Verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

3. fundur
Föstudaginn 19. maí 1995, kl. 13:22:45 (74)


[13:22]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Herra forseti. Það er auðvitað erfitt að svara mönnum sem skilja ekki það sem sagt er við þá. En ég ætla að segja það til viðbótar því sem ég hef sagt að það eru auðvitað reglugerðarákvæði um það hvernig fara á með innflutninginn í gegnum tollinn, til viðbótar því sem ég sagði áðan og ég er feginn því að hv. þm. skilur um hvað málið snýst.
    Ég vil líka segja það að verðpólitíkin er hluti af heilbrigðispólitíkinni. Verðpólitíkin og takmörkun á því að geta selt vínið í smásölu sem verður áfram eins.
    Í þriðja lagi um einkanot. Ég skil vel að hv. þm. átti sig kannski ekki vel á þessu því að ég efast um að hann hafi nokkurn tíma verið með einkanot á þessum drykkjum. En það er þannig, hv. þm., að í dag getur hver sem er farið hér í ríkið og tekið út kassa af áfengi og haldið veislu heima hjá sér þannig að hv. þm. þarf ekkert að sleppa stúdentsveislunni þó að þetta verði ekki samþykkt og ef hann vill endilega kaupa inn sitt vín sjálfur, sitt kampavín eins og hann sagði sjálfur, frá Frakklandi, þá getur hann það í dag í gegnum sérpöntunarkerfið. Og ef hann hins vegar samþykkir þetta og ef hann þarf síðar að halda veislu, þá getur hann flutt þetta inn sjálfur, en hann verður að greiða í tolli þannig að munurinn er auðvitað sáralítill. Ég held að hv. þm. sem kemur hér upp og talar eins og heimurinn sé að farast verði að átta sig á því út á hvað þessar breytingar ganga og vona ég nú að hv. þm. skilji heldur betur þá breytingu sem hér er verið að leggja til.
    Að öðru leyti þakka ég hv. þm. efnislegar ræður um bindindismál.