Gjald af áfengi

18. fundur
Föstudaginn 09. júní 1995, kl. 18:39:54 (614)


[18:39]
     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Herra forseti. Ég þakka hv. 5. þm. Norðurl. v. fyrir þær tilraunir til leiðbeininga sem hann hefur uppi gagnvart mér. En ég held að ég átti mig ekki alveg á því hvernig hann hugsar þessa hluti. Ef hann er þeirrar skoðunar að ÁTVR verði ekki stofnun eftir þessar breytingar heldur fyrirtæki því skyldi þá þetta fyrirtæki verða rekið undir yfirstjórn fjmrn. sem er skattheimtumálaráðuneyti? Því skyldi stofnunin ekki verða flutt t.d. til iðn.- og viðskrn. og af hverju gerist það að á sama tíma og verið er að flytja stofnunina að ekki einasta á hún að vera undir fjmrn. heldur á hún auk þess að fá sérstaka stjórn umfram þann forstjóra sem hefur stjórnað stofnuninni um árabil? Hvers lags þversagnir eru þetta í málflutningi hv. þm. sem bersýnilega þarf að kynna sér betur en hann hefur gert til þessa frumforsendur kapítalismans.