Stjórn fiskveiða

16. fundur
Fimmtudaginn 08. júní 1995, kl. 21:31:48 (545)


[21:31]
     Kristinn H. Gunnarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum svörin sem voru að nokkru leyti skýrari en ræðan áðan. Hann vildi að vísu ekki upplýsa hvernig hann hyggst greiða atkvæði þegar atkvæði ganga um tillögur þær sem hér liggja fyrir og kemur þá í ljós þá hvort hann greiðir atkvæði samkvæmt lýsingu sinni eða því sem ég hélt að væri, þ.e. að frv. væri lagt fram með samþykki og stuðningi hans. Ég get ekki skilið ræðu hans og andsvar öðruvísi en svo að hann hafi fyrirvara við þetta stjfrv. og hafi skýrt samstarfsflokknum frá því að hann muni ekki styðja að óbreyttu ákveðin atriði frv. Það kemur mér á óvart, einkum og sér í lagi sé haft í huga hvernig aðdragandi málsins var, en hann var þannig að Framsfl. náði fram breytingum á frv. eins og það lá fyrir þá og féllst á að frv. yrði lagt fram sem stjfrv. Nú virðist hins vegar koma í ljós að einstakir þingmenn Framsfl. hafa fyrirvara við sum efnisatriði frv. og þau ekki veigalítil.