Ferill 447. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1994–95. – 1064 ár frá stofnun Alþingis.
118. löggjafarþing. – 447 . mál.


849. Nefndarálit



um frv. til l. um greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks.

Frá félagsmálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fékk á sinn fund Önnu Guðrúnu Björnsdóttur, deildarstjóra í félagsmálaráðuneyti, og Margréti Tómasdóttur deildarstjóra frá Atvinnuleysistryggingasjóði.
    Í samræmi við nýgerða kjarasamninga felur málið í sér eftirfarandi rýmkun á greiðslum Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks:
    Í stað þess að greiðslur miðist við hvern heilan vinnudag umfram tvo í hvert skipti sem vinnslustöðvun verður miðast greiðslur við hvern heilan vinnudag umfram tvo á almanaksári, sbr. 3. mgr. 1. gr. frumvarpsins, þ.e. aðeins dragast frá greiðslum tveir dagar einu sinni á ári í stað þess að dragast frá við hverja vinnslustöðvun.
    Í 4. mgr. 1. gr. er lagt til að greiðslur miðist við 30 greiðsludaga að hámarki, þ.e. sex vikur, í stað þess að þær greiðist að hámarki fjórar vikur í senn. Enn fremur verði hámarksgreiðslutímabil á ári 60 greiðsludagar, þ.e. tólf vikur, í stað níu vikna áður.
    Enn fremur greiðir Atvinnuleysistryggingasjóður ofan á atvinnuleysisdagpeninga lífeyrissjóðsgjald og tryggingagjald til atvinnurekenda.
    Loks er lagt til að fyrirhuguð vinnslustöðvun verði tilkynnt með a.m.k. þriggja sólarhringa fyrirvara í stað fimm sólarhringa áður.
    Nefndin mælir með samþykkt frumvarpsins.

Alþingi, 24. febr. 1995.



Gísli S. Einarsson,

Guðjón Guðmundsson.

Jón Helgason.


form., frsm.



Eggert Haukdal.

Kristinn H. Gunnarsson.

Sigbjörn Gunnarsson.



Einar K. Guðfinnsson.

Jón Kristjánsson.

Guðrún J. Halldórsdóttir.