Framhald umræðu um húsnæðismál

19. fundur
Laugardaginn 10. júní 1995, kl. 12:23:56 (635)


[12:23]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Hæstv. forseti. Þær umræður sem hér hafa farið fram að loknum fyrri umræðum sýna að þetta mál er engin veginn útrætt og ég get tekið undir það að við þurfum að ræða þessi mál betur. En ég vil líka koma því á framfæri að ég þykist þess fullviss að þeir sem nú sitja í félmn. þingsins séu reiðubúnir til þess að fara í vinnu í kringum húsnæðismálin og við erum reiðubúin til þess að taka á þeim málum hvort sem þar verður um að ræða frv. framsóknarmannanna sem hér var lagt fram á síðasta ári og er hið besta mál eða hvort um verður að ræða nýjar tillögur. En það er augljóst að það er mjög brýnt að taka á þessum málum þó að menn verði að sjálfsögðu að fara varlega og megi ekki ana út í það að kollvarpa því kerfi sem fyrir er.