Samningur milli Íslands og Færeyja um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum

15. fundur
Fimmtudaginn 08. júní 1995, kl. 16:33:46 (499)

[16:33]
     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hæstv. utanrrh. sagði það rangt með farið hjá mér að ekki hefði verið haft samráð við neina aðila af hálfu stjórnarandstöðuflokkanna um viðræðurnar við Norðmenn. Vísaði hæstv. utanrrh. í því sambandi til fundar í úthafsveiðinefnd sem haldinn var eftir að slitnað hafði upp úr viðræðum við Norðmenn án árangurs. Fundurinn sem hæstv. utanrrh. vitnaði til og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon gat um var haldinn eftir að í ljós hafði komið að viðræðurnar við Norðmenn voru árangurslausar. Hins vegar, hæstv. utanrrh., var boðaður fundur í úthafsveiðinefnd 29. apríl kl. 10 í sjútvrn. eftir fyrri viðræðurnar í Noregi. Við vorum reiðubúin að mæta á þeim fundi. Honum var hins vegar aflýst. Það hafði því verið boðaður fundur í úthafsveiðinefnd kl. 10 29. apríl í sjútvrn., væntanlega til þess að hafa samráð við fulltrúa allra þingflokka en af einhverjum óskiljanlegum ástæðum var þeim fundi aflýst þó að við t.d. í Alþb. værum reiðubúin að mæta og þó að það væru þó nokkrir dagar. --- Það er nú æskilegt að ég fái að ræða þetta, hæstv. sjútvrh., án þess að ráðherrann sé að stafa það ofan í utanrrh. hvernig þetta var í raun og veru. En ég sé hins vegar og heyri á innígripum hæstv. sjútvrh. að þetta er auðvitað rétt með farið sem ég er að lýsa hér. En af einhverjum sérkennilegum ástæðum var ekki boðað til annars fundar í úthafsveiðinefndinni þó að þessum fundi 29. apríl væri aflýst þó að nokkrir dagar væru í seinni fundinn með Norðmönnum.
    Ég bið þess vegna hæstv. utanrrh. að rökstyðja nánar þá fullyrðingu hans í ræðustólnum áðan að ég hafi farið með rangt mál varðandi fundahöld í úthafsveiðinefnd meðan á viðræðum við Norðmenn stóð.