Framleiðsla og sala á búvörum

25. fundur
Fimmtudaginn 15. júní 1995, kl. 11:20:04 (945)


[11:20]
     Hjálmar Jónsson :
    Herra forseti. Hér er um lítils háttar lagfæringar að ræða í landbúnaðarmálum, sauðfjárræktinni, tímatakmarkaðar í trausti þess að áður en sá tími renni út þá hafi greinin skipulagt sig og verði sterkari eftir. Fram er komið í umræðunni að tímatakmarkanir eru styttar til hagsbóta fyrir bændur og afurðastöðvar þeirra og að sjálfsögðu alla sem málið varðar. Það er mikilvægt eins og hér hefur reyndar komið fram að afurðastöðvarnar og landbúnaðurinn stofni sölusamtök til markaðssóknar á erlendum vettvangi. Sölusamtök í fiskiðnaði hafa unnið frábært starf í markaðssetningu erlendis og þótt ekki sé nema að nokkru leyti hægt að bera hér saman hlýtur það að vera fýsilegur kostur að sölusamtök landbúnaðarins taki þessi mál í sínar hendur. Eðlilegast er að hagsmunaaðilarnir, bændur og sláturleyfishafar, beri sjálfir ábyrgðina og samtök þeirra. Þeim má líka fyllilega treysta til að auka en ekki spilla mörkuðum fyrir dilkakjöt erlendis. Þess vegna er verðjöfnunarákvæði 1. gr. með tímatakmörkun og gildir næsta verðlagsár. Ég á ekki von á öðru en að þessi umþóttunartími dugi fullkomlega til að bændur, sláturleyfishafar og samtök þeirra, undirbúi öfluga markaðssókn og nýti til þess GATT-samninginn, hollustu og heilbrigði íslenskra landbúnaðarafurða og engin ástæða er til annars en bjartsýni í þeim efnum.
    Hv. landbn. gerði breytingar í tímasetningu á ákvörðunum um heildargreiðslumark sauðfjárafurða. Það hlýtur að vera ljóst að hæstv. landbrh. óskar eftir fresti til að vinna tíma fyrir endurskoðun. Allir vita

að vandi bænda er mikill og þarf að bregðast við honum strax. Því er það fagnaðarefni að hæstv. landbrh. hefur lýst því yfir að hann muni vinna hratt í sumar og fram til haustsins að lausn eftir því sem það er mögulegt. Það kæmi hins vegar illa við bændur ef frestun á ákvörðun heildargreiðslumarks yrði langt fram á vetur, það mundi halda þeim í óvissu og þess vegna er fresturinn styttur til 1. nóv.
    Okkur í hv. landbn. barst bréf frá Búnaðarsambandi Vestur-Húnvetninga þar sem þessum áhyggjum er lýst og þess vænst að unnið verði hraðar að lagfæringum og úrlausnum en það er einmitt það sem stefnt er að.