Verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

18. fundur
Föstudaginn 09. júní 1995, kl. 17:45:40 (595)


[17:45]
     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það kom fram í athugasemdum hjá mér í gær að það væri furðulegt að inn í þetta mál er allt í einu komin tillaga um að breyta 75 ára gamalli stjórnskipan Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins og það eftir að sami maðurinn hefur gegnt þar forstjórastöðu með miklum ágætum að dómi allra yfirmanna hans, a.m.k. þeirra sem ég veit til að um það hafi fjallað. Það ber að með þeim hætti að það kemur ekki fram í upphaflega frv. heldur er því skotið inn við 2. umr. sem brtt. frá nefndinni við frv. sem að sögn ráðherrans átti alls ekki að fjalla um slíkt.
    Ég vildi því spyrja hv. síðasta ræðumann hvort það sé virkilega þannig að það hafi ekki komið fram í nefndinni nein rök fyrir því hvers vegna nú verði allt í einu að taka upp breytingar á þessari skipan. Fjmrh. taldi enga slíka nauðsyn vera á því þegar hann mælti fyrir þessu frv. í upphafi þings. Satt að segja taldi fjmrh. þegar hann mælti fyrir frv. málið vera svo einfalt og sjálfsagt að hann vildi fá að mæla fyrir báðum frv. í einu og láta þau fá hraða afgreiðslu í gegnum þingið. En nú allt í einu eru málin farin að taka þannig eðlisbreytingum að þau fela í sér rekstrarlega breytingu á einu elsta og traustasta fyrirtæki sem ríkið hefur haft í sínum höndum. Ég vil þess vegna spyrja hv. síðasta ræðumann sem vék nokkuð að þessu hér áðan: Hvaða röksemdir komu fram í nefndinni fyrir þessari breytingu?