Ferill 453. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1994–95. – 1064 ár frá stofnun Alþingis.
118. löggjafarþing. – 453 . mál.


775. Frumvarp til laga



um breyting á lögum um eftirlit með skipum, nr. 35/1993, með síðari breytingum.

Frá samgöngunefnd.



1. gr.


    8. gr. laganna orðast svo:
    Skip, sem keypt er eða leigt frá útlöndum til skráningar hér á landi, skal hafa verið smíðað í samræmi við reglur viðurkennds flokkunarfélags um flokkuð skip eða sambærilegar reglur. Einnig skal slíkt skip fullnægja íslenskum lögum og reglum um styrkleika, búnað og haffæri. Skal skoðun fara fram áður en það er flutt inn. Að skoðun lokinni kveður siglingamálastjóri á um hvort hann mælir með innflutningi skips eða ekki.

2. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Með frumvarpi þessu er lagt til að fellt verði brott ákvæði laga um eftirlit með skipum, nr. 35/1993, sem kveður á um að óheimilt sé að flytja inn skip sem er 15 ára eða eldra. Jafnframt er lagt til að skip, sem fyrirhugað er að flytja inn, verði að hafa verið smíðað í samræmi við regl ur viðurkennds flokkunarfélags um flokkuð skip eða sambærilegar reglur.
    Lagaákvæði um hámarksaldur innfluttra skipa var upphaflega sett að gefnu tilefni í lok kreppunnar. Í greinargerð með þessu ákvæði laga nr. 78/1938 segir:
    „Að undanförnu hefur verið keypt nokkuð af gömlum skipum til landsins, og hefir það í flestum tilfellum orðið til efnalegs tjóns. Ekki þótti þó fært að fella niður þær undanþágur, sem fólust í eldri lögum, en hins vegar bætt inn í greinina ákvæði um það, að banna að kaupa til landsins eldri skip en 12 ára. Sams konar ákvæði hafa aðrar þjóðir í sinni löggjöf.“
    Mikið hefur breyst síðan þetta lagaákvæði var fyrst lögfest. Á þessum tíma voru skrokkar skipa almennt „hnoðaðir“ en eru nú rafsoðnir, skipastál var ákaflega lélegt í samanburði við skipastál síðustu áratuga og því endingarlítið. Hjúpun og endingargildi skipshluta hefur tekið stórfelldum framförum, enn fremur vélar og búnaður skipa. Samkvæmt upplýsingum frá Lloyd's Register of Shipping er núverandi meðalaldur kaupskipa heimsins um það bil 16 ár og er talið fyrirsjáanlegt að hann muni hækka nokkuð enn á næstu árum. Almennar viðmiðanir um líftíma kaupskipa hafa hækkað á sama tíma úr 20 í 25 til 30 ár. Sambærilegar tölur fyrir fiskiskip sýna svipaða þróun.
    Í Noregi er hámarksaldur innfluttra skipa 20 ár, en engar reglur gilda um þetta í Danmörku og Svíþjóð. Í fyrirliggjandi tillögum Evrópusambandsins um sameiginlega skráningu kaupskipa allra aðildarríkjanna er miðað við 20 ára hámarksaldur við innflutning skipa.
    Með lögum nr. 86/1994 var gerð breyting á lögum um eftirlit með skipum, nr. 35/1993. Frumvarpið var flutt af samgöngunefnd Alþingis að frumkvæði sjávarútvegsnefndar Alþingis. Sjávarútvegsnefnd lýsti þeirri eindregnu skoðun sinni að endurskoða þyrfti reglu 2. mgr. 8. gr. laga um eftirlit með skipum um að eigi megi flytja inn fiskiskip sem er 15 ára eða eldra. Með lögum nr. 86/1994 voru heimilaðar ákveðnar undanþágur frá skilyrði um hámarksaldur fiski skipa. Annars vegar var heimilað að taka aftur á skipaskrá skip sem afskráð voru samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða frá og með 1. september 1992 til og með gildistöku nýrra laga um stjórn fiskveiða. Hins vegar var heimilað að skrá fiskiskip sem keypt höfðu verið erlendis frá til veiða utan íslensku efna hagslögsögunnar eftir 1. september 1992 til 30. apríl 1994.
    Með lögum um eftirlit með skipum, nr. 35/1993, var hámarksaldur skipa hækkaður úr 12 árum í 15 ár og ákvæðið einungis bundið við fiskiskip. Í 1. mgr. 8. gr. laga um eft irlit með skipum er kveðið á um að skip, sem keypt er frá útlöndum til skráningar hér á landi, skuli fullnægja íslenskum lögum og reglum um styrkleika, búnað og haffæri. Skoð un skal fara fram áður en það er flutt inn. Að skoðun lokinni kveður siglingamálastjóri á um hvort hann mælir með innflutningi eða ekki. Í frumvarpinu er jafnframt lagt til að viðkomandi skip hafi verið smíðað í samræmi við reglur viðurkennds flokkunarfélags um flokkun skipa eða sambærilegar reglur. Með því er verið að tryggja að skipið sé að minnsta kosti smíðað á fullnægjandi hátt, en erfitt getur verið að sannreyna það við skoð un á gömlu skipi. Þetta ákvæði tekur til allra skipa sem keypt eru eða leigð frá útlönd um til skráningar hér á landi. Er þessi skipan mála í samræmi við tilskipanir ESB um þetta efni, en þær eru enn á undirbúningsstigi. Þetta ákvæði á að tryggja að ekki verði heimilaður innflutningur annarra skipa en þeirra sem eru vel búin og örugg, enda þurfa þau að fá íslenskt haffærisskírteini og þar með uppfylla skilyrði íslenskra laga og reglna um gerð og búnað skipa. Slíkt er mun mikilvægara fyrir öryggi skipsins á sjó en aldur skipsins einn og sér.