Ferill 411. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1994–95. – 1064 ár frá stofnun Alþingis.
118. löggjafarþing. – 411 . mál.


868. Nefndarálit



um frv. til l. um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota.

Frá allsherjarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fékk hún á sinn fund Högna S. Kristjánsson, lögfræðing í dómsmálaráðuneyti, Helga V. Jónsson héraðsdómara, Dögg Pálsdóttur, skrifstofustjóra í heil brigðis- og tryggingamálaráðuneyti, og Jón H. Snorrason, deildarstjóra í Rannsóknarlögreglu ríkisins.
         Markmið frumvarps þessa er að styrkja stöðu brotaþola með þeim hætti að ríkissjóður greiði bætur fyrir líkamstjón og miska sem leiðir af broti á almennum hegningarlögum. Það sama gildi um tjón á munum sem tjónþoli bar á sér þegar líkamstjóni var valdið. Tjónþoli eigi þó ekki rétt á miskabótum þegar um er að ræða brot sem varðar einungis við ákvæði hegningar laga um ærumeiðingar og brot gegn friðhelgi einkalífs.
    Í 6. gr. frumvarpsins kemur m.a. fram að það sé skilyrði greiðslu bóta að brot, sem tjón er rakið til, hafi án ástæðulauss dráttar verið kært til lögreglu. Nefndin álítur að almennt skuli við það miðað að brotið verði kært innan sex mánaða frá að það var framið.
    Lagðar eru til tvær breytingar á frumvarpinu, annars vegar að bótanefnd eigi ekki aðgang að sjúkraskrám nema með samþykki brotaþola. Hins vegar er lagt til að dómsmálaráðherra veiti Alþingi árlega upplýsingar um þau útgjöld sem lög þessi hefðu í för með sér, ef samþykkt verða, næstu fimm árin í ljósi þess að alls óvíst er hversu mikil þau verða.
    Nefndin mælir með samþykkt frumvarpsins með þessum breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali.
    Fjarverandi við afgreiðslu málsins voru Ingi Björn Albertsson, Kristinn H. Gunnarsson og Ólafur Þ. Þórðarson.

Alþingi, 24. febr. 1995.



    Sólveig Pétursdóttir,     Guðmundur Bjarnason.     Anna Ólafsdóttir Björnsson.
    form., frsm.          

    Björn Bjarnason.     Guðmundur Árni Stefánsson.     Ey. Kon. Jónsson.