Ferill 173. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 173 . mál.


187. Frumvarp til

laga

um Lýðveldissjóð.

Flm.: Geir H. Haarde, Finnur Ingólfsson, Rannveig Guðmundsdóttir,


Ragnar Arnalds, Kristín Ástgeirsdóttir.1. gr.


    Lýðveldissjóður er stofnaður í tilefni 50 ára afmælis lýðveldisins. Hann er eign ríkisins. Varsla hans og dagleg umsýsla heyrir undir forsætisráðuneytið. Starfstími sjóðsins er frá ársbyrjun 1995 til ársloka 1999.

2. gr.


    Hlutverk sjóðsins er tvíþætt: að stuðla að rannsóknum á lífríki sjávar og að efla íslenska tungu.

3. gr.


    Alþingi skal fyrir árslok 1994 kjósa sjóðnum þriggja manna stjórn.
    Stjórnin skal staðfesta rannsóknaáætlun fyrir verkefni í vistfræðirannsóknum á lífríki sjávar og reglur um stjórn verkefnisins, svo og um þátttöku vísindamanna og stofnana í því.
    Enn fremur skal sjóðstjórnin skipta því fé sem er til ráðstöfunar til eflingar íslenskri tungu og samþykkja verkefnaáætlun.
    Sjóðstjórn skal semja greiðsluáætlun fyrir sjóðinn ár hvert og fylgjast með framvindu verkefna sem unnin eru með fé úr sjóðnum.
    Stjórnin skal gangast fyrir vali á þriggja manna verkefnisstjórnum er hafi á hendi faglega yfirstjórn verkefnaáætlana um lífríkisrannsóknir og eflingu íslenskrar tungu.

4. gr.


    Ríkissjóður skal samkvæmt sérstökum lið á fjárlögum leggja sjóðnum til 100 millj. kr. fyrir hvert starfsár. Heildarfjárveiting á starfstíma sjóðsins skal skiptast jafnt á milli þeirra tveggja verkefna sem sjóðnum eru falin.

5. gr.


    Lýðveldissjóður er undanþeginn öllum opinberum gjöldum og sköttum til ríkissjóðs eða sveitarsjóðs eða annarra stofnana.

6. gr.


    Nánari ákvæði um skipulag sjóðsins og framkvæmd laga þessara má setja með reglugerð að höfðu samráði við forsætisnefnd Alþingis.

7. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Á þingfundi á Þingvöllum 17. júní sl. samþykkti Alþingi þingsályktun um stofnun hátíðarsjóðs í tilefni 50 ára afmælis lýðveldisins. Hér er lagt til að efni þeirrar þingsályktunar verði fest í lög til að treysta grundvöll sjóðsins enn frekar. Þá er hér gerð tillaga um að sjóðurinn skuli heyra undir forsætisráðuneytið að því er varðar vörslu hans, daglega umsýslu o.s.frv.
    Ríkissjóður leggur sjóðnum til 100 millj. kr. ár hvert samkvæmt sérstökum fjárlagalið undir æðstu stjórn ríkisins. Helmingi ráðstöfunarfjár sjóðsins skal varið til átaks í vistfræðirannsóknum á lífríki sjávar og helmingi til að treysta og efla íslenska tungu. Ráðgert er að á starfstíma sjóðsins renni helmingur fjárins, 250 millj. kr., til hvors verkefnis um sig en að sjóðstjórn hafi svigrúm til að skipta ár hvert ráðstöfunarfénu, 100 millj. kr., eftir því hvernig verkefni standa.
    Gert er ráð fyrir að stjórn sjóðsins sé skipuð utanþingsmönnum sem þingflokkar koma sér saman um og hún láti semja tillögu að skipulagsskrá fyrir sjóðinn að höfðu samráði við forsætisnefnd þingsins sem staðfest verði með venjubundnum hætti fyrir árslok 1994, sbr. lög nr. 19/1988.
    Við samþykkt þingsályktunarinnar á Þingvöllum 17. júní sl. var miðað við að undirbúningi verkefna sjóðsins ljúki fyrir næstu áramót þannig að vinna að þeim geti hafist í byrjun næsta árs. Miðað er við að sú áætlun standist.
    Umsjón með vistfræðirannsóknum á lífríki sjávar verður á hendi faglegrar verkefnisstjórnar og skulu reglur um störf hennar staðfestar af sjóðstjórn. Þá er gert ráð fyrir að sjóðstjórn staðfesti rannsóknaáætlunina. Talið er heppilegt að Hafrannsóknastofnun hafi með höndum forustu um undirbúning þessa verkefnis og geri tillögur til sjóðstjórnar um rannsóknaáætlunina, stjórn verkefnisins og þátttöku vísindamanna og stofnana í því. Þótt gera megi ráð fyrir að þetta verkefni verði einkum á hendi starfsmanna Hafrannsóknastofnunar er ætlast til þess að stofnunin nýti sér þekkingu annarra vísindamanna eftir því sem við á.
    Samkomulag er á milli allra þingflokka um að við skiptingu þess fjár, sem fara á til eflingar íslenskri tungu, verði einkum höfð í huga þrjú verkefni: Í fyrsta lagi efling Málræktarsjóðs, þannig að í sjóðnum verði eigi minna en 100 millj. kr. að fimm árum liðnum, í öðru lagi útgáfa nýrra rita um íslenska tungu og málmenningu fyrir skólaæsku landsins og í þriðja lagi önnur þau verkefni sem að mati sjóðstjórnar eru til þess fallin að efla íslenska tungu. Stjórn sjóðsins er ætlað að gangast fyrir gerð verkefnaáætlunar um tvö síðasttöldu atriðin í samvinnu við málvísindamenn og skólamenn.