Fyrirvari í nefndaráliti

20. fundur
Mánudaginn 12. júní 1995, kl. 15:06:59 (663)

[15:06]
     Össur Skarphéðinsson :
    Herra forseti. Ég vil biðja hv. þm. Sighvat Björgvinsson að gæta að því að hv. þm. Hjálmar Árnason er enn þá blautur á bak við eyrun sem þingmaður. Ég man vel eftir því þegar ég hóf hér þingstörf að mér var ekki kunnugt um allar þær reglur og þá siði sem hér gilda. Og það má vel vera að hv. þm. Hjálmar Árnason hafi einfaldlega af tæknilegum orsökum ekki haft fram sinn fyrirvara og hann hafi ekki gert sér grein fyrir því að þá er siðvenjan sú að þingskjalið er prentað upp. Ég kýs satt að segja, herra forseti, að trúa því vegna þess að það sem hv. þm. Hjálmar Árnason sagði fyrir kosningar er allt annað heldur en það sem kemur fram í því áliti sem hann skrifar nú undir án fyrirvara.
    Ég fagna því að hv. þm. skuli lýsa því yfir að hann hafi fyrirvara við afstöðu meiri hlutans, en það er auðvitað nauðsynlegt fyrir okkur sem erum að véla um þessi mikilvægu mál að það komi fram í hverju sá fyrirvari liggur. Ég sit í hv. sjútvn. og ég kannast ekki við það að þar hafi komið fram neinn sérstakur fyrirvari af hans hálfu. Það má vel vera að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, formaður nefndarinnar sem tekur til máls hér á eftir, geti upplýst um það. En ég hef setið hverja einustu mínútu þeirrar umræðu sem hér hefur átt sér stað um stjórn fiskveiða, og það er meira en hægt er að segja um suma hv. þm. Framsfl. á Suðurnesjum, og þess vegna spyr ég: Hvar kom þessi fyrirvari fram? Ég gleðst yfir því að þingmaðurinn skuli ekki vera að öllu leyti sammála stefnu meiri hlutans og ég gleðst sérstaklega yfir því ef hann hefur skyndilega munað eftir þeim kosningaloforðum sem hann gaf fyrir kosningar.