Ferill 165. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1994. – 1064 ár frá stofnun Alþingis.
118. löggjafarþing. – 165 . mál.


323. Nefndarálit



um frv. til l. um atvinnuréttindi útlendinga.

Frá félagsmálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um frumvarpið og fékk á sinn fund til viðræðna um málið Gylfa Kristinsson frá félagsmálaráðuneytinu, Halldór Grönvold og Ara Skúlason frá Alþýðusambandi Íslands og Jón Steindór Valdimarsson og Ólaf Helga Árnason frá Samtökum iðnaðarins. Þá studdist nefndin við umsagnir sem félagsmálaráðuneytinu höfðu borist um frumvarpið frá ýmsum aðilum þegar það var á vinnslustigi.
    Nefndin mælir með samþykkt frumvarpsins með breytingum sem flutt er tillaga um á sérstöku þingskjali. Breytingarnar eru eftirfarandi:
    Lagt er til að í stað orðsins manntalsskrifstofa í a-lið 13. gr. komi skráningaryfirvald. Breytingin byggist á því að hætt er að nota orðið manntalsskrifstofa og er það í samræmi við ákvæði annarra laga og samninga.
    Lögð er til sú breyting á 14. gr. að sérhæfðum starfsmönnum, ráðgjöfum og leiðbeinendum, sem vinna að samsetningu, uppsetningu, eftirliti eða viðgerð tækja, verði heimilað að vinna á Íslandi í allt að fjórar vikur á ári án atvinnuleyfis. Frumvarpið hafði miðað við að þessum útlendingum væri heimilt að vinna hér allt að 10 daga á ári. Það er mat nefndarinnar að í mörgum tilvikum séu 10 dagar of stuttur tími fyrir þessa útlendinga til að ljúka sínum verkefnum.
    Kristinn H. Gunnarsson og Einar K. Guðfinnsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 8. des. 1994.



Gísli S. Einarsson,

Guðjón Guðmundsson.

Jón Helgason.


form., frsm.



Eggert Haukdal.

Sigbjörn Gunnarsson.

Jón Kristjánsson.



Guðrún J. Halldórsdóttir.