Verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

21. fundur
Þriðjudaginn 13. júní 1995, kl. 17:21:55 (788)


[17:21]
     Ögmundur Jónasson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég eiginlega fer að spyrja sjálfan mig þegar mér er fullkunnugt um það að við erum búin að gera þennan nýja mannréttindasáttmála um markaðsvæðingu Evrópu og eigum ekki annarra kosta völ en að hlíta ýmsum tilskipunum sem arkitektum markaðarins þóknast að senda okkur hingað. En ég spyr hvort þetta taki virkilega til alls heimsins, um alla hluti? Ég er ekki að tala bara um Evrópu, ég er að tala um tóbak í þessu tilviki og ég er að spyrja hvort þetta hafi fengið einhverja umfjöllun hér í heilbrrn. Eða er það kannski bannað líka? Er kannski bannað að ræða yfirleitt um þessa þætti alla vegna þess að það samrýmist ekki markaðslögmálum? Mér er bara spurn.
    Síðan vil ég ítreka það að ég sagði í upphafi míns máls og vitnaði þar í ummæli hv. þm. Vilhjálms Egilssonar, þar sem hann sagði að hann teldi að þetta mál hefði orðið sér til framdráttar, ef ég man það rétt, og ég gerði þau ummæli hans að umræðuefni hér.