Ferill 175. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1994. – 1064 ár frá stofnun Alþingis.
118. löggjafarþing. – 175 . mál.


192. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum.

(Lagt fyrir Alþingi á 118. löggjafarþingi 1994.)



1. gr.


    5. gr. laganna hljóðar svo:
    Framleiðsluráð landbúnaðarins er samstarfsvettvangur allra búvöruframleiðenda í landinu og samtaka þeirra.
    Framleiðsluráð skal skipað fimmtán mönnum. Skal stjórn nýrra heildarsamtaka bænda skipa fjórtán menn í ráðið, þar af fjóra án tilnefningar og tíu sem eftirgreindir aðilar tilnefna: Landssamband kúabænda, sem tilnefnir tvo menn í ráðið, og Samtök af urðastöðva í mjólkuriðnaði, Landssamtök sláturleyfishafa, Félag eggjaframleiðenda, Félag hrossabænda, Félag kjúklingabænda, Landssamtök sauðfjárbænda, Samband garðyrkjubænda og Svínaræktarfélag Íslands, sem tilnefna hver um sig einn mann. Þá skipar landbúnaðarráðherra einn mann í ráðið. Velja skal jafnmarga varamenn í Fram leiðsluráð með sama hætti.
    Framleiðsluráð skal skipað til eins árs í senn frá og með 1. apríl ár hvert. Ráðið kýs sér formann og varaformann til sama tíma. Þegar rætt er um málefni er varða aðrar bú greinar en fulltrúa eiga í Framleiðsluráði ber að gefa fulltrúum félaga þeirra, einum frá hverju, kost á að sitja fund ráðsins með málfrelsi og tillögurétti. Framleiðsluráð kýs úr sínum hópi aðal- og varamenn í framkvæmdanefnd. Verkefni nefndarinnar er að taka ákvörðun um og afgreiða mál sem ekki þykir fært að fresta til fundar Framleiðsluráðs. Jafnframt getur ráðið falið framkvæmdanefnd framkvæmd einstakra mála.
    Framleiðsluráð ræður sér framkvæmdastjóra og annað starfslið eftir því sem þörf krefur.
    

2. gr.


    Við lögin bætist svofellt ákvæði til bráðabirgða:


H.

    Skipa skal í nýtt Framleiðsluráð skv. 5. gr. laganna að afstöðnu fyrsta þingi nýrra heild arsamtaka bænda. Skal nýskipað Framleiðsluráð taka til starfa 1. apríl 1995 og fellur þá jafnframt niður umboð þeirra manna sem nú skipa ráðið.
    

3. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í 5. gr. laga nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, er fjallað um skipan Framleiðsluráðs landbúnaðarins. Samkvæmt 2. mgr. greinarinnar eru tólf menn af þeim fimmtán sem eiga sæti í Framleiðluráði kjörnir af Stéttarsambandi bænda á fulltrúafundi þess. Tveir fulltrúar Framleiðsluráðs eru skipaðir af stjórn Stéttarsambands bænda en einn fulltrúi er tilnefndur af landbúnaðarráðherra. Við sameiningu Stéttarsambands bænda og Búnaðarfélags Íslands í ein heildarsamtök bænda 1. janúar 1995 er nauðsynlegt að breyta ákvæðum laga nr. 99/1993 um skipan Framleiðsluráðs og er lagt til í 1. gr. frum varps þessa að ný heildarsamtök bænda skipi fjórtán menn í Framleiðsluráð en þar af til nefni búgreinafélög tíu menn. Með þessu fyrirkomulagi er hlutdeild búgreinafélaga aukin frá því sem nú er og er það í samræmi við samkomulag innan bændasamtakanna í tengslum við sameininguna.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 99/1993,


um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum.


    Með frumvarpinu eru gerðar nauðsynlegar breytingar á skipan Framleiðsluráðs landbúnaðarins í kjölfar sameiningar Stéttarsambands bænda og Búnaðarfélags Íslands í ein heildarsamtök bænda.
    Frumvarpið felur ekki í sér kostnaðarauka fyrir ríkissjóð.