Ferill 371. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1994–95. – 1064 ár frá stofnun Alþingis.
118. löggjafarþing. – 371 . mál.


600. Frumvarp til laga



um breyting á lögum um Bjargráðasjóð, nr. 51 26. maí 1972, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 118. löggjafarþingi 1994–95.)



1. gr.

    Við 2. mgr. 15. gr. laganna bætist nýr lokamálsliður svohljóðandi: Stjórn sjóðsins er ekki heimilt að taka lán með útgáfu og sölu á skuldabréfum og öðrum endurgreiðanlegum skuldavið urkenningum til almennings.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með þátttöku í Evrópska efnahagssvæðinu skuldbatt Ísland sig til að lögfesta sams konar reglur um lánastofnanir og gilda innan Evrópusambandsins. Alþingi samþykkti af þessu tilefni lög nr. 123 27. desember 1993, um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði. Þar er að finna allítarlegar reglur um slíkar lánastofnanir.
    Í 1. mgr. 2. gr. laga nr. 123/1993 er hugtakið „lánastofnun“ í merkingu laganna skilgreint. Með því er átt við „félög eða stofnanir sem hafa það að meginverkefni að veita lán í eigin nafni og afla sér í því skyni fjár með útgáfu og sölu á skuldabréfum og endurgreiðanlegum skuldavið urkenningum til almennings“. Í athugasemdum með frumvarpi að lögunum segir og að í skil greiningu á lánastofnun felist að til lánastofnana teljist öll félög og stofnanir hér á landi sem hafa heimild í lögum eða samþykktum til að veita lán í eigin nafni og afla til þess fjár með út gáfu og sölu á skuldabréfum og öðrum endurgreiðanlegum skuldaviðurkenningum til almenn ings. Þetta þýðir með öðrum orðum að félög og stofnanir, sem annaðhvort hafa ekki heimild til lántöku og fjármagna starfsemi sína t.d. með framlögum á fjárlögum og ávöxtun eigin fjár eða hafa einungis heimild til að taka lán hjá öðrum lánastofnunum, falla utan skilgreiningarinnar. Síðar í athugasemdunum segir að skilgreininguna beri að túlka þannig að undir hana falli allar stofnanir og félög sem hafa til þess heimild í lögum eða samþykktum að afla sér fjár með þeim hætti sem tilgreindur er í skilgreiningunni, þó svo að þær nýti sér ekki og hafi jafnvel aldrei nýtt sér þá heimild heldur afli fjár með öðrum hætti, t.d. með framlögum úr ríkissjóði, tekjum af mörkuðum tekjustofni eða beinum lántökum hjá ríkissjóði eða öðrum stofnunum eða félögum.
    Skilyrði þess að stofnun teljist lánastofnun samkvæmt lögum nr. 123/1993 eru samkvæmt framangreindu tvö. Annars vegar að stofnunin veiti lán í eigin nafni og hins vegar að hún afli fjár til útlána með útgáfu og sölu á skuldabréfum og öðrum endurgreiðanlegum skuldaviður kenningum til almennings. Bæði skilyrðin verða að vera uppfyllt svo að stofnun teljist lána stofnun í skilningi laganna. Þær stofnanir sem uppfylla ekki framangreind skilyrði falla því utan við ákvæði laga nr. 123/1993.
    Bjargráðasjóður skiptist í tvær deildir skv. 4. gr. bjargráðasjóðslaga, nr. 51/1972, almenna deild og búnaðardeild. Þær veita hvor um sig fjárhagsaðstoð vegna tjónstilvika sem nánar er lýst í 8. og 9. gr. sömu laga. Samkvæmt 10. gr. laganna er fjárhagsaðstoð beggja deilda sjóðsins fólgin í veitingu styrkja og/eða lána eftir reglum sem sjóðstjórn setur. Samkvæmt 15. gr. lag anna er gert ráð fyrir því að Bjargráðasjóður geti tekið „nauð synleg lán fyrir sjóðinn“. Heimildin til lántöku er því fyrir hendi hvort sem hún er „nýtt“ eða ekki. Ljóst er samkvæmt þessu að Bjargráðasjóður telst til lánastofnunar í skilningi laga nr. 123/1993.
    Í lögum nr. 123/1993 felast ýmsar almennar reglur um lánastofnanir sem í sumum til vikum ganga miklum mun lengra en fram kemur í ýmsum gildandi sérlögum um lána stofnanir hér á landi. Í ákvæði til bráðabirgða I í lögunum er tekið fram að lánastofnan ir, sem falla undir skilgreiningu laganna og starfandi eru við gildistöku þeirra, skuli hafa aðlagað starfsemi sína ákvæðum laganna eigi síðar en 1. janúar 1995. Í athugasemdum með þessu ákvæði segir þó m.a. að rétt sé að undirstrika að ekki sé sjálfgefið að allar starfandi lánastofnanir eigi að hafa heimild til þess að gefa út og selja skuldabréf og aðr ar endurgreiðanlegar skuldaviðurkenningar til almennings og falla þar með undir gild issvið frumvarpsins (laganna). Bjargráðasjóður er þar auk fleiri sjóða nefndur sem dæmi þessa. Gert er þannig ráð fyrir því að lög um stofnanir, sem undir lög nr. 123/1993 eiga að falla, verði samræmd síðarnefndu lögunum fyrir 1. janúar 1995. Því verður að breyta lögum þeirra stofnana sem falla nú undir hugtakið lánastofnun eins og það er skilgreint í lögum nr. 123/1993 en ekki er ætlast til að lögin nái til.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Það sem liggur að baki ákvæðinu er að undanþiggja Bjargráðasjóð ákvæðum laga nr. 123/1993. Sjóðurinn þarfnast ekki heimildar til útgáfu og sölu á skuldabréfum eða öðr um endurgreiðanlegum skuldaviðurkenningum til almennings til að fjármagna starfsemi sína. Sjóðurinn hefur afar sérstöku og afmörkuðu hlutverki að gegna hér á landi. Engin ástæða er til að breyta lögum hans í veigamiklum atriðum og laga hann sérstaklega að reglum og kröfum Evrópusambandsins. Ákvæðið gerir því ráð fyrir að sjóðnum verði ekki heimilt að taka lán með útgáfu og sölu á skuldabréfum og öðrum endurgreiðanlegum skuldaviðurkenningum til almennings. Eftir þessa breytingu rúmast starfsemi sjóðsins ekki lengur innan þeirrar skilgreiningar á lánastofnun sem fram kemur í 1. mgr. 2. gr. laga nr. 123/1993. Eftir breytinguna fellur hann því utan þeirra laga. Í þessu sambandi er rétt að geta þess að í 15. gr. laga um Þróunarsjóð sjávarútvegsins, nr. 92/1994, er að finna sam bærilegt ákvæði og lagt er til að hliðstætt ákvæði verði tekið upp í 6. gr. laga um Lána sjóð sveitarfélaga, nr. 35/1966, með síðari breytingum.

Um 2. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:



Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum um


Bjargráðasjóð, nr. 51/1972, með síðari breytingum.


    Með þátttöku í Evrópska efnahagssvæðinu skuldbatt Ísland sig til að lögfesta sams konar reglur um lánastofnanir og gilda innan Evrópusambandsins. Alþingi samþykkti af þessu tilefni lög nr. 123/1993, um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði. Í 1. mgr. 2. gr. þeirra laga er hugtakið „lánastofnun“ skilgreint og ráð fyrir því gert að lög þeirra stofnana sem falla undir þá skilgreiningu verði samræmd áðurnefndum lögum fyr ir 1. janúar 1995. Til eru þær stofnanir sem falla undir hugtakið lánastofnun en aldrei var ætlunin að lög nr. 123/1993 næðu til. Bjargráðasjóður er ein þeirra.
    Tilgangur frumvarps þessa er að undanþiggja Bjargráðasjóð ákvæðum laga nr. 123/1993 um lánastofnanir. Þar með er stjórn sjóðsins ekki heimilt að taka lán með út gáfu og sölu á skuldabréfum og öðrum endurgreiðanlegum skuldaviðurkenningum til al mennings. Þetta ákvæði skerðir starfsemi Bjargráðasjóðs ekki þar sem starfsemi hans hef ur á undanförnum árum nær alfarið snúist um styrkveitingar. Frumvarpið miðar að því að halda starfsemi sjóðsins í horfinu og koma Bjargráðasjóði hjá því að þurfa að sæta kröfum sem gerðar eru til lánastofnana og varða hlutafélagsform, bókhald, eftirlit banka eftirlits Seðlabankans o.s.frv. Ekki verður séð að frumvarpinu fylgi kostnaðarauki fyrir ríkissjóð.