Ferill 66. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1994. – 1064 ár frá stofnun Alþingis.
118. löggjafarþing. – 66 . mál.


333. Nefndarálit



um frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1994.

Frá minni hluta fjárlaganefndar.



    Eftir afgreiðslu frumvarps til fjáraukalaga stefnir rekstrarafkoma ríkissjóðs á árinu 1994 í að vera neikvæð um 10,9 milljarða kr. Þó aukast tekjur samkvæmt frumvarpinu um 2,6 milljarða kr. Tekjuaukinn er vegna utanaðkomandi áhrifa sem valda því að þjóðartekjur aukast um 1,7% milli ára. Þarna vega þyngst góð loðnuvertíð og auknar úthafsveiðar, einkum í Barentshafi og á Reykjaneshrygg.
    Þessi tekjuauki hverfur allur í útgjaldaauka og meira til og fjáraukalagafrumvarpið sýnir að útgjaldaáætlun fjárlagafrumvarpsins fyrir árið 1994 var röng. Gjaldahlið frumvarpsins fer 3,9 milljörðum kr. fram úr fjárlögum. Því er ljóst að efnahagsbatinn á árinu kemur ekki fram í batnandi afkomu ríkissjóðs og sá vandi ríkisfjármálanna sem stafar af samdrætti og vaxandi atvinnuleysi er óleystur.
    Fjáraukalagafrumvarpið sýnir að ýmis áform, sem ríkisstjórnin kynnti til sparnaðar við fjárlagagerð 1994, hafa ekki gengið eftir. Á það einkum við um ýmsa liði í heilbrigðisráðuneytinu, svo sem í rekstri sjúkrahúsa og sjúkratryggingakerfinu. Samkvæmt fjáraukalagafrumvarpinu og breytingartillögum meiri hluta fjárlaganefndar eru heimildir ráðuneytisins auknar um 1,9 milljarða kr.
    Í sjúkratryggingum hafa áform um sparnað í lyfjum upp á 300 millj. kr., í þjónustu lækna um 300 millj. kr. og í kostnaði við hjálpartæki upp á 100 millj. kr. og aðrar sparnaðaraðgerðir upp á 100 millj. kr. ekki náð fram að ganga. Á þetta benti minni hlutinn rækilega við afgreiðslu fjárlaga á síðasta ári. Sama gildir um rekstur sjúkrahúsanna í landinu. Bent var á að ýmis sparnaðaráform þar mundu ekki ná fram að ganga og rekstrarfjárveitingar til stærstu sjúkrahúsanna dygðu ekki til að halda óbreyttum rekstri. Frumvarpið sýnir að öll þessi gagnrýni var á rökum reist.
    Frumvarpið gerði ráð fyrir viðbótarútgjöldum sjúkrahúsanna upp á 320 millj. kr. Í meðförum fjárlaganefndar hefur komið í ljós að þetta var vanáætlað og enn frekari fjárveitinga var þörf. Hvorki var gert ráð fyrir að mæta útgjaldaauka vegna kjarasamninga né öðrum rekstrarútgjöldum sjúkrahúsanna. Þessi viðbót nemur 548 millj. kr.
    Minni hlutinn benti einnig á að sjá hefði mátt fyrir fleiri útgjaldaþætti, svo sem svokallaðar eingreiðslur á vegum almannatryggingakerfisins, útgjöld sem afleiðingu kjarasamninga sem voru lausir um síðustu áramót og útgjöld vegna 6. gr. fjárlaga.
    Breytingartillögur meiri hlutans gera ráð fyrir lækkun heimilda á einstöku liðum. Mestu munar þar um vaxtagjöld sem áætlað er að lækki um 300 millj. kr. Þá er framlag ríkissjóðs til Lánasjóðs íslenskra námsmanna lækkað um 65 millj. kr. Minni hlutinn telur það afleiðingu þess hversu hert hefur verið á útlánareglum sjóðsins. Þær aðgerðir hafa orðið til þess að fækka fólki í námi, einkum þeim sem eru með börn á framfæri.
    Þrátt fyrir útgjaldaaukninguna eru enn óafgreidd nokkur stórmál sem krefjast viðbótarútgjalda.
    Í fyrsta lagi má þar nefna vanda Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga vegna vanskila barnsmeðlaga í Innheimtustofnun sveitarfélaga. Þessi vandi nemur 225 millj. kr. samkvæmt áætlun ársins 1994. Fram kemur í gögnum frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga að nauðsynlegt sé að hækka framlag til sjóðsins á fjáraukalögum um að minnsta kosti 160 millj. kr. til þess að sjóðurinn geti greitt þjónustuframlög, svo sem reglur hans kveða á um.
    Í búvörusamningnum frá 1991 eru ákvæði í viðauka II um stuðningsaðgerðir sem tryggi að „Byggðastofnun verði útvegað fjármagn til að greiða fyrir annarri atvinnuuppbyggingu á þeim stöðum sem viðkvæmastir eru fyrir samdrætti í sauðfjárframleiðslu“. 230 millj. kr. vantar til þess að standa við þessi fyrirheit.
    Í þriðja lagi vantar fjármuni til ógreiddra jarðræktarframlaga.
    Í afgreiðslu nefndarinnar var þessum málum frestað til 3. umr.
    Fjárlög og fjáraukalög eru einn meginþátturinn í efnahagsstefnu ríkisstjórna á hverjum tíma. Minni hlutinn getur ekki tekið á efnahagsstefnu núverandi ríkisstjórnar né stefnu hennar í ríkisfjármálum. Því mun minni hlutinn sitja hjá við afgreiðslu frumvarpsins sem heildar en áskilur sér rétt til að flytja eða fylgja breytingartillögum sem fram kunna að koma.

Alþingi, 8. des. 1994.



Jón Kristjánsson,

Guðmundur Bjarnason.

Guðrún Helgadóttir.


frsm.



Jóna Valgerður Kristjánsdóttir.

Margrét Frímannsdóttir.