Ferill 66. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1994. – 1064 ár frá stofnun Alþingis.
118. löggjafarþing. – 66 . mál.


325. Nefndarálit



um frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1994.

Frá meiri hluta fjárlaganefndar.



    Frumvarpið var lagt fram á Alþingi 10. október sl. og vísað til fjárlaganefndar eftir 1. umr. 19. sama mánaðar. Nefndin hefur kannað frumvarpið í heild og í einstökum atriðum og í því skyni leitað skýringa hjá fjármálaráðuneyti og fagráðuneytum varðandi beiðnir um auknar fjárheimildir frá fjárlögum. Einnig hafa komið fyrir nefndina forsvarsmenn nokkurra ríkisstofnana sem lagt hafa fram upplýsingar um tiltekin verkefni og önnur erindi. Í ljósi þeirra skýringa hefur meiri hluti nefndarinnar fallist á þær tillögur um fjárheimildir sem fram koma í frumvarpinu.
    Á meðan nefndin hafði frumvarpið til athugunar var unnið að sérstakri skoðun á nokkrum málum í ráðuneytunum, sem nú hafa verið leidd til lykta, auk þess sem önnur ný útgjaldatilefni hafa komið fram. Af þeim ástæðum gerir meiri hluti fjárlaganefndar 23 breytingartillögur við frumvarpið, sem samtals nema 196,8 m.kr. Einstakar breytingartillögur eru skýrðar í athugasemdum með álitinu, auk þess sem fjallað verður um þær í framsögu. Í töflunni hér að neðan er yfirlit um breytingar á fjárheimildum ráðuneyta árið 1994.



Fjárheimildir ráðuneyta 1994.



Fjárlög

Frv. til

Breytingar-

Alls nýjar

Yfirfærðar

Heimildir


1994

fjáraukalaga

tillögur

heimildir

heimildir

ársins


Greiðslugrunnur

m.kr.

m.kr.

m.kr.

m.kr.

m.kr.

m.kr.



00 Æðsta stjórn      1.093
,0 59 ,3 1 ,0 1.153 ,3 45 ,1
1.198 ,4
01 Forsætisráðuneyti      493
,8 363 ,0
- 856 ,8 45 ,9 902 ,7
02 Menntamálaráðuneyti      16.737
,2 61 ,0 -52 ,7 16.745 ,5 735 ,9
17.481 ,4
03 Utanríkisráðuneyti      1.575
,0 55 ,3
- 1.630 ,3 63 ,1 1.693 ,4
04 Landbúnaðarráðuneyti      6.862
,6 34 ,9 13 ,5 6.911 ,0 108 ,7
7.019 ,7
05 Sjávarútvegsráðuneyti      1.089
,8 -192 ,0
- 897 ,8 61 ,4 959 ,2
06 Dóms- og kirkjumálaráðuneyti      5.417
,2 611 ,0
- 6.028 ,2 243 ,1 6.271 ,3
07 Félagsmálaráðuneyti      5.811
,7 6 ,7 3 ,0 5.821 ,4 233 ,2
6.054 ,6
08 Heilbr.- og tryggingamálaráðuneyti      47.673
,9 1.499 ,0 421 ,0 49.593 ,9 88 ,7
49.682 ,6
09 Fjármálaráðuneyti      16.200
,9 696 ,0 -218 ,0 16.678 ,9 247 ,0
16.925 ,9
10 Samgönguráðuneyti      8.908
,1 434 ,5 9 ,0 9.351 ,6 9 ,5
9.361 ,1
11 Iðnaðarráðuneyti      1.021
,2 73 ,0 20 ,0 1.114 ,2 13 ,8
1.128 ,0
12 Viðskiptaráðuneyti      168
,2
- - 168 ,2 11 ,5 179 ,7
13 Hagstofa Íslands      146
,6
- - 146 ,6 9 ,8 156 ,4
14 Umhverfisráðuneyti      582
,4 7 ,0
- 589 ,4 7 ,0 596 ,4
Samtals      113.781
,6 3.708 ,7 196 ,8 117.687 ,1 1.923 ,7
119.610 ,8


    Fjárlaganefnd hefur lokið umfjöllun sinni um frumvarp til fjáraukalaga ársins 1994 og mælir meiri hlutinn með samþykkt frumvarpsins með þeim breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali.


SKÝRINGAR VIÐ EINSTAKAR BREYTINGARTILLÖGUR



00 Æðsta stjórn ríkisins


610    Umboðsmaður Alþingis. Lagt er til að rekstrarframlag embættisins hækki um 1 m.kr. til að standa straum af auknum kostnaði við aðkeypta sérfræðiþjónustu og lausráðna starfsmenn þar sem málum og fyrirspurnum sem berast embættinu hefur farið fjölgandi.

02 Menntamálaráðuneyti


205    Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi. Lagt er til að fjárheimild stofnunarinnar verði aukin um 2,3 m.kr. til að mæta rekstrarhalla síðustu ára. Nýr forstöðumaður hefur verið ráðinn að stofnuninni og miðar tillagan að því að rekstrinum verði framvegis komið í það horf sem fjárlög ákvarða.

422    Námsgagnastofnun. Eftir að virðisaukaskattur var tekinn upp í stað söluskatts fékk Námsgagnastofnun fyrst um sinn endurgreiddan innskatt af aðföngum til bókaframleiðslu sinnar, en þurfti hins vegar ekki að skila útskatti af bókum, heldur einungis af öðrum vörum. Voru þau skattskil með svipuðu móti og verið hafði í söluskattskerfinu. Þegar ákveðið hafði verið að leggja 14% virðisaukaskatt á innlendar bækur frá miðju ári 1993 var fyrirsjáanlegt að geta stofnunarinnar til að úthluta bókum til grunnskóla mundi skerðast af væntanlegum útskatti á framleiðsluna. Fjárlaganefnd gerði því breytingartillögu við 2. umr. fjárlaga fyrir árið 1993 um að framlag stofnunarinnar yrði hækkað sem næmi áætlaðri skattlagningu á síðari árshelmingi 1993. Í fjárlögum ársins 1994 var fjárveiting til bókaframleiðslu stofnunarinnar hins vegar ekki breytt miðað við skattinn sem standa verður skil á fyrir heilt rekstrarár. Lagt er til að fjárheimild stofnunarinnar hækki um 10 m.kr. í ár af þeirri ástæðu. Er þá gert ráð fyrir að sambærileg breyting verði gerð í frumvarpi til fjárlaga ársins 1995.

872    Lánasjóður íslenskra námsmanna. Í fjárlögum var framlag til sjóðsins ákvarðað 1.550 m.kr. og miðað við að það þyrfti að nema 54% af lánveitingum til þess að sjóðurinn gæti viðhaldið óbreyttri eiginfjárstöðu. Endurskoðuð áætlun sjóðsins um lánveitingar í ár bendir til að þær verði 120 m.kr. lægri en ætlað var við setningu fjárlaga. Er því lagt til að ríkisframlagið lækki tilsvarandi í samræmi við styrkhlutfallið, eða um 65 m.kr. Reynslan af nýjum lögum og úthlutunarreglum sjóðsins bendir til að unnt verði að lækka þetta hlutfall, enda hefur þegar verið skipaður starfshópur til að endurmeta hlutdeild ríkissjóðs í fjármögnun sjóðsins.

04 Landbúnaðarráðuneyti


221    Veiðimálastofnun. Alþingi samþykkti í vor ýmsar breytingar á ákvæðum laga nr. 76/1970, um lax- og silungsveiði, sem tóku gildi í júní sl. Með þeirri lagabreytingu var gert ráð fyrir auknum útgjöldum vegna eftirlits með ólöglegri sjávarveiði en á móti mundi kostnaður vegna eftirlits við ár færast til veiðiréttareigenda. Í framhaldi af þessum áherslubreytingum er fyrirhugað að efla frekar eftirlit með ólöglegum veiðum í sjó og er gerð tillaga um 2,5 m.kr. viðbótarframlag til stofnunarinnar af þeirri ástæðu. Gerð hefur verið sambærileg hækkun í frumvarpi til fjárlaga næsta árs.

321    Skógrækt ríkisins. Gerð er tillaga um viðbótarfjárveitingu til stofnunarinnar að fjárhæð 6 m.kr. Fram til ársins 1992 fékk stofnunin endurgreiddan virðisaukaskatt af aðföngum til plöntuframleiðslu sinnar og vegna nytjaskógræktar bænda. Samkvæmt nýlegum úrskurði yfirskattanefndar verður stofnuninni ekki lengur heimilt að reikna innskatt af slíkum aðföngum og henni gert að endurgreiða innskattinn fyrir tímabilið 1992–1994. Úrskurðurinn mundi að óbreyttu leiða til samsvarandi skerðingar á ræktunarstarfi Skógræktarinnar þar sem landbúnaðarráðuneytið gerði ekki ráð fyrir þessari breytingu í þeim rekstrarforsendum sem lagðar hafa verið til grundvallar fjárlögum.

331    Héraðsskógar. Lagt er til að fjárveiting til þessa liðar hækki um 5 m.kr. Efnisatriði málsins eru þau sömu og fram koma varðandi Skógrækt tíkisins hér að framan.

07 Félagsmálaráðuneyti


703    Málefni fatlaðra, Vesturlandi. Akranesbær hefur rekið verndaðan vinnustað með starfsleyfi frá félagsmálaráðherra frá árinu 1983. Í fjárlögum hefur verið veitt framlag vegna launa forstöðumanns, leiðbeinanda og launa fatlaðra starfsmanna. Að öðru leyti hefur vinnustaðnum verið ætlað að standa straum af rekstrarkostnaði með sértekjum. Rekstrarskilyrði vinnustaðarins hafa versnað til muna að undanförnu, einkum vegna samdráttar í byggingariðnaði og sjávarútvegi, fjölgunar fatlaðra starfsmanna og vöruþróunarátaks sem ekki skilaði tilætluðum árangri. Þrátt fyrir að félagsmálaráðuneytið hafi fyrr á árinu lagt rekstrinum til sérstakt 4 m.kr. viðbótarframlag er nú orðið ljóst að sú fjárveiting nægir ekki til að mæta fyrirsjáanlegum halla. Gerð er tillaga um 2 m.kr. hækkun fjárheimildar til að leysa úr þeim vanda.

951    Brunamálastofnun ríkisins. Ráðið hefur verið í stöðu skólastjóra til að undirbúa starfrækslu Brunamálaskóla í tengslum við starfsemi stofnunarinnar. Gerð er tillaga um viðbótarheimild að fjárhæð 1 m.kr. þar sem ekki var gert ráð fyrir þessum kostnaði í fjárlögum.

08 Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti


350    Sjúkrahúsið Akranesi. Undanfarin ár hefur myndast verulegur rekstrarhalli hjá sjúkrahúsinu. Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið hefur haft fjárhagsvanda sjúkrahússins til skoðunar og hefur nú, í samráði við fjármálaráðuneytið, gengið frá skriflegu samkomulagi við stjórnendur stofnunarinnar þar sem kveðið er á um aðgerðir til að koma böndum á reksturinn og hvernig brugðist verði við ef vanhöld verða á tilskildum árangri. Til að þessi áætlun nái fram að ganga er farið fram á 28 m.kr. viðbótarframlag, sem ætlað er að mæta stærstum hluta af uppsöfnuðum halla sjúkrahússins.

361    Fjórðungssjúkrahúsið Neskaupstað. Sjúkrahúsið hefur um árabil verið rekið með talsverðum halla. Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið hefur nú gert svipaðar ráðstafanir til lausnar fjárhagsvandanum og getið er um hér að framan varðandi Sjúkrahúsið Akranesi. Undirritað hefur verið skriflegt samkomulag við stjórn sjúkrahússins um aðgerðir til sparnaðar og jafnframt kveðið á um viðbrögð ef aðgerðir bera ekki árangur. Í framhaldi af því samkomulagi er sótt um 23 m.kr. viðbótarframlag til að mæta uppsöfnuðum halla að mestu.

371    Ríkisspítalar. Eftir að frumvarp til fjáraukalaga var lagt fram hefur fjárhagsvandi Ríkisspítala verið tekinn til sérstakrar skoðunar hjá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti og fjármálaráðueyti. Með hliðsjón af niðurstöðum þeirrar athugunar og samkomulagi sem gengið hefur verið frá milli ráðuneytanna og Ríkisspítala er lagt til að fjárveiting spítalanna verði aukin um 242 m.kr. frá því sem gert var ráð fyrir í frumvarpinu. Þar af eru 46 m.kr. vegna kostnaðar sem leitt hefur af yfirtöku bráðavakta, 15 m.kr. þar sem ekki hefur orðið af þeim sparnaði í rekstri Gunnarsholtsheimilisins sem fyrirhugaður var í fjárlögum, 35 m.kr. vegna fjölgunar hjartaaðgerða á árinu 1994 og 146 m.kr. vegna ýmissa annarra umframútgjalda í rekstri. Að auki eru 86 m.kr. á liðnum 09–989 Launa- og verðlagsmál hjá fjármálaráðuneyti ætlaðar til að mæta kostnaði við launahækkanir hjúkrunarfræðinga og annarra heilbrigðisstétta á árinu. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að Ríkisspítölum verði veittar samtals 52 m.kr. Þar af eru 34 m.kr. vegna samninga um vaktir og álag við lækna, 13 m.kr. til að ganga frá skuld Vistheimilisins Tjaldanesi og 5 m.kr. vegna meðferðargjalds af áfengismeðferð sem ekki kom til framkvæmda. Hækkun fjárveitingar frá fjárlögum yrði samkvæmt þessu alls 294 m.kr., auk 86 m.kr. vegna launahækkana heilbrigðisstétta eins og áður segir. Þessar tillögur gera ráð fyrir að Ríkisspítölum verði ætlað að leysa að öðru leyti úr fjárhagsvanda sínum í ár, en sá vandi er talinn nema 70 m.kr.

372    Borgarspítalinn. Gerð er tillaga um 125 m.kr. hækkun fjárheimildar frá frumvarpi. Að auki eru 44 m.kr. á liðnum 09–989 Launa- og verðlagsmál hjá fjármálaráðuneyti ætlaðar til að mæta kostnaði við launahækkanir hjúkrunarfræðinga og annarra heilbrigðisstétta á árinu. Í frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 1994 er gert ráð fyrir 87 m.kr. viðbótarheimild til spítalans, en þar af eru 80 m.kr. vegna ofáætlunar sértekna og 7 m.kr. vegna sérstakra álagsgreiðslna til lækna. Uppsafnaður fjárhagsvandi spítalans er hins vegar orðinn mun meiri, eða um 350 m.kr. árin 1993 og 1994, og hefur verið leitað lausna á þeim vanda í tengslum við fyrirhugaða sameiningu við St. Jósefsspítala, Landakoti. Um leið og gengið var frá samningi um sameiningu spítalanna gerðu heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra og fjármálaráðherra samkomulag við Reykjavíkurborg um að beita sér fyrir hækkun fjárveitingar um 125 m.kr. í fjáraukalögum í ár, auk launabóta, og um 100 m.kr. í fjárlögum næsta árs, gegn því að bráðabirgðastjórn hins nýja Sjúkrahúss Reykjavíkur grípi til aðhaldsaðgerða sem skili 180 m.kr. sparnaði á árinu 1995.

411    Garðvangur, Garði. Á árinu 1993 fór fram starfsmat hjá dvalarheimilinu sem hafði í för með sér nokkra aukningu launakostnaðar. Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu hefur tekist að útvega fjármagn til að mæta stærstum hluta kostnaðaraukans á árinu 1993 og jafnframt hefur verið tekið tillit til hans í frumvarpi til fjárlaga 1995. Eftir stendur að fjármagn skortir til að mæta hluta kostnaðarins frá 1993 og allt árið 1994. Lagt er til að af þeirri ástæðu verði fjárheimild stofnunarinnar hækkuð um 3 m.kr.

09 Fjármálaráðuneyti


481    Útgjöld samkvæmt heimildarákvæðum. Í 6. gr. fjárlaga er heimild til „að greiða sérstakar bætur til bænda sem verst hafa orðið úti vegna harðræðis vorið og sumarið 1993“. Landbúnaðarráðherra skipaði í júní nefnd til að gera tillögur um hvernig nýta skyldi heimildargreinina. Nefndin hefur lagt til að veittar verði 12 m.kr. inn í hina Almennu deild Bjargráðasjóðs sem síðan veiti styrki til bænda vegna kals á ræktuðu landi í samræmi við fyrri úthlutun deildarinnar í mars sl. Leitað er eftir tilsvarandi hækkun fjárheimildar á þessum lið þar sem sýnt þykir að heimildir fjárlaga muni ekki nægja í ár.

801    Ýmis lán ríkissjóðs, vextir. Að teknu tilliti til útkomu fyrstu tíu mánaða ársins er gerð tillaga um 300 m.kr. lækkun fjárheimildar vegna vaxtagjalda ríkissjóðs. Lækkun vaxtagjalda miðað við greiðsluáætlun hefur komið fram jafnt í vöxtum af ríkisvíxlum og ríkisbréfum sem í vaxtagreiðslum vegna spariskírteina. Á móti vegur að vextir og lántökukostnaður erlendra lána eru nokkru hærri en áætlað var í fjárlögum.

989    Launa- og verðlagsmál. Í greinargerð með frumvarpi til fjáraukalaga 1994 kemur fram að fjárheimild sem leitað var eftir til að bæta sjúkrastofnunum launakostnað vegna kjarasamnings hjúkrunarfræðinga kynni að taka breytingum þar sem málið var enn til skoðunar í vinnuhópi á vegum fjármálaráðuneytis og heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis. Þeirri athugun er lokið og er farið fram á 70 m.kr. hækkun heimildar á þessum lið í samræmi við þær niðurstöður. Áður hafði verið gert ráð fyrir að með kjarasamningnum yrðu felldar niður allar yfirborganir og einstaklingsbundin ráðningarkjör hjá sjúkrahúsum, en nú er gert ráð fyrir að það samkomulag komi til framkvæmda í byrjun næsta árs.

10 Samgönguráðuneyti


101    Samgönguráðuneyti, aðalskrifstofa. Gerð er tillaga um viðbótarframlag að fjárhæð 4 m.kr. vegna starfslokasamnings og breytinga í starfsmannahaldi, sem ekki voru fyrirsjáanlegar við afgreiðslu fjárlaga.

333    Hafnamál. Gerð er tillaga um 8 m.kr. millifærslu fjárheimildar af viðfangsefninu Hafnamannvirki yfir á viðfangsefnið Sjóvarnargarðar. Framlagið er ætlað til að byggja flóðvarnargarð við Vík í Mýrdal og kemur til viðbótar framlagi til sama verkefnis á fjárlagalið Landgræðslu ríkisins í frumvarpinu. Heildarfjárheimild fjárlagaliðarins verður óbreytt eftir sem áður.

471    Flugmálastjórn. Eins og getið er um í greinargerð frumvarpsins var athugun á kostnaðarauka A-hluta stofnunarinnar vegna dóms um kjarasamning flugumferðarstjóra ekki að fullu lokið þegar það var lagt fram. Samkvæmt endanlegri úttekt þarf 5 m.kr. til viðbótar þeim 80 m.kr. sem gert var ráð fyrir í frumvarpinu til að mæta launahækkuninni. Lagt er til að fjárheimildin verði hækkuð sem því nemur.

11 Iðnaðarráðuneyti


299    Iðja og iðnaður, framlög. Í tengslum við endurnýjun námaleyfis Kísiliðjunnar hf. var stofnaður sjóður sem ætlað er að fjármagna undirbúning aðgerða til að efla atvinnulíf þeirra sveitarfélaga sem nú eiga verulegra hagsmuna að gæta vegna starfsemi verksmiðjunnar. Tekjur sjóðsins eru 20% af námagjaldi verksmiðjunnar til ársins 2001 og síðan 68% til ársins 2010. Fyrirhugað er að efla sjóðinn frekar fjárhagslega með því að veita jafnframt til hans allt að 20% af tekjum ríkisins sem hluthafa í Kísiliðjunni hf. Gert er ráð fyrir að á næstunni verði lagt fram frumvarp til breytinga á lögum nr. 80/1966, um kísilgúrverksmiðju við Mývatn, þar sem þessi regla verði lögbundin. Gerð er tillaga um viðbótarheimild að fjárhæð 5 m.kr. sem verði framlag sjóðsins í ár og er þá miðað við að arðgreiðsla verksmiðjunnar til ríkissjóðs verði 25 m.kr.

399    Ýmis orkumál. Ríkisstjórnin hefur ákveðið að leita eftir 15 m.kr. fjárveitingu til markaðsskrifstofu iðnaðarráðuneytisins og Landsvirkjunar, sem verði varið til að fjármagna athugun á sérstökum kostum í orkufrekum iðnaði. Meðal annars verður athuguð hagkvæmni af rekstri sinkverksmiðju í samstarfi við bandaríska aðila. Gert er ráð fyrir að verkefnið fái mótframlög frá öðrum aðilum.


Alþingi, 8. desember 1994.



Sigbjörn Gunnarsson,


form., frsm.Sturla Böðv

arsson.

Einar K. Guðfinnsson.



Gunnlaugur Stefáns

son.Árni Johnsen.

Árni M. Mathiessen.