Uppsögn sérkjarasamninga hjúkrunarfræðinga

4. fundur
Mánudaginn 22. maí 1995, kl. 15:37:20 (96)


[15:37]
     Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég tel mig nú þegar hafa svarað hv. þm. Margréti Frímannsdóttur þeim fyrirspurnum sem hún lagði fram og ég ætla að minna á það að í dag erum við að ræða hér um landsbyggðarvanda sjúkrahúsanna en á morgun ræðum við um vanda sjúkrahúsanna í Reykjavík. Þannig er málið í hnotskurn. Svo eru menn að gera sig breiða eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson og segir bara eitthvað út í loftið, eitthvert bull út í loftið og talar um ábyrgðarleysi o.s.frv. En hvernig er þessi málaflokkur skilinn eftir? Hann er skilinn eftir allur í hnút vegna þess að það vantar fjármagn til hans. Ef menn eru að tala í alvöru um að setja meira fjármagn í þennan málaflokk verða menn líka að standa saman um það og draga seglin saman annars staðar. Eru menn tilbúnir til þess? Mér er mjög vel ljóst að það verður erfitt fyrir landsbyggðarsjúkrahúsin að semja við hjúkrunarfræðinga á þeim nótum sem bréf mitt ber vott um. En það eru þarna 32 millj. sem á að leggja til þessara mála og ég ætlast til að á þeim 10 mánuðum sem ríkissjóður ætlar að greiða þennan mismun að sjúkrahúsin dragi seglin saman um þessa tvo mánuði sem á vantar þangað til kemur að aðalkjarasamningum. Ég held að menn geti ekki ímyndað sér það, ég trúi því ekki að nokkur þingmaður ímyndi sér að hægt sé að leysa alla þessa slæmu hnúta sem Alþfl. skilur eftir sig á fáeinum dögum. Það er þá bara hv. þm. Össur Skarphéðinsson sem ímyndar sér það. Alla vega hef ég ekki heyrt nokkurn annan þingmann tala jafnábyrgðarlaust og hann gerði hér áðan.