Verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

4. fundur
Mánudaginn 22. maí 1995, kl. 18:46:04 (136)


[18:46]
     Ögmundur Jónasson (um fundarstjórn) :
    Hæstv. forseti. Ég vil taka undir að það er nauðsynlegt að fá niðurstöðu og botn í þetta mál áður en þessari umræðu er haldið áfram og reyndar tek ég undir það sjónarmið sem einnig hefur verið haldið fram hér, þar á meðal af hálfu hv. 14. þm. Reykv., Kristínar Ástgeirsdóttur, að það sé nauðsynlegt að ræða almennt um hagsmuni og hugsanlega hagsmunaárekstra í þinginu. Þingmaðurinn lagði að jöfnu annars vegar talsmann Verslunarráðsins og formann BSRB sem hér stendur og það væri mjög fróðlegt að fá nánari útlistun á því hvað hér er átt við vegna þess að þau samtök sem ég er í forsvari fyrir hafa beitt sér fyrir almennum hagsmunamálum launafólks í landinu, (Forseti hringir.) hvort hv. þm. er að tala um barnabætur, um vaxtabætur, um málefni fatlaðra, um tryggingamál um almenn kjör launafólks.
    ( Forseti (GÁ) : Þingmaðurinn er að ræða um fundarstjórn forseta.)
    Þetta er umræða sem þarf að leiða til lykta og ég vil lýsa því yfir að ég hlakka mjög til þeirrar umræðu.