Ferill 209. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1994. – 1064 ár frá stofnun Alþingis.
118. löggjafarþing. – 209 . mál.


235. Frumvarp til laga



um útflutning hrossa.

(Lagt fyrir Alþingi á 118. löggjafarþingi 1994.)



1. gr.


    Útflutningur á hrossum er heimill án sérstakra leyfa nema þegar um er að ræða úrvals kynbótagripi. Útflutningshross skulu vera á aldrinum fjögra mánaða til 15 vetra. Þó má flytja úr landi eldri kynbótahross en þá einungis í flugvélum. Óheimilt er að flytja úr landi fylfullar hryssur sem gengnar eru með sjö mánuði eða lengur.
    

2. gr.


    Öll hross sem flutt eru úr landi skulu heilbrigðisskoðuð af embættisdýralækni. Skoðun skal ávallt miða við þær kröfur sem gerðar eru í innflutningslandi. Einungis er heimilt að flytja úr landi heilbrigð og rétt sköpuð hross og skulu þau merkt með þeim hætti að ekki verði um villst. Dýralæknir á útflutningshöfn skal ganga úr skugga um að útflytjendur skili skrá yfir útflutningshross og að merkingar séu í samræmi við þá skrá og upprunavottorð. Skrá þessi fylgir hrossunum í flutningsfari. Heimilt er yfirdýralækni að ráða sérstakan dýralækni til að hafa eftirlit með útflutningi hrossa.
    Gjald fyrir skoðun á útflutningshrossum greiðist úr útflutningssjóði.
    

3. gr.


    Flutningsfar fyrir hross og öll aðstaða, svo sem rými, loftræsting, brynningartæki og að staða til fóðrunar, skal vera með þeim hætti að sem best verði að hrossunum búið. Yfir dýralæknir eða fulltrúi hans skal líta eftir að reglum um aðbúnað sé fylgt.
    Á tímabilinu 1. nóvember til 15. apríl er einungis heimilt að flytja hross til útlanda með viðurkenndum flutningaskipum eða með flugvélum.
    

4. gr.


    Hrossum, sem flutt eru úr landi, skal fylgja vottorð frá Búnaðarfélagi Íslands er stað festi uppruna hrossins og ætterni.
    Innlendir hrossaræktendur og samtök þeirra eiga forkaupsrétt að úrvalskynbótagripum sem áformað er að flytja úr landi. Búnaðarfélag Íslands getur óskað eftir því við landbún aðarráðuneytið að það fresti útflutningi á þeim í allt að tvær vikur á meðan forkaupsréttur er boðinn. Við boð á forkaupsrétti skal miða við uppgefið útflutningsverð.
    Hrossaræktarnefnd, sem starfar skv. 5. og 6. gr. laga nr. 84/1989, um búfjárrækt, skal árlega ákveða mörk kynbótamats sem hross þarf að hafa til að teljast úrvalskynbótagripur.
    

5. gr.


    Útflutningsgjald skal leggja á hvert útflutt hross og skal það innheimt við útgáfu upp runavottorðs. Það skal vera 8.000 kr. að hámarki og breytast árlega, 1. febrúar, samkvæmt vísitölu búfjárræktar sem útgefin er af Hagstofu Íslands. Útflutningsgjaldið greiðist í sérstakan útflutningssjóð í vörslu landbúnaðarráðuneytisins og er ætlað að standa undir kostn aði við skoðun á útflutningshrossum, útgáfu upprunavottorða; 5% af gjaldinu skal greiða í stofnverndarsjóð íslenska hestakynsins sem starfar skv. 15. gr. laga nr. 84/1989, um bú fjárrækt, og 15% af gjaldinu skal greiða í Búnaðarmálasjóð. Eftirstöðvum hvers árs skal varið til útflutnings- og markaðsmála, að fengnum tillögum útflutnings- og markaðsnefnd ar.
    Reikninga sjóðsins skal birta árlega í Stjórnartíðindum og þeir endurskoðaðir af Ríkis endurskoðun.
    

6. gr.


    Skipa skal fimm manna nefnd, útflutnings- og markaðsnefnd er hafi það hlutverk að vera ráðgefandi um málefni er snerta útflutning á hrossum og gera tillögur um ráðstöfun á eftirstöðvum útflutningsgjalds, sbr. 5. gr. Búnaðarfélag Íslands, Félag hrossabænda, yfir dýralæknir og hrossaútflytjendur skulu tilnefna aðila í nefndina en ráðherra skipar formann án tilnefningar.
    

7. gr.


    Landbúnaðarráðherra fer með framkvæmd laga þessara og setur í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd þeirra, þar með taldar kröfur um heilbrigði fullorðinna kynbóta hrossa sem flytja á úr landi, skoðun og merkingu útflutningshrossa og aðstöðu í útflutn ingshöfn.
    

8. gr.


    Brot gegn lögum þessum varða sektum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum.
    

9. gr.


    Lög þessi öðlast gildi 15. apríl 1995. Jafnframt falla úr gildi lög nr. 64/1958, um út flutning hrossa, svo og lög nr. 67/1969, lög 39/1986, 53. gr. laga nr.10/1983, lög nr. 40/1993 og lög nr. 41/1994 um breytingar á þeim lögum.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp til laga um útflutning hrossa var flutt á síðasta þingi en náði þá ekki fram að ganga. Einungis var samþykkt lítils háttar rýmkun á þeim tíma sem heimilt er að flytja hross til útlanda með skipum.
    Frumvarpið er endurflutt nú en nokkuð breytt. Tillit hefur verið tekið til athugasemda og ábendinga sem fram komu frá Páli A. Pálssyni fyrrverandi yfirdýralækni og nokkrum hrossaútflytjendum.
    Lög um útflutning hrossa eru frá árinu 1958 en hefur verið breytt lítillega fimm sinnum. Við afgreiðslu laga nr. 40/1993 komu fram ábendingar um að tímabært væri að endurskoða lögin um útflutning hrossa í heild og beindi landbúnaðarnefnd Alþingis því til landbúnað arráðuneytis. Að því hefur verið unnið undanfarið og hefur ráðuneytið haft samráð við yf irdýralækni, Búnaðarfélag Íslands, Félag hrossabænda og hrossaútflytjendur við það starf. Búnaðarþing 1994 ályktaði um drögin sem lágu fyrir vorþinginu 1994 og hefur verið tekið tillit til þeirrar ályktunar.
    Aðstæður til útflutnings á hrossum eru í öllum aðalatriðum mjög breyttar nú frá því sem var árið 1958. Sérstaklega á það við um flutningatækni og aðbúnað um borð í flutningsfari. Aðbúnaður hefur batnað og því ekki sama ástæða til að hafa áhyggjur af velferð hrossanna í flutningum og áður. Einnig eru flutningsför miklu öruggari og þola meira álag vegna sjóa og veðurs. Því er m.a. eðlilegt að endurskoða þau tímamörk er gilda um flutning hrossa með skipum.
    Í frumvarpinu er hvergi slakað á kröfum um aðbúnað og einnig gert ráð fyrir að ráð herra setji í reglugerð skýrar reglur um aðstöðu og búnað er fylgja skal hrossum. Skal þar hafa náið samráð við umhverfisráðherra og taka mið af þeim alþjóðlegu samningum um dýravernd sem Ísland er aðili að. Gert er ráð fyrir að yfirdýralæknir eða fulltrúi hans sjái um að þeim reglum sé framfylgt. Í samræmi við óskir hrossabænda eru reglur um heil brigðisskoðun einfaldaðar en í reglugerð verður kveðið nánar á um heilbrigðisskoðun, merkingu og hlutverk trúnaðardýralæknis á útflutningshöfn. Þá er gefinn sá möguleiki að ráðinn verði dýralæknir til að vinna að útflutningsmálum. Kostnaður við störf hans yrði greiddur úr útflutningssjóði.
    Ekki er lengur gert ráð fyrir að veitt sé leyfi fyrir útflutningi á hrossum heldur er ein ungis krafist upprunavottorðs og heilbrigðisskoðunar. Ung folöld, fylfullar hryssur og hross eldri en 15 vetra (önnur en kynbótahross) verður þó óheimilt að flytja til útlanda. Heimilt er að fresta útflutningi úrvalskynbótagripa og bjóða innlendum ræktendum að ganga inn í kaupin. Árlega skal hrossaræktarnefnd setja viðmiðunarmörk um hvað telst úr valskynbótagripur og þau auglýst. Þetta er mikil einföldun því nú er útgáfa útflutningsleyfa flókin og margir aðilar sem að henni koma.
    Landbúnaðarráðherra skipar fimm manna útflutnings- og markaðsnefnd sem hefur margþætt hlutverk. Í núgildandi lögum segir að Búnaðarfélag Íslands og Framleiðsluráð landbúnaðarins vinni að þessum málum en eðlilegt hlýtur að teljast að Félag hrossabænda, hrossaútflytjendur og yfirdýralæknir komi í stað Framleiðsluráðs.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að innheimta gjald á hvert útflutt hross. Gjaldið skal renna í sjóð er hafi það hlutverk að standa undir kostnaði við heilbrigðisskoðun vegna út flutnings og við útgáfu upprunavottorðs auk þess sem 15% gjaldsins renna í Búnaðarmála sjóð og 5% í stofnverndarsjóð íslenska hestakynsins. Þessu ákvæði er einkum ætlað að ein falda það kerfi sem nú ríkir. Horfið verður frá því að útflytjendur kosti beint heilbrigðis skoðun enda er það í samræmi við þá viðurkenndu stefnu að yfirvöld sjái um eftirlit en inn heimti gjald fyrir. Er það gert til að minnka líkur á hagsmunaárekstrum og hagsmuna tengslum. Sjóðurinn mun greiða fyrir lögbundna útflutningsskoðun og fyrir blóðtöku og blóðrannsókn vegna „cogging-prófs“. Nái þetta frumvarp fram að ganga verður innheimtu gjalds til Búnaðarmálasjóðs, Stofnlánadeildar og Framleiðsluráðs hætt en hluti útflutnings gjalds rennur til þeirra aðila er áður nutu þess. Það fjármagn sem eftir stendur verður notað til markaðsstarfa. Rétt er að taka sérstaklega fram að nái þetta ákvæði fram að ganga mun ráðuneytið breyta reglugerð um stofnverndarsjóð íslenska hestakynsins og reglugerðum um innheimtu svokallaðra sjóðagjalda. Stofnverndarsjóður mun þó starfa áfram enda á sjóðurinn umtalsverðar eignir og getur sinnt því hlutverki sem honum er ætlað án mikilla fjárveitinga.
    Ákvæði þessa frumvarps gilda ekki um útflutning á sæði eða fósturvísum.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Hér er lagt til að útflutningur hrossa sé heimill án sérstakra leyfa og er það nýmæli. Í lögum nr. 84/1989, um búfjárrækt, er gert ráð fyrir að útflutningur á tímgunarhæfu búfé sé háður leyfum landbúnaðarráðuneytisins. Ástæða þess að lagt er til að aðrar reglur gildi um hross er að útflutningur er stór hluti af verðmætasköpun í hrossarækt auk þess sem hann er miklu algengari en í öðru búfé. Fjöldi kynbótagripa í landinu er mjög mikill og ekki ástæða til að ætla að það komi niður á ræktuninni þó hluti þeirra sé seldur úr landi og óþarfi er að gera það ferli of flókið. Því verður við það miðað að einungis úrvalsgripir að mati hrossaræktarnefndar séu háðir forkaupsrétti innlendra ræktenda.
    Núgildandi lög gera ráð fyrir að útflutningshross skuli ekki vera eldri en 10 vetra. Þó er heimilt að flytja út eldri hross ef yfirdýralæknir mælir með því. Þar sem ekki þykir leng ur ástæða til að hafa áhyggjur af velferð hrossa í flutningum er þessum aldursmörkum breytt þannig að ekki má flytja út folöld yngri en fjögra mánaða eða hross eldri en 15 vetra. Þó er gefinn kostur á að flytja úr landi eldri kynbótahross. Oft má fá gott verð fyrir fullorð in kynbótahross í útflutningi þó verðgildi og kynbótagildi þeirra sé takmarkað hérlendis. Einnig eru lagðar hömlur á útflutning hryssna sem stutt eiga eftir í köstun.
    

Um 2. gr.


    Ákvæðin eru um margt lík þeim sem nú gilda. Lögð er af sjö daga tikynningarskylda enda eru hross nú flutt út vikulega en áður tvisvar á ári. Í reglugerð verða skilgreindar út flutningshafnir þar sem heilbrigðisskoðun getur farið fram og aðeins gert ráð fyrir minni háttar skoðun í útflutningshöfn. Í reglugerð verður nánar kveðið á um skil milli heilbrigðis skoðunar og eftirlits í útflutningshöfn. Þá er lagt til að heilbrigðisskoðun verði greidd úr útflutningssjóði af því fjármagni sem innheimt verður af útfluttum hrossum. Þar er horfið frá lagabreytingu frá 1993 og þeirri verklagsreglu sem mótast hefur undanfarin ár. Þetta er í samræmi við þá þróun að minnka hagsmunatengsl.
    Til útskýringar má skipta ferlinu í fernt:
     1 .     Skoðun á flutningsfari og aðstöðu fyrir hrossin.
     2 .     Útlitsskoðun við flutningsfar. Gætt að skráningum, merkingum og upprunavottorðum. Undirskrift á heilbrigðisvottorð.
     3 .     Lítils háttar heilbrigðisskoðun, framkvæmd þar sem aðstaða er góð (ekki við flutningsfar). Litið eftir að hrossið sé heilbrigt og rétt skapað.
     4 .     Blóðtaka vegna „cogging-prófs“ og greining sýnis.
    Útflutningssjóður greiðir fyrir þessa þætti en ekki aðra, svo sem akstur.
    Nú er það þannig að oft eru hross skoðuð mun nánar en segir hér að ofan. Það er þá á ábyrgð seljanda og kaupenda og útflutningssjóði óviðkomandi. Hins vegar getur sú skoðun falið í sér liði 3 og 4 og þá eðlilegt að útflutningssjóður greiði útflytjanda til baka sem nemur þeim kostnaði. Þetta atriði verður nánar útfært í reglugerð.
    Að endingu er það nýmæli að yfirdýralækni er heimilað að ráða dýralækni til að hafa eftirlit með útflutningi á hrossum.
    

Um 3. gr.


    Sambærileg ákvæði eru í núgildandi lögum, en nú er gert ráð fyrir ítarlegum ákvæðum í reglugerð og skal þar miða við þá alþjóðlegu samninga um dýravernd sem Ísland er aðili að. Þessar reglur skal setja í samráði við umhverfisráðherra enda fer hann með þau málefni er varða dýravernd. Eðlilegt er að sá tími ársins sem heimilt er að nota skip við flutninga verði endurskoðaður í samræmi við bætta flutningatækni og upplýsingar úr veðurfarssögu. Áður var miðað við 1. maí en nú verður miðað við 15. apríl.
    

Um 4. gr.


    Fyrri hluti greinarinnar um upprunavottorð er nýmæli í lögum. Ákvæði um upprunavottorð er í reglugerð um útflutning hrossa en eðlilegt er í ljósi mikilvægis þessa vottorðs að í lögum séu ákvæði um útgáfu þess. Eðlilegt er að vottorðið byggi á upplýsingum úr gagna banka Búnaðarfélags Íslands um hrossarækt, enda geymir hann flestar þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru til útgáfu þess. Dýralæknir við útflutningsfar kannar hvort uppruna vottorð eigi við þau hross sem koma í útflutninghöfn.
    Seinni hluti greinarinnar fjallar um heimild ráðherra til að fresta útflutningi á úrvals kynbótahrossum og forkaupsrétt innlendra ræktenda á uppgefnu útflutningsverði. Bæði þessi ákvæði eru í núgildandi löggjöf. Samkvæmt 2. gr. núgildandi laga um útflutning hrossa og 14. gr. laga nr. 84/1985, um búfjárrækt, þarf sérstakt leyfi í hvert sinn sem kyn bótahross er flutt úr landi, þannig að hér er um einföldun að ræða. Gert er ráð fyrir að ár lega verði gefin út viðmiðunarmörk varðandi það kynbótamat/-spá sem gilda sem viðmið un um úrvalskynbótagrip.
    

Um 5. gr.


    Samkvæmt núgildandi reglum þarf að greiða ýmis gjöld af þeim hrossum sem flutt eru úr landi. Þar má nefna heilbrigðisskoðun, sjóðagjöld, upprunavottorð og gjald til stofn verndarsjóðs. Verði þetta frumvarp að lögum koma þessi gjöld saman í eitt gjald sem verð ur það sama fyrir öll hross, óháð söluverði. Gjald þetta, sem innheimt verður við útgáfu upprunavottorðs, skal standa undir heilbrigðisskoðun, útgáfu upprunavottorðs, 15% af gjaldinu renna til þeirra aðila er nú njóta búnaðarmálasjóðsgjalds, í sömu hlutföllum og nú er, auk þess sem 5% renna í stofnverndarsjóð íslenska hestakynsins. Jafnframt verður til sjóður sem skal nota til markaðs- og útflutningsmála. Sjóður þessi verður í vörslu landbún aðarráðuneytisins og mun ráðherra úthluta úr honum að fengnum tillögum og umsóknum. Gjaldið verður föst krónutala en breytist árlega samkvæmt vísitölu búfjárræktar, útgefinni af Hagstofu Íslands. Kostnaður við störf útflutnings- og markaðsnefndar greiðist einnig af gjaldinu.
    Þessi breyting er lögð fram til einföldunar og til að fella í eitt þau gjöld sem nú eru inn heimt. Hlutverk stofnverndarsjóðs hefur breyst undanfarið og nú er ekki sama nauðsyn á fjárveitingum til hans og var, auk þess sem hann á umtalsverðar eignir til að vinna með. Vinnsla upprunavottorða verður einfaldari í framtíðinni þegar til kemur samkeyrsla við gagnabanka kynbótastarfsins og fyrr hefur verið getið um ástæður þess að breyta gjaldtöku vegna heilbrigðisskoðunar. Hins vegar er enn ástæða til að efla sameiginlegt markaðsstarf og verður hluti gjaldsins notaður til þess. Þar getur m.a. komið til greina að ráða sérstakan útflutningsráðunaut eða efla samstarf við sérhæfðar stofnanir á þessu sviði. Það getur gerst með útboði á ákveðnum þáttum kynningar og markaðsstarfs. Gert er ráð fyrir að útflutn ingur hrossa verði ekki minni en 2.500 hross næstu árin sem þýðir að tekjur sjóðsins verða um 20 milljónir kr. á ári.
    

Um 6. gr.


    Greinin er nýmæli. Í henni er kveðið á um nefnd, útflutnings- og markaðsnefnd, sem landbúnaðarráðherra skipar. Í nefndinni skulu sitja fulltrúar Búnaðarfélags Íslands, Félags hrossabænda, hrossaútflytjenda og yfirdýralæknis enda eru þetta þeir aðilar sem mest koma að ræktun og verslun með hross. Formann skipar ráðherra án tilnefningar. Nefndin hefur margþætt hlutverk varðandi málefni er snerta útflutning á hrossum ásamt því að gera tillög ur að reglugerð um útflutning hrossa. Með þessari nefndarskipan er fyrst og fremst verið að auka samstarf þeirra sem við þetta starfa og afla sambanda við nýja aðila sem lagt geta verkefninu lið.
    

Um 7. gr.


    Þar sem frumvarpið er tillaga að rammalöggjöf þarf að útfæra marga þætti þess í reglu gerð. Til þess verks þarf að kalla eftir tillögum margra aðila sem að þessum málum vinna.

Um 8. og 9. gr.


    Greinarnar þarfnast ekki skýringar.



Fylgiskjal.
    

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:
    

Umsögn um frumvarp til laga um útflutning hrossa.


    Með frumvarpinu er sett ný rammalöggjöf um útflutning hrossa.
    Samkvæmt frumvarpinu skal innheimta 8.000 kr. gjald á hvert útflutt hross og breytist það gjald árlega í samræmi við breytingu á vísitölu búfjárræktar. Miðað við árlegan út flutning á 2.500 hrossum er hér um 20 m.kr. tekjustofn að ræða.
    Gjaldinu er ætlað að standa undir öllum kostnaði sem frumvarpinu fylgir.