Ferill 338. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1994–95. – 1064 ár frá stofnun Alþingis.
118. löggjafarþing. – 338 . mál.


852. Breytingartillögur



við frv. til l. um breyt. á l. um Húsnæðisstofnun ríkisins, nr. 97/1993, sbr. lög nr. 12/1994.

Frá félagsmálanefnd.



     1 .     Í stað 4. gr. komi ný grein er orðist svo:
                  Í stað 40. gr. kemur 39. gr. er hljóðar svo:
                  Í sveitarfélögum með 400–10.000 íbúa skal sveitarstjórn skipa fimm manna húsnæðisnefnd og jafnmarga til vara að afloknum hverjum sveitarstjórnarkosningum, þrjá tilnefnda af sveitarstjórn og tvo fulltrúa tilnefnda af stærstu samtökum launafólks í sveitarfélaginu. Í sveitarfélögum með yfir 10.000 íbúa skal sveitarstjórn með sama hætti skipa sjö menn í húsnæðisnefnd og jafnmarga til vara, fjóra kosna af sveitarstjórn og þrjá kosna af stærstu samtökum launafólks í sveitarfélaginu.
                  Formaður og varaformaður skulu kjörnir af sveitarstjórn. Að öðru leyti skiptir nefndin með sér verkum.
                  Nefndin fer með stjórn og samræmingu félagslegs húsnæðis á vegum sveitarfélagsins í umboði sveitarstjórnar og veitir almennar upplýsingar og ráðgjöf varðandi húsnæðismál.
     2 .     Við 6. gr. Fyrri efnismálsgrein verði svohljóðandi:
                  Ábyrgð á úthlutun félagslegra íbúða á vegum sveitarfélags til einstaklinga er á vegum húsnæðisnefndar, sbr. 3. tölul. 45. gr.
     3 .     Við 9. gr. Síðari efnismálsgrein falli brott.
     4 .     Við 25. gr. Í stað 1. og 2. mgr. komi ný efnismálsgrein er orðist svo:
                  Byggingarsjóður verkamanna skal að liðnum sex árum frá undirritun kaupsamnings um félagslega íbúð kanna hvort meðaltekjur kaupanda síðustu þrjú ár, þar af tekjur tvö síðustu árin, hvort ár fyrir sig, nemi hærri fjárhæð en tekjumörk skv. b-lið 64. gr. kveða á um. Komi í ljós að þær tekjur eru yfir tekjumörkum, skal breyta vöxtum af láni hans þannig að þeir verði hinir sömu og af lánum til kaupa á almennum kaupleiguíbúðum. Upp frá því skal slík könnun gerð á þriggja ára fresti.
     5 .     Við 26. gr. Eftirtaldar breytingar verði á greininni:
                   a .     Í stað orðsins „Sveitarfélag“ í upphafi 1. mgr. f-liðar komi: Húsnæðisnefnd.
                   b .     Við 5. málsl. 1. mgr. g-liðar bætist: fyrir hvert ár.
                   c .     Í stað orðsins „fjölbýlishús“ í fyrri málslið síðari málsgreinar i-liðar komi: fjöleignarhús.