Ferill 324. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1994. – 1064 ár frá stofnun Alþingis.
118. löggjafarþing. – 324 . mál.


492. Frumvarp til laga



um að fella úr gildi lög nr. 102 28. desember 1961, um heimild fyrir ríkisstjórnina til að stað festa fyrir Íslands hönd Parísarsamþykktina um vernd eignarréttinda á sviði iðnaðar.

(Lagt fyrir Alþingi á 118. löggjafarþingi 1994.)



1. gr.

    Lög nr. 102 28. desember 1961, um heimild fyrir ríkisstjórnina til að staðfesta fyrir Íslands hönd Parísarsamþykktina um vernd eignarréttinda á sviði iðnaðar, eru felld úr gildi.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er flutt í framhaldi af þeirri ákvörðun ríkisstjórnarinnar að fullgilda Parísar samþykktina um vernd eignarréttinda á sviði iðnaðar, með þeim breytingum sem gerðar voru á henni í Stokkhólmi 14. júli 1967. Um er að ræða ákvæði 1.–12. gr. (oft nefnd efnisákvæði) sem einkum kveða á um grundvallarreglur varðandi vernd hugverkaréttinda (einkaleyfi, vöru merki, hönnun o.fl.). Ísland hefur frá árinu 1961 verið aðili að svonefndum Lundúnatexta sam þykktarinnar frá árinu 1934 og hefur sá texti lagagildi hér á landi.
    Stokkhólmsgerð þessa hluta samþykktarinnar felur ekki í sér neinar þær breytingar miðað við Lundúnatextann að breyta þurfi gildandi lögum um hugverkaréttindi hér á landi.
    Ísland gerðist aðili að 13.–30. gr. Stokkhólmsgerðar samþykktarinnar árið 1984. Sá hluti fjallar aðallega um stjórnarstofnanir sem fara með málefni samþykktarinnar á vegum Alþjóða hugverkastofnunarinnar (WIPO). Aðild að þessum hluta samþykktarinnar var forsenda þess að Ísland gæti gerst aðili að WIPO. Þessi hluti samþykktarinnar hefur ekki lagagildi.
    Parísarsamþykktin er sáttmáli milli ríkja er kveður á um almennar leikreglur sem hverju ríki er skylt að fylgja varðandi vernd hugverkaréttinda í þágu þegnanna. Það leiðir af eðli og tilgangi samþykktarinnar að óeðlilegt er að hún gildi sem lög gagnvart þegnunum.
    Með frumvarpi þessu er því lagt til að samhliða því sem Ísland gerist aðili að breyttum efnis ákvæðum samþykktarinnar frá 1967 verði lög nr. 102/1961, sem frá árinu 1984 hafa aðeins gilt um efnishluta hennar, felld úr gildi.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um að fella úr gildi lög nr. 102


28. desember 1961, um heimild fyrir ríkisstjórnina til að staðfesta fyrir


Íslands hönd Parísarsamþykktina um vernd eignarréttinda á sviði iðnaðar.


    Frumvarpið er flutt í framhaldi af þeirri ákvörðun ríkisstjórnarinnar að fullgilda Par ísarsamþykktina um vernd eignarréttinda á sviði iðnaðar með þeim breytingum sem gerð ar voru á henni í Stokkhólmi 1967. Sú samþykkt kveður á um almennar reglur sem hverju ríki er skylt að fylgja varðandi vernd hugverkaréttinda. Eftir stendur samningur en laga ákvæðið er fellt niður.
    Í fjárlögum er viðfangsefnið 11-299-1.17 Parísarsamþykkt um vernd á sviði iðnaðar. Fjárveiting í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 1995 er 1,4 m.kr. Þessi áætlun er óbreytt og því ekki um breytingu á kostnaði að ræða.