og sýringar. Einnig er fylgst með loftslagsbreytingum og breytingum á fjölbreytni lífvera. Norðmenn hafa lagt verkefninu til skrifstofuaðstöðu í Ósló og starfa þar þrír starfsmenn. Von er á fyrstu heildstæðu skýrslunni um ástand umhverfis á norðurslóðum árið 1996.
    Lögð er áhersla á þátttöku frumbyggja í þessu samstarfi.
    Ráðherrafundir innan Rovaniemi-samstarfsins eru haldnir annað hvert ár og var annar fundur ráðherranna haldinn í Nuuk á Grænlandi í september 1993.

3. Víðtæk samvinna á Barentssvæðinu.
    Á fundi í Kirkenes 11. janúar 1993 undirrituðu utanríkisráðherrar sex ríkja: Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs, Rússlands og Svíþjóðar, ásamt fulltrúa framkvæmdastjórnar EB, yfirlýsingu um víðtæka samvinnu á Barentssvæðinu. Með henni er stofnað sérstakt Barentsráð (evró-arktískt) sem stýra á samstarfinu undir forustu utanríkisráðherra landanna sem koma munu saman einu sinni á ári.
    Markmið samstarfsins á að vera að stuðla að sjálfbærri þróun á svæðinu með hliðsjón af Ríó-yfirlýsingunni og Dagskrá 21 frá UNCED-ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Ríó 1992. Ráðið á að vera vettvangur til að fjalla um tvíhliða og fjölþjóðlegt samstarf á sviði efnahagsmála, viðskipta, vísinda og tækni, ferðaþjónustu, umhverfismála, samgangna, mennta- og menningarmála, svo og verkefna sem varða bættar aðstæður frumbyggja á svæðinu.
    Sérstök svæðisvinnunefnd með fulltrúum frá fylkjum í Norðvestur-Rússlandi, Finnlandi, Svíþjóð og Noregi hefur verið sett á fót til að fjalla um samvinnu á fylkjagrundvelli þvert á landamæri innan Barentssvæðisins.
    Samstarf þetta virðist einkum miða að því að draga Murmansk og önnur nyrstu fylki Rússlands inn í samvinnu við Norðurlönd sem sótt hafa um aðild að Evrópusambandinu. Aðild framkvæmdastjórnar ESB að Barentsráðinu hefur sætt talsverðri gagnrýni innan Norðurlanda, ekki síst í Norður-Noregi.
    Norðurkollusamstarf skandinavísku landanna heldur áfram óháð Barentsráðinu en á árinu 1992 fengu fulltrúar frá Murmansk og Arkangelsk áheyrnaraðild að Norðurkollunefndinni.

4. Vísindaverkefni UNESCO á norðurslóðum innan „Man and the Biosphere“ (MAB).
    Yfir 100 ríki Sameinuðu þjóðanna eiga hlut að MAB-rannsóknarverkefnum sem beinast einkum að því að kanna áhrif mannlegra athafna á vistkerfi jarðar, tengsl fjárfestinga og auðlindanýtingar og viðbrögð fólks og samfélaga við umhverfisáreiti. Öll Norðurlönd hafa MAB-áætlanir í gangi og eru þær skipulagðar af MAB-nefndum í hverju landi. Samvinnu var komið á um MAB-vísindaverkefni á norðurslóðum 1984.
    MAB-verkefni á norðurslóðum beinast m.a. að vistkerfum við birkiskógamörk, aðlögun plantna að aðstæðum sífrera og breytingum á umhverfi túndra, árekstrum milli mismunandi landnýtingar, atvinnuháttum frumbyggja og stofnun sérstakra verndarsvæða í þágu rannsókna.
    Sem stendur starfar ekki MAB-nefnd hérlendis en Halldór Þorgeirsson, starfsmaður hjá Rannsóknastofnun landbúnaðarins, hefur verið fulltrúi Íslands í „International Advisory Council“ fyrir MAB/Northern Sciences Network sl. þrjú ár og situr þar í umboði Rannsóknarráðs Íslands.
    Norðurstofnanir í nágrannalöndum hafa virkað hvetjandi á vísindasamstarf. MAB/ Northern Sciences Network, sem hefur þann tilgang að auka samstarf vísindamanna sem vinna að rannsóknum á norðurslóðum og gefur út eftirsótt fréttabréf, hefur lengi tengst slíkum stofnunum. Skrifstofa MAB/NSN er nú hjá Dansk Polar Institut í Kaupmannahöfn en var áður í fimm ár hjá Arctic Center í Rovaniemi, Finnlandi. Skrifstofa Alþjóðaráðs norðurvísinda (IASC) hefur einnig tengst Norsk Polarinstitutt í Ósló.

5. Norræn samvinna um norðurmálefni og ráðstefnan í Reykjavík.
    Norræn samvinna á norðursvæðum hefur lengi verið til staðar í ýmsu formi en þó takmörkuð, m.a. vegna ólíkrar stefnu í öryggismálum á tímum kalda stríðsins.
    Norðurkollunefndin sem stofnað var til árið 1971 er samvinnuvettvangur vegna nyrstu héraða Noregs, Svíþjóðar og Finnlands.
    Vestnorrænu samstarfi Færeyja, Íslands og Grænlands var komið á innan ramma Norðurlandaráðs árið 1985. Er það í senn samstarf ríkisstjórna/heimastjórna og þingmanna og má heimfæra mörg viðfangsefni þess undir heimskautamálefni.
    Þá hefur samstarf Norðurlanda í umhverfismálum beinst í vaxandi mæli að norðurslóðum, ekki síst að því er varðar norðaustanvert Atlantshaf og Norður-Íshaf, en engin skýr mörk verða dregin milli þessara hafsvæða.
    Norðurráðstefnan í Reykjavík í ágúst 1993 markaði viss þáttaskil í starfi Norðurlandaráðs að heimskautamálum. Á ráðstefnunni voru flutt gagnmerk yfirlitserindi um norðurslóðir og frumbyggja þeirra og skipst var á skoðunum um samstarfsverkefni og samstarfsform. Þingmenn frá tíu þingum norðurskautslanda sóttu ráðstefnuna en þó engir frá Bandaríkjaþingi og dró það úr árangri hennar. Í lokasamþykkt ráðstefnunnar er að finna fjölmargar ábendingar og tillögur sem beint er til ríkisstjórna landanna. Þar var jafnframt samþykkt að stofna til samstarfs fulltrúa frá þingum landa á norðurslóðum með því að setja á fót fastanefnd þingmanna. Er nú unnið að því að koma þessu samstarfi á fót.
    Eftir að ráðstefnan var haldin hafa komið fram þingmannatillögur í Norðurlandaráði um að norræna ráðherraráðið og ríkisstjórnir Norðurlanda beiti sér fyrir aðgerðum til að tryggja sjálfbæra þróun á norðurslóðum og til að vinna gegn hættum af völdum kjarnorku.

6. Tillaga um Norðurskautsráð.
    Kanadamenn hafa öðru hverju allt frá 1971 hvatt til nánari samvinnu norðurskautslanda og 1989 setti forsætisráðherra Kanada fram hugmynd um stofnun Norðurskautsráðs (Arctic Council). Tillaga um slíkt heimskautsráð var síðan sett fram af utanríkisráðherra Kanada 1990 og gerir hún ráð fyrir að aðild að ráðinu eigi fulltrúar ríkisstjórna norðurskautsríkjanna átta, svo og að frumbyggjar geti verið þátttakendur. Ráðinu er ætlað að fjalla um umhverfismál og efnahagsleg og félagsleg málefni með sjálfbæra þróun á norðurslóðum að markmiði. Gert er ráð fyrir árlegum fundum ráðsins og sveigjanlegum starfsramma og að mál á dagskrá verði aðeins afgreidd með samkomulagi.
    Tillagan um Norðurskautsráðið er áfram til umræðu, var m.a. kynnt og rædd á Norðurráðstefnunni í Reykjavík 1993. Virðist hún njóta víðtæks stuðnings stjórnvalda nema hjá Bandaríkjastjórn sem hefur verið henni andvíg til þessa og virðast herfræðileg sjónarmið liggja þar að baki.

7. Northern Forum.
    Það eru alþjóðasamtök fylkja og landsvæða á norðurhveli sem hafa á stefnuskrá sinni að vinna að bættum ákvörðunum í stjórnun norðlægra svæða með skiptum á reynslu og hugmyndum. Samtökin voru stofnuð 1991 í framhaldi af þriðju norðursvæðaráðstefnunni. Héldu þau fyrstu ráðstefnu sína í Tromsö haustið 1993.

8. Norðurrannsóknir Evrópusambandsins (ESB).
    Með gildistöku EES-samnings fengu Finnland, Noregur, Svíþjóð og Ísland fulla aðild að fjórðu rammaáætlun ESB á sviði rannsókna og þróunarverkefna (1994–98). Af tillitssemi við þessi ríki m.a. er það yfirlýst stefna ESB að leggja aukna áherslu innan fjórðu rammaáætlunarinnar á rannsóknir á Norður-Íshafinu, einkum á samspili hafs og íss. Þór Jakobsson á Veðurstofu Íslands tekur nú þegar þátt í einu slíku verkefni sem tilheyrir þriðju rammaáætlun ESB (1990–94). Íslensk norðurstofnun gæti haft verulegu hlutverki að gegna til að auka hlut okkar í rannsóknarverkefnum ESB sem tengjast Norður-Íshafinu og öðrum skyldum viðfangsefnum.
    Fulltrúar Íslands í hafrannsóknaáætlun ESB eru Steingrímur Jónsson, útibússtjóri Hafrannsóknastofnunar á Akureyri, og Ólafur S. Ástþórsson, starfsmaður Hafrannsóknastofnunar í Reykjavík.
    Telja má næsta víst að umhverfisrannsóknir ESB muni einnig í auknum mæli ná yfir heimskautasvæði Evrópu. Halldór Þorgeirsson á Rannsóknastofnun landbúnaðarins er fulltrúi Íslands í áætlun ESB.

Heimskautamálefni í nágrannalöndum.
    Innan Norðurlanda hafa Danmörk og Noregur mesta reynslu á sviði heimskautarannsókna, Danmörk vegna tengsla sinna við Grænland og Noregur vegna legu sinnar og yfirráða á Svalbarða og brautryðjendastarfs að heimskautarannsóknum á norðurslóðum og á Suðurskautslandinu. Vestan hafs eru Kanadamenn lengi búnir að stunda heimskautarannsóknir enda liggja nær 40% af kanadísku landi norðan heimskautsbaugs. Hér verður litið stuttlega á skipan heimskautamálefna í Noregi og Kanada.
    Norsk Polarinstitutt fékk núverandi nafn árið 1948 en rætur þess liggja allt aftur til ársins 1906 þegar fyrsti norski vísindaleiðangurinn var gerður út til Svalbarða. Stofnunin heyrði í fyrstu undir norska verslunarráðuneytið en frá 1979 er hún hluti af umhverfisráðuneytinu. Meginverkefni Norsk Polarinstitutt er samkvæmt nýlegri stefnumörkun að vinna að því að heimskautssvæðin séu meðhöndluð sem best og samkvæmt alþjóðlegum kröfum um sjálfbæra þróun. Verkefni stofnunarinnar samkvæmt þessu eru einkum:
 —    að vera ráðgjafi stjórnvalda í heimskautamálum,
—    að byggja upp og viðhalda þekkingu og færni með eigin rannsóknum,
 —    að vinna að kortlagningu heimskautasvæða,
 —    að viðhalda þverfaglegu umhverfi með samvinnu innan lands og á alþjóðavettvangi,
 —    að örva framlag annarra stofnana til rannsókna á heimskautasvæðum,
 —    að samræma fræðilegar áherslur og samvinnu við önnur lönd um heimskautarannsóknir.
    Niðurstaða nýlegrar úttektar á málefnum og framtíð Norsk Polarinstitutt varð einróma sú að viðhalda því óskiptu sem ríkisstofnun. Umhverfisráðuneytið norska gerir ráð fyrir að megináhersla í starfi stofnunarinnar tengist hagnýtum verkefnabundnum rannsóknum og umhverfisvernd. Jafnframt hefur verið ákveðið að efla stofnunina, flytja aðsetur hennar frá Ósló til Tromsö og styrkja um leið starfsemi hennar á Svalbarða. Á árinu 1993 voru fjárveitingar til Norsk Polarinstitutt 77 milljónir norskra króna (um 800 millj. ísl. kr.) og stöðuheimildir 58 (52 fastar stöður), þar af 14 stöður vísindamanna. Stofnuninni er skipt í fjórar fagdeildir: rannsóknadeild, kortadeild, vettvangsdeild og stjórnunar- og upplýsingadeild. Samtals voru unnin 252 ársverk í norskum heimskautarannsóknum á árinu 1991 að talið er, þar af rösk 80% á sviði náttúruvísinda.
    Í Kanada er önnur skipan höfð á en í Noregi enda landið stórt og langtum fjölmennara. Lengst af öldinni voru rannsóknir á norðurslóðum í Kanada lítið samræmdar og samstarf í molum milli rannsóknarmanna og samskipti við frumbyggja. Því skipaði alríkisstjórnin nefnd árið 1985 til að gera tillögur til úrbóta og skilaði hún tillögum í skýrslu sem bar heitið Kanada og heimskautavísindi (Canada and Polar Science). Megintillögur nefndarinnar voru að sett yrði á fót kanadísk heimskautarannsóknastjórn (Canadian Polar Research Commission) og efnt til upplýsingaátaks og samvinnu milli íbúa norðursvæða og rannsóknaraðila til að ákvarða forgangsröðun rannsóknarverkefna. Jafnframt skyldu settar á fót miðstöðvar til að koma á framfæri upplýsingum um heimskautarannsóknir.
    Prófessor við Trent-háskóla í Ontaríó fékk síðan það verkefni að vinna úr tillögum nefndarinnar og á grundvelli þessara tillagna voru sett lög um kanadísku heimskautastjórnina (Canadian Polar Commission) í febrúar 1991. Í henni eiga sæti tólf fulltrúar (Board of Directors) skipaðir til þriggja ára og geta þeir sett á fót starfshópa og nefndir. Skrifstofur heimskautastjórnarinnar eru í Ottawa og í Yellowknife í Norður-Kanada og sinna þær m.a. tengslum og upplýsingamiðlun.
    Heimskautastjórninni er m.a. ætlað að hafa yfirlit yfir alla vísindastarfsemi tengda heimskautasvæðum, meta gæði og stöðu kandadískrar rannsóknarstarfsemi á þessu sviði, styðja við frumkvæði í rannsóknum, veita upplýsingar og vera kanadískum stjórnvöldum, vísindastofnunum og iðnaði til ráðgjafar um stefnumótun er tengist heimskautamálefnum.
    Meginfjármögnun til starfsemi heimskautastjórnarinnar kemur frá kanadíska ríkinu. Samvinna á að vera við ýmsar rannsóknastofnanir, einkum í Norður-Kanada og fylkisstjórnir. Heimskautastjórnin á að ýta undir alþjóðlegt samstarf um heimskautamálefni og hún sér um aðild Kanada að Alþjóðaráði norðurvísinda (IASC).
    Samhliða þessu hafa kanadísk stjórnvöld komið til móts við kröfur frumbyggja í Norðaustur-Kanada um sérstakt landsvæði (territory of Nunavat) þeim til handa. Fær Nunavat-svæðið, sem tekur yfir meira en fimmtung af flatarmáli Kanada og er að meiri hluta til byggt Inúítum, víðtæka sjálfsstjórn frá 1999 að telja samkvæmt samningi.

Mengun, olíuvinnsla og nýting sjávarauðlinda.
    Staðbundin og aðborin mengun er vaxandi áhyggjuefni þeirra sem fylgjast með málefnum norðurskautssvæðisins. Kemur þar margt við sögu. Lífræn þrávirk klórkolefnasambönd eins og PCB og DDT eru sá mengunarvaldur sem lífríkinu stafar hvað mest hætta af, svo og af þungmálmum. Rekstur kjarnorkuvera, kjarnorkuúrgangur sem varpað hefur verið í hafið, starfsemi endurvinnslustöðva úr geislavirkum úrgangi, tilraunasprengingar og umferð kjarnorkuknúinna skipa og kafbáta, sumpart búinna kjarnavopnum, skapar stöðuga og geigvænlega hættu fyrir umhverfi norðurslóða og afkomu þeirra þjóða sem lifa af sjávarfangi. Sýring andrúmslofts og úrkomu ógnar einnig lífi á stórum heimskautasvæðum. Þá munu loftslagsbreytingar vegna aukinnar mengunar af völdum gróðurhúsalofttegunda að líkindum koma verst niður á lífsskilyrðum á heimskautasvæðum.
    Olíuleit og hugmyndir um olíuvinnslu taka nú þegar til Norður-Íshafsins, jafnvel allt norður á 78. breiddargráðu. Margir hafa af þessu áhyggjur vegna hættu á umhverfisspjöllum af olíuvinnslu sem yrðu til muna alvarlegri við þær aðstæður sem ríkja á norðlægum slóðum. Setlagamælingar hafa þegar verið gerðar norður af Íslandi, á Jan Mayen svæðinu og við Austur-Grænland. Fjölmörgum spurningum þarf að svara áður en til greina gæti komið að leyfa olíuvinnslu á þessum slóðum. Slík umræða er nú hafin vegna Barentshafs þar sem líkur eru taldar á miklum olíulindum og jarðgasi undir hafsbotni.
    Norður-Íshafið er að stórum hluta þakið ís allt árið, en útbreiðsla hans er breytileg eftir árstíma og hafstraumum. Landgrunnssvæðin út frá meginlöndunum eru mikið til íslaus og standa undir mikilli framleiðni þar sem nóg er af næringarefnum vegna blöndunar hlýrra og kaldra strauma. Þessi umhverfisskilyrði eru hins vegar miklum breytingum háð og af því leiðir miklar sveiflur í lífrænni framleiðni og afrakstri fiskstofna sem margir hverjir sækja sér fæðu í norðurhöf en hrygna langtum sunnar, eins og þorskur og loðna eru dæmi um. Við sveiflur í framleiðni bætist tegundafæð en hvort tveggja veldur óstöðugleika og hættu á ofveiði og hruni í einstökum stofnum. Þekking á þessum náttúruskilyrðum og vistkerfi sjávar er undirstaða sjálfbærrar nýtingar á sjávarauðlindum og víðtækar hafrannsóknir í norðurhöfum eru því lífsnauðsyn fyrir þær þjóðir sem byggja afkomu sína á sjávarútvegi. Jafnframt er það úrslitaatriði að bægja frá skaðlegri mengun og koma í veg fyrir loftslagsbreytingar af mannavöldum, m.a. eyðingu ósonlagsins.

Heiti og helstu verkefni íslenskrar norðurstofnunar.
    Af framansögðu má vera ljós þörfin fyrir sérstaka stofnun hérlendis sem sinni málum er varða norðurslóðir. Fáar þjóðir eru jafnnátengdar norðurskautssvæðinu og Íslendingar. Landið liggur á mörkum þess og kaldtempraða beltisins og hálendi Íslands og annes á norðanverðu landinu bera ótvíræðan norðurhjarasvip. Drjúgur hluti náttúrurannsókna hér á landi getur í raun flokkast undir heimskautarannsóknir en lítið hefur verið gert að því að fella þær inn í slíkt samhengi.
    Lagt er til að norðurstofnunin beri nafn Vilhjálms Stefánssonar landkönnuðar sem ávann sér heimsfrægð fyrir rannsóknir á norðlægum heimskautalöndum. Foreldrar Vilhjálms, Jóhann Stefánsson frá Svalbarðsströnd og Ingibjörg Jóhannesdóttir úr Skagafirði, fluttust til Vesturheims 1876 og í Norður-Dakota fæddist Vilhjálmur 3. nóvember 1879. Hann ritaði á langri starfsævi 24 bækur um heimskautalöndin og íbúa þeirra og birti auk þess yfir 400 ritgerðir. Vilhjálmur var heiðursdoktor við marga háskóla, m.a. við Háskóla Íslands. Það er viðeigandi að kenna íslenska norðurstofnun við Vilhjálm og mundi vafalítið greiða fyrir alþjóðlegum samskiptum hennar. Stofnunin gæti á ensku kallast Vilhjalmur Stefansson Arctic Institute.
    Þingsályktunartillagan gerir ráð fyrir að ríkisstjórnin undirbúi að sett verði á fót norðurstofnun á Akureyri innan tveggja ára eða í ársbyrjun 1996. Meginhlutverk hennar verði að stuðla að sem öflugustum rannsóknum innlendra aðila á norðurslóðum og alþjóðlegri þátttöku Íslendinga í málum er varða norðurskautssvæðið. Nánar er kveðið á um helstu verkefni stofnunarinnar í tillögunni en þar er engan veginn um tæmandi upptalningu að ræða.
    Samkvæmt hugmyndum flutningsmanna yrði skipulag og samræming rannsókna og aðild að rannsóknum drjúgur þáttur í starfi íslenskrar norðurstofnunar. Um yrði að ræða rannsóknir er fram færu hérlendis og á hafsvæðum innan íslenskrar lögsögu en einnig rannsóknir utan hennar með þátttöku í fjölþjóðlegum rannsóknarverkefnum og leiðöngrum. Hafa ber í huga að þótt náttúrufræðisvið séu óhjákvæmilega fyrirferðarmikil í heimskautarannsóknum taka þær nú orðið til flestra fræðasviða, m.a. mannfræði og félagsfræði, heilbrigðisfræða og lífeðlisfræði, fornminja og tæknigreina. Aðstæður á norðurslóðum kalla á aðlögun margvíslegrar tækni og búnaðar að heimskautaskilyrðum en þær orka einnig á manninn líkamlega og andlega með sérstökum hætti eins og raunar á aðrar tegundir lífvera. Þá ber að geta pólitískra mála er varða réttindi og nýtingu auðlinda á norðlægum slóðum eins og við höfum rækilega verið minnt á nýverið vegna Barentshafs og Svalbarðasvæðisins.
    Starfssvið og vettvangur íslenskrar norðurstofnunar mun að sjálfsögðu þróast og taka breytingum. Þó er ekki óeðlilegt að líta svo til að auk heimskautarannsókna hér innan lands séu það hafsvæðin norður af landinu milli Austur-Grænlands annars vegar og Jan Mayen og Svalbarða hins vegar sem sjónir okkar beinist öðru fremur að. Það sem gerist í náttúrufari þessa víðlenda svæðis hefur fyrr en varir bein og óbein áhrif hér á landi. Umrædd landsvæði liggja líka betur við rannsóknum héðan en víðast hvar annars staðar frá.

Staðsetning og umfang.
    Norðlægt svipmót hér á landi er meira áberandi í lífríki norðan lands en sunnan heiða og á það bæði við um gróður og dýralíf. Þá er Dumbshafið skammt undan Norðurlandi og auðveldara að gera skip út þaðan til rannsókna. Reglubundnar flugsamgöngur til Austur-Grænlands hafa um langt skeið verið frá Akureyri og þaðan er skemmra til könnunarflugs yfir íshafssvæðin en frá landinu sunnanverðu. Meðal annars af þessum ástæðum er eðlilegt að velja stofnun Vilhjálms Stefánssonar aðsetur á Akureyri. Á það er einnig að líta að tilkoma slíkrar stofnunar fellur einkar vel að því rannsóknarumhverfi sem er í mótun á Akureyri. Þar getur stofnun sem þessi haft stuðning af vaxandi vísindarannsóknum innan Háskólans á Akureyri, frá rannsóknastofnunum á sviði sjávarútvegs, svo og frá nýstofnuðu setri Náttúrufræðistofnunar Íslands.
    Áherslu ber að leggja á að hér er um landsstofnun að ræða sem kostuð yrði af framlögum úr sameiginlegum sjóði. Fljótlega ætti hún að geta aflað nokkurra tekna fyrir hagnýta þjónustu, svo og fyrir útseld verkefni. Tilkoma slíkrar stofnunar ætti að greiða fyrir samstarfi innlendra aðila er láta sig heimskautamálefni varða, auðvelda mjög samstarf við erlendar rannsóknastofnanir og því mundi vafalaust fylgja þátttaka erlendis frá í fjármögnun ýmissa verkefna.
    Eðlilega verður spurt hver þurfi að vera stærð slíkrar stofnunar í byrjun og um umfang starfseminnar, m.a. vegna áætlana um stofn- og rekstrarkostnað. Á þessu stigi er ekki hægt að fullyrða um slík atriði, en þau mundu skýrast við þann undirbúning sem tillagan gerir ráð fyrir.
    Til viðmiðunar mætti hér nefna sex stöðugildi, þar af helming stöður sérfræðinga með háskólamenntun. Um húsrými fer m.a. eftir hvort um samstarf og samnýtingu gæti verið að ræða við aðra og má til viðmiðunar hafa 200 fermetra gólfrými. Miðað við þessar forsendur væri launakostnaður nálægt 17 millj. kr. og árlegur húsnæðiskostnaður um 1 millj. kr. Ef annar árlegur kostnaður, m.a. vegna búnaðar, ferða og rannsóknarverkefna, næmi 7 millj. kr. væri hér alls um 25 millj. kr. veltu að ræða á verðlagi í árslok 1993. Á móti gæti komið einhver tilfærsla á verkefnum frá öðrum stofnunum, svo og sértekjur í vaxandi mæli eftir því sem stofnuninni vex fiskur um hrygg. Vissulega er ekki útilokað að hefja starfsemi norðurstofnunarinnar innan þrengri ramma, en slíkt þarf að skýrast við frekari undirbúning.
    Þá gæti einnig komið til greina að innlendar rannsóknastofnanir leggi norðurstofnuninni til verkefni og fjármagn og hún verði eins konar sameignarstofnun þeirra og ríkisins. Félli það og vel að hugmyndinni um samvinnunefnd rannsóknastofnana sem tillagan gerir ráð fyrir.
    Einnig gæti komið til álita að gera samstarfssamning milli stofnunarinnar og Háskólans á Akureyri með hliðsjón af samningum sem gerðir hafa verið milli háskólans og nokkurra rannsóknastofnana.

Samvinnunefnd og stjórn.
    Samkvæmt tillögunni er gert ráð fyrir að sett verði á fót samvinnunefnd um norðurmálefni, skipuð fulltrúum þeirra rannsóknastofnana sem nú þegar sinna eða tengjast verkefnum á sviði norðurslóðarannsókna. Í samvinnunefndinni verði þannig fulltrúar tilnefndir af eftirtöldum stofnunum:
 —    Rannsóknarráði Íslands sem hingað til hefur séð um tengsl vegna norðurrannsókna,
 —    Háskóla Íslands en innan hans eru vísindamenn sem lagt hafa talsvert af mörkum til slíkra rannsókna,
 —    Háskólanum á Akureyri sem er að eflast sem rannsóknastofnun,
 —    Hafrannsóknastofnun sem vinnur reglubundið að athugunum á hafsvæðum norður af landinu og hefur einnig aðstöðu nyrðra,
—    Náttúrufræðistofnun Íslands eða setri hennar á Akureyri,
 —    Rannsóknastofnun landbúnaðarins sem sinnir ýmsum norðurhjararannsóknum og stendur að starfsemi í Eyjafirði,
 —    Veðurstofu Íslands sem m.a. vinnur að hafísathugunum og loftgæðarannsóknum.
    Formaður samvinnunefndarinnar yrði skipaður af umhverfisráðherra.
    Með þessari skipan er leitast við að tryggja víðtæk tengsl og samstarf um málefni stofnunar Vilhjálms Stefánssonar.
    Lagt er til að samvinnunefndin kjósi úr sínum hópi tvo menn í stjórn stofnunarinnar auk formanns nefndarinnar sem jafnframt verði formaður stjórnar. Vel má hugsa sér að fulltrúar einstakra stofnana skiptist á um stjórnaraðild.

..........



    Nú um skeið hafa forráðamenn þjóða í norðanverðri Evrópu litið mest í suðurátt og eru Íslendingar í þeim hópi. Mál er að horfa til fleiri átta og þar er norðrið nærtækt og örlagavaldur í lífi þjóðarinnar fyrr og síðar. Brýnt er að efla þekkingu okkar á norðurslóðum til að geta stuðlað að sjálfbærri þróun á þessu svæði sem miklu varðar um afkomu Íslendinga.


Fylgiskjal.


(Repró, 1 síða, bls. 10 í þskj. 429 á 117. þingi.)