Ferill 6. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995. – 1064 ár frá stofnun Alþingis.
119. löggjafarþing. – 6 . mál.


6. Frumvarp til laga



um breyting á áfengislögum, nr. 82 2. júlí 1969, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 119. löggjafarþingi 1995.)



1. gr.


    3. gr. laganna orðast svo:
    Innflutningur á áfengi, hverju nafni sem nefnist, er einungis heimill til einkanota, til fram leiðslu áfengra drykkja, sbr. 2. gr. laga um verslun ríkisins með áfengi og tóbak, til sölu samkvæmt heimild í 11. gr. eða til sölu til þess sem hefur heimild skv. 11. gr. til að selja áfengi innan lands. Þó er öllum heimilt að flytja til landsins varning sem inniheldur vínanda hafi hann verið gerður óhæfur til drykkjar og öruggt að ekki sé kleift að gera hann drykkjar hæfan.
    Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins skal þó einni heimilt að flytja inn vínanda sem fellur undir tollskrárnúmer 2207.1000.

2. gr.


    Orðin „nr. 63/1969“ og „með síðari breytingum“ í 1. mgr. 7. gr. laganna falla niður.

3. gr.


    Við 8. gr. laganna bætist ný málsgrein sem orðast svo:
    Bannað er að eiga, flytja inn, útbúa eða smíða sérhæfð áhöld til að eima áfengi eða til að gera drykkjarhæft áfengi sem ódrykkjarhæft var, nema hafa til þess sérstakt leyfi. Dómsmála ráðherra setur nánari reglur um fyrirkomulag leyfisveitinganna í reglugerð. Slík tæki sem finn ast hjá öðrum en þeim sem hafa leyfi samkvæmt ákvæði þessu skulu gerð upptæk, án tillits til þess hvort tækin hafi verið notuð til áfengisgerðar eða ekki.

4. gr.


    9. gr. laganna orðast svo:
    Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins annast sölu áfengis, sbr. lög um verslun ríkisins með áfengi og tóbak.

5. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 11. gr. laganna:
     a .     Í stað orðanna „aftur áfengi, er keypt hefur verið af Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins eða útsölum hennar“ kemur: áfengi innan lands.
     b .     Á undan 1. tölul. koma sex nýir töluliðir er orðast svo:
                   1 .     Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins, sbr. lög um verslun ríkisins með áfengi og tóbak.
                   2 .     Innflytjendur áfengis; þó einungis til þeirra sem um ræðir í 1. og 3.–5. og 7. tölul., svo og til þeirra sem njóta úrlendisréttar og í tollfrjálsar forðageymslur.
                   3 .     Framleiðendur áfengra drykkja og heildsalar, sbr. lög um verslun ríkisins með áfengi og tóbak; þó einungis til þeirra sem um ræðir í 1., 4. og 5. tölul., svo og til þeirra sem njóta úrlendisréttar og í tollfrjálsar forðageymslur.
                   4 .     Tollfrjálsar verslanir, sbr. VIII. kafla tollalaga.
                   5 .     Veitingastaðir sem hafa almennt leyfi til áfengisveitinga, sbr. 12. gr.
                   6 .     Þeir sem hafa leyfi til að veita áfengi, sbr. 2. mgr. 20. gr.
     c .     Núverandi 1. tölul. verður 7. tölul. og 3. tölul. verður 8. tölul. Núverandi 2. tölul. fellur niður.

6. gr.


    1. mgr. 17. gr. laganna fellur niður.

7. gr.


    Í stað „Enn fremur er þeim heimilt“ í 2. mgr. 19. gr. laganna, sbr. 194. gr. laga nr. 19/1991, kemur: Heimilt er.

8. gr.


    Í stað „4. mgr. 19. gr.“ í c-lið 34. gr. laganna kemur: 3. mgr. 19. gr.

9. gr.


    Á eftir orðunum „eða veita fyrir borgun“ í 36. gr. laganna kemur: andstætt ákvæðum 3., sbr. 11. gr.

10. gr.


    48. gr. laganna fellur niður.

11. gr.


    50. gr. laganna fellur niður.

12. gr.


    Ákvæði til bráðabirgða fellur niður.

13. gr.


    Lög þessi öðlast gildi 1. ágúst 1995.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp í meginatriðum samhljóða þessu frumvarpi var lagt fram á síðasta þingi. Frum varpið tengdist tveimur öðrum lagafrumvörpum sem þá voru og lögð fram, þ.e. frumvarpi til laga um breytingu á lögum um verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf, nr. 63/1969, og frum varpi til laga um gjald á áfengi. Frumvarpið er nú flutt á ný með nokkrum minni háttar breyt ingum.
    Með frumvarpi þessu og frumvarpi til breytinga á lögum nr. 63/1969 er lagt til að einka réttur ríkisins á innflutningi áfengis verði afnuminn. Þau sjónarmið sem einkum hafa verið færð fyrir einkarétti ríkisins til innflutnings og heildsölu á áfengi eru að með þessum hætti mætti afla ríkissjóði tryggra tekna í formi vínandagjalds af vörum þessum, auk þess sem lík legar þótti að fyrirkomulagið tryggði betur en ella hagstæðari innkaup á vörum þessum til landsins. Einnig hefur verið á það bent að með einkaréttinum væri mun auðveldara að annast eftirlit með innflutningi á áfengi þar sem honum mætti aðeins einn aðili sinna með löglegum hætti.
    Telja verður að framangreind sjónarmið eigi ekki lengur við um innflutning og heildsölu þessara vara. Afla má ríkissjóði sömu tekna og hann hefur af vínandagjaldi með öðrum hætti en þeim að ríkið hafi einkarétt á innflutningi og dreifingu umræddra vara í heildsölu. Tekna þessara má einfaldlega afla með innflutningsgjöldum og sambærilegum gjöldum á innlenda framleiðslu sé um hana að ræða á sama hátt og tíðkast varðandi innheimtu ýmissa annarra óbeinna skatta. Möguleikar til eftirlits með ólögmætum innflutningi og sölu þessara vara verða ekkert síðri við þessa breytingu. Jafnframt þessu má benda á að óþarft er fyrir ríkið að vera í rekstri sem einkaaðilar eru færir um að leysa af hendi eða að það annist slíkan innflutning fyrir einkaaðila, einkum þegar haft er í huga að ekki skiptir máli fyrir ríkissjóð hvor hátturinn er hafður á.
    Í frumvarpi til laga um gjald af áfengi, sem flutt er samhliða frumvarpi þessu, er gerð grein fyrir því að þessi breyting muni ekki hafa áhrif á tekjur ríkissjóðs af áfengi. Gjöld af áfengi breytast úr vínandagjaldi í áfengisgjald sem verður innheimt við tollafgreiðslu.
    Með frumvarpinu er gert ráð fyrir að felld verði úr gildi öll ákvæði er varða einkarétt ríkis ins til innflutnings á áfengi, sbr. þó ákvæði 1. gr. frumvarpsins um 2. mgr. 3. gr. laganna. Jafn framt skilgreinir frumvarpið hverjir skuli hafa heimild til að endurselja það áfengi sem flutt er til landsins. Með vísan til þessa þykir ekki ástæða til að fjölyrða frekar um efni frumvarps ins almennt, en hins vegar er vísað til frumvarps um gjald af áfengi og frumvarps til laga um breytingar á lögum um verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Með grein þessari er lagt til að einkaréttur ríkisins til innflutnings á áfengi verði afnuminn.
    Í 1. mgr. er lagt til að heimilt verði að flytja inn áfengi til að selja það til aðila sem selja mega áfengi innan lands og til einkanota. Ákvæðið kemur ekki í veg fyrir að veitingahús, sem hefur almennt leyfi til áfengisveitinga, flytji inn áfengi sem ætlað er til sölu í veitingahúsinu. Á sama hátt gæti framleiðandi áfengis flutt inn áfengi til notkunar í framleiðslu sína. Síðari málsliður 1. mgr. er efnislega samhljóða 2. málsl. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 63/1969 og er ætlað að koma í stað þess ákvæðis. Um er að ræða varning sem innflutningur hefur verið frjáls á frá 1969, svo sem ilmvötn, hárvötn, andlitsvötn, bökunardropa og kjarna til iðnaðar.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins skuli einni heimilt að flytja inn vínanda sem er 80% af styrkleika eða meira. Geta má þess að vara í þessu tollskrárnúmeri fellur ekki undir vörusvið EES-samningsins.

Um 2. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 3. gr.


    Með þessari grein er lögð til sú breyting að við 8. gr. bætist ný málsgrein sem varðar sér staklega sérhæfð áhöld til að eima áfengi.
    Samkvæmt 8. gr. eins og hún hljóðar nú skal gera upptæk áhöld sem með ólögmætum hætti á að nota eða hafa verið notuð við bruggun eða tilbúning áfengra drykkja eða til þess að gera drykkjarhæft það áfengi sem ódrykkjarhæft var. Þetta orðalag hefur skapað ákveðin vandamál í framkvæmd, t.d. varðandi upptöku eimingartækja sem verið er að útbúa eða smíða á verk stæði, án beinna tengsla við áfengisframleiðslu.
    Við slíkar aðstæður hefur því verið hreyft að óvarlegt sé að slá því föstu að óyggjandi sé að tækin hafi átt að nota til áfengisframleiðslu og það enda þótt um sérhæfð tæki sé að ræða. Það sjónarmið er á hinn bóginn ríkjandi að enginn eigi að geta haft lögmætan hagnað af starf semi sem tengist ólöglegri áfengisframleiðslu. Sú breyting sem lögð er til á 8. gr. dregur því skýrari línur um þetta á milli viðfangsefna lögreglu og skattyfirvalda.
    Í tillögunni er farin sú leið að dómsmálaráðherra skuli setja nánari reglur um það hverjir megi eiga, flytja inn, útbúa eða smíða eimingartæki til áfengisframleiðslu og að frávik frá slík um reglum varði upptöku eimingartækjanna þótt ásetningur til ólöglegrar áfengisframleiðslu teldist ekki sannaður. Hefur ekki verið talið heppilegt að setja fram í lagaákvæðinu nánari út listun þeirra tækja sem háð eru leyfi, að öðru leyti en því að talað er um „sérhæfð áhöld“, en fyrir liggur að tæki til að eima áfengi eru úr málmi og að byggingu frábrugðin þeim tækjum sem notuð eru til að eima t.d. vatn. Þótt ekki sé þannig talið fært að afmarka ákvæðið á grund velli þeirra efna sem tækið er gert úr er allt að einu ljóst að lítil eimingartæki úr gleri, sem tíðkað er að nota á rannsóknarstofum, eru ekki sérhæfð tæki til áfengisframleiðslu og falla utan ákvæðisins.

Um 4. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 5. gr.


    Í 11. gr. áfengislaga er kveðið á um hverjir mega selja áfengi innan lands. Í frumvarps greininni eru annars vegar lagðar til breytingar á orðalagi 11. gr. þar sem ekki er lengur gert ráð fyrir að öll sala innan lands fari í gegnum Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins og hins vegar er þeim aðilum fjölgað sem selja mega áfengi innan lands. Lagt er til að innflytjendur og fram leiðendur áfengis geti selt varning sinn til áfengisverslunarinnar og til veitingahúsa sem al mennt áfengisveitingaleyfi hafa skv. 12. gr. laganna. Þeir sem fá leyfi til áfengisveitinga skv. 2. mgr. 20. gr. laganna gætu hins vegar ekki keypt áfengi af þessum aðilum.

Um 6. gr.


    Lagt er til að ekki verði lengur gerð sú krafa að allt áfengi sem Áfengis- og tóbaksverslunin lætur af hendi skuli merkt innsigli hennar. Er hér um að ræða sambærilega breytingu og lögð er til í 4. gr. frumvarps til laga um breytingu á lögum um verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf.

Um 7. og 8. gr.


    Með 7. gr. er lagt til að lagfært verði orðalag í kjölfar þess að 2. mgr. 19. gr. laganna var felld niður með 194. gr. laga nr. 19/1991 og með 8. gr. er tilvísun í 34. gr. laganna samræmd því.

Um 9. gr.


    Breyting sú sem lögð er til leiðir af breytingu á 3. gr. laganna sem lögð er til með 1. gr. frumvarpsins.

Um 10. gr.


    Lagt er til að 48. gr. um vinnuskyldu samfara afplánun sekta samkvæmt lögunum falli nið ur. Um vinnuskyldu fanga eru nú ákvæði í 13. gr. laga um fangelsi og fangavist, nr. 48/1988.

Um 11. gr.


    Í 50. gr. er kveðið á um kynningu á áfengislögunum á erlendum tungum. Telja verður slík fyrirmæli í lögum óþörf og er því lagt til að ákvæðið verði fellt niður.

Um 12. gr.


    Með lögum nr. 38/1988, þegar heimild var veitt til sölu áfengs öls, var kveðið á um skipan nefndar til að gera tillögur er stuðlað gætu að því að draga úr heildarneyslu áfengis. Nefnd er hafði þetta verkefni starfaði á árunum 1988 og 1989. Lagt er til að ákvæði um nefndarskipan þessa verði fellt úr lögunum.

Um 13. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á áfengislögum, nr. 82/1969,


með síðari breytingum.


    Með frumvarpi þessu eru gerðar breytingar á áfengislögum sem fela í sér afnám á einkarétti ríkisins til innflutnings á áfengi. Samkvæmt frumvarpinu verður öllum heimilt að flytja inn áfengi til landsins til endursölu og einkanota. Þó verður aðeins heimilt að endurselja áfengið til ákveðinna aðila. Þeir sem samkvæmt frumvarpi þessu mega kaupa áfengi, sem flutt er til landsins, eru Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins, veitingastaðir með vínveitingaleyfi, læknar og lyfsalar sem hafa rétt til lyfjasölu. Samkvæmt frumvarpinu er ekki lengur gert ráð fyrir að öll sala á áfengi innan lands fari í gegnum ÁTVR. Lagt er til að innflytjendur og framleiðend ur áfengis geti selt áfengi til ÁTVR og til vínveitingahúsa með almennt vínveitingaleyfi. Ekki er gerð breyting á fyrirkomulagi smásöluverslunar þannig að ÁTVR verður áfram með einka leyfi á smásöluverslun innan lands.
    Samhliða þeim breytingum sem gert er ráð fyrir í þessu frumvarpi verður flutt frumvarp þar sem gerðar eru samsvarandi breytingar á lögum nr. 63/1969, um verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf. Í tengslum við ofangreind frumvörp verður jafnframt flutt frumvarp til laga um gjald á áfengi þar sem gerðar verða breytingar á fyrirkomulagi á innheimtu opinberra gjalda á áfengi.
    Ekki er gert ráð fyrir að frumvarp þetta hafi í för með sér aukinn kostnað fyrir ríkissjóð. Áætlað er að beinar tekjur ríkissjóðs lækki um u.þ.b. 50 m.kr. Á móti þeirri lækkun ættu að koma nokkuð auknar tekjur af framleiðslu- og innflutningsstarfsemi einkaaðila. Í heild er því gert ráð fyrir að breyting sú sem lögð er fram í frumvarpi þessu hafi ekki teljanleg áhrif á tekj ur ríkissjóðs.