Alþjóðaviðskiptastofnunin

21. fundur
Þriðjudaginn 13. júní 1995, kl. 13:44:16 (750)


[13:44]
     Jón Baldvin Hannibalsson :

    Herra forseti. Sú brtt. sem hér er flutt varðar svokallaðan lágmarksmarkaðsaðgang og er í því fólgin að tollurinn er ákveðinn 32%, ekki af tollabindingu eða grunntaxta heldur af þeim tolli sem lagður skal á viðkomandi vörulið, þ.e. rauntolli. Lágmarksmarkaðsaðgangurinn ber því toll sem er ákveðið hlutfall af rauntolli en það er sú aðferð sem viðgengst í langsamlega flestum aðildarríkjum GATT. Þetta þýðir í reynd að vonir standa til að menn sjái sér hag í innflutningi samkvæmt lágmarksmarkaðsaðgangnum, en því miður eru litlar líkur á að það komi neytendum til góða samkvæmt ákvæðum frv.