Stjórn fiskveiða

23. fundur
Miðvikudaginn 14. júní 1995, kl. 22:31:58 (891)


[22:31]
     Einar Oddur Kristjánsson (andsvar) :
    Herra forseti. Hv. 15. þm. Reykv. veit betur. Hann veit það vel að við 2. umr. sagði ég að ég harmaði mjög að það hefði enn ekki tekist að fá lögfestingu á róðrardagakerfinu. Ég sagði því í þeirri ræðu að ef það yrði ekki, úr því að banndagakerfið ætti að vera áfram, þá sæi ég ekki annað fært en að flytja tillögur um það að auka þennan afla hvað sem tautaði og raulaði. Hann fylgdist með því mjög vel og vissi að ég reyndi allt sem ég gat þessa dagana að ná samningum um að róðrardagakerfð yrði lögfest. Hann fylgdist með því og hann vissi að ef það tækist, þá ætluðum við ekki að flytja þessa tillögu. Hann vissi það allan tímann. Ég lét hann fylgjast mjög vel með því. Það tókst. Það tókst að koma því inn í frv. að það skyldi lögfest. Fimm ára baráttu samtaka smábáta. ( Gripið fram í: Tókst ekki hjá honum.) Hvar var þessi fyrrv. hæstv. ráðherra, hvað tókst honum? Af hverju hneykslast hann á mér og telur að ég hafi svikið eitthvað? Hann veit ósköp vel að ég gerði það ekki. Ég hafði djúpa og hef enn sannfæringu fyrir því að það er ekkert betra fyrir þessa báta en að ná því markmiði að róðrardagakerfið verði lögfest. Ég tók það fram yfir allt annað, stefndi að því og trúi því.