Ferill 429. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1994–95. – 1064 ár frá stofnun Alþingis.
118. löggjafarþing. – 429 . mál.


700. Tillaga til þingsályktunar


um vegtengingu um utanverðan Hvalfjörð.

(Lögð fyrir Alþingi á 118. löggjafarþingi 1994–95.)


    Alþingi ályktar að heimila samgönguráðherra og fjármálaráðherra að undirrita samning við Spöl hf. um vegtengingu um utanverðan Hvalfjörð, sbr. 2. gr. laga nr. 45/1990.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.

    Samningur um vegtengingu um utanverðan Hvalfjörð var undirritaður 25. janúar 1991 af samgönguráðherra og stjórn Spalar hf. og staðfestur af fjármálaráðherra. Samningurinn var staðfestur af Alþingi 18. mars 1991 með þingsályktunartillögu.
    Við framgang málsins töldu ráðgjafar Spalar hf. nauðsynlegt að gera nokkrar breytingar á samningnum, m.a. hvað varðaði rekstrartíma ganganna og að virðisaukaskattur á umferðargjald verði í sama skattþrepi og fólksflutningar. Breyttur samningur var undirritaður 23. júní 1993 og staðfestur af Alþingi 20. apríl 1994 með þingsályktunartillögu. Enn fremur var samþykkt að veita 50 milljóna króna lán úr ríkissjóði til Spalar hf. til þess að fjármagna jarðlagarannsóknir sem ráðgjafar félagsins lögðu til að yrðu framkvæmdar.
    Sumarið 1993 fór fram forval verktaka og í ágúst það ár voru valdir fjórir verktakahópar sem fyrirhugað var að gefa kost á að taka þátt í útboði. Félagið setti strax það skilyrði að reyndur íslenskur verktaki yrði að vera í hverjum hópi, en að öðru leyti var eingöngu leitað til norrænna verktaka, enda meðal þeirra margir með mjög góða reynslu af ámóta framkvæmdum, auk þess sem flestir þeirra hafa komið við sögu í sambandi við stórframkvæmdir hér á landi.
    Nauðsynlegar jarðlagarannsóknir fóru fram síðari hluta ársins 1993 og lauk í ársbyrjun 1994. Niðurstöðurnar voru í samræmi við fyrri rannsóknir og gáfu til kynna að ekki eiga að vera tæknileg vandamál í sambandi við gerð bergganga á Hnausaskersleið.
    Landsbréf hf. tóku að sér að annast innlenda fjármögnun framkvæmdarinnar meðal íslenskra fjárfesta og unnu að þessu verkefni síðari hluta árs 1993 og luku því í janúar 1994.
    Nomura Bank og Babcock & Brown unnu áfram að erlendri fjármögnun verkefnisins og í nóvember 1993 undirritaði Spölur hf. samning við Union Bank of Switzerland um að bankinn yrði leiðandi aðili varðandi erlenda fjármögnun. Bankinn gerði ráð fyrir að rammi fjármögnunarinnar mundi liggja fyrir í mars 1994.
    Hafist var handa við gerð útboðsganga síðla árs 1993 og lauk því verki með útsendingu þeirra um miðjan apríl 1994. Fyrirhugað var að opna tilboð í lok júní, en vegna þess að tafir urðu á útsendingu síðustu gagna til verktaka og vegna sumarleyfa frestaðist opnun tilboða til 30. ágúst 1994. Einn verktakahópurinn dró sig út úr verkefninu í júlí 1994 þannig að tilboð bárust frá þremur aðilum, en ekkert þeirra var að fullu í samræmi við útboðsskilmála.
    Ráðgjafar Spalar hf. yfirfóru tilboðin og áttu nokkra fundi með verktökunum sl. haust þar sem ýmis atriði skýrðust, einkum tæknilegs eðlis. Í október var ákveðið að ganga til viðræðna við fyrirtækin Skånska, Phil & Sön og Ístak, en jafnframt voru hinir verktakahóparnir beðnir um að framlengja sín tilboð sem nú ná til febrúarloka á þessu ári. Ráðgjafar og fulltrúar Spalar hf. áttu fundi með verktakahópnum og viðskiptabanka þeirra í nóvember, en frekari fundahöld bíða þar til Spölur hf. hefur fengið formlegt tilboð í erlenda fjármögnun verkefnisins.
    Þar sem sífelldar frestanir voru á að Spölur hf. fengi formlegt tilboð í erlenda fjármögnun frá Union Bank of Switzerland fóru ráðgjafar félagsins, í samráði við stjórn þess, að athuga með aðra aðila og komust fyrri hluta sumars í samband við bandaríska tryggingafyrirtækið Prudential sem sýndi verkefninu strax mikinn áhuga, m.a. komu fulltrúar fyrirtækisins til landsins í júlí sl. og ræddu við marga sem að málinu hafa komið. Í september lagði fyrirtækið fram fyrstu drög að erlendri fjármögnum og helstu skilmálum. Í drögunum er gert ráð fyrir láni til 23 ára og að fyrirtækið ætlar að standa eitt að erlendri fjármögnun.
    Í framhaldi af móttöku þessara draga frá Prudential var ákveðið að láta Union Bank of Switzerland hætta frekari vinnu við verkefnið, en snúa sér að Prudential. Aflað var fjölmargra upplýsinga fyrir fyrirtækið, bæði heima og erlendis, en þar sem upplýsingar erlendra umferðarráðgjafa vegna hliðstæðra framkvæmda í Noregi reyndust ófullnægjandi að mati fyrirtækisins ákvað það að óska eftir að framkvæmd yrði viðhorfskönnun vegfarenda um Hvalfjörð og þar sem sá verkferill allur, frá undirbúningi til lokaskýrslu, tók mun lengri tíma en áætlað var fór vinna Prudential við þetta verkefni talsvert út af sporinu vegna annarra verkefna, en er nú komin á fullt skrið aftur og niðurstöður eiga að liggja fyrir á næstu vikum.
    Innan mánaðar frá því formlegt ásættanlegt tilboð í erlenda fjármögnun verkefnisins berst ætti megin rammi væntanlegra samninga að liggja fyrir, en gera má ráð fyrir a.m.k. 5–6 vikum til viðbótar til að ná öllum endum saman svo hægt verði að undirrita formlega samninga allra hlutaðeigandi aðila.
    Erlendir lögmenn sem hafa komið að málinu hafa bent á ýmsar nauðsynlegar breytingar á gildandi samningi ríkis og Spalar hf. til þess að fullnægja kröfum væntanlegra lánveitenda. Þessar breytingatillögur hafa síðan verið útfærðar í samvinnu við íslenska lögmenn og fulltrúa Spalar hf. Breytingarnar miða fyrst og fremst að því að kveða nánar á um ýmis atriði í gildandi samningi og tryggja betur rétt væntanlegra lánveitenda í eignum Spalar hf., auk þess sem aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu og framgangur verkefnisins frá því samningnum var breytt 1993 hafa áhrif á orðalag einstakra greina.



Fylgiskjal I.


SAMNINGUR

um vegtengingu við utanverðan Hvalfjörð,

með áorðnum breytingum á 1., 2., 3., 4., 6., 7., 10. og 11. gr.,

sbr. samninga dags. 25. janúar 1991 og 23. júní 1993.



    Með vísan til laga nr. 45/1990 um vegtengingu um utanverðan Hvalfjörð gera samgönguráðherra og hlutafélagið Spölur hf. (félagið) með sér svofelldan

samning:


1. gr.

    Félagið hefur verið stofnað með hlutafé að fjárhæð 70 – 100 millj. kr. til þess að annast undirbúning, fjármögnun og framkvæmdir við vegtengingu við utanverðan Hvalfjörð, svo og rekstur um tiltekinn tíma. Vegagerðin (Vg) verður hluthafi í félaginu með framlagi sem nemur kostnaði við athuganir þær, sem fyrir liggja.
    Réttindi og skyldur félagsins samkvæmt samningi þessum eru yfirfæranlegar af hálfu félagsins til tryggingar lántöku og/eða á annan hátt, annað hvort:
    með samruna félagsins við annað félag, sem sérstaklega kynni að vera stofnað til að annast fjármögnun, framkvæmdir og rekstur ganganna eða
    til annars félags sem mun takast á hendur ábyrgð á fjármögnun, framkvæmd og rekstri ganganna.
    Ákvæði samningsins skulu gilda að breyttu breytanda fyrir það félag.
    

2. gr.

    Félagið hefur nú lokið við og lagt fram úttekt á tæknilegri hagkvæmni þess að gera veggöng undir Hvalfjörð um Hnausaskersleið og mun eins fljótt og framkvæmanlegt er ljúka við úttekt á fjárhagslegri hagkvæmni á byggingu og rekstri ganganna og fjármögnun þeirra og kynna niðurstöðurnar fyrir samgönguráðherra, um leið og það er framkvæmanlegt, ásamt áformum félagsins um framhald málsins.
    

3. gr.

    Leiði hagkvæmnisathuganir í ljós, að mati félagsins, að veggöngin geti orðið arðvænlegt viðskiptafyrirtæki, skal félagið allt til 31. desember 2002 hafa einkarétt á að leggja veggöng um utanverðan Hvalfjörð og innan þess tíma velja þeim stað, kaupa nauðsynleg landsréttindi, hanna verkið og framkvæma og fjármagna það að öllu leyti. Síðastnefnd tímamörk skulu þó framlengjast verði félagið fyrir töfum við framkvæmd verksins vegna óviðráðanlegra orsaka. Verði framkvæmdir í Hvalfirði ekki hafnar innan 4ra ára frá staðfestingu samnings þessa, fellur einkaréttur félagsins þó niður.
    Staðsetning og tilhögun mannvirkja hefur verið staðfest af samgönguráðherra. Akbraut í göngum skal vera að lágmarki tvær akreinar. Við ákvörðun um gerð og búnað ganga skal miðað við það, að þau fullnægi norskum stöðlum samkvæmt norskum hönnunarreglum um veggöng nr. 021 útgefin af norsku vegagerðinni um tilsvarandi jarðgöng bæði hvað varðar þægindi og öryggi umferðar, svo og um rekstraröryggi ganga.
    Samgönguráðuneytið skal afla samþykkis Vg á öllum hönnunaruppdráttum fyrir veggöngin áður en bygging þeirra hefst.

4. gr.

    Samgönguráðherra skuldbindur sig til að greiða fyrir vegtengingunni og rekstri vegganganna jafnframt því að:
    ábyrgjast eignarnám nauðsynlegs lands vegna byggingar ganganna, ef slík aðgerð reynist óhjákvæmileg;
    ljúka við gerð vegar að gangamunnum í samræmi við vegstaðal þann er nefndur er í 5. gr. hér að neðan, eigi síðar en þegar göngin eru tilbúin til notkunar;
    halda við vegum í nágrenni ganganna í samræmi við vegstaðla Vg sem vikið er að í 5. gr hér að neðan;
    hætta og endurvekja ekki opinberan fjárstuðning við rekstur ökutækja- og farþegaferju milli Reykjavíkur og Akraness eða annarra staða þar á milli;
    hefja ekki innheimtu vegtolla á vegum í nágrenni ganganna sem hafa myndu neikvæð áhrif á umferð um þau;
    hvorki stytta núverandi veg um Hvalfjörð um meira en tvo kílómetra né endurbæta veginn umfram núverandi vegstaðal hans (B3). Endurbyggingu brúa og     minniháttar vegstyttinga vegna þeirra teljast hluti ofangreindra tveggja kílómetra;
    hvorki hindra né trufla rekstur ganganna á gildistíma samnings þessa;
    aðstoða við öflun allra nauðsynlegra staðfestinga varðandi skipulag, hönnun og byggingu.
    

5. gr.

    Leggja skal veg í vegflokki B2, sbr. vegstaðal Vg frá Vesturlandsvegi að veggöngunum sunnan fjarðar. Jafnframt skal tengja göng við hringveginn norðan fjarðar og við Akranes. Þessar vegtengingar skulu vera að lágmarki í vegflokki B3. Vegagerð þessi skal fara fram um leið og veggangagerðin þannig að hvoru tveggja sé lokið á sama tíma. Vg annast gerð og viðhald þessara vega og greiðist kostnaður af vegáætlun.
    Mörk vegar og ganga skulu vera þar sem sneiðing að göngum hefst frá óhreyfðu jarðvegsyfirborði, ef um göng í bergi er að ræða. Aðilar skulu semja um sambærileg mörk ef um aðrar lausnir er að ræða.
    

6. gr.

    Með samningi þessum er félaginu heimilað að opna veggöng til umferðar og reka þau á viðskiptagrundvelli með innheimtu veggjalds. Rekstrartímabilið telst frá mánaðamótum næst eftir að regluleg gjaldtaka félagsins af umferð hefst. Tímabilinu lýkur um leið og allur kostnðaur við göngin hefur fengist endurgreiddur samkvæmt eftirfarandi uppgjöri:
    Stofnkostnaður og endurbætur á uppfærðu verðlagi hvers tíma miðað við lánskjaravísitölu eða aðra vísitölu sem aðilar koma sér saman um og útfærð með þeim hætti sem aðilar koma sér saman um, eða gengisútreikningi sem aðilar kynnu að koma sér saman um, ef fjármögnun hefur verið með erlendu lánsfé. Einnig hugsanlegar greiðslur skv. 2. mgr. 9. gr. hér á eftir.
    Viðhald og annar rekstrarkostnaður mannvirkjanna.
    Kostnaður við innheimtu veggjalds og eðlilegur stjórnunarkostnaður félagsins vegna starfsemi þess við rekstur ganganna.
    Raunvextir, þ.e. fjármagnsgjöld, þar með talinn kostnaður vegna uppgreiðslu láns fyrir umsaminn tíma (ef um er að ræða), að frádregnum fjármunatekjum að teknu tilliti til reiknaðarar verðbreytingarfærslu. Verðbreytingafærslan er reiknuð eftir vísitölu skv. lið 1.
    Skattar, sem á félagið verða lagðir.
    Arðgjöf af uppfærðu hlutafé, 14% á ári. (Uppfærsla skal reiknuð eftir vísitölu skv. lið 1).
    Félagið skal senda samgönguráðuneytinu árlega ársreikninga sína. Einnig skal senda uppgjör til ákvörðunar á lengd endurgreiðslutímans. Í því uppgjöri skal koma fram að hve miklu leyti tekjur hafa náð að greiða niður kostnað skv. liðum 1) – 6) hér að framan.
    Ríkisendurskoðun er heimilt að yfirfara bókhald og reikningsskil félagsins í samráði við löggiltan endurskoðanda þess.
    Uppfylli samgönguráðuneytið ekki skyldur sínar samkvæmt samningi þessum og bætir ekki úr vanefndum sínum innan tólf mánaða frá skriflegri tilkynningu félagsins um þær, skal ráðuneytið greiða fjárhæð til félagsins sem svara til tekjumissis þess á tímabilinu á þann hátt sem um getur í grein þessari.
    

7. gr.

    Við lok samningstímans skulu veggöngin ásamt tilheyrandi mannvirkjum verða eign ríksins án endurgjalds til félagsins. Veggöngum skal skilað í góðu ástandi með tilliti til aldurs þeirra samkvæmt úttekt sem gerð verður við afhendingu.
    Samgönguráðuneytið hefur heimild, innan þeirra marka sem samningur þessi setur því, til að gera samkomulag við aðra aðila, þ.m.t. lánveitendur og/eða verktaka, um atriði sem tengjast framkvæmd verksins.
    

8. gr.

    Félagið skal hafa frjálsar hendur um ákvörðun veggjalds sem innheimt yrði fyrir hinar ýmsu tegundir farartækja og á mismunandi tímum árs án íhlutunar stjórnvalda, allt með hliðsjón af því, að vegfarendur eigi þess alltaf kost að aka fyrir fjörðinn. Óheimilt er að hækka veggjald vegna tímabundinna samgönguerfiðleika á leiðinni fyrir Hvalfjörð.
    

9. gr.

    Samkvæmt úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 19. október 1990, er gjaldskyld umferð um veggöng virðisaukaskattskyld þjónusta og mun félagið þess vegna fá útlagðan virðisaukaskatt endurgreiddan úrr íkissjóði.
    Samningurinn er við það miðaður að virðisaukaskattur af umferðartekjum verði ekki hærri en 14%, eða eins og af fólksflutningum á hverjum tíma. Komi til hækkunar skattsins umfram 14%, mun ríkissjóður tryggja að sú hækkun hafi ekki áhrif á greiðslugetu félagsins á endurgreiðslutíma stofnlána.
    Veggöngin og mannvirki þeim tengd skulu vera undanþegin fasteignamati og þar með álagningu fasteignagjalda eins og önnur vegamannvirki.
    

10. gr.

    Félagið skal að meirihluta vera í eigu aðila með heimilisfesti á Íslandi og skal nota innlenda þekkingu og vinnuafl eftir því sem kostur er. Félagiði skal ávallt leita hagstæðustu leiða varðandi framkvæmdir og fjáröflun.
    

11. gr.

    Samgönguráðuneytið, Vg og félagið skulu mynda samstarfsnefnd til að fylgjast með og ráðgast um áætlunargerð og framkvæmd verkefnisins, svo og um rekstur vegganganna á samningstímanum, bæði tæknilega og fjárhagslega.
    Samgönguráðuneytið skal við lok byggingar vegganganna tryggja að Vg gefi út vottorð til staðfestingar á því að byggingu þeirra sé lokið og að þau hafi verið byggð í samræmi við áður samþykkta hönnunaruppdrætti.

12. gr.

    Rísi ágreiningur um framkvæmd þessa samnings, skal honum vísað til meðferðar dómstóla nema um annað verði samið.
    Samningur þessi kemur í stað samnings sem upphaflega var gerður 25. janúar 1991 en breytt með samningi dags. 23. júní 1993.
    
    
    
    
    Reykjavík, ______________ 1995.
    
    
         
F. h. Spalar hf.

    
_________________________     
    samgönguráðherra
    
_________________________     
    fjármálaráðherra
    
    



Fylgiskjal II.
    
    

Athugasemdir við einstakar greinar samningsins.



Um 1. gr.


    Með breytingu á greininni er skýrar kveðið á en áður um rétt félagsins til að setja eignir sínar og réttindi til tryggingar skuldbindingum og heimilað framsal samningsins til annars félags sem tæki verkefnið yfir. Samkvæmt 10. gr. samningsins yrði slíkt félag ávallt að hafa heimilisfesti á Íslandi.
    

Um 2. gr.


    Tæknilegum undirbúningi er lokið og hafa niðurstöður verið kynntar samgönguráðherra. Samningar um fjármögnun eru á lokastigi og gera ákvæði greinarinnar ráð fyrir að niðurstöðurnar verði kynntar samgönguráðherra þegar þær liggja fyrir.
    

Um 3. gr.


    Í greininni er skýrar kveðið á um hversu lengi einkaréttur samkvæmt samningnum helst, en jafnframt tekið fram að komi til óviðráðanlegra orsaka (force majeure) sem tefji framgang verksins, lengist einkaréttartíminn sem því nemi.
    Þá er skilmerkilega kveðið á um það við hvaða norska vegstaðla skal miða við gerð ganganna og að tryggt sé að Vegagerðin hafi samþykkt alla hönnunaruppdrætti áður en bygging hefst.
    

Um 4. gr.


    Í þessari grein er kveðið skýrar á um ýmis atriði er varða skyldur samgönguráðherra en í gildandi samningi.
    Markmið flestra þessara ákvæða er að tryggja að athafnir eða athafnaleysi samgönguráðherra leiði ekki til lakari samkeppnisstöðu ganganna en fyrirhugað er miða við núverandi aðstæður.
    

Um 6. gr.


    Í upphaflegum samningi aðila var gert ráð fyrir að notuð yrði svokölluð „Reiknivísitala“, sem Hagstofa Íslands reiknar fyrir Vegagerðina. Í ljós hefur komið að hér er ekki um opinbera vísitölu að ræða og því nauðsynlegt að breyta ákvæðinu um viðmiðunarvísitölu.
    Í 4. tölulið greinarinnar hefur verið bætt inn ákvæði um að kostnaður vegna uppgreiðslu láns teljist til fjármagnskostnaðar.
    Að lokum eru sett inn ákvæði um hvernig með skuli fara, uppfylli samgönguráðuneytið ekki skyldur sínar gagnvart félaginu og bæti ekki úr slíkum vanefndum innan árs frá því félagið hefur formlega komið athugasemdum sínum á framfæri.
    

Um 7. gr.


    Bætt er við greinina heimild til samgönguráðuneytis til að semja beint við hagsmunaaðila sem tengjast framkvæmdinni, þó innan þess ramma er samningurinn setur.
    

Um 10. gr.


    Nauðsynlegt er að breyta ákvæðum greinarinnar um meirihlutaeign íslenskra aðila vegna aðildar Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu. Í stað þess er sett inn ákvæði sem tryggir að meirihluti hlutafjár skuli vera í eign aðila með heimilisfesti á Íslandi.

Um 11. gr.


    Bætt er við greinina ákvæði sem tryggir að gefið verði út vottorð til staðfestingar á að byggingu ganganna sé lokið og að þau hafi verið byggð í samræmi við samþykkta hönnunaruppdrætti, sbr. 4. gr. laga nr. 45/1990 um vegtengingu um utanverðan Hvalfjörð, en þar er tekið fram að Vegagerðin skuli hafa eftirlit með gerð og rekstri mannvirkisins.