Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 440, 118. löggjafarþing 98. mál: evrópsk fjárhagsleg hagsmunafélög.
Lög nr. 159 31. desember 1994.

Lög um evrópsk fjárhagsleg hagsmunafélög.


1. gr.

     Ákvæði reglugerðar ráðs EBE nr. 2137/85 um evrópsk fjárhagsleg hagsmunafélög (efjh.) skulu hafa lagagildi hér á landi í samræmi við bókun 1 um altæka aðlögun við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög um Evrópska efnahagssvæðið, nr. 2/1993, með áorðnum breytingum, þar sem bókunin er lögfest.
     Reglugerðin er prentuð sem fylgiskjal með lögum þessum.

2. gr.

     Ólögráða einstaklingar og þeir sem hafa farið fram á greiðslustöðvun eða hafa bú sitt undir gjaldþrotaskiptum geta ekki verið aðilar að evrópskum fjárhagslegum hagsmunafélögum.

3. gr.

     Evrópsk fjárhagsleg hagsmunafélög mega ekki stunda þá starfsemi sem aðeins einstaklingar mega að lögum stunda.

4. gr.

     Firmaskrá getur farið þess á leit við héraðsdóm að hagsmunafélagi verði slitið ef félagið hefur ekki þá stjórn sem kveðið er á um í framangreindri reglugerð ráðs EBE eða stofnsamningi félagsins enda sé ekki ráðin bót á þeim ágalla fyrir lok frests er firmaskrá setur.
     Firmaskrá getur einnig farið þess á leit við héraðsdóm að hagsmunafélagi verði slitið ef ákvæði 2. gr. eiga við.

5. gr.

     Ákvæðin um skilanefndarmeðferð í XIV. kafla laga um hlutafélög gilda einnig um evrópsk fjárhagsleg hagsmunafélög eftir því sem við á.

6. gr.

     Um gjald fyrir skráningu hagsmunafélaga, svo og birtingargjöld o.fl., fer eftir þeim ákvæðum laga um aukatekjur ríkissjóðs er varða erlend félög.

7. gr.

     Sé eigi kveðið á um strangari refsingu í lögum skal beitt sekt við brotum á 7., 8., 10. eða 25. gr. í framangreindri reglugerð ráðs EBE.
     Sé brot framið af hlutafélagi, einkahlutafélagi, samvinnufélagi eða öðrum lögaðila má sekta viðkomandi aðila sem slíkan.

8. gr.

     Ef stjórnandi, skilanefndamaður eða aðili að hagsmunafélagi uppfyllir ekki í tæka tíð skyldur sínar á grundvelli laga þessara eða reglugerðar á grundvelli þeirra getur firmaskrá beitt dagsektum.

9. gr.

     Ráðherra getur með reglugerð sett nánari reglur um framkvæmd laga þessara.
     Í reglugerðinni má ákveða sektir vegna brota á ákvæðum hennar.

10. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 19. desember 1994.