Ferill 139. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


118. löggjafarþing 1994–1995.
Nr. 10/118.

Þskj. 886  —  139. mál.


Þingsályktun

um stofnun Vilhjálms Stefánssonar á Akureyri.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að undirbúa að sett verði á fót á Akureyri stofnun eða miðstöð um heimskautamálefni sem kennd verði við Vilhjálm Stefánsson og hafi það hlutverk að stuðla að sem öflugustum rannsóknum innlendra aðila á norðurslóðum og alþjóðlegri þátttöku Íslendinga í málum er varða heimskautssvæðið.
    Stofnunin eða miðstöðin, sem heyri undir umhverfisráðuneytið, verði að stofni til kostuð af íslenska ríkinu en leiti sem víðast fjárhagsstuðnings við einstök verkefni. Hún skal m.a. annast ráðgjöf um norðurmálefni og eiga samstarf við innlenda og erlenda háskóla og rannsóknastofnanir.
    Sett verði á fót undir forustu umhverfisráðuneytis föst samvinnunefnd um norðurmálefni, skipuð fulltrúum þeirra innlendu stofnana sem hafa með höndum verkefni er tengjast heimskautarannsóknum. Samvinnunefndin velji auk formanns nefndarinnar, sem umhverfisráðherra skipar án tilnefningar, tvo úr sínum hópi í stjórn þessarar stofnunar eða miðstöðvar.
    Miðað verði við að starfsemin hefjist í ársbyrjun 1997.

Samþykkt á Alþingi 25. febrúar 1995.