Stjórn fiskveiða

16. fundur
Fimmtudaginn 08. júní 1995, kl. 20:52:23 (535)


[20:52]
     Össur Skarphéðinsson (andsvar) :
    Herra forseti. Ég tel að hæstv. sjútvrh. ætti að skoða hug sinn til róðrardagakerfisins betur vegna þess að ég fullyrði að það er rangt að hann sé mér sammála um ágæti þess. Ef hann væri mér sammála um ágæti þess, þá hefði hann ekki sett upp kerfi þar sem róðrardagarnir eru settir niður á tímabil vegna þess að það ryður burt þeim gæðum og þeim ávinningi af kerfinu sem hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson hefur rakið svo vel hérna. Það gefur sjómönnum einfaldlega ekki færi á því að velja eins og þeir vilja þá daga sem heppilegastir eru til róðra, gefur þeim heldur ekki nógu gott færi, herra forseti, á því að forðast þá tíð þegar slysahættan er mest. Og þarna finnst mér að hæstv. sjútvrh. hafi illilega skjöplast þó afar skýr sé því það er eins og hann skilji ekki að kerfið sem hann hefur sett upp þjónar ekki þessum markmiðum. Það þjónar ekki þeim markmiðum að draga úr slysahættunni, a.m.k. ekki jafn vel og ef hann hefði ekki haft þessa tímabilaskiptingu.