Ferill 15. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.1995. – 1064 ár frá stofnun Alþingis.
119. löggjafarþing. – 15 . mál.


15. Frumvarp til lagaum matvæli.

(Lagt fyrir Alþingi á 119. löggjafarþingi 1995.)I. KAFLI


Tilgangur og gildissvið.


1. gr.


    Tilgangur laganna er að tryggja, svo sem kostur er, gæði, öryggi og hollustu matvæla og að merkingar og aðrar upplýsingar um þau séu réttar og fullnægjandi. Þessu skal ná með al hliða fræðslu og upplýsingamiðlun, rannsóknum og eftirliti.

2. gr.


    Lög þessi taka til framleiðslu og dreifingar matvæla. Lögin taka ekki til meðferðar mat væla á einkaheimilum nema þar fari fram framleiðsla matvæla til dreifingar utan heimilisins. Lögin ná þó til allra efna og hluta sem ætlað er að koma í snertingu við matvæli á einkaheimil um.
    Lyf, sbr. lyfjalög, tóbak, sbr. lög um tóbaksvarnir og vímuefni, önnur en áfengi, sbr. lög um ávana- og fíkniefni, eru undanþegin ákvæðum þessara laga. Það sama gildir um varnir gegn sjúkdómum og meindýrum á plöntum samkvæmt lögum þar um.

3. gr.


    Matvæli skulu vera þannig gerð og fram boðin að þau valdi ekki heilsutjóni og viðskipti með þau blekki ekki á neinn hátt.

II. KAFLI


Skilgreiningar.


4. gr.


     Matvæli eru samkvæmt lögum þessum hvers konar vörur sem ætlaðar eru mönnum til neyslu, þar með talið neysluvatn, sbr. þó einnig 2. mgr. 2. gr.
     Framleiðsla er meðferð hráefnis, vinnsla, pökkun og matreiðsla. Hér er einnig átt við húsnæði, efni og hluti sem geta komist í snertingu við matvæli, störf, hreinlæti og heilbrigði starfsfólks og annað sem tengist framleiðslu, sbr. ákvæði IV. kafla þessara laga.
     Dreifing er hvers konar flutningur, framboð og afhending, þar með talið innflutningur, útflutningur og sala. Hér er einnig átt við geymslu og annað sem tengist dreifingu, sbr. ákvæði IV. kafla þessara laga.
     Efni og hlutir eru allar umbúðir, ílát, áhöld, tækjabúnaður, borðbúnaður og öll efni sem slíkir hlutir eru samsettir úr og geta komist í snertingu við matvæli.
     Umbúðir eru allar umbúðir sem umlykja eða hafa að geyma matvæli eða efni sem notuð eru við framleiðslu matvæla.
     Örverur eru lífverur sem geta valdið skemmdum í matvælum eða verið heilsuspillandi vegna neyslu þeirra, en einnig eru tilteknar örverur notaðar til framleiðslu matvæla.
     Hráefni eru öll efni, önnur en bætiefni, aukefni, bragðefni og varnarefni, sem notuð eru við framleiðslu matvæla.
     Aukefni eru efni sem notuð eru við tilbúning matvæla til að hafa áhrif á geymsluþol, lit, lykt, bragð eða aðra eiginleika þeirra.
     Bragðefni eru efni sem notuð eru til að hafa áhrif á bragðeiginleika matvæla. Þau teljast ekki til aukefna.
     Bætiefni eru vítamín, steinefni, þar með talin snefilefni, og lífsnauðsynlegar fitu- og amínósýrur.
     Aðskotaefni eru efni sem berast í matvæli eða myndast í þeim og breyta eiginleikum, samsetningu, gæðum eða hollustu þeirra.
     Varnarefni eru efni sem notuð eru m.a. gegn illgresi, sveppum og meindýrum við framleiðslu og við geymslu matvæla.
     Opinbert eftirlit er eftirlit á vegum stjórnvalda í þeim tilgangi að tryggja að framfylgt sé ákvæðum laga og reglna um matvæli og stuðla að fræðslu og upplýsingamiðlun.
     Innra eftirlit er eftirlit á vegum framleiðanda eða dreifanda í þeim tilgangi að tryggja gæði, öryggi og hollustu vörunnar.
     Faggilding er formleg staðfesting á því að starfsemi rannsóknastofa (prófunarstofa), vottunarstofa og eftirlitsaðila fari fram samkvæmt settum reglum. Markmiðið er að sannreyna hæfni, kunnáttu og áreiðanleika viðkomandi.
    

III. KAFLI


Stjórn og skipan.


5. gr.


    Umhverfisráðherra, í lögum þessum nefndur ráðherra, fer með yfirstjórn mála samkvæmt lögum þessum, að svo miklu leyti sem hún er ekki falin öðrum ráðherrum. Hollustuvernd ríkis ins er ráðherra til ráðgjafar.
    

6. gr.


    Landbúnaðarráðherra fer með yfirstjórn mála er varða eftirlitsstörf dýralækna. Einnig fer hann með yfirstjórn mála er varða innflutning og útflutning búfjárafurða, smitsjúkdóma búfjár, meðferð, skoðun og mat á sláturafurðum og heilbrigðisskoðun eldisfisks. Yfirdýralæknir er ráðgjafi landbúnaðarráðherra um þessi mál.
    

7. gr.


    Sjávarútvegsráðherra fer með yfirstjórn mála er varða meðferð, flutning, geymslu og vinnslu sjávarafurða vegna útflutnings þeirra. Fiskistofa er sjávarútvegsráðherra til ráðgjafar um þessi mál.
    

8. gr.


    Samstarfsráð skal vinna að samræmingu laga, reglna og fyrirmæla um matvæli og matvæla eftirlit og fjalla um framkvæmd matvælaeftirlits, sbr. IX. kafla laganna. Ráðið skipa einn full trúi tilnefndur af Hollustuvernd ríkisins, annar af Fiskistofu og sá þriðji tilnefndur af yfirdýra lækni og skulu varamenn tilnefndir af sömu aðilum. Ráðið skiptir með sér verkum og setur sér starfsreglur sem skulu staðfestar af ráðherrum sem fara með yfirstjórn mála samkvæmt lögum þessum.
    Ráðið gerir tillögu um úrlausn ágreiningsmála sem varða framkvæmd laga þessara og reglugerða settra samkvæmt þeim. Jafnframt skal ráðið fá til umsagnar allar tillögur að lögum og reglugerðum um matvæli og matvælaeftirlit.
    Samstarfsráð gerir árlega skýrslu um störf sín á liðnu starfsári og skal hún kynnt ráðherr um, opinberum eftirlitsaðilum og samtökum hagsmunaaðila sem starfa við framleiðslu og dreifingu matvæla.

IV. KAFLI


Framleiðsla og dreifing.


9. gr.


    Þeir sem framleiða eða dreifa matvælum skulu tilkynna um starfsemi sína til fyrirtækja skrár Hagstofu Íslands og hafa starfsleyfi frá viðkomandi eftirlitsaðila, sbr. 20. gr.
    Ráðherra er heimilt með reglugerð að setja ákvæði um tilkynningarskyldu þeirra sem fram leiða eða flytja inn umbúðir fyrir matvæli og efni eða efnablöndur sem nota á við framleiðslu og dreifingu matvæla.
    

10. gr.


    Þeir sem framleiða eða dreifa matvælum skulu haga starfsemi sinni þannig að þau skorti ekki eðlilega hollustu eða geti valdið heilsutjóni. Jafnframt skal þess gætt að matvælin óhreinkist ekki eða spillist á annan hátt.
    Starfsfólk, sem starfar við framleiðslu eða dreifingu matvæla, skal gæta ýtrasta hreinlætis og þrifnaðar við meðferð þeirra og hafa þekkingu á eða fá nauðsynlega fræðslu um rétta með ferð matvæla. Matvælaframleiðendur og dreifendur bera ábyrgð á að þessi fræðsla fari fram.
    Þeim sem haldnir eru sjúkdómum, sem hætta er á að geti dreifst með matvælum, er óheim ilt að starfa við meðferð matvæla. Eftirlitsaðilar, sbr. IX. kafla laganna, geta að höfðu samráði við landlækni gert kröfu um reglubundna heilsufarsskoðun starfsfólks.
    

11. gr.


    Óheimilt er að hafa á boðstólum eða dreifa matvælum sem blekkt geta kaupanda eða mót takanda varðandi uppruna, tegund, gæðaflokkun, samsetningu, magn, eðli eða áhrif þeirra.
    Ráðherra skal með reglugerð setja ákvæði um með hvaða hætti hafa má matvæli á boðstól um eða dreifa á annan hátt þannig að gefið er í skyn að varan sé sérstaklega ætluð tilteknum hópum, svo sem vegna aldurs, sjúkdóma eða af öðrum ástæðum.
    

12. gr.


    Matvæli, sem finnast á framleiðslustað eða í húsakynnum framleiðslustaðar, skulu talin framleidd þar nema annað verði sannað. Matvæli teljast jafnframt höfð á boðstólum á dreifing arstað ef þau er þar að finna.
    Á sama hátt skulu efni, hlutir og annað, sem tengist framleiðslu matvæla, talið notað við framleiðslu ef það er að finna á framleiðslustað eða í húsakynnum framleiðslustaðar. Jafn framt telst slíkur varningur hafður á boðstólum á dreifingarstað ef hann er þar að finna.
    Ákvæði greinarinnar eiga ekki við ef sannanlega er um sýni af tilbúinni vöru að ræða eða þegar eftirlitsaðila hefur verið tilkynnt um að unnið sé að vöruþróun.
    

13. gr.


    Matvæli skal geyma þannig að þau verði ekki fyrir skemmdum eða spillist á annan hátt. Geymsluskilyrði skulu vera í samræmi við ákvæði um geymslu matvæla sem sett eru með reglugerðum og er framleiðandi eða eftir atvikum dreifandi ábyrgur fyrir réttri geymslu vör unnar.
    Eigandi eða umráðandi flutningstækis er ábyrgur fyrir því að tækið uppfylli þær kröfur sem settar eru um flutning matvæla.
    

V. KAFLI


Umbúðir og merking þeirra.


14. gr.


    Þeim sem framleiða eða flytja inn umbúðir fyrir matvæli, eða fyrir vörur sem notaðar eru við framleiðslu matvæla, er skylt að gæta þess að umbúðir geti ekki spillt þeirri vöru sem þær eru ætlaðar fyrir, þannig að hún verði hættuleg eða varasöm heilsu manna, gæði hennar rýrni eða varan teljist óneysluhæf. Matvælaframleiðendur og dreifendur bera sömu skyldur.
    

15. gr.


    Matvælaumbúðir skulu merktar með nafni og heimilisfangi framleiðanda eða dreifanda með aðsetur á Evrópsku efnahagssvæði. Þá skal heiti vörunnar koma fram ásamt upplýsingum um innihald, geymsluskilyrði, geymsluþol og nettóþyngd/lagarmál.
    Ráðherra er heimilt með reglugerð að gera frekari kröfur um umbúðamerkingar en fram koma í þessari grein og á sama hátt er heimilt að gera vægari kröfur til merkingar tiltekinna vörutegunda eða vöruflokka.
    

VI. KAFLI


Sérreglur um efnainnihald.


16. gr.


    Ráðherra er heimilt með reglugerð að setja ákvæði um heiti, framleiðslu og samsetningu matvæla, þegar slíkt er talið nauðsynlegt, til að stuðla að heilbrigði eða til að tryggja hags muni framleiðenda og neytenda.
    Þegar vöruheiti er bundið við tiltekna vörutegund samkvæmt þessari grein er ekki heimilt að nota sama heiti á aðrar vörur eða veita einhverjar þær upplýsingar sem gætu orðið til þess að neytendur villtust á vörunni og öðrum vörum sem hafa annan uppruna eða aðra samsetn ingu.
    

17. gr.


    Ráðherra skal með reglugerðum setja ákvæði um notkun aukefna, bragðefna, varnarefna og bætiefna við framleiðslu matvæla og um leyfilegt magn aðskotaefna í matvælum.
    

VII. KAFLI


Framkvæmd og fræðslustarfsemi.


18. gr.


    Til þess að stuðla að framkvæmd laga þessara setja ráðherrar reglugerðir um atriði sem lög þessi ná til. Þar skal m.a. kveðið nánar á um framleiðslu og dreifingu matvæla, efnainnihald, viðmiðunarmörk fyrir örverur, umbúðir, matvælaeftirlit og matvælarannsóknir.
    

19. gr.


    Hollustuvernd ríkisins, yfirdýralæknir og Fiskistofa skulu, hver á sínu sviði, sjá um að haldið sé uppi fræðslu fyrir almenning um þau málefni sem lög þessi ná til. Jafnframt skulu þessir aðilar vinna að eflingu fræðslustarfs fyrir þá sem starfa við framleiðslu og dreifingu matvæla og veita ráðgjöf við gerð námsefnis fyrir kennslu um matvæli og meðferð þeirra, sbr. 2. mgr. þessarar greinar.
    Menntamálaráðuneytið setur ákvæði í námskrá skóla sem undir það heyra um kennslu í matreiðslu, örverufræði, matvælafræði, næringarfræði og um neytendamálefni, hefur eftirlit með fræðslunni og fylgist með því að fullnægjandi aðstaða sé fyrir hendi.

VIII. KAFLI


Leyfisveitingar.


20. gr.


    Framleiðsla og dreifing matvæla er háð leyfi heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga. Heimilt er að binda slíkar leyfisveitingar ákveðnum kröfum til þess að tryggja að matvæli verði ekki fyrir skemmdum eða spillist á annan hátt. Þegar ákvæði þessi eiga við um starfsemi sem er undir yfirstjórn sjávarútvegs- eða landbúnaðarráðherra er leyfisveiting annars vegar í höndum Fiski stofu og hins vegar í höndum yfirdýralæknis.
    Leyfisveiting og endurnýjun leyfa er háð því að eftirlits- og leyfisgjald sé greitt, sbr. og 25. og 26. gr., og leyfi til framleiðslu og dreifingar matvæla má fella úr gildi ef sá sem slíkt leyfi hefur gerist sekur um ítrekuð eða alvarleg brot á lögum þessum, reglugerðum eða fyrir mælum settum samkvæmt þeim.
    Þeir sem annast leyfisveitingu geta endurskoðað veitt leyfi ef framleiðandi eða dreifandi ráðgerir að taka í notkun framleiðslutækni sem ekki hefur áður verið almennt í notkun og skal viðkomandi eftirliti tilkynnt um slíkar fyrirætlanir.
    

21. gr.


    Þrátt fyrir ákvæði 20. gr. og III. og IX. kafla laganna geta ráðherrar, að höfðu samráði við samstarfsráð, gert með sér samkomulag um að einn og sami aðili annist leyfisveitingar og eft irlit vegna tiltekinnar starfsemi.
    

IX. KAFLI


Matvælaeftirlit.


22. gr.


    Heilbrigðisnefnd hefur undir yfirumsjón Hollustuverndar ríkisins opinbert eftirlit með framleiðslu og dreifingu matvæla, að svo miklu leyti sem það er ekki falið öðrum aðilum. Hollustuvernd ríkisins skráir nauðsynlegar upplýsingar um framleiðslu og dreifingu matvæla vegna matvælaeftirlits. Þá er ráðherra, að höfðu samráði við heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga, heimilt að fela stofnuninni eftirlit með afmörkuðum þáttum.
    Yfirdýralæknir hefur yfirumsjón opinbers eftirlits með matvælum sem falla undir ákvæði 6. gr. laga þessara.
    Fiskistofa hefur með höndum opinbert eftirlit með framleiðslu og dreifingu matvæla sem falla undir ákvæði 7. gr. laganna.
    

23. gr.


    Hlutaðeigandi ráðherra er heimilt að ákveða með reglugerð að opinberir eftirlitsaðilar skuli hljóta faggildingu. Það sama á við um aðra aðila sem kunna að taka að sér eftirlit með fram leiðslu og dreifingu matvæla. Ráðherrum er einnig heimilt að ákveða að rannsóknir og útgáfa vottorða vegna eftirlits samkvæmt lögum þessum skuli framkvæmd af aðilum sem hlotið hafa faggildingu.
    Hlutaðeigandi ráðherra er heimilt með reglugerð að ákveða með hvaða hætti komið skal á innra eftirliti framleiðenda og dreifenda matvæla og hvort og þá með hvaða skilyrðum það getur verið þáttur í opinberu eftirliti.
    Samstarfsráð skal vera ráðherrum til ráðgjafar um lagasetningu og framkvæmd mála varð andi faggildingu rannsóknar- og eftirlitsaðila og einnig varðandi innra eftirlit.
    

24. gr.


    Matvælaframleiðendum og dreifendum er skylt að láta aðilum, sem fara með eftirlit sam kvæmt lögum þessum, endurgjaldslaust í té nauðsynleg sýni til rannsókna og veita þeim allar þær upplýsingar sem nauðsynlegar teljast við framkvæmd eftirlitsins. Jafnframt er skylt að veita óhindraðan aðgang til eftirlits á þeim stöðum þar sem framleiðsla eða dreifing matvæla á sér stað.
    Eftirlitsaðilar eru bundnir þagnarskyldu um framleiðslu- og verslunarleynd er þeir kunna að komast að við leyfisveitingar, sbr. VIII. kafla, og framkvæmd eftirlits.
    

X. KAFLI


Rekstrarkostnaður og gjaldtaka.


25. gr.


    Hlutaðeigandi ráðherra getur sett gjaldskrá vegna kostnaðar að því er varðar starfsemi Hollustuverndar ríkisins, Fiskistofu og yfirdýralæknis vegna matvælaeftirlits, sbr. 22. gr. Þá skulu ráðherrar setja gjaldskrár vegna opinberra matvælarannsókna. Gjald samkvæmt þessum ákvæðum má taka lögtaki og setur hlutaðeigandi ráðherra reglugerð með nánari ákvæðum um upphæð þess, gjaldskyldu, innheimtu, gjalddaga, lögvernd og annað er lýtur að innheimtu gjaldsins.
    Eftirlitsgjöld heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga vegna matvælaeftirlits skulu vera samkvæmt lögum um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit.
    

26. gr.


    Hlutaðeigandi ráðherra skal setja gjaldskrá vegna útgáfu starfsleyfa og vottorða, skv. VIII. og IX. kafla laganna, sbr. 17. gr. og 2. mgr. 22. gr. laga nr. 81/1988, um hollustuhætti og heil brigðiseftirlit. Það sama gildir um setningu gjaldskrár vegna skráningar og móttöku umsókna um heimild til notkunar aukefna eða annarra slíkra leyfisveitinga.
    

27. gr.


    Þegar rökstuddur grunur leikur á að vara eða starfsemi uppfylli ekki ákvæði laga eða reglu gerða settra samkvæmt þeim og ekki liggja fyrir vottorð faggiltra aðila sem sýna annað er heimilt að gera kröfu um að hlutaðeigandi framleiðandi eða dreifandi greiði nauðsynlegan rannsóknarkostnað.
    

XI. KAFLI


Valdsvið og þvingunarúrræði.


28. gr.


    Þegar hætta er talin á að matvæli geti valdið alvarlegu heilsutjóni er ráðherra heimilt að fyrirskipa nauðsynlegar varúðar- og varnaðaraðgerðir sem geta náð til alls landsins eða hluta þess. Skal ráðherra hafa samráð við landlækni, Hollustuvernd ríkisins, yfirdýralækni og Fiski stofu áður en til slíkra aðgerða er gripið.
    

29. gr.


    Eftirlitsaðila er heimilt að stöðva eða takmarka framleiðslu og dreifingu matvæla og leggja hald á þau þegar rökstuddur grunur er um að matvæli uppfylli ekki ákvæði laga þessara eða reglugerða settra samkvæmt þeim.
    Þegar eftirlitsaðilar leggja hald á matvæli er þeim heimil förgun þeirra sé það talið nauð synlegt, sbr. og 9. mgr. 27. gr. laga nr. 81/1988, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit.
    Þegar eftirlitsaðili stöðvar dreifingu vöru, svo sem inn- eða útflutning, og hætta er talin á að vörunni verði þrátt fyrir það dreift á markað þar sem eftirlit er í höndum annars aðila er eft irlitsaðilum skylt að hafa samráð sín á milli eða gera viðeigandi ráðstafanir, allt eftir eðli málsins.
    

30. gr.


    Um valdsvið og þvingunarúrræði eftirlitsaðila gilda að öðru leyti ákvæði laga um hollustu hætti og heilbrigðiseftirlit.
    

XII. KAFLI


Málsmeðferð, úrskurðir og viðurlög.


31. gr.


    Sá er sekur gerist um brot gegn ákvæðum þessara laga skal greiða allan kostnað sem leitt hefur af útvegun sýna, rannsóknum og öðru sem af því hefur hlotist. Um málsmeðferð, úr skurði og viðurlög gilda að öðru leyti ákvæði laga um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit.
    

XIII. KAFLI


Gildistaka.


32. gr.


    Með lögum þessum, sem taka gildi 1. júlí 1995, falla úr gildi ákvæði um matvæli og aðrar neysluvörur í lögum nr. 24/1936, um eftirlit með matvælum og öðrum neyslu- og nauðsynja vörum, ásamt síðari breytingum, og ákvæði um matvæli í 17. gr. laga nr. 52/1988, um eiturefni og hættuleg efni.
    

Ákvæði til bráðabirgða.


    Samstarfsráð, sbr. 8. gr., skal taka til starfa þegar við samþykkt laganna og skal ráðið vinna að undirbúningi fyrir gildistöku þeirra.
    Lög þessi skulu endurskoðuð innan fimm ára.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta var lagt fram á 116., 117. og 118. löggjafarþingi. Þegar frumvarpið var lagt fram á 116. löggjafarþingi fylgdi því ítarleg greinargerð um starf nefndar þeirrar sem samdi frumvarpið ásamt lýsingu á þróun matvælamála hér á landi og erlendis.
    Frumvarpið er nú lagt fram að nýju að mestu óbreytt. Þó hafa nokkrar breytingar verið gerðar, m.a. með hliðsjón af umsögnum sem bárust til heilbrigðis- og trygginganefndar á 117. löggjafarþingi. Þann 1. júní 1994 færðust málefni er varða hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, og með því Hollustuvernd ríkisins, í heild sinni yfir til umhverfisráðuneytis frá heilbrigðis ráðuneyti. Því hafa verið gerðar nauðsynlegar breytingar á frumvarpinu með tilliti til þess að umhverfisráðherra fer nú með yfirstjórn þessa málaflokks, sbr. lög nr. 54/1994. Hér verða rak in helstu nýmæli frumvarpsins ásamt athugasemdum við einstakar greinar þess. Að öðru leyti er vísað í greinargerð þá er birtist með frumvarpinu er það var lagt fram í fyrsta sinn á 116. löggjafarþingi.
    Helstu nýmæli frumvarpsins eru:
    Ákvæði í 1. mgr. 2. gr. varðandi einkaheimili eru ný, en sambærileg ákvæði er að finna í löggjöf annarra ríkja.
    Flestar skilgreiningar 4. gr. eru nýjar og er nánar fjallað um þær í athugasemdum við ein stakar greinar frumvarpsins.
    Gert er ráð fyrir samræmdri yfirstjórn matvælalöggjafar og eftirlits á vegum þriggja ráðu neyta, sbr. 5.–8. gr., en áður hafa ákvæði um stjórnun þessa málaflokks verið í sérlögum án þess að þar sé fjallað um samskipti eða samræmingu á starfsemi ráðuneyta eða stofnana þeirra. Í 8. gr. er fjallað um samstarfsráð stofnana sem fara með eftirlit og ráðgjöf og er það nýtt ráð sem ætlað er að samræma og styrkja yfirstjórn og lagasetningu um matvæli og matvælaeftirlit.
    Ákvæði um þekkingu og fræðslu í 2. mgr. 10. gr. eru ný og eru sett fram með tilliti til þess að framleiðendur og dreifendur eiga að bera ábyrgð á eigin vöru og að vandað sé til fram leiðslu og meðferðar hennar. Í 3. mgr. sömu greinar er að finna nýmæli að því er varðar sam ræmingu á heimildum eftirlitsaðila um að gera kröfu til heilsufarsskoðunar starfsfólks sem starfar við framleiðslu og dreifingu matvæla.
    Sett eru ákvæði um sérfæði í 2. mgr. 11. gr. og þá m.a. fæðu sem ætluð er börnum. Hér er höfð hliðsjón af umfangsmikilli og ítarlegri löggjöf annarra ríkja og ESB á þessu sviði og því eru sett ný ákvæði um þennan málaflokk.
    Í 2. mgr. 12. gr. eru ákvæði sem eru hliðstæð núgildandi ákvæðum sem fram koma í 1. mgr. greinarinnar.
    Skýr ákvæði um ábyrgð eiganda eða umráðanda flutningstækis hafa ekki verið í lögum og eru því ný, sbr. 2. mgr. 13. gr.
    Ákvæði 15. gr. um umbúðamerkingar eru ítarlegri en áður og taka m.a. mið af þeirri áherslu sem lögð er á góðar umbúðamerkingar í löggjöf annarra ríkja og má nefna Bandaríkin og ESB í því samhengi.
    Ný ítarleg ákvæði um fræðslustarfsemi er að finna í 19. gr. og er talið mikilvægt að ná markmiðum greinarinnar fram til að stuðla að bættri framleiðslu og meðferð matvæla og til að auka þekkingu og skilning neytenda.
    Í 3. mgr. 20. gr. er ákvæði um tilkynningarskyldu þegar ný framleiðslutækni er tekin í notkun.
    Ákvæði í 21. gr. varðandi samræmingu á starfsemi eftirlitsaðila hefur ekki verið í matvæla lögum og miðar að því að koma í veg fyrir skörun verkefna þar sem hægt er að koma því við.
    Verksvið eftirlitsaðila er skilgreint í 22. gr. og kemur þar skýrt fram hver verkaskipting að ila er með hliðsjón af ákvæðum þessa frumvarps og sérlaga sem þeir starfa eftir.
    Í 23. gr. er fjallað um þætti sem varða ný viðhorf varðandi eftirlit þar sem lögð er áhersla á innra eftirlit framleiðenda og dreifenda, auk þess sem fjallað er um faggildingu, sbr. skil greiningar í 4. gr. frumvarpsins.
    Ákvæði um þagnarskyldu í 2. mgr. 24. gr. eru ný í matvælalögum.
    Gjaldskrárheimildir eru þær sömu fyrir ríkisstofnanir sem tilgreindar eru í 25. gr., en heil brigðiseftirlit sveitarfélaga tekur gjöld samkvæmt gildandi ákvæðum laga nr. 81/1988. Ákvæði 26. og 27. gr. taka einnig mið af því að samræma heimildir til gjaldtöku og þá með það í huga að sá aðili sem eftirlit beinist að eða sækir tiltekna þjónustu taki þátt í kostnaði vegna þess.
    Í sérstökum tilvikum getur orðið nauðsynlegt að grípa til ráðstafana sem ekki eiga við und ir eðlilegum kringumstæðum og er tekið á þessu í 28. gr. með samráði heilbrigðisyfirvalda og eftirlitsaðila.
    Með 29. gr. eru heimildir eftirlitsaðila við eftirlit samræmdar og er talið eðlilegt að þessir aðilar starfi á grundvelli sömu heimilda og að þeir hafi samráð í ákveðnum tilvikum, sbr. 3. mgr. þessarar greinar. Valdsvið og þvingunarúrræði eru á sama hátt samræmd með 30. gr. og það sama gildir um málsmeðferð, úrskurði og viðurlög í 31. gr.
    Með ákvæðum til bráðabirgða er þegar við samþykkt laganna gert ráð fyrir auknu samstarfi eftirlitsaðila, sbr. ákvæði um samstarfsráð, auk þess sem skoða skal grundvöll fyrir samræm ingu á starfsemi aðila sem í dag sinna matvælaeftirliti, sbr. bráðabirgðaákvæði um endurskoð un laganna.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Samkvæmt ákvæðum í 1. gr. nær tilgangur laganna ekki eingöngu til öryggis matvæla og hollustuhátta, heldur einnig óréttmætra viðskiptahátta (blekkinga), og á það síðarnefnda ekki síst við um umbúðamerkingar, auglýsingar og aðra kynningu og upplýsingamiðlun. Afdráttar laus ákvæði um þessa þætti eru talin mikilvæg og má benda á að Evrópusambandið leggur mikla áherslu á umbúðamerkingar og rétta kynningu matvæla gagnvart neytendum og kemur þetta fram í tilskipunum bandalagsins. Norðurlöndin hafa lengi lagt áherslu á þessa þætti í matvælalöggjöf og það sama gildir um önnur mikilvæg viðskiptaríki eins og Bandaríkin.
    

Um 2. gr.


    Gildissvið laganna er víðtækt og sést þetta vel þegar skoðaðar eru skilgreiningar á fram leiðslu og dreifingu í 4. gr. Lögin ná til allra matvæla, sbr. skilgreiningu þeirra í 4. gr. og er neysluvatn þar með talið. Ákvæði í 1. mgr. 2. gr. um einkaheimili eru ný og marka ekki breyt ingu frá þeim starfsháttum sem tíðkast hafa í matvælaeftirliti. Hins vegar er talið rétt að skil greina gildissvið þannig að friðhelgi einkaheimila sé ljós nema þar fari fram leyfisskyld starf semi sem undir eðlilegum kringumstæðum er ekki heimil á slíkum stöðum. Sambærileg ákvæði er að finna í löggjöf annarra ríkja. Þá telst áfengi til matvæla, sbr. 2. mgr. 2. gr., og er þetta í samræmi við gildandi löggjöf og ýmis ákvæði í matvælalöggjöf Evrópusambandsins. Hins vegar er það ekki algilt að áfengir drykkir teljist til matvæla og má þar sem dæmi nefna löggjöf í Finnlandi.
    Tóbak er skilgreint sem neysluvara í eldri lögum, en ekki er talið rétt að telja tóbak til mat væla og er því vísað til sérlaga um tóbaksvarnir. Einnig er vísað til lyfjalaga þar sem lyf teljast ekki til matvæla, en í lyfjalögum og reglugerðum samkvæmt þeim er að finna nánari aðgrein ingu lyfja og almennra neysluvara. Rétt er að geta þess að bætiefni, náttúruvörur og hollefni (heilsuvörur) teljast til matvæla þegar vörurnar falla ekki undir skilgreiningu lyfja vegna magns bætiefna eða innihalds efna sem hafa þekktar lyfjaverkanir.
    Ekki var talin ástæða til að láta lög þessi ná yfir eftirlit með sjúkdómum og meindýrum á plöntum sem framkvæmt er af Rannsóknastofnun landbúnaðarins samkvæmt lögum nr. 51/1981, með síðari breytingum. Ástæðan fyrir þessu er m.a. sú að um er að ræða sérhæfða starfsemi sem nær ekki aðeins til matjurta og því ekki talið rétt að skilgreina hana sérstaklega í matvælalögum. Þá er ekki talið rétt að Rannsóknastofnun landbúnaðarins fái sama vægi og aðrir eftirlitsaðilar í þessum lögum vegna ofangreinds eftirlits.
    

Um 3. gr.


    Í þessari grein er vikið að þeim markmiðum laganna sem fram koma í 1. gr., sbr. athuga semdir við hana, en hér er sérstaklega tekið á heilsutjóni vegna neyslu matvæla og óréttmætum viðskiptaháttum (blekkingum). Með þessu er tekið á meginmarkmiðum laganna og vísað til þeirrar ábyrgðar sem hvílir á framleiðendum og dreifendum matvæla með hliðsjón af megin markmiðum og tilgangi laganna.
    

Um 4. gr.


    Í stað þess að aðgreina matvæli og tilteknar neysluvörur eins og gert er í gildandi lögum eru matvæli skilgreind í 4. gr. þannig að allar neysluvörur, sem lögin ná til, teljast matvæli. Því verður ekki lengur nauðsynlegt að tala um matvæli og aðrar neysluvörur. Skilgreiningar á framleiðslu og dreifingu eru nýjar og eru ekki síst gerðar í þeim tilgangi að einfalda allan lagatexta. Þannig nægir í lagatexta að tilgreina dreifanda þegar átt er við innflytjanda, um boðsaðila, innlendan dreifingaraðila og smásöluaðila.
    Skilgreining efna og hluta er einnig ný og tekur mið af umfangsmikilli löggjöf sem sett verður á þessu sviði og má m.a. vísa til löggjafar ESB í því samhengi. Umbúðir eru einnig skilgreindar nánar í greininni.
    Hinir ýmsu efnisþættir í matvælum hafa ekki áður verið skilgreindir í lögum. Þetta á t.d. við um örverur og má einnig nefna að skilgreining orðsins bætiefni er víðtækari en almennur skilningur á því orði hefur verið. Þá hefur orðið varnarefni ekki komið áður fyrir í íslenskri matvælalöggjöf og má líta á það sem nýyrði í þessu samhengi. Skilgreining varnarefna nær ekki aðeins til notkunar þeirra við framleiðslu og geymslu fullunninna matvæla, heldur einnig matvæla, svo sem korns, sem notuð eru sem hráefni við framleiðslu annarra vörutegunda.
    Skilgreining opinbers eftirlits hefur ekki komið fyrir áður í matvælalögum, en kemur hér fram í greininni, m.a. með hliðsjón af ákvæðum um opinbert eftirlit og hlutverk þess í mat vælalöggjöf ESB. Skilgreiningar innra eftirlits og faggildingar eru nýjar og taka mið af breytt um áherslum í matvælaeftirliti í tengslum við innri markað í Evrópu (ESB/EES) og í öðrum ríkjum, svo sem Bandaríkjunum og Kanada.
    

Um 5. gr.


    Umhverfisráðherra fer með yfirstjórn mála samkvæmt þessu frumvarpi, en ekki er gerð til laga um breytingu á starfsemi annarra ráðuneyta eða stofnana sem sinna matvælaeftirliti, sbr. yfirstjórn þeirra og starfsemi á tilteknum sviðum löggjafar og eftirlits skv. 6. og 7. gr. og jafn framt 22. gr. frumvarpsins. Hollustuvernd ríkisins er ráðherra til ráðgjafar og er einnig ætlað að annast eða hafa yfirumsjón með starfsemi nefnda sem nú sinna tilteknum sérverkefnum á matvælasviði. Má þar nefna aukefnanefnd, aðskotaefnanefnd og íslensku matvælarannsókna nefndina. Einnig hefur verið rætt um slíka starfsemi vegna starfa Alþjóðlegu staðlaskrárnefnd arinnar um matvæli.
    

Um 6. gr.


    Hér er fjallað um yfirstjórn landbúnaðarráðherra samkvæmt gildandi sérlögum og hlutverk yfirdýralæknis sem ráðgjafa ráðherrans á þessu sviði.
    

Um 7. gr.


    Hér er fjallað um yfirstjórn sjávarútvegsráðherra og verksvið Fiskistofu. Vakin er athygli á því að hér er gert ráð fyrir að sjávarútvegsráðherra fari aðeins með yfirumsjón mála er varða meðferð, flutning og vinnslu sjávarafurða og eldisfisks vegna útflutnings og er það breyting frá ákvæðum laga nr. 93/1992.
    

Um 8. gr.


    Lögð er áhersla á aukið samstarf ráðuneyta og stofnana sem fjallað er um í 5.–7. gr. og í þeim tilgangi er lagt til að skipað verði samstarfsráð. Ráðið verður skipað fulltrúum stofnana sem fara með yfirumsjón eftirlits, þ.e. Hollustuverndar ríkisins, Fiskistofu og yfirdýralæknis. Er ráðinu ætlað að hefja störf þegar frumvarpið er samþykkt og vinna þá að undirbúningi fyrir gildistöku laganna, sbr. bráðabirgðaákvæði þar að lútandi. Samstarfsráð mun vinna að samræmingu matvælaeftirlits og er einnig falið mikilvægt hlutverk varðandi samræmingu löggjaf ar á þessu sviði, en löggjafarhlutverk er á hendi þriggja ráðherra.
    Þess má geta að einnig er tekið á samskiptum eftirlitsaðila í 21. og 29. gr. og þá í þeim til gangi að koma í veg fyrir tvíverknað og skörun verksviðs og bæta framkvæmd eftirlits með auknu samstarfi aðila. Telja verður ákvæði um samstarfsráð og önnur ákvæði sem varða sam starf eftirlitsaðila meðal helstu nýmæla frumvarpsins.
    

Um 9. gr.


    Tilkynningarskylda, sem lögð er á framleiðendur og dreifendur matvæla, er til að tryggja að hægt sé að hafa gott yfirlit yfir þá aðila sem reka slíka starfsemi. Um starfsleyfi er nánar fjallað í 20. gr., en vikið er að starfsleyfi hér til aðgreiningar frá tilkynningarskyldu sem er annars eðlis. Í 2. mgr. er vikið að tilkynningarskyldu vegna umbúða eða efna sem notuð eru við framleiðslu matvæla og er ekki síður mikilvægt að hafa eftirlit með þessum þáttum, þó svo starfsemin sem slík sé ekki háð starfsleyfi á sama hátt og framleiðsla og dreifing matvæla.
    

Um 10. gr.


    Um ákvæði þessarar greinar má segja að þar er kveðið skýrar á um ábyrgð framleiðenda og dreifenda en áður hefur verið gert í lögum og reglugerðum á matvælasviði. Þetta er í sam ræmi við þá þróun sem er að verða varðandi ábyrgð þessara aðila á eigin vöru og þá ekki síst með tilliti til öryggis og hollustu vörunnar. Ákvæði þessa kafla, V. kafla um umbúðamerkingar og XI. kafla um valdsvið og þvingunarúrræði, eiga í raun að vera sambærileg við og ná sama tilgangi og ákvæði frumvarps um öryggi framleiðsluvöru sem lagt var fyrir Alþingi á 116. og 117. löggjafarþingi, en ekki orðið að lögum. Matvælalöggjöfin mun því gilda um mál sem varða öryggi matvæla og upplýsingagjöf með tilliti til þess.
    Af nýmælum má nefna ákvæði um þekkingu og fræðslu í 2. mgr. 10. gr. og er mikilvægt að þessu verði fylgt eftir, sbr. og 19. gr. frumvarpsins. Einnig ákvæði varðandi sjúkdóma og heilsufarsskoðun í 3. mgr. sömu greinar þar sem þau gilda fyrir alla eftirlitsaðila, en hliðstæð ákvæði eru í reglugerð um verksvið heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga.
    

Um 11. gr.


    Hér er vikið að mikilvægum atriðum sem varða eitt af meginmarkmiðum laganna um rétt mæta viðskiptahætti. Ákvæði þessi geta átt við um misnotkun aukefna svo sem þegar litarefni eða bindiefni eru notuð til að villa fyrir um gæði vörunnar og einnig kynningu og umbúða merkingar sem nánar er vikið að í næsta kafla.
    Það sama getur átt við um ákvæði í 2. mgr. 11. gr. varðandi sérfæði eða aðrar vörur sem auglýstar eru, kynntar og merktar þannig að þær séu ætlaðar tilteknum hópum fólks vegna ald urs, sjúkdóma eða af öðrum ástæðum. Mikilvægt er að hafa heimild til að setja reglur um þessa þætti, bæði til að tryggja gæði vörunnar og réttmæta markaðssetningu hennar. Rétt er að geta þess að á þessum málum er tekið í tilskipunum ESB um matvæli. Má þar sem dæmi nefna almennt sérfæði og barnamat.
    

Um 12. gr.


    Ákvæði 1. mgr. eru í samræmi við breytingu sem gerð var á gildandi lögum, sbr. lög nr. 5/1985, þar sem sönnunarbyrði er lögð á framleiðanda eða dreifanda, svo sem ef óstimplað kjöt eða önnur matvæli sem ekki samræmast lögum eða reglum finnast á framleiðslustað eða í dreifingu.
    Ákvæði í 2. mgr. ná til efna, hluta og annars sem notað er við framleiðslu matvæla og eru þau sett fram til samræmis við 1. mgr., en eiga við aðra þætti eins og óleyfileg aukefni eða umbúðir sem ekki standast reglur.
    Í 3. mgr. er fjallað um það að ákvæði greinarinnar eigi ekki við ef sannanlega er um sýni af tilbúinni vöru að ræða eða þegar eftirlitsaðila hefur verið tilkynnt um að unnið sé að vöru þróun. Sönnunarbyrðin er lögð á framleiðanda eða dreifanda.
    

Um 13. gr.


    Geymsla matvæla og flutningur þeirra við rétt geymsluskilyrði eru þættir sem geta haft veruleg áhrif á gæði og heilnæmi vörunnar. Mikilvægt er að taka á þessum þáttum við fram leiðslu og dreifingu, þar með töldum flutningi, og þarf skýrar lagaheimildir til stuðnings regl um sem um þetta fjalla, sbr. reglugerð nr. 522/1994 um matvælaeftirlit og hollustuhætti með framleiðslu og dreifingu matvæla og reglugerð nr. 557/1993 um hraðfryst matvæli. Könnun, sem Hollustuvernd ríkisins gerði á árinu 1992, sýnir að mikill misbrestur er varðandi réttar geymsluaðstæður við flutning matvæla og flutningur fiskafurða á opnum bílpöllum er annað dæmi sem flestir þekkja til.
    

Um 14. gr.


    Í þessari grein er kveðið á um ábyrgð þeirra sem framleiða eða flytja inn umbúðir svo og þeirra sem nota þær umbúðir fyrir vörur sem þeir framleiða eða dreifa. Almenn ákvæði um þessa þætti er að finna í gildandi matvælalögum og sértækar reglur hafa verið settar um um búðir og efni sem geta borist úr þeim í matvæli.
    

Um 15. gr.


    Hér er fjallað um umbúðamerkingar og eru ákvæði þessi í samræmi við þær reglur sem nú gilda um merkingu umbúða fyrir matvæli. Einnig samræmast ákvæði greinarinnar þeim kröf um sem gerðar eru til umbúðamerkinga í tilskipunum ESB. Þess má geta að í gegnum tíðina hafa nokkur ráðuneyti sett reglur um merkingu matvæla og því tímabært að setja þennan þátt í fastari skorður og samræma bæði kröfur um merkingu umbúða og eftirlit með þeim.
    Ákvæði 2. mgr. taka mið af því að veittar eru undanþágur frá tilteknum ákvæðum um merkingar þegar umbúðir eru litlar og jafnframt þess að í reglugerðum eru gerðar frekari kröf ur til umbúðamerkinga en fram koma í 1. mgr. Dæmi um þetta er merking næringargildis og ýmsar fullyrðingar um heilsufarslega þætti.
    

Um 16. gr.


    Ákvæði greinarinnar eiga við um setningu sérstakra reglna um ákveðnar vörur, svo sem mjólkurvörur og kjötvörur, þar sem markmiðið getur verið að staðla vörurnar með tilliti til ákveðinna efnisþátta. Tilgangurinn getur bæði verið heilsufarslegs eðlis, svo sem manneldis sjónarmið, og að tryggja að neytendur fái þá vöru sem þeir eiga rétt á þegar tiltekið vöruheiti er valið, óháð því hver framleiðandi hennar er. Vitað er að nú eru t.d. seldar kjötvörur með lík um heitum en nokkuð ólíkar að samsetningu. Ekki er tekið á þessum þáttum á þennan hátt í gildandi löggjöf þó heimildir til setningar slíkra reglna séu fyrir hendi.
    Ákvæði greinarinnar geta einnig átt við um tilteknar framleiðsluaðferðir og má sem dæmi nefna lífræna ræktun matvæla.
    Gert er ráð fyrir að hagsmunir neytenda og framleiðenda fari í flestum tilvikum saman og að samráð sé haft við þessa aðila um gerð reglna á þessu sviði, en ef ágreiningur er um setn ingu reglna getur annar málsaðili ekki hindrað setningu þeirra ef um ótvíræða hagsmuni hins aðilans er að ræða.
    

Um 17. gr.


    Í greininni kemur fram að setja skuli reglur um tiltekin efni í matvælum. Ekki er tekið á þessu á þennan hátt í gildandi löggjöf, en heimildir til að setja slíkar reglur eru fyrir hendi, þó svo ráðherra sé þar ekki beinlínis falið að setja reglur um tiltekna efnisþætti eins og fram kem ur í þessari grein. Talið er rétt að leggja sérstaka áherslu á setningu reglna um þessa efnisþætti með hliðsjón af gildandi reglum hér á landi, í öðrum ríkjum og hjá ESB.
    

Um 18. gr.


    Framkvæmd laganna felst í setningu reglna um þá þætti sem lögin ná til og er framkvæmd in í höndum ráðherra sem fara með yfirstjórn mála. Í þeim tilgangi að samræma lagasetningu er samstarfsráði ætlað mikilvægt hlutverk í þessum lögum eins og áður hefur verið vikið að og er í því samhengi bent á ákvæði 8. og 23. gr.

Um 19. gr.


    Ekki hefur áður í lögum verið tekið á ýmsum þeirra þátta sem fjallað er um í þessari grein, en þar er fjallað ítarlega um fræðslumál. Auk stofnana, sem starfa við ráðgjöf og matvælaeftir lit, er í 2. mgr. þessarar greinar fjallað um hlutverk menntamálaráðuneytisins varðandi fræðslu á matvæla- og manneldissviði. Er hér um mikilvæg ákvæði að ræða, ekki síst með hliðsjón af því að matvælaframleiðsla er mikilvægasta atvinnugrein sem stunduð er hér á landi. Markmið ið er að styrkja fræðslu bæði fyrir almenning og svo þá sem vinna við framleiðslu og dreifingu matvæla, sbr. og ákvæði 2. mgr. 10. gr.
    

Um 20. gr.


    Um leyfisveitingar hefur ekki verið fjallað í lögum á þann hátt sem hér er gert, en ákvæði um þessi atriði er að finna bæði í sérlögum og reglugerðum á matvælasviði. Ótvíræðar heim ildir eru í greininni til að binda starfsleyfi ákveðnum skilyrðum, auk þess sem endurskoðun leyfa er heimil, m.a. ef ráðgert er að taka í notkun nýja framleiðslutækni. Hér er ekki átt við minni háttar breytingar eða framleiðslutækni sem áður hefur verið beitt, heldur umfangsmeiri breytingar. Slíkum ákvæðum má beita ef ætlunin væri að hefja geislun matvæla eða aðrar framleiðsluaðferðir sem skoða verður með tilliti til öryggis eða hollustu matvæla.
    

Um 21. gr.


    Skörun á verksviði eftirlitsaðila er fyrir hendi og með ákvæðum þessarar greinar er skapað ur möguleiki til að skipa málum þannig að aðeins einn aðili annist leyfisveitingar og eftirlit með tiltekinni starfsemi. Fiskvinnsla, sem vinnur vöru bæði til útflutnings og innanlands neyslu, á samkvæmt lögum að vera undir eftirliti Fiskistofu og skoðunarstofa og heilbrigðis eftirlits sveitarfélaga vegna innanlandsneyslu. Sama gildir um eftirlit með framleiðslu og dreifingu á eldisfiski. Skörun og tvíverknað eftirlitsaðila má fyrirbyggja með samkomulagi milli ráðherra í samræmi við ákvæði þessarar greinar.
    

Um 22. gr.


    Skipting opinbers eftirlits samkvæmt ákvæðum þessarar greinar er með sama hætti og nú er samkvæmt gildandi lögum um matvæli og sérlögum um tiltekna flokka matvæla.
    Ekki var talið raunhæft að sameina starfsemi eftirlitsaðila á þessu stigi, en í bráðabirgða ákvæðum kemur fram að stefnt er að endurskoðun laganna innan fimm ára. Er þá meðal annars gert ráð fyrir að skoðað verði hvort rétt er að samræma starfsemi opinbers eftirlits með matvælum á vegum eins aðila. Ýmis ákvæði frumvarpsins miða hins vegar að því að auka samstarf og samskipti opinberra aðila við framkvæmd eftirlits og lagasetningu um matvæli.
    

Um 23. gr.


    Meðal helstu nýmæla frumvarpsins eru þau ákvæði sem fram koma í greininni um faggild ingu rannsóknar- og eftirlitsaðila og um innra eftirlit framleiðenda og dreifenda matvæla. Þessi ákvæði tengjast þeim nýju viðhorfum sem eru uppi, ekki síst innan sameiginlegs markað ar í Evrópu, hvað varðar breyttar áherslur í matvælaeftirliti með aukinni gæðastjórnun, bæði af hálfu hagsmunaaðila og opinberra aðila sem hafa eftirlitshlutverki að gegna.
    Í tilskipunum ESB eru ákvæði um innra eftirlit, svo sem vegna fiskafurða, og nýlega hafa verið samþykktar ESB-reglur um innra eftirlit við framleiðslu, dreifingu, tilreiðslu og aðra meðferð matvæla. Því er nauðsynlegt að hafa heimildarákvæði í lögum til setningar slíkra reglna. Hér á landi og í Kanada er nú gerð krafa um innra eftirlit í fiskiðnaði og í Bandaríkjun um er fiskvinnslufyrirtækjum boðið að taka upp ákveðið eftirlitskerfi gegn gjaldi og geta fyrir tækin síðan notað þennan þátt í sinni starfsemi við markaðssetningu vörunnar.
    Grein þessi gerir ráð fyrir að aðrir en opinberir aðilar geti haft eftirlit með framleiðslu og dreifingu matvæla, en eftirlit þeirra getur ekki tengst opinberu eftirliti nema um það séu settar nánari reglur. Ráðherrum er heimilt að setja slíkar reglur og jafnframt er þeim heimilt að gera kröfu um að aðilar, sem sinna eftirlitsstörfum á matvælasviði, skuli hljóta faggildingu.
    

Um 24. gr.


    Með ákvæðum þessarar greinar er tryggt að eftirlitsaðilar hafi fullan aðgang að eftirlits skyldri starfsemi og þeim gögnum sem nauðsynlegt er að skoða við eftirlit. Jafnframt er í 2. mgr. tryggt að eftirlitsaðilar gæti trúnaðar og séu bundnir þagnarskyldu um atriði sem varða framleiðslu- og verslunarleynd.
    

Um 25. gr.


    Hér er bæði byggt á nýjum ákvæðum og ákvæðum sem er að finna í lögum um hollustu hætti og heilbrigðiseftirlit. Nokkuð var rætt um að setja ákvæði um samræmda gjaldtöku af innlendri framleiðslu og innfluttum matvælum, miðað við framleiðslumagn eða verðgildi, þannig að hægt væri að fella aðrar gjaldskrár úr gildi. Horfið var frá þessum hugmyndum vegna fyrirsjáanlegra erfiðleika við innheimtu og síðan skiptingu fjármagns milli eftirlitsaðila, auk þess sem ekki náðist samkomulag við hagsmunaaðila um endurskoðun gjaldskrárákvæða.
    Matvælarannsóknir eru í dag framkvæmdar samkvæmt gjaldskrám sem settar hafa verið fyrir þær stofnanir sem slíkum störfum sinna. Ákvæði greinarinnar um opinberar matvælarann sóknir eru því í samræmi við framkvæmd þeirra í dag.
    Gjaldskrárheimildir aðila, sem tengjast eftirliti, eru samræmdar með ákvæðum þessarar greinar og er markmiðið að þeim verði beitt þannig að tekið verði mið af raunverulegum kostnaði vegna matvælaeftirlits og matvælarannsókna. Gert er ráð fyrir að ákvæðum 21. gr. verði beitt þegar um skörun á verksviði eftirlitsaðila er að ræða, en hver sem niðurstaða í slík um málum verður skal þess gætt að eftirlitsskyldur aðili greiði ekki gjöld til fleiri en eins aðila vegna matvælaeftirlits.
    

Um 26. gr.


    Það sama á við hér og um 25. gr. að framan, en þessi grein varðar gjaldtöku vegna starfs leyfa og sérstakrar þjónustu sem hagsmunaaðilar leita eftir, svo sem vegna útgáfu vottorða eða umsókna um heimild til notkunar tiltekinna efna eða annarra slíkra leyfisveitinga.
    

Um 27. gr.


    Ekki hefur áður verið fjallað á þann hátt sem hér er gert um greiðslu rannsóknarkostnaðar af hálfu framleiðenda og dreifenda þegar rökstuddur grunur er á að starfsemi uppfylli ekki ákvæði laga eða reglna. Mikilvægt er að bregðast við þegar grunur leikur á að ákvæði laga og reglna séu ekki uppfyllt og sérstaklega ef um hættu á heilsutjóni getur verið að ræða. Eftirlits aðilar fá á ýmsan hátt, m.a. gegnum samstarf við önnur ríki, upplýsingar og gögn sem gefa til efni til sérstakra aðgerða. Hafi hagsmunaaðili, sem eftirlit beinist gegn, þá engin gögn til að hrekja þær grunsemdir sem fram koma er talið eðlilegt að hann standi undir kostnaði við rann sóknir á vöru sem hann er ábyrgur fyrir.
    

Um 28. gr.


    Greinin er ný og með ákvæðum hennar er samskiptum eftirlitsaðila og heilbrigðisyfirvalda skipað í ákveðinn farveg sem verður að teljast mikilvægur þegar mál af þessum toga koma upp. Rétt er að taka fram að 28. gr. yrði aðeins beitt ef um mjög alvarlega hættu getur verið að ræða. Dæmi um þetta eru hugsanlegar afleiðingar af slysum í kjarnorkuverum og alvarleg tilvik matareitrana.
    

Um 29. gr.


    Með þessari grein er verið að samræma valdsvið og þvingunarúrræði eftirlitsaðila og er m.a. stuðst við ákvæði þar að lútandi í lögum um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit. Í 3. mgr. greinarinnar, þar sem tekið er á framleiðslu og dreifingu matvæla sem dæmd eru óhæf til út flutnings eða dreifingar innan lands, er einnig fjallað um samskipti eftirlitsaðila í þeim til gangi að tryggja sem besta framkvæmd eftirlits.
    Í 2. mgr. greinarinnar er fjallað um förgun matvæla og er rétt að taka fram að um hana geta einnig gilt önnur lög og reglur, svo sem vegna mengunarvarna, sem ber að virða við ákvörðun artöku um hvernig að henni er staðið.
    

Um 30. gr.


    Það telst til nýmæla í þessari grein og 29. gr. að öllum eftirlitsaðilum er ætlað að starfa eftir sömu ákvæðum hvað valdsvið og þvingunarúrræði varðar.
    

Um 31. gr.


    Á sama hátt og fyrir valdsvið og þvingunarúrræði er með 31. gr. verið að samræma máls meðferð, úrskurði og viðurlög, hvort sem eftirlitið beinist að fiskafurðum, kjöti eða öðrum matvælum.
    

Um 32. gr.


    Með frumvarpi þessu er lagt til að felld verði úr gildi ákvæði um matvæli og aðrar neyslu vörur í lögum nr. 24/1936, um eftirlit með matvælum og öðrum neyslu- og nauðsynjavörum, en það sama gildir ekki um þau ákvæði laganna sem aðeins varða nauðsynjavörur. Í stað ákvæða laganna um nauðsynjavörur er gert ráð fyrir að koma muni lög um öryggi framleiðslu vöru. Frumvarp til laga um öryggi framleiðsluvöru var lagt fram á 116. og 117. löggjafarþingi, en hlaut ekki afgreiðslu. Ef frumvarp um öryggi framleiðsluvöru verður samþykkt á undan þessu frumvarpi verður að breyta frumvarpsinu, þannig að lög nr. 24/1936 verði í heild sinni felld úr gildi. Málum er hins vegar öfugt farið ef ný matvælalög verða samþykkt fyrst og verð ur þá að gera breytingu á frumvarpi til laga um öryggi framleiðsluvöru, þannig að ákvæði laga nr. 24/1936 um nauðsynjavörur verði felld úr gildi.
    Gert er ráð fyrir að ákvæði um matvæli í 17. gr. laga nr. 52/1988, um eiturefni og hættuleg efni, falli einnig úr gildi. Í bráðabirgðaákvæðum þeirra laga kemur fram að ákvæði 17. gr. skuli gilda þar til fyllri ákvæði hafi verið sett um notkun eiturefna og hættulegra efna í mat vælum og mengun matvæla af völdum slíkra efna. Ákvæði þessa frumvarps um aðskotaefni og þá sérstaklega varnarefni koma í stað þeirra ákvæða sem eru í áðurnefndum lögum og þau má því fella úr gildi.
    

Um ákvæði til bráðabirgða.


    Með ákvæðum til bráðabirgða er samstarfsráði falið að hefja þegar undirbúning að gildis töku laganna. Með þessu er samstarf eftirlitsaðila og þeirra sem fara með yfirstjórn laganna tryggt þegar við samþykkt frumvarpsins.
    Ákvæði um endurskoðun laganna er talið mikilvægt, ekki síst með hliðsjón af þeirri öru þróun og miklu breytingum sem nú eru fyrirsjáanlegar með sameiginlegum markaði í Evrópu og aðild Íslands að Evrópsku efnahagssvæði. Á því tímabili, sem tilgreint er vegna endurskoð unar laganna, mun einnig fást meiri reynsla af samstarfi opinberra eftirlitsaðila og því raun hæft að ræða hvort grundvöllur er til frekari samræmingar á starfsemi þeirra.Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um matvæli.


    Markmið laganna er að tryggja gæði, öryggi og hollustu matvæla og að merkingar þeirra séu fullnægjandi. Með frumvarpinu er eftirlit með matvælum samræmt og valdsvið hvers stjórnvalds skýrt. Þá eru í frumvarpinu ákvæði sem eru talin nauðsynleg vegna samnings um Evrópskt efnahagssvæði. Loks eru ákvæði um fræðslustarfsemi um matvæli.
    Frumvarpið er fyrst og fremst samræming á matvælaeftirliti, auk þess sem lögin eru færð í nútímalegra horf. Breytingar frá gildandi lögum eiga ekki að leiða til aukinna útgjalda ríkis sjóðs. Ákvæði um gjaldtöku stofnana eru samræmd og veitt er víðtækari heimild til gjaldtöku hjá eftirlitsstofnunum í sjávarútvegi og landbúnaði. Kostnaður af samstarfsráði, sem skal vinna að samræmingu laga, reglna og fyrirmæla um matvæli og framkvæmd eftirlits, á að rúm ast innan fjárheimilda þeirra stofnana er málið varðar.
    Með frumvarpinu á að koma í veg fyrir skörun á verksviði eftirlitsaðila og tvöfalda gjald töku og á það því að leiða til hagræðis. Nefndin, sem samdi frumvarpið, taldi það ekki í sínum verkahring að skoða frekari samræmingu á starfsemi eftirlits- og rannsóknaraðila og annarra þeirra sem starfa að forvörnum á matvælasviði. Bent er á í athugasemdum með frumvarpinu að full ástæða sé til slíkrar athugunar og tekur fjármálaráðuneytið undir það.
    Með tilkomu samnings um Evrópskt efnahagssvæði hafa kröfur um matvælaeftirlit aukist og eru lög um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, nr. 81/1988, nú til endurskoðunar m.a. vegna þess. Mun umfang matvælasviðs Hollustuverndar ríkisins að líkindum aukast og rekstrarkostn aður þess hækka. Ef ástæða þykir til að breyta lögunum mun kostnaðarmat fylgja því frum varpi.