Ferill 211. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1994. – 1064 ár frá stofnun Alþingis.
118. löggjafarþing. – 211 . mál.


239. Frumvarp til laga



um breyting á lögum um landgræðslu, nr. 17/1965, með síðari breytingum.

Flm.: Hjörleifur Guttormsson, Kristín Einarsdóttir.



1. gr.


    1. gr. laganna orðast svo:
    Tilgangur laga þessara er þríþættur: að stuðla að gróðurvernd, að koma í veg fyrir eyð ingu gróðurs og jarðvegs og að græða upp örfoka og lítt gróið land.
    Við framkvæmd laganna skal byggt á vistfræðilegri þekkingu og varúðarreglu. Við
það skal miðað að viðhalda líffræðilegri fjölbreytni og náttúrulegum gróðri landsins.

2. gr.


    Á eftir 5. gr. laganna kemur ný grein, svohljóðandi:
    Því aðeins skal taka til notkunar í landgræðslu innflutta plöntutegund að fyrir liggi já kvæð umsögn Rannsóknastofnunar landbúnaðarins, Rannsóknastöðvar Skógræktar ríkisins, Náttúruverndarráðs og Líffræðistofnunar Háskóla Íslands. Sé nauðsyn talin á skulu þessir aðilar í samvinnu við Landgræðslu ríkisins beita sér fyrir rannsóknum á viðkomandi teg und, einkum með tilliti til þess hvort hætta sé á að hún valdi röskun á lífríkinu þannig að vegið sé að fjölbreytni þess og náttúrulegum gróðursamfélögum.
    Landbúnaðarráðherra skal að höfðu samráði við umhverfisráðherra setja í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd skv. 1. mgr.

3. gr.


    Síðari málsgrein 40. gr. laganna verður svohljóðandi:
    Rannsóknastofnun landbúnaðarins og Rannsóknastöð Skógræktar ríkisins ber ásamt Landgræðslu ríkisins að leita nýrra leiða við uppgræðslu lands og gera rökstuddar tillögur um plöntutegundir sem vænlegar gætu orðið til landgræðslu, enda falli þær að ákvæðum laga þessara um varðveislu líffræðilegrar fjölbreytni og verndun náttúrulegra gróðurlenda.

4. gr.


    41. gr. laganna orðast svo:
    Landgræðslu ríkisins, eða öðrum aðilum, er heimilt að fjölga plöntum af þeim tegund um sem ákveðið hefur verið að nýta til landgræðslu á grundvelli laga þessara.
    Landbúnaðarráðherra skal að höfðu samráði við umhverfisráðherra setja í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd skv. 1. mgr.

5. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.


I.


    Rannsóknastofnun landbúnaðarins skal að höfðu samráði við Náttúruverndarráð og Líf fræðistofnun Háskóla Íslands leggja mat á hvort einhverjar tegundir, sem nú eru notaðar til landgræðslu, falli ekki að alþjóðlegum skuldbindingum og lagaákvæðum um varðveislu líffræðilegs fjölbreytileika og verndun náttúrulegra gróðurlenda og skila um það áliti til ráðherra fyrir árslok 1995. Landbúnaðarráðherra og umhverfisráðherra skulu fjalla sam eiginlega um álitið og gefa út fyrirmæli til Landgræðslu ríkisins á grundvelli þess.

II.


    Landbúnaðarráðherra skal í samráði við umhverfisráðherra skipa nefnd til að endur skoða lög nr. 17/1965, um landgræðslu, með síðari breytingum, og leggja fram á Alþingi frumvarp að nýjum lögum um gróðurvernd og landgræðslu eigi síðar en haustið 1996.

Greinargerð.


    Mikill og vaxandi áhugi er á gróðurvernd og landgræðslu hérlendis. Núverandi ásýnd gróðurlenda og jarðvegs er öðru fremur afleiðing búsetunnar. Gróður- og jarðvegsvernd og rannsóknir á því sviði þurfa að verða meðal forgangsmála. Veruleg reynsla er fengin af starfi Landgræðslu ríkisins og Skógræktar ríkisins á þessari öld sem og af starfi áhuga manna. Breyttir búskaparhættir og auknir möguleikar á stjórnun beitar og friðun stórra landsvæða fyrir beit skapa nýja möguleika sem þarf að hagnýta skipulega til að endur heimta landgæði. Í því starfi þarf að beita bestu tiltækri þekkingu á vistkerfum landsins og auka við hana með rannsóknum. Alþjóðleg reynsla og þekking getur einnig orðið að liði en aðlaga þarf hana aðstæðum hér á landi.

Nýmæli samkvæmt frumvarpinu.
    Það frumvarp, sem hér er flutt um breytingu á lögum um landgræðslu, snertir aðallega notkun innfluttra plantna í landgræðslu. Í gildandi löggjöf er ekki tekið á þeim þætti og því er hér um nýmæli að ræða. Markmiðið með frumvarpinu er að reynt verði að tryggja að notkun innfluttra plantna í þessu skyni falli að stefnu um gróðurvernd og alþjóðlegum skuldbindingum um verndun líffræðilegrar fjölbreytni. Eins og nú háttar má segja að hver og einn geti tekið sér sjálfdæmi um að breyta gróðurríkinu að eigin geðþótta, t.d. á afrétt um.
    Lokið var við gerð alþjóðasamnings um líffræðilega fjölbreytni í Rio de Janeiro 5. júní 1992 og heimilaði Alþingi fullgildingu hans með þingsályktun 6. maí 1994. Ýmis ákvæði í samningnum varða efni þessa frumvarps og er þau m.a. að finna í 6.–9. gr. hans. Í 8. gr. samningsins er fjallað um vernd upprunalegs umhverfis og segir þar m.a.: „Hver samningsaðili skal eftir því sem hægt er og viðeigandi koma í veg fyrir að fluttar séu inn erlendar tegundir sem ógna vistkerfum, búsvæðum eða tegundum, að öðrum kosti stjórna þeim eða uppræta þær.“

Álit starfshóps um umhverfismál og landbúnað.
    Í áliti starfshóps um framkvæmdaáætlun í umhverfismálum og landbúnaði, sem skilaði í maí 1994 skýrslu til umhverfisráðherra um ástand, markmið og leiðir, segir m.a. í kafla um innflutning plantna:
    „Enn sem komið er hafa innfluttar tegundir valdið lítilli röskun á íslenskum gróðurlendum en mörg dæmi eru um að slíkar tegundir séu að breiðast út. Gildandi löggjöf um inn flutning plantna tekur ekki til eftirlits og varúðarráðstafana vegna hugsanlegrar ógnunar við vistkerfi landsins. . . .  Umræða um notkun á innfluttum tegundum og varúðarráðstafanir þeirra vegna þarf að vera þáttur í gerð landgræðslu- og skógræktaráætlana sem vinna á fyr ir opnum tjöldum. Í slíkum áætlunum þarf að taka afstöðu til einstakra tegunda með hlið sjón af þeim markmiðum sem stefnt er að á hverju svæði fyrir sig.“
    Í starfshópnum áttu sæti 19 fulltrúar ýmissa stofnana og samtaka; formaður hans var Sveinbjörn Eyjólfsson frá landbúnaðarráðuneyti. Í tillögum hópsins um aðgerðir segir m.a.:
    „Innfluttum tegundum verði ekki dreift til notenda fyrr en lagt hefur verið mat á hugsanlegan skaða sem leitt gæti af dreifingu viðkomandi tegundar. . . .  Sett verði löggjöf um innflutning tegunda og um útrýmingu skaðlegra tegunda. Þar verði m.a. tekið tillit til skuldbindinga í rammasáttmála um verndun fjölbreytileika lífs og samþykkta Evrópuráðs ins. Kveðið verði á um það hver beri ábyrgð á því að meta hugsanlegan skaða af innfluttum tegundum áður en dreifing þeirra hefst.“
    Þessi kafli úr áliti starfshópsins er birtur í heild sem fylgiskjal með frumvarpinu.

Skaðleg röskun vegna innflutnings tegunda.
    Í erindum, sem flutt voru á ráðstefnu um innflutning plantna sem Líffræðifélag Íslands, Landgræðsla ríkisins og fleiri stofnanir efndu til 21. mars 1994, kom fram margvíslegur fróðleikur um þetta efni. Auk margra innlendra fyrirlesara flutti bandarískur prófessor, Richard N. Mack frá Washington State University, erindi um innflutning plantna til Banda ríkjanna og fleiri landa. Hann rakti dæmi um reynslu af slíkum innflutningi og tilgreindi margar tegundir í því sambandi. Ályktunarorð hans voru að reynslan af slíkum innflutningi sýni ljóslega að vandlega þurfi að meta hugsanlegar neikvæðar afleiðingar, ekki síður en jákvæðar, af sérhverri framandi plöntutegund áður en hún er tekin í notkun.
    Hér verða nefnd örfá dæmi af mörgum um að innflutningur og dreifing aðfluttra plöntu tegunda geti haft meiri háttar áhrif á umhverfið:
—    Trjátegundin Myrica faya á Hawaii, en hún bindur köfnunarefni líkt og lúpína.
—    Runninn Mimosa pigra af belgjurtaætt, en hann barst frá Mið-Ameríku til Ástralíu og hefur frá 1950 breiðst út á flóða- og votlendissvæðum í norðanverðri Ástralíu.
—    Jurtin Heracleum mantagazzianum af sveipjurtaætt sem á heimkynni í vestanverðu Kákasus en hefur borist til margra Evrópulanda og veldur þar miklum vandræðum, meðal annars í Svíþjóð.
—    Jurtin Lythrum salicaria sem barst til Norður-Ameríku snemma á 19. öld og hefur síðan breiðst út um stór landsvæði þar sem hún leggur undir sig votlendi. Innflutningur henn ar og dreifing er nú bönnuð í 13 ríkjum Bandaríkjanna.
—    Eucalyptus-tré í Thailandi sem flutt var þangað frá Ástralíu til nota sem hráefni í pappírsiðnaði. Tegundin er mjög hraðvaxta, frek til vatns og kæfir meginhluta undirgróðurs.
—    Runnar og jurtir sem flutt hafa verið til Nýja-Sjálands, svo sem Ulex europeus, Cytisus scoparius og Hieracium pilosella, en aðstæðum á Nýja-Sjálandi svipar um sumt til þess sem er hér á landi vegna mikilla beitaráhrifa.

Innfluttar tegundir á Íslandi — áhrif Alaskalúpínu.
    Sem dæmi um innfluttar tegundir hérlendis, sem dreifa sér hratt og vaxa þétt og geta kæft annan gróður, má nefna Alaskalúpínu (Lupinus nootkatensis), spánarkerfil (Myrrhis odorata) og skógarkerfil (Anthriscus sylvestris).
    Hér á landi hefur mest umræða og deilur orðið um Alaskalúpínu og notkun hennar til landgræðslu. Tegundin var flutt hingað til lands frá Alaska árið 1946 og var fyrst í stað dreift á nokkrum skógræktarsvæðum. Plantan er afar öflug og bindur köfnunarefni úr lofti með aðstoð rótargerla. Nú er hana að finna víða á landinu og Landgræðsla ríkisins hefur hafið fjölgun á henni í stórum stíl til nota í landgræðslu. Rannsóknir á vistfræði og út breiðsluháttum Alaskalúpínu á vegum Rannsóknastofnunar landbúnaðarins (Borgþór Magnússon o.fl.) hafa m.a. leitt í ljós að hún breiðist ekki aðeins út á bersvæði heldur einnig á grónu landi (mosaþembum, mólendi, blómlendi, snjódældum og hraunum). Í er indi á fyrrgreindri ráðstefnu, ráðstefnu Líffræðifélags Íslands um innflutning plantna, sagði Borgþór Magnússon plöntuvistfræðingur m.a.:
    „Gróðurframvinda í lúpínubreiðum er mjög breytileg. Á Suðurlandi ber víða á mosum, vallarsveifgrasi, blásveifgrasi og túnvingli. Plöntutegundunum fækkar yfirleitt til muna þar sem lúpínan breiðist yfir land, einkanlega ef um gróið land er að ræða.
    Óvíða sjást merki um að lúpínan hafi hörfað af landi en víða hefur hún gisnað talsvert. Dæmi um algjöra hörfun eru aðeins af litlum blettum á þremur til fjórum stöðum. Í Múla koti í Fljótshlíð er lúpínan enn í miklum þrótti eftir 40 ár. Eindregnust merki um gisnun eru frá þurrum svæðum í innsveitum á Norðurlandi. Fræforði er talsverður í jarðvegi í gömlum lúpínubreiðum. Gera má ráð fyrir að lúpínan verði víða viðvarandi í gróðri.“
    Á Kvískerjum í Öræfum var Alaskalúpína sett niður í brekku við bæinn sumarið 1954 og hafa Kvískerjabræður fylgst náið með útbreiðslu hennar síðan. Um plöntuna segir Hálf dán Björnsson í viðtali við DV 19. júlí sl.:
    „Ég held mikið upp á lúpínu þar sem hún má vera en hins vegar er ég alveg í vandræðum með hana þar sem hún má ekki vera og fer út fyrir. Hún er ákaflega gjörn á að fara um allt með vatni og jafnvel vindum.
    Þetta er alveg ódrepandi jurt þar sem hún nær fótfestu og ég held að menn átti sig ekki alltaf á því að lúpínan útrýmir öðrum jurtum og getur verið stór skaðvaldur. Og það er mjög varasamt að planta henni innan um annan gróður þar sem fé nær ekki til.
    Ýmsum sögum fer reyndar af því hvernig jurtin fer í sauðfé en sjálfur hef ég orðið var við að rollur hafi orðið „drukknar“ eftir að hafa étið lúpínur. Sauðfénaðurinn náði þó alveg að jafna sig eftir „drykkjuna“ en rollurnar eru ekki síst hrifnar af ungplöntum.
    Ég er ekki frá því að Landgræðslan hafi litið á lúpínur sem patentlausn en jurtin má vissulega vera í friði á ákveðnum svæðum eins og á Mýrdalssandi þar sem er lítill manna gróður. Þar getur hún átt rétt á sér.
    Það þarf hins vegar að passa vel upp á lúpínur og að þær renni ekki út um allt. Hún hefur breiðst mjög mikið út hin seinni ár og er enn þá að breiðast út. Það vantar t.d. að hafa varanlegar leiðbeiningar með fræjunum þegar þau eru seld en plantan er mjög öflug og hún er í engum vandræðum með að breiðast út um allt.“
    Hörður Kristinsson grasafræðingur sagði m.a. um Alaskalúpínu á aðalfundi Skógrækt arfélags Íslands 1994:
    „Það er tegund sem við verðum að læra að umgangast með varúð. Svo ágæt sem hún er til að græða sanda og mela og bæta rýran jarðveg, þá er hún jafnframt mjög hættuleg ís lenskum gróðurlendum, ef hún fær lausan tauminn. Þar sem hún sáir sér í gróðurlendi eyðir hún flestum þeim tegundum sem fyrir eru. Það er því ófyrirgefanlegt kæruleysi, þegar ver ið er að hvetja almenning til þess að dreifa lúpínu sem víðast um gróðurlendi Íslands.“
    Vandamál vegna lúpínu eru þekkt víðar en hér á landi. Önnur lúpínutegund, Lupinus arboreus, hefur breiðst hratt út í framandi umhverfi, svo sem á strandsvæðum við Hum boldt Bay í Bandaríkjum Norður-Ameríku.
    Hér er ekki lagt til að notkun lúpínu til landgræðslu verði bönnuð fyrir fullt og allt, heldur að notkun hennar verði endurmetin og mörkuð um það stefna við hvaða aðstæður forsvaranlegt sé að nýta hana. Jafnframt verði ráðist í frekari rannsóknir er varða vistfræði hennar og áhrif á umhverfið.

Heildarendurskoðun laga um landgræðslu.
    Frumvarpið, sem hér er flutt, felur í sér breytingu á þremur greinum núgildandi laga um landgræðslu auk þess sem bætt er við nýju ákvæði um notkun innfluttra plöntutegunda í landgræðslu.
    Ákvæði til bráðabirgða eru tvíþætt. Hið fyrra varðar mat á þeim tegundum sem nú eru notaðar til landgræðslu, það síðara gerir ráð fyrir að skipuð verði nefnd til að endurskoða í heild lög nr. 17/1965, um landgræðslu.
    Lögin um landgræðslu eru að stofni til nær 30 ára gömul og viðhorf til gróðurverndar mála hafa breyst mikið frá þeim tíma og þekkingu hefur fleygt fram. Nægir að minna á þá byltingu í viðhorfum til náttúruverndar sem síðan er orðin og að lítið var farið að huga að gróðurvistfræði hérlendis á þeim tíma. Þótt flutningsmenn þessa frumvarps telji sig geta bent á ýmislegt sem betur mætti fara til viðbótar því sem tillaga er gerð um í frumvarpi þessu þykir rétt að fleiri komi að heildarendurskoðun laganna. Hér verður aðeins bent á nokkur atriði sem augljóslega þurfa athugunar við í slíkri endurskoðun:
—    Skipan gróðurverndarmála og landgræðslu í stjórnkerfinu.
—    Tengsl við stofnanir er fjalla um skógrækt og skógvernd.
—    Innra skipulag í málaflokknum, m.a. tengsl við skipulagsmál almennt.
—    Menntunarkröfur til starfsmanna.
—    Tilhögun rannsókna- og þróunarstarfs og yfirstjórn þess.
—    Svæðisbundin tengsl í stað eða til viðbótar núverandi gróðurverndarnefndum.
—    Stjórn yfir Landgræðsluna sem stofnun.
—    Áætlanagerð og annar undirbúningur landgræðsluaðgerða, þar á meðal mat á umhverfisáhrifum og fyrirhuguð landnotkun.
—    Fjármögnun fyrir málaflokkinn, tengd framkvæmdaáætlun.
—    Samningar og tengsl við umráðaaðila yfir landi og sveitarfélög.
—    Skilyrði fyrir styrkjum til landgræðslu og meðferð lands í kjölfar aðhlynningar.
—    Beitarmálefni, þar með talin lausaganga sauðfjár og hrossa.
—    Verndun jarðvegs og gróðurs, þar á meðal tengsl við rannsóknaraðila.
—    Almennt eftirlit með jarðvegi og gróðri.
—    Áætlanir um rannsóknaþörf og fjármögnun rannsókna.
—    Tengsl og samstarf við frjáls félagasamtök.
    Æskilegt er að hraða setningu nýrrar löggjafar um gróðurvernd og landgræðslu þar eð margþætt verkefni blasa við á þessu sviði.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Hér er lagt til að gerðar verði nokkrar breytingar á markmiðsgrein laganna, 1. gr.
    Meginefnisbreyting sem lögð er til í fyrri málsgrein frumvarpsins er að bætt er við þriðja markmiðinu; að stuðla skuli að gróðurvernd. Með því er átt við að eitt af megin markmiðum með lögunum verði að hlúa að þeim gróðri sem fyrir er og vernda hann gegn ofnýtingu. Þá er lagt til að uppsetningu greinarinnar verði breytt og að í stað orðanna „eydd“ og „vangróin“, sem þykja óljós og of matskennd, komi orðin „örfoka“ og „lítt gróið“ en þau þykja lýsa betur því ástandi sem réttlætir beinar landgræðsluaðgerðir.
    Í síðari málsgrein er lagt til að við markmiðsgrein laganna verði bætt nýrri málsgrein þar sem fram koma þau grundvallaratriði sem hafa ber að leiðarljósi við framkvæmd lag anna. Annars vegar er lagt til að kveðið verði á um að áður en ráðist verði í framkvæmdir skuli liggja fyrir vistfræðileg þekking og að aðgerðir skuli að öðru leyti byggjast á varúðar reglu sem er m.a. skilgreind í formála alþjóðasamnings um líffræðilega fjölbreytni (samn ingurinn öðlaðist þjóðréttarlegt gildi með samþykki Alþingis 6. maí 1994) með eftirfarandi orðum: „ . . .  þar sem hætta er á umtalsverðri rýrnun eða tjóni á líffræðilegri fjölbreytni ætti ekki að nota ónóga vísindalega þekkingu sem tilefni þess að fresta aðgerðum til að forðast eða draga eins mikið úr þeirri hættu og mögulegt er“. Hins vegar er lagt til að aðgerðir skuli miða að því að viðhalda líffræðilegri fjölbreytni og náttúrulegum gróðri og er það í samræmi við þær alþjóðlegu skuldbindingar sem Íslendingar hafa undirgengist, sbr. m.a. samninginn um líffræðilegan fjölbreytileika.

Um 2. gr.


    Hér er lagt til að á eftir 5. gr. laganna komi ný grein þar sem kveðið er á um skilyrði þess að innflutt plöntutegund verði tekin til notkunar í landgræðslu hér á landi. Þetta ákvæði er í samræmi við breytingar sem lagt er til að gerðar verði á markmiðsgrein lag anna. Lagt er til að m.a. skuli leitað álits þeirra stofnana sem hafa annast rannsóknir á þessu sviði. Þá er talið mikilvægt að Náttúruverndarráð, sem gegnir lögbundnu hlutverki á sviði gróðurverndar og fer m.a. með yfirstjórn friðlýstra svæða og þjóðgarða hér á landi, komi að ákvörðunum í þessu efni. Þá er einnig lagt til að þessir aðilar geti átt frumkvæði að því að gerðar verði rannsóknir áður en tekin er ákvörðun um að taka til notkunar í land græðslu nýjar plöntutegundir. Gert er ráð fyrir að landbúnaðarráðherra setji að höfðu sam ráði við umhverfisráðherra frekari reglur um framkvæmd þessara ákvæða.

Um 3. gr.


    Lagt er til að síðari málsgrein 40. gr. laganna, sem fjallar um rannsóknir, verði breytt á þann veg að Rannsóknastofnun landbúnaðarins komi, auk Rannsóknastöðvar Skógræktar ríkisins og Landgræðslu ríkisins, að athugunum á nýjum leiðum við uppgræðslu lands og plöntutegundum til landgræðslu. Eðlilegt er að nýta í þessu skyni þá þekkingu og aðstöðu sem Rannsóknastöð Skógræktar ríkisins býr yfir.

Um 4. gr.


    Breytingar, sem lagt er til að gerðar verði á 41. gr. laganna, eru tvíþættar. Annars vegar er lagt til að fleiri en Landgræðslu ríkisins verði heimilað að annast fjölgun plantna sem ákveðið hefur verið að taka til landgræðslu. Er talið eðlilegt að fleiri en Landgræðslan geti stundað þá starfsemi. Þá er lagt til að landbúnaðarráðherra setji að höfðu samráði við um hverfisráðherra reglur þar sem kveðið er á um framkvæmd, m.a. um þau skilyrði sem við komandi aðilar þurfa að uppfylla og eftirlit með starfsemi þeirra.

Um 5. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um ákvæði til bráðabirgða.


    Um skýringu vísast til greinargerðar með frumvarpinu.



Fylgiskjal.


Starfshópur um framkvæmdaáætlun
í umhverfismálum og landbúnaði:


Úr skýrslu til umhverfisráðherra um ástand, markmið og leiðir.


(Maí 1994.)


Skipun starfshóps.
    Með bréfi, dags. 14. september 1993, skipaði umhverfisráðherra starfshóp sem skyldi hafa það hlutverk að skilgreina sjálfbæra þróun í landbúnaði og setja honum markmið til lengri og skemmri tíma. Jafnframt átti hópurinn að vinna framkvæmdaáætlun í umhverfis- og þróunarmálum til aldamóta sem miði að því að ná settum markmiðum. Eftirtaldir aðilar sátu í hópnum:
     Fulltrúi     Tilnefndur af

    Sveinbjörn Eyjólfsson, formaður          landbúnaðarráðuneyti
    Andrés Arnalds          Landgræðslu ríkisins
    Árni Bragason          Rannsóknastöð Skógræktar ríkisins
    Árni Ísaksson          Veiðimálastofnun
    Árni M. Mathiesen          Alþingi/umhverfisnefnd
    Árni R. Árnason          Alþingi/landbúnaðarnefnd
    Baldvin Jónsson          Lífi og landi
    Brynjólfur Jónsson          Skógræktarfélagi Íslands
    Guðrún A. Jónsdóttir          Náttúrverndarráði
    Halldór Þorgeirsson          RALA
    Hjörleifur Guttormsson          Alþingi/umhverfisnefnd
    Hreggviður Norðdahl          Landvernd
     Fulltrúi     Tilnefndur af

    Jóhannes Geir Sigurgeirsson          Alþingi/landbúnaðarnefnd
    Lísa Thomsen          Kvenfélagasambandi Íslands
    Magnús B. Jónsson          Bændaskólanum Hvanneyri
    Ólafur R. Dýrmundsson          Búnaðarfélagi Íslands
    Páll Hersteinsson          veiðistjóraembætti
    Þórir Ibsen          umhverfisráðuneyti
    Þórólfur Sveinsson          Stéttarsambandi bænda

    Starfsmaður hópsins var Guðlaugur Gauti Jónsson, deildarsérfræðingur í umhverfis ráðuneytinu.

Innflutningur plantna.
    Fjöldi tegunda hefur verið fluttur til landsins á þessari öld til notkunar í túnrækt, garð rækt, skógrækt og landgræðslu. Skógrækt byggir að töluverðu leyti á notkun innfluttra teg unda auk þess sem innfluttar tegundir eru uppistaðan í garðrækt. Aukin sumarhúsaeign hef ur aukið til muna hættuna á því að innfluttar tegundir breiðist út frá görðum.
    Enn sem komið er hafa innfluttar tegundir valdið lítilli röskun á íslenskum gróðurlend um en mörg dæmi eru um að slíkar tegundir séu að breiðast út. Gildandi löggjöf um inn flutning plantna tekur ekki til eftirlits og varúðarráðstafana vegna hugsanlegrar ógnunar við vistkerfi landsins.
    Með vistfræðilegum rannóknum er hægt að afla vísbendinga um hvort innflutningur og notkun tegundar er æskileg, en afstaða til notkunar á innfluttum tegundum byggist að hluta til á fagurfræðilegum sjónarmiðum sem gerir hlutlægt mat á faglegum grunni erfiðara.
    Í stefnumörkun ríkisstjórnarinnar „Á leið til sjálfbærrar þróunar“ er varað við hættu sem steðji að íslensku flórunni vegna erfðablöndunar við innfluttar tegundir. Fátítt er að til landsins sé flutt fræ af tegundum sem náskyldar eru innlendum tegundum eða af staðbrigð um tegunda sem fyrir eru í landinu og er erfðablöndun því ólíkleg. Áhyggjuefnið er fremur það að tegund, sem er eðlilegur hluti af vistkerfi upprunalandsins, geti orðið ríkjandi hér á landi og rutt úr vegi innlendum gróðri.
    Umræða um notkun á innfluttum tegundum og varúðarráðstafanir þeirra vegna þarf að vera þáttur í gerð landgræðslu- og skógræktaráætlana sem vinna á fyrir opnum tjöldum. Í slíkum áætlunum þarf að taka afstöðu til einstakra tegunda með hliðsjón af þeim mark miðum sem stefnt er að á hverju svæði fyrir sig.

Markmið.
    Hugsanlegir kostir innfluttra tegunda verði nýttir ef tryggt er að plönturnar skaði ekki íslenskt gróðurlendi eða hafi neikvæð áhrif á ásýnd landsins.

Aðgerðir:
     1 .     Vistfræðirannsóknir á íslenskum gróðurlendum verði efldar.
     2 .     Eiginleikar innfluttra tegunda og tegunda sem til stendur að flytja inn verði rannsakaðir með tilliti til dreifingarleiða, dreifingarhraða, samkeppnishæfni og aðlögunar að íslenskum vaxtarskilyrðum.
     3 .     Innfluttum tegundum verði ekki dreift til notenda fyrr en lagt hefur verið mat á hugsanlegan skaða sem leitt gæti af dreifingu viðkomandi tegundar. Tryggt verði að slíkur innflutningur leiði ekki til þess að sjúkdómar eða meindýr berist til landsins.
         Settar verði reglur um notkun á innflutttum tegundum. Þar verði tilgreint við hvaða aðstæður notkun þeirra eigi við og bent á afleiðingar þess að dreifa þeim á svæðum þar sem þær eiga ekki heima, svo sem í þjóðgörðum.
         Sett verði löggjöf um innflutning tegunda og um útrýmingu skaðlegra tegunda. Þar verði m.a. tekið tillit til skuldbindinga í rammasáttmála um verndun fjölbreytileika lífs og samþykkt Evrópuráðsins. Kveðið verði á um það hver beri ábyrgð á því að meta hugsanlegan skaða af innfluttum tegundum áður en dreifing þeirra hefst.