Stjórn fiskveiða

13. fundur
Fimmtudaginn 01. júní 1995, kl. 18:36:39 (445)


[18:36]
     Össur Skarphéðinsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson getur beitt hvaða rökfræði sem hann vill til að komast að hvaða niðurstöðu sem hann vill eins og hv. þm. hafa kynnst á undanförnum árum. Það er rétt að það er stefna Alþfl. að fara þessa leið ef við fengjum að ráða sjútvrn., sem því miður varð ekki,

að koma veiðileyfagjaldinu inn í kerfið með mildum hætti. Þegar bætist við kvótann á næstu árum teljum við að þetta sé mildasta leiðin til að byrja með veiðigjaldið. Við höfum sagt sem svo að um einhvern ótilgreindan tíma verði það gert á þennan hátt. Síðar auðvitað viljum við fara þá leið að greitt verði veiðigjald fyrir allan afla sem veiddur er. Við höfum líka sagt að þetta eigi að gerast yfir langan tíma og taka mið af rekstrarafkomu greinarinnar. Hins vegar er ég sjálfur þeirrar skoðunar að hæstv. sjútvrh. ætti nú þegar í dag að ganga skrefi lengra en þessi opinbera stefna Alþfl., hann ætti þegar í dag að setja veiðigjald á frystitogara, sem eru reknir með 15--16% hagnaði, og sem nota þenna hagnað til að soga til sín kvóta frá bátaflotanum sem hefur m.a. leitt til þess að frystitogurum hefur fjölgað úr þremur upp í 40 á 10 árum en svokölluðum vertíðarbátum fækkað úr 420 niður í 203.