Ferill 326. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1994. – 1064 ár frá stofnun Alþingis.
118. löggjafarþing. – 326 . mál.


494. Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 41/1968, um verslunaratvinnu, ásamt síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 118. löggjafarþingi 1994.)



1. gr.

    Úr 1. málsl. 3. mgr. 10. gr. laganna falla niður orðin: „ . . .  stofnun nýs fyrirtækis í viðkomandi verzlunargrein sé þjóðhagslega óhagkvæm, hvort heldur almennt eða miðað við fyrirhug aðan verzlunarstað, eða . . .

2. gr.

    Lög þessi öðlast gildi nú þegar.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpinu er verið að fullnægja skuldbindingum sem Ísland hefur tekið á sig með því að gerast aðili að almennum samningi um þjónustuviðskipti (General Agreement on Trade in Services, GATS) sem er einn af þeim samningum sem urðu til við lok Úrúgvæviðræðna GATT. Samkvæmt GATS hafa ríki skuldbundið sig til að beita reglum um bestu kjör (most favoured nation — m.f.n.) að því er varðar þjónustuviðskipti og einnig til að setja ekki takmarkanir á erlenda aðila umfram innlenda (landskjör eða national treatment) sem hyggjast veita þjónustu á yfirráðasvæði þeirra, nema að því leyti sem sérstakur fyrirvari er um það gerður í tilboði við komandi ríkis.
    Ákvæði það sem hér er lagt til að verði fellt brott virðist á yfirborðinu fela í sér mikla tak mörkun og gefa færi á að beita mismunun eftir þjóðerni eða öðrum högum, án þess að sú ástæða sé gefin upp. Í reynd hefur þessu ákvæði ekki verið beitt hin síðari ár í það minnsta, ef nokkru sinni. Einnig er ljóst að ákvæðið er ekki í samræmi við nútímaviðhorf um frjálsa samkeppni, svo sem þau birtast einkum í samkeppnislögum, nr. 8/1993. Ráðherra á algerlega frjálst mat um þjóðhagslega hagkvæmni þegar sótt er um verslunarleyfi fyrir nýjan aðila. Engar leiðbeiningar er að finna í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi til laga nr. 7/1970, um breyting á lögum um verslunaratvinnu, um hvernig beri að túlka ákvæði þetta.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 41/1968, um


verslunaratvinnu, ásamt síðari breytingum.


    Í athugasemdum við frumvarpið kemur fram að það sé flutt til þess að fullnægja skuldbindingum sem Ísland hefur tekið á sig með aðild að almennum samningi um þjónustuviðskipti sem er einn af þeim samningum sem urðu til við lok Úrúgvæviðræðna GATT. Ákvæðið sem lagt er til að verði fellt brott er talið gefa færi á að beita mismunun eftir þjóðerni eða öðrum högum án þess að ástæða hafi verið gefin upp. Í reynd mun þessu ákvæði ekki hafa verið beitt.
    Ekki verður séð að þessi lagabreyting leiði til aukins kostnaðar fyrir ríkissjóð.