Ferill 237. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.1994. – 1064 ár frá stofnun Alþingis.
118. löggjafarþing. – 237 . mál.


278. Frumvarp til lagaum ábyrgð á norrænum fjárfestingarlánum til verkefna utan Norðurlanda.

(Lagt fyrir Alþingi á 118. löggjafarþingi 1994.)1. gr.


    Ríkisstjórninni er fyrir hönd ríkissjóðs heimilt að ábyrgjast hluta Íslands, að fjárhæð allt að 16.139.000 ECU, gagnvart Norræna fjárfestingarbankanum vegna fjárfestingarlána og fjárfestingarábyrgða til verkefna utan Norðurlanda.

2. gr.


    Ríkisstjórninni er heimilt að ganga frá samningi við Norræna fjárfestingarbankann um ábyrgð skv. 1. gr.

3. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.


Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með lögum nr. 77/1982, sbr. lög nr. 69/1986 og nr. 127/1990, um ábyrgð vegna norrænna fjárfestingarlána til verkefna utan Norðurlanda, var ríkisstjórninni fyrir hönd ríkissjóðs heimilað að ábyrgjast hluta Íslands gagnvart Norræna fjárfestingarbankanum vegna fjárfestingarlána og fjárfestingarábyrgða til verkefna utan Norðurlanda, einkum til þróunarríkja og Austur-Evrópuríkja. Ráðherranefnd Norðurlanda hafði áður breytt samþykktum fyrir bankann með tilliti til þessa. Á grundvelli þessara laga gerði Ísland síðan ábyrgðarsamninga við bankann.
    Vegna vaxandi eftirspurnar eftir þessum lánum, ekki síst frá löndum Austur-Evrópu, samþykkti ráðherranefnd 25. mars 1994 að hækka hámarksheimild bankans til fjárfestingarlána til verkefna utan Norðurlanda og ábyrgðar á slíkum lánum úr 1.200 milljónum ECU í 2.000 milljónir ECU. Af þeirri upphæð ábyrgjast Norðurlönd 1.800 milljónir ECU, þ.e. mest 90% af hugsanlegu lánsfjártapi, en Norræni fjárfestingarbankinn ábyrgist 200 milljónir ECU eða 10%. Við þetta eykst ábyrgð Íslands vegna áðurgreindrar starfsemi úr 9.600.000 ECU í 16.139.000 ECU.
    Enda þótt þessi lán hafi farið til norrænna verkefna í ríkjum þar sem lánsáhætta er meiri en gengur og gerist hafa til þessa engin afföll orðið. Ástæðan er m.a. sú að Norræni fjárfestingarbankinn gerir afar strangar kröfur til lántakanda og arðsemi verkefna. Jafnframt hefur bankinn í samræmi við reglur lagt sérstaka fjárhæð í afskriftasjóð til að mæta hugsanlegum útlánatöpum. Samkvæmt upplýsingum frá Norræna fjárfestingarbankanum verða engar breytingar á starfsháttum bankans hvað þetta varðar og áfram verða gerðar sömu kröfur til lántakenda. Áhættan verður því óbreytt.
    Með frumvarpi þessu er með sama hætti og áður leitað eftir lagaheimild fyrir aukinni ábyrgð. Á grundvelli slíkrar heimildar yrði síðan gerður nýr ábyrgðarsamningur milli Íslands og bankans. Sá samningur leysir eldri samning milli aðila af hólmi.
    Sem fylgiskjal með lagafrumvarpi þessu eru birtar breytingar á samþykktum fyrir bankann sem tengjast áðurgreindri ábyrgðaraukningu.Fylgiskjal.


Breytingar á samþykktum fyrir Norræna fjárfestingarbankann.


    Ráðherranefnd Norðurlanda hefur ákveðið eftirfarandi breytingar á samþykktum Norræna fjárfestingarbankans:
    2. mgr. 6. gr. orðast svo:
                  Að auki getur bankinn veitt fjárfestingarlán til verkefna og ábyrgðir á fjárfestingarlánum til verkefna skv. 6. gr. A sem nema allt að jafnvirði 2.000 milljóna ECU.
    6. gr. A orðast svo:
                  Samkvæmt ákvörðun stjórnar má veita lán og ábyrgðir til fjárfestinga utan Norðurlanda sem fjárfestingarlán til verkefna og ábyrgðar á fjárfestingarlánum til verkefna. Þátttökuríkin bera tjón bankans af slíkum lánum og ábyrgðum allt að eftirtöldum fjárhæðum: Danmörk 391.225 milljónum ECU, Finnland 357.094 milljónum ECU, Ísland 16.139 milljónum ECU, Noregur 340.991 milljónum ECU og Svíþjóð 694.551 milljónum ECU. Ábyrgð þátttökulandanna nemur þannig hæst 90% af lánsfjártapi vegna sérhvers fjárfestingarláns til verkefnis. Greiðsla fer fram þegar stjórnin svo óskar í samræmi við samninginn sem gerður er milli bankans og sérhvers þátttökulands.
                  Leggja skal til hliðar fjármuni í sérstakan lánsáhættusjóð vegna veittra ábyrgða á fjárfestingarlánum til verkefna. Skal fyrst reynt að fá greitt úr sjóðnum þegar tjón verður vegna fjárfestingarlána til verkefna og vegna ábyrgða á fjárfestingarlánum til verkefna.