Ferill 376. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


1994–95. – 1064 ár frá stofnun Alþingis.
118. löggjafarþing. – 376 . mál.


607. Tillaga til þingsályktunar



um endurskoðun skattalaga.

Flm.: Ragnar Arnalds, Steingrímur J. Sigfússon, Ólafur Ragnar Grímsson,


Guðrún Helgadóttir, Jóhann Ársælsson, Hjörleifur Guttormsson,


Kristinn H. Gunnarsson, Svavar Gestsson, Ragnar Óskarsson.



    Alþingi ályktar að brýna nauðsyn beri til að endurskoða skattalög með það fyrir augum að draga úr skattbyrði á lágar tekjur og meðaltekjur og flytja til fjármuni í skattkerfinu til að auka jöfnuð í lífskjörum. Í því skyni skal að því stefnt:
    að hækka skattleysismörk og verja til þess 2 milljörðum kr. í fyrsta áfanga;
    að greiðslur í lífeyrissjóði verði í áföngum gerðar frádráttarbærar frá skatti;
    að ónýttur persónuafsláttur unglinga 16–20 ára sem dveljast í heimahúsum verði millifæranlegur til foreldris eða foreldra með lágar tekjur;
    að persónuafsláttur greiðist út að hluta ef hann nýtist ekki til millifærslu eða til frádráttar sköttum;
    að lagður sé stighækkandi hátekjuskattur á fjölskyldutekjur yfir 400 þús. kr. á mánuði;
    að sett sé þak á tekjutengda skerðingu bótaliða, svo sem vaxtabóta og barnabóta, þannig að jaðarskattshlutfall fari aldrei yfir 55%;
    að reglur um húsaleigubætur verði endurskoðaðar og bæturnar færðar inn í skattkerfið og standi öllum leigjendum til boða;
    að fjármagnstekjur séu skattlagðar eins og aðrar tekjur, þó með sérstökum persónuafslætti til að hvetja fólk áfram til sparnaðar;
    að lögaðilar (hlutafélög og önnur fyrirtæki í félagsformi) greiði hliðstæðan tekjuskatt og fyrirtæki sem rekin eru á ábyrgð einstaklinga;
    að fyrirtæki fái sérstakan frádrátt frá tekjuskatti vegna nýsköpunar- og þróunarverkefna;
    að þrengdar verði heimildir fyrirtækja til að draga frá skattskyldum tekjum tap fyrirtækja sem þau hafa keypt;
    að skattar á miklar eignir verði hækkaðir og þak sett á frádráttarheimildir vegna risnukostnaðar;
    að skatteftirlit verði hert og aðgerðir gegn skattsvikum stórauknar, m.a. með bættu eftirliti og hertum viðurlögum vegna stærri brota og tiltekin markmið sett um árangur í skattinnheimtu.

Greinargerð.


    Í tíð núverandi ríkisstjórnar hafa almenn lífskjör í landinu versnað til muna og ójöfnuður aukist. Sótt hefur verið að lágtekjufólki úr tveimur áttum samtímis. Annars vegar hefur kaupmáttur launa rýrnað mjög verulega en samtímis hefur skattbyrði á fólk með lágar tekjur og meðaltekjur stóraukist.
    Tillaga þessi fjallar um mörkun nýrrar stefnu í skattamálum. Gert er ráð fyrir að a.m.k. 5–7 milljarðar kr. verði fluttir frá fjármagnseigendum, hátekjufólki og vel stæðum fyrirtækjum til lágtekjufólks og fólks með meðaltekjur.

Hækkun skattleysismarka.
    Persónuafsláttur í tekjuskatti einstaklinga (og þar með skattleysismörk) hefur ekki hækkað í réttu hlutfalli við verð- og tekjubreytingar í þjóðfélaginu á undanförnum árum og því lækkað í raun. Alþýðubandalagið leggur til að skattleysismörk verði hækkuð í nokkrum áföngum. Hækkun skattleysismarka í 60.000 kr. á mánuði um sl. áramót hefði kostað ríkissjóð 1.200 millj. kr. í tekjutap. Hækkun skattleysismarka í 65 þús. kr. á mánuði mun kosta rúma 5 milljarða kr. og hækkun í 70.000 kr. á mánuði mun kosta rúma 8 milljarða kr.

Ónýttur persónuafsláttur unglinga.
    Það er sanngirnismál að foreldrar með lágar tekjur geti notað sér ónýttan persónuafslátt unglinga á aldrinum 16–20 ára sem dveljast í heimahúsum og eru því að mestu á framfæri foreldranna.
    Samkvæmt upplýsingum Þjóðhagsstofnunar voru við álagningu árið 1994 samtals 20.335 framteljendur á aldrinum 16 til og með 20 ára og nam persónuafsláttur þessara framteljenda 5,8 milljörðum kr. Af þessum framteljendum eru 16.228 sem ekki nýta persónuafslátt sinn að fullu. Ónýttur persónuafsláttur þessara framteljenda er um 2,5 milljarðar kr. Ekki liggja fyrir upplýsingar um hversu mikið foreldrar þessara barna gætu nýtt af persónuafslætti þeirra, en þar sem heimildin yrði bundin við lágar tekjur foreldra og veru unglinganna í heimahúsum yrði aðeins um lítið brot af þeirri upphæð að ræða.

Persónuafsláttur greiðist út.
    Ónýttur persónuafsláttur fellur niður ef hann nýtist ekki til millifærslu eða til frádráttar sköttum. Með því að greiða ónýttan persónuafslátt út er fundin leið til að styðja sérstaklega þá sem eru með laun undir skattfrelsismörkum. Nokkur hluti þessa fólks er unga fólkið á aldrinum 16–20 ára sem þegar hefur verið nefnt.

Stighækkandi hátekjuskattur.
    Við afgreiðslu skattalaga í lok sl. árs var hátekjuskattur lækkaður og mun það kosta ríkissjóð um 100 millj. kr. á þessu ári. Viðmiðunarmörk hátekjuskatts voru hækkuð úr 200 þús. kr. í 235 þús. kr. fyrir einstaklinga og úr 400 þús. kr. í 450 þús. kr. fyrir hjón á mánuði.
    Þingmenn Alþýðubandalagsins greiddu atkvæði gegn lækkun hátekjuskatts. Tekjuskattskerfið verður að nýtast til tekjujöfnunar og nær væri að hátekjuskatturinn væri stighækkandi og hækkaði úr 5 í 8% á hæstu tekjurnar.

Þak á tekjutengda skerðingu.
    Margvíslegar bætur sem ríkið greiðir út, m.a. vaxtabætur og barnabætur, skerðast þegar tilteknum heildartekjum er náð. Þetta hefur leitt til þess að jaðarskattur getur orðið býsna hár hjá fólki með meðaltekjur. Nauðsynlegt er að sett sé þak á það hve hátt hlutfall jaðarskattsins getur orðið og er hér lagt til að miðað verði við 55%.

Húsaleigubætur færðar inn í skattkerfið.
    Núgildandi kerfi húsaleigubóta hefur verið harðlega gagnrýnt, enda nýtist það aðeins hluta leigjenda. Víða um land hafa sveitarfélög neitað að eiga aðild að þessu kerfi og þar eru því engar bætur greiddar. Brýnt er að endurskoða reglur um húsaleigubætur og færa þær inn í skattkerfið svo að þær standi öllum leigjendum til boða.
Fjármagnstekjur séu skattlagðar.
    Þingmenn Alþýðubandalagsins hafa margsinnis gert tillögur um að fjármagnstekjur séu skattlagðar eins og aðrar tekjur, en þó með þeim fyrirvara að einhver takmörkuð upphæð sé skattfrjáls hjá hverjum og einum með sérstökum persónuafslætti til að hvetja fólk áfram til sparnaðar. Í tillögu sem þingmenn Alþýðubandalagsins fluttu fyrir þremur árum um álagningu fjármagsskatts voru færð að því rök að slíkur skattur gæti skilað ríkissjóði um 2 milljörðum kr.
    Núverandi ríkisstjórnarflokkar hafa hummað það fram af sér allt kjörtímabilið að taka ákvörðun um fjármagnsskatt. Í þeirra röðum hefur einkum verið rætt um flatan 10% brúttóskatt á fjármagnstekjur. Sú tilhögun hefði þann ókost að allur sparnaður hversu smár sem hann væri yrði skattlagður og vaxtaútgjöld kæmu ekki til frádráttar vaxtatekjum, t.d. ef maður selur íbúð og kaupir aðra.

Samræming fyrirtækjaskatta.
    Heildarvelta fyrirtækja annarra en fjármálastofnana er áætluð um 680 milljarðar kr. á árinu 1994. Tekjuskattur fyrirtækja er hins vegar aðeins 3.425 millj. kr. á liðnu ári.
    Í tíð núverandi ríkisstjórnar hefur tekjuskattshlutfall hlutafélaga og annarra fyrirtækja, sem rekin eru í félagsformi, verið lækkað úr 45% í 33%. Þetta hefur gerst á sama tíma og skatthlutfall einstaklinga hefur hækkað í tæp 42% og aðstöðugjald upp á 4.000 millj. kr. hefur verið létt af fyrirtækjum. Það misrétti sem af þessu hefur hlotist lýsir sér m.a. í því að fyrirtæki, sem rekin eru á reikning eigenda og ekki eru í félagsformi, þurfa að greiða hlutfallslega miklu hærri tekjuskatt en stóru fyrirtækin. Nauðsynlegt er að skatthlutfallið, sem lagt er til grundvallar í almennum tekjuskatti, sé það sama á einstaklinga og öll fyrirtæki. Áætla má að þessi samræming yki tekjur ríkissjóðs um 1.200 millj. kr. á ári.

Frádráttur vegna nýsköpunar.
    Skattaívilnanir til fyrirtækja eiga því aðeins rétt á sér að þær séu líklegar til að auka atvinnu og umsvif í efnahagskerfi landsmanna. Þingmenn Alþýðubandalagsins telja rétt að fyrirtæki fái sérstakan frádrátt frá tekjuskatti vegna nýsköpunar- og þróunarverkefna. Þetta hefur áður komið fram, m.a. í þeirri stefnumörkun í efnahags- og atvinnumálum sem kennd var við Útflutningsleiðina en þar var lagt til:
    1. Að tekjutengdir skattar á einstaklinga yrðu felldir niður í allt að tvö ár hjá þeim starfsmönnum sem að meginhluta dveljast erlendis við öflun nýrra markaða og sölustarfsemi. Þannig verði fyrirtækin hvött til að flytja áherslur yfir í útflutningsstarfsemi.
    2. Að framlög til rannsókna, þróunarstarfs, markaðsleitar og annarrar útflutningstengdrar starfsemi verði ívilnandi við skattgreiðslu fyrirtækja.
    3. Að ný einstaklingsfyrirtæki og hlutafélög, sem afla meira en helmingi tekna sinna með sölu á erlendum mörkuðum, verði skattfrjáls fyrstu þrjú árin.

Þrengri heimildir til að nýta keypt tap fyrirtækja.
    Samkvæmt skattalögum er fyrirtækjum heimilt að nýta sér til skattfrádráttar uppsafnað tap fyrirtækja í skyldri starfsemi sem þau hafa keypt, en rekstrartap má nýta í fimm ár frá því það myndast. Oft er um að ræða stórfelldan undandrátt tekna með þessari aðferð. Þingmenn Alþýðubandalagsins telja óhjákvæmilegt að þessi heimild verði verulega þrengd. Því miður liggja ekki fyrir neinar upplýsingar um hvað gæti verið um að ræða miklar fjárhæðir.

Skattar á miklar eignir hækkaðir.
    Við afgreiðslu skattalaga í lok sl. árs var stóreignaskatturinn strikaður út. Það voru einmitt stærstu tíðindin í skattalagabreytingum ríkisstjórnarinnar að skattur þessi, sem mjög ranglega var kenndur við fátækar ekkjur, skyldi afnuminn. Skatturinn nam 0,75 % á nettóeignir yfir 10 millj. kr. á einstakling (20 millj. kr. á hjón) og hafði verið lagður á í mörg ár til viðbótar við almennan 1,2% eignarskatt. Þeir einir þurftu að borga þennan stóreignaskatt að fullu sem höfðu í tekjur sem svarar 167 þús. kr. á mánuði og voru það um 1.600 manns. Álíka stór hópur greiddi skertan stóreignaskatt vegna minni tekna og þeir sem höfðu minna en 1 millj. kr. í árstekjur sluppu við þennan skatt þrátt fyrir miklar eignir. Stóreignaskatturinn var því mjög sanngjarn. En hann var strikaður út og kostaði það ríkissjóð um 120 millj. kr.
    Þingmenn Alþýðubandalagsins greiddu atkvæði gegn þessu og telja sjálfsagt og eðlilegt að skattar á miklar eignir séu frekar hækkaðir. Þjóðhagsstofnun áætlar að 5% aukaskattþrep á tekjur á bilinu 350.000–500.000 kr. á mánuði og 10% skattþrep á tekjur umfram 500.000 kr. á mánuði mundu skila um 629 millj. kr. miðað við álagningargrunn á árinu 1994.

Skatteftirlit hert.
    Enginn vafi er á því að með stórauknu skatteftirliti og hertum viðurlögum við meiri háttar brotum má auka tekjur ríkissjóðs mjög verulega. Í samþykkt aðalfundar miðstjórnar Alþýðubandalagsins var sérstök áhersla lögð á aðgerðir gegn skattsvikum: Meðal slíkra aðgerða gegn skattsvikum verði:
—    Aukin sérhæfing hjá skattyfirvöldum með nýrri verkaskiptingu á skattstofum.
—    Sérþjálfaðar eftirlitssveitir.
—    Hert viðurlög og fangelsisvistir vegna stærri brota.
—    Ný lagaákvæði og lámarksrefsingar fyrir skattsvik.     
—    Missir starfsréttinda og rekstrarleyfa vegna svartrar atvinnustarfsemi og bókhaldsbrota.


Fylgiskjal I.


Þjóðhagsstofnun:


Dreifing eignarskatts við álagningu 1994.


(1. desember 1994.)


Tafla 1.




REPRó 2 síður




Dreifing eignarskatts við álagningu 1994.


(1. desember 1994.)


Tafla 2.




REPRÓ 1 síða






Fylgiskjal II.


Seðlabanki Íslands:


Íslenskar efnahagsstærðir.


(28. nóvember 1994.)


Breytingar frá fyrra ári í % ef annað er ekki tekið fram.





REPRÓ 2 síður.

Fylgiskjal III.


Nefndarálit 3. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar


um frv. til l. um breytingar í skattamálum, 251. mál 117. löggjafarþings.



    Minni hlutinn vill í upphafi átelja þau vinnubrögð sem núverandi ríkisstjórn hefur nánast gert að reglu og felast í því að leggja flest mál fyrir þingið í formi bandorma þar sem ægir saman ákvæðum úr mörgum mismunandi lögum. Þetta frumvarp er þar engin undantekning því þar er vafið saman í einn gorm ákvæðum til breytinga á eftirtöldum lögum:
—    lögum um tekjuskatt og eignarskatt,
—    lögum um virðisaukaskatt,
—    lögum um tryggingagjald,
—    lögum um bifreiðagjald,
—    lögum um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.,
—    tollalögum,
—    lögum um vörugjald.
    Engin haldbær skýring hefur verið gefin á þessum vinnubrögðum og má því ljóst vera að ef slíkur sóðaskapur við framlagningu mála líðst óátalinn og festist í sessi þegar ekkert sérstakt kallar á að menn stytti sér leið er illa farið.
    Efni frumvarps þessa og ýmsar aðrar breytingar, sem núverandi ríkisstjórn hefur staðið fyrir í skattamálum, endurspeglar ótrúlegar þverstæður í málflutningi og framgöngu.
    Stjórnarflokkarnir lofuðu eins og kunnugt er skattalækkunum fyrir síðustu kosningar. Útkoman er skattahækkun í heild en þó fyrst og fremst gífurleg tilfærsla skattbyrði yfir á launafólk. Nemur þessi tilfærsla og auknu álögur á almenning samtals a.m.k. 5–6 þús. millj. kr.
    Ýmis svið sem áður var skilningur á að hlífa við skattlagningu, svo sem menningu og almenningssamgöngum, eru nú eða verða skattlögð. Á sama tíma er því svo enn drepið á dreif að skattleggja fjármagnstekjur og hin eiginlegu gróðaöfl.

Annáll skattkerfisbreytinga og kostnaðarhækkana


í tíð ríkisstjórnar Davíð Oddssonar.


    Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 30. apríl 1991 segir m.a. að stjórnin ætli að „bæta lífskjör, m.a. með aðgerðum í skatta- og félagsmálum sem koma hinum tekjulægstu og barnafjölskyldum að gagni“.
    Fátt er fjær sanni. Ef litið er lauslega yfir það sem gerst hefur í tíð þessarar ríkisstjórnar í skatta- og ríkisfjármálum, þar með talið gjaldtöku ýmiss konar, kemur eftirfarandi í ljós:
    Barnabætur hafa verið lækkaðar um nálægt 600 millj. kr.
    Sjómannafrádráttur hefur verið lækkaður.
    Endurgreiðsla tannlæknakostnaðar barnafjölskyldna hefur verið lækkuð.
    Ýmiss konar gjaldtaka í heilbrigðiskerfinu, komugjöld, gjöld fyrir sérfræðiþjónustu o.fl. hafa verið lögð á.
    Þátttaka sjúklinga í lyfjakostnaði hefur verið stóraukin.
    Skólagjöld hafa verið lögð á.
    Vextir hafa verið settir á námslán og þau skert verulega.
    Tekjuskattar einstaklinga hafa verið hækkaðir um 1,5%, almennt hlutfall, og 5% lögð í viðbót á tekjur yfir 200 þús. kr. á mánuði.
    Persónufrádráttur hefur verið skertur og ekki verið framreiknaður að fullu miðað við verðlagsþróun. Skattfrelsismörk hafa þannig lækkað verulega í tíð þessarar ríkisstjórnar, eða um 5–6 þús. kr. á mánuði. Þau voru framreiknuð nálægt 63 þús. kr. fyrri hluta árs 1991 en stefna nú niður í um 57 þús. kr.
    Tekjuskattur fyrirtækja hefur verið lækkaður úr 45% í 39% á þessu ári.
    Aðstöðugjald fyrirtækja hrefur verið fellt niður.
    Bifreiðagjöld, bensíngjald og þungaskattar hafa verið hækkuð verulega.
    Virðisaukaskattur upp á 14% hefur verið lagður á húshitun, afnotagjöld, bækur, blöð og tímarit.
    Þessu til viðbótar má nefna að kostnaði vegna launagreiðslna við gjaldþrot fyrirtækja var velt yfir á atvinnulífið með stofnun ábyrgðarsjóðs launa og sveitarfélögin voru einhliða skylduð til að greiða 600 millj. kr. í ríkissjóð, fyrst sem svokallaðan lögguskatt, en nú í formi framlags til Atvinnuleysistryggingasjóðs.
    Það sem fram undan er nú um áramótin er svo enn frekari hækkun tekjuskatts einstaklinga en um leið og 1,5 prósentustig flytjast úr tekjuskatti yfir í útsvar til að mæta tekjutapi sveitarfélaganna vegna niðurfellingar aðstöðugjalds á að hækka almenna tekjuskattsprósentu um 0,35% og reyndar einnig að lyfta útsvarsþakinu um 0,2% í viðbót. Samanlögð skattprósenta einstaklinga á næsta ári getur því orðið hvorki meira né minna en 41,9%, en var 39,85% þegar stjórnin tók við.
    Um síðustu áramót var ákveðið að skerða vaxtabætur um 400 millj. kr. og mun það nú koma til framkvæmda á árinu 1994. Í 9. gr. frumvarpsins eru lagðar til nokkrar breytingar á framkvæmd þessarar skerðingar en skammur tími hefur gefist til að skoða áhrif þeirra og þar sem þær eiga ekki að gilda fyrr en á árinu 1995 styður 3. minni hluti að þeim verði frestað og þær skoðaðar betur. Alþýðubandalagið er algerlega andvígt skerðingu vaxtabóta og telur hana hrein svik við fólk sem treyst hefur á óbreyttan stuðning frá hinu opinbera við húsnæðisskuldbindingar.
    Þá kemur til framkvæmda nú um áramótin 14% virðisaukaskattur á ferðaþjónustu, þar með talið á almenningssamgöngur. Bifreiðagjöld hækka enn frekar, tryggingagjald um 0,31% o.fl.
    Í fjárlagafrumvarpinu og í bandormi sem inniheldur ýmsar svokallaðar ráðstafanir í ríkisfjármálum er og að finna ýmsar íþyngjandi ráðstafanir, svo sem sérstakan skatt á áfengissjúklinga, frekari skólagjöld o.fl.

Almennt um afstöðu til frumvarpsins.


    Hér eru ekki efni til að fara ítarlega út í einstaka liði í skatta- og ríkisfjármálabandormum stjórnarinnar og því látið duga að gera grein fyrir afstöðu 3. minni hluta til aðalatriðanna.
    Það hefur verið afstaða Alþýðubandalagsins að rétt væri að beita lægri eða engri skattlagningu á matvæli og brýnar lífsnauðsynjar sem tæki til tekjujöfnunar ásamt með sérstöku skattþrepi á hærri tekjur og fleiri slíkum tekjujafnandi aðgerðum. Alþýðubandalagið hefur gegnum tíðina beitt sér fyrir lífskjarajöfnun, m.a. með slíkum ráðstöfunum og má í því sambandi minna á að árið 1978 í stjórnartíð Alþýðubandalagsins var söluskattur felldur niður af matvælum. Árið 1987 barðist Alþýðubandalagið hart gegn upptöku matarskattsins og beitti sér svo fyrir því í stjórnartíð sinni á árunum 1988–1991 að niðurgreiðslur á helstu matvörur voru auknar svo að það jafngilti lægra skattþrepi. Alþýðubandalagið mun því styðja nú þá grundvallarákvörðun að matarskatturinn verði lækkaður í 14%, en ábyrgð af undirbúningi og framkvæmd er að sjálfsögðu ríkisstjórnarinnar sem bauð þetta fram í tengslum við kjarasamninga. 3. minni hluta er vel ljóst að ýmsar aðrar aðferðir, svo sem beinar tilfærslur, geta skilað sambærilegum eða jafnvel meiri tekjujöfnunaráhrifum til afmarkaðra hópa en breytingu af þessu tagi má ekki skoða einangrað og einnig vakna spurningar um varanleika aðgerða af því tagi að hækka barnabætur og því um líkt. Síst er núverandi ríkisstjórn treystandi í þessum efnum eins og dæmin sanna. Með þeim breytingartillögum, sem 3. minni hluti leggur til samhliða lægra skattþrepi í virðisaukaskatti fyrir matvæli, þ.e. að hækka jafnframt persónufrádrátt og um leið hátekjuskattþrepið um 3 prósentustig, mun breytingin í heild fyrst og fremst ívilna stærri og tekjulægri fjölskyldunum. Mat á öllum slíkum aðgerðum er vandasamt og upplýsingar sumpart ónógar eða gamlar, sbr. það að byggt er á neyslukönnun frá 1990 en síðan hafa orðið miklar breytingar og kaupmáttur ráðstöfunartekna fallið verulega. Það er því ekkert óeðlilegt að mismunandi skoðanir komi fram gagnvart aðgerðum af þessu tagi eins og glöggt endurspeglast í umsögnum samtaka launafólks. BSRB og BHM hafa talsvert annað mat á því hvaða leiðir séu vænlegastar og vísast í það til umsagna þeirra sem birtar eru sem fylgiskjöl ásamt gögnum frá ASÍ.
    Alþýðubandalagið er andvígt upptöku virðisaukaskatts á ferðaþjónustu og þá ekki síst á almenningssamgöngur og leggur til að frá því verði horfið. Ljóst er að ferðaþjónustan er einn álitlegasti vaxtarbroddurinn í íslensku atvinnulífi og hefur á undanförnum árum skilað stórauknum gjaldeyristekjum og skapað ný störf svo hundruðum skiptir. Talið er að gjaldeyristekjur af ferðaþjónustu hafi aukist um 2.500 millj. kr. á síðasta ári og beinar tekjur ríkisins um a.m.k. 500 millj. kr. Lítil efnahagsleg skynsemi er í því að kaffæra slíkan atvinnuveg með aukinni skattlagningu. Upptaka virðisaukaskatts á almenningssamgöngur, t.d. rekstur almenningsvagna hér á höfuðborgarsvæðinu, er í reynd fráleit aðgerð, hvort sem litið er til félagslegra eða þjóðhagslegra raka, umhverfissjónarmiða eða umferðaröryggis en allt mælir í reynd með að hvetja til uppbyggingar og reksturs vel skipulagðra almenningsvagnasamgangna á helstu þéttbýlissvæðum. Skattlagning fargjalda í innanlandsflugi er enn fráleitari og ranglátari aðgerð ef eitthvað er. Skatturinn bitnar langþyngst á íbúum afskekktustu byggarlaganna og bitnar þyngst á landsbyggðinni í heild og möguleikum hennar til almennra samskipta í þjóðfélaginu. Við lokaumfjöllun málsins í nefndinni hefur svo komið í ljós að stjórnarmeirihlutinn hefur ákveðið að falla frá þessari skattlagningu að hluta til hvað rekstur almenningsvagna á vegum sveitarfélaga snertir. Þetta verði gert með endurgreiðslu þess hluta virðisaukaskattsins sem leggst á rekstrarframlög sveitarfélaganna. Þetta er að sjálfsögðu fagnaðarefni, sbr. ofansagt, en furðu vekur að haldið skuli til streitu að fullu skattlagningu á aðrar almenningssamgöngur, þar með talið innanlandsflugið. Í þessari niðurstöðu birtist enn þá landsbyggðarfjandsamlegra viðhorf en áður og er þá langt til jafnað. Upplýsingar um áhrifin á fargjöld í innanlandsflugi eru birtar í fylgiskjölum.

Breytingartillögur.


    Fulltrúi Alþýðubandalagsins í efnahags- og viðskiptanefnd mun flytja sérstakar breytingartillögur auk þess sem Alþýðubandalagið mun styðja sumar af breytingartillögum 1. minni hluta.
    Lagðar eru til eftirfarandi breytingar:
    Lagt er til að persónufrádráttur hækki um 400 kr. á mánuði eða 4.800 kr. á ári og verði 287.064 kr. miðað við skattvísitölu gildandi tekjuskattslaga eða nálægt 292.000 kr. fyrir tekjuárið 1994. Það þýðir að skattfrelsismörkin komast yfir 58.000 kr. á mánuði í stað þeirra 57.000 kr. sem stefnir í að óbreyttu. Kostnaður ríkissjóðs af þessum breytingum er nálægt 680 millj. kr. á ári.
    Þá er lagt til að tekjuskattur fyrirtækja haldist óbreyttur á árinu 1994 vegna tekna ársins 1993, þ.e. 39% í stað þess að lækka í 33% eins og ríkisstjórnin áformar. Þessi breyting gefur ríkissjóði um 300 millj. kr. í tekjur.
    Þá er lagt til að fallið verði frá því að leggja virðisaukaskatt á fólksflutninga innan lands og á þjónustu ferðaskrifstofa. Þessar breytingar kosta ríkissjóð um 250 millj. kr. Alþýðubandalagið er andvígt upptöku virðisaukaskatts á ferðaþjónustu og greiddi atkvæði gegn málinu á síðasta þingi. Þriðji minni hluti mun styðja breytingartillögu um að fella niður virðisaukaskatt af ferðaþjónustu í heild en flytur til vara þessa tillögu um fólksflutninga nái það ekki fram að ganga.
    Lagt er til að horfið verði að nýju frá því að leggja virðisaukaskatt á íslenskar bækur, bókaskatt. Þessi breyting kostar ríkissjóð um 300 millj. kr.
    Í 5. tölul. breytingartillagnanna eru sömu efnisatriði á ferð og í 3. og 4. tölul., þ.e. verið er að undanskilja fólksflutninga, þjónustu ferðaskrifstofa og sölu íslenskra bóka ákvæðum 14. gr. laganna um virðisaukaskatt.
    Hér er lagt til að gildistaka lægra skattþreps á matvæli verði 1. mars næstkomandi en ekki 1. janúar eins og frumvarpið gerir ráð fyrir. Ljóst virðist að ríkisstjórnin hafi alls ekki sinnt undirbúningi málsins sem skyldi og jafnframt hafa komið fram efasemdir frá kaupmönnum um að hægt verði að láta breytingarnar taka gildi strax 1. janúar nk. Frestun á gildistöku lækkunarinnar um tvo mánuði, eða eitt uppgjörstímabil virðisaukaskatts, sparar um 500 millj. kr. en á móti koma útgjöld vegna niðurgreiðslna, sbr. næsta lið.
    Í samræmi við frestun á gildistöku lægra skattþreps á matvæli til 1. mars er lagt til að við 32. gr. bætist ákvæði til bráðabirgða um auknar niðurgreiðslur, sambærilegar við þær sem verið hafa við lýði á þessu ári þar til lækkunin kemur til framkvæmda. Kostnaður vegna þessa fyrir ríkissjóð er um 100 millj. kr.
    Lagt er til að sérstakt hátekjuskattþrep, sem lagt er á tekjur einstaklinga yfir 200 þús. kr. og hjóna yfir 400 þús. kr. á mánuði, sbr. lög nr. 111/1992, verði hækkað um 3 prósentustig, þ.e. úr 5% í 8%. Þetta gefur ríkissjóði tekjur upp á u.þ.b. 250 millj. kr.
    Tekjuöflun samkvæmt þessum tillögum er 1.050 millj. kr. en útgjöldin eru nokkru meiri eða um 1.330 millj. kr. Munar þar mest um hækkun persónufrádráttarins.
    Það skal að lokum undirstrikað að hér er einungis verið að gera tilraun til að lagfæra nokkra verstu ágallana sem birtast í þessu skattafrumvarpi ríkisstjórnarinnar. Alþýðubandalagið er þeirrar skoðunar að gagnger endurskoðun í skattamálum sé orðin mjög brýn eins og ríkisstjórnin hefur haldið á þeim málum. Þar ber hæst að útfæra og koma á raunverulegum fjármagnstekjuskatti, leggja þarf á hátekjuskatt sem að hluta til yrði svo notaður til að hækka skattfrelsismörk og þannig auka tekjujöfnun í skattkerfinu.
    Endurskoða þarf skattlagningu fyrirtækja og finna sanngjarnar skattaviðmiðanir sem séu í samræmi við raunverulega afkomu fyrirtækjanna og komi að hluta í stað aðstöðugjaldsins.
    Efnahags- og ríkisfjármálastefna stjórnar Davíðs Oddssonar hefur beðið algert skipbrot. Samdráttur í efnahagsstarfseminni og atvinnulífinu, niðurskurður, svimandi háir vextir ásamt afskiptaleysi og uppgjöf stjórnvalda hafa valdið víxlverkun sem m.a. kemur fram í minnkandi tekjum ríkissjóðs. Við þessu hefur ríkisstjórnin brugðist með því að stórauka álögur á almenning en ýta svo vandanum á undan sér að öðru leyti.
    Þriðji minni hluti átelur þau vinnubrögð sem ríkisstjórnin hefur tamið sér í skattamálum, hafnar þeirri einhliða skattpíningu almennings sem hefur verið leiðarljós hennar og lýsir frekari ábyrgð af afleiðingum á hendur stjórninni.
    Sem fylgiskjöl með nefndaráliti þessu eru birt ýmis gögn um áhrif af upptöku virðisaukaskatts á ferðaþjónustu, umsagnir stéttarfélaga o.fl.

Alþingi, 14. des. 1993.



Steingrímur J. Sigfússon.






FYLGISKJÖL





REPRÓ bls. 5 - 58 í lausaskjali 411 frá í fyrra.




Fylgiskjal IV.

Steingrímur J. Sigfússon:

Húsaleigubætur — góðu máli klúðrað.


(Grein úr Degi, janúar 1995.)



    Ríkið hefur um árabil greitt niður kostnað fólks af öflun íbúðarhúsnæðis í eigin þágu með skattafrádrætti, húsnæðisbótum og nú síðast vaxtabótum, en leigjendur hafa á hinn bóginn engrar aðstoðar notið. Í þessu hefur falist mikið.
    Alþýðubandalagið hefur lengi haft það sem baráttumál að afmá þetta misrétti, bæta stöðu leigjenda á húsnæðismarkaðnum og stórauka framboð á leiguhúsnæði á viðráðanlegum kjörum. Markmiðið er að það verði raunverulegur og tryggur valkostur fyrir fólk með lægri tekjur að leigja húsnæði. Það verði sem sagt fleiri möguleikar í stöðunni en sá einn að hella sér út í illviðráðanlegt eða óviðráðanlegt kapphlaup við að koma upp eigin þaki yfir höfuðið.
    Eins og tekjur og lífskjör hafa þróast hér á landi, sérstaklega nú síðustu árin, er ljóst að hin svokallaða sjálfseignarstefna í húsnæðismálum er að hrynja til grunna.
    Núverandi ríkisstjórn hafði það á stefnuskrá sinni að rétta hlut leigjenda og ráðherrar Alþýðuflokksins gumuðu af því í byrjun að þarna yrði nú einu réttlætismálinu til náð í höfn fyrir framgöngu Alþýðuflokksins í ríkisstjórn.

Stórgölluð útfærsla.
    Ástæðulaust er síðan að rekja þá hörmungarsögu og þann barning allan sem tengdist húsleigubótamálinu í tíð ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar, en því var eins og kunnugt er ár eftir ár skotið á frest að koma húsaleigubótunum á og ýmsu borið við, ágreiningi innan stjórnarinnar um útfærslu, peningaleysi o.s.frv. Í einni kreppunni í stjórnarsamstarfinu varð þó til viljayfirlýsing um að hafin yrði greiðsla húsaleigubóta frá upphafi árins 1995 að telja. Sú útfærsla sem varð fyrir valinu var hins vegar svo meingölluð að í raun og veru er einfaldast að orða það svo; málinu var gjörsamlega klúðrað.
    Í stað þess að velja tæknilega einfalda og gegnsæja leið fyrir stuðning við þennan hóp í gegnum skattkerfið eins og gert er gagnvart öðrum, sem fá greiddar vaxtabætur, er hér valin sú leið að setja upp flókið fyrirkomulag í formi samstarfsverkefnis milli ríkis og sveitarfélaga þar sem sveitarfélögin eiga að annast framkvæmdina en ríkið borgar á hinn bóginn 60% af kostnaðinum. Ákvörðunarvald um það hvort greiddar séu húsaleigubætur var sett í hendur sveitarfélaga.
    Þetta hefur þá afleiðingu að sú fráleita staða kemur upp að sveitarfélögin geta, ef svo ber undir, með því að ákveða að greiða ekki húsaleigubætur svipt íbúa sína ekki aðeins þeim hluta greiðslunnar sem kemur úr sveitarsjóði, heldur líka þeim 60 hundruðustu sem ella kæmu frá ríkinu. Hlýtur það að orka stórlega tvímælis að stjórnskipulega og réttarfarslega séð gangi slíkt fyrirkomulag upp og samrýmist ákvæðum stjórnarskrár og laga um jafnræði þegnanna. Hvers eiga þeir íbúar sveitarfélaga, sem ákveða að greiða ekki húsaleigubætur, að gjalda að vera sviptir þeim, og einnig þeim hlutanum sem kemur úr sameiginlegum sjóði allra landsmanna, ríkissjóði? Allt annað mál væri þótt sveitarfélögin hefðu sjálfræði á því hvort þau tækju að sínu leyti þátt í verkefninu, en hitt að þau geti jafnframt svipt menn stuðningi af þessu tagi úr ríkissjóði er fráleitt.
    Einhverjir kunna að skella skuldinni alfarið á sveitarfélögin í þessu sambandi og segja að með því að ákveða að greiða ekki húsaleigubætur séu það þau sem séu völd að óréttlætinu. Skilst mér að fyrrverandi félagsmálaráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, skáki í því skjólinu á fundum sínum um þessar mundir. En þá er til þess að líta að sveitarfélögin völdu ekki þessa útfærslu málsins heldur þvert á móti mótmæltu henni og bentu strax í upphafi á að hér væri um meingallaða tilhögun að ræða. Auk þess sem af eðlilegum ástæðum þau töldu að þetta verkefni ætti að vera hjá ríkinu og kostað af því.
    Hin flókna og illskiljanlega útfærsla sem leiddi af málamiðlun innan ríkisstjórnarinnar sem og það að mikill dráttur varð á að brúklegar reglur kæmu frá félagsmálaráðuneytinu um framkvæmdina leiddi til þess að fjöldamörg sveitarfélög sáu sér ekki fært, a.m.k. ekki í fyrstu umferð, að taka upp húsaleigubætur. Þau sem það gerðu renndu meira og minna blint í sjóinn hvað allan undirbúning af hálfu ráðuneytisins snerti.
    Niðurstaðan er því eitt allsherjar klúður.

Fjármagnað með niðurskurði í velferðarkerfinu.
    Það tekur þó fyrst steininn úr í þessu húsaleigubótaklúðri þegar á daginn kom að fyrrverandi félagsmálaráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, og Friðrik Sophusson fjármálaráðherra höfðu gert leynisamkomulag um að útgjöldum, sem stöfuðu af upptöku húsaleigubóta, skyldi alfarið mætt með niðurskurði í velferðarkerfinu, fyrst og fremst með minni uppbyggingu félagslegs íbúðarhúsnæðis. Fóru þá að renna tvær grímur á ýmsa sem lengi höfðu barist fyrir þessu máli þegar menn sátu uppi með hvort tveggja, annars vegar stórgallaða tilhögun og hins vegar þá staðreynd að í raun var skorið niður á móti í velferðarkerfinu sem öllum útgjöldunum vegna húsaleigubóta nam.
    Eitt af mörgum brýnum forgangsverkefnum í skattkerfis- og velferðarmálum, sem býður nýrrar ríkisstjórnar, er að leiðrétta þessi mistök og ber þá að sjálfsögðu að færa greiðslu húsaleigubóta inn í skattkerfið með svipuðum hætti og tíðkast með vaxtabætur. Það er bæði einfaldara og auðveldara í framkvæmd og réttlátara líka og þar með einnig tryggt að þetta standi öllum leigjendum, hvar sem er á landinu, til boða á jafnréttisgrundvelli án tillits til þess hvaða vindar blása í sveitarstjórn á hverjum stað. Þetta þarf ekki að breyta því að ef svo semst geta sveitarfélögin tekið einhvern þátt í kostnaði vegna greiðslu húsaleigubóta, eins og nú er, og væri þá einfaldast að ríkið annaðist innheimtu þess hluta hjá sveitarfélögunum eftir á.
    Þessi mistök þarf að leiðrétta og vonandi verður þá þetta klúður ekki til að spilla fyrir annars góðu máli.
Fylgiskjal V.


Áttatíu fyrirtæki högnuðust um 19,4 milljarða á síðasta ári.


(Grein úr Dagsbrún 1994.)



    Þrátt fyrir allan þann bölmóð, sem hrotið hefur af vörum atvinnurekenda síðastliðin missiri, eru þau einnig mörg fyrirtækin sem hagnast hafa vel af starfsemi sinni á sama tíma. Í nýjasta hefti Frjálsrar verslunar er birt könnun sem blaðið framkvæmdi um afkomu fyrirtækja á síðasta ári. Þar er birtur listi yfir 80 fyrirtæki sem högnuðust mest á árinu.
    Ef tekinn er saman hagnaður fyrirtækjanna á þessum lista kemur í ljós að samanlagður hagnaður þeirra er rúmlega 19,4 milljarðar króna, en langstærstur er hlutur ÁTVR, eða rúmlega 6,3 milljarðar. Bankastofnanir þær, sem eru á listanum, hagnast um 3,3 milljarða, en þess má geta að á móti kemur að Íslandsbanki einn tapaði um 654 milljónum króna á síðasta ári.
    Sölufyrirtækin stóru þrjú fyrir fiskafurðir, sem á listanum eru, högnuðust um 877 milljónir á árinu og útgerð og fiskvinnsla um rúmlega 527 milljónir. Olíufélögin náðu til sín 482 milljónum og krítarkortafyrirtækin tvö 155 milljónum. Síðast en ekki síst högnuðust tryggingafélögin um 1,2 milljarða króna. Þar af nam hagnaður Viðlagatryggingar Íslands 618 milljónum á meðan velta fyrirtækisins nam 997 milljónum.
    Að lokum látum við fylgja lista yfir þau fyrirtæki sem högnuðust mest á síðasta ári og skal þess getið að hann er unninn upp úr nýjasta hefti Frjálsrar verslunar eins og fram kom hér að framan (upphæðir eru í millj. kr.).



ÁTVR     
6.379

Seðlabankinn     
2.720

Póstur og sími     
1.549

Sölumiðstöð Hraðfrystihúsanna     
748

Viðlagatrygging Íslands     
618

Fríhöfnin     
535

Eimskipafélag Íslands     
526

Íslensk getspá — Lottó     
448

Rafmagnsveita Reykjavíkur     
389

Fiskveiðasjóður Íslands     
326

Happdrætti Háskóla Íslands     
276

Olíufélagið hf.     
269

Sjóvá — Almennar hf.     
239

Grandi hf.     
180

Hitaveita Suðurnesja     
175

Íslenska útvarpsfélagið     
154

Íslenska járnblendifélagið     
146

SPRON     
136

Vátryggingafélag Íslands     
135

Prentsmiðjan Oddi     
134

Sparisjóður vélstjóra     
130

Vegagerðin     
122

Útgerðarfélag Akureyringa     
117
Olíufélagið Skeljungur      113
Tryggingamiðstöðin     
112

Þormóður Rammi hf.     
112

Íslensk endurtrygging     
99

Olíuverslun Íslands hf.     
99

Mjólkursamsalan     
95

Landsbanki Íslands     
95

Vatnsveita Reykjavíkur     
94

Greiðslumiðlun hf. — VISA     
94

Sparisjóður Hafnarfjarðar     
93

Áburðarverksmiðja ríkisins     
90

Búnaðarbanki Íslands     
84

Sparisjóðabanki Íslands hf.     
79

Mjólkurbú Flóamanna     
72

Sölusamtök ísl. fiskframleiðenda — SÍF     
65

Íslenskar sjávarafurðir     
64

Hita- og vatnsveita Akureyrar     
61

Delta sf.     
61

Kreditkort hf.     
61

Malbikunarstöð Reykjavíkurborgar     
55

Lyfjaverslun ríkisins     
55

Reykjavíkurhöfn     
54

Fylgiskjal VI.


Úr skýrslu Ríkisendurskoðunar um áhrif skattbreytinga


samkvæmt lögum nr. 122/1993.


(Október 1994.)





REPRÓ bls. 70-84.