Ferill 19. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


1995. – 1064 ár frá stofnun Alþingis.
119. löggjafarþing. – 19 . mál.


19. Tillaga til þingsályktunar



um endurskoðun viðskiptabanns á Írak.

Flm.: Steingrímur J. Sigfússon, Ásta R. Jóhannesdóttir,


Kristín Ástgeirsdóttir, Össur Skarphéðinsson.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að beita sér á alþjóðavettvangi fyrir því að viðskipta bannið á Írak verði tafarlaust tekið til endurskoðunar. Einnig verði mótuð sú stefna að við skiptahindrunum verði aldrei beitt við þær aðstæður eða þannig að almenningur, ekki síst börn, líði beinan skort af þeim sökum.

Greinargerð.


    Það er óumdeilt að aðgerðir viðskiptalegs eðlis ásamt stjórnmálalegum aðgerðum hafa iðu lega skilað árangri í alþjóðamálum og er þar nærtækast að nefna þátt viðskiptahindrana og pólitískrar einangrunar í því að ráða niðurlögum hinnar illræmdu aðskilnaðarstefnu í Suður-Afríku. Í alþjóðasamskiptum er að sjálfsögðu nauðsynlegt að kappkosta að beita friðsamlegum aðferðum, þ.e. öðrum en vopnavaldi, við lausn deilumála. Aðgerðir á viðskiptasviðinu, svo sem vopnasölubann, ákvarðanir um viðskiptakjör eða jafnvel viðskiptabann, geta reynst áhrifaríkar en aukin umræða hefur orðið um nauðsyn þess að beiting slíkra aðgerða verði þó ávallt að samræmast viðurkenndum mannúðarsjónarmiðum.
    Hörmulegar afleiðingar viðskiptabannsins á Írak og sú staðreynd að Saddam Hussein er þar enn við völd sýna að þörf er á að taka meðferð slíkra „aðgerða“ eða „ráðstafana“ í alþjóðasamskiptum til gagngerrar endurskoðunar.
    Undanfarið, eða síðan fljótlega eftir að Flóastríðinu lauk, hafa verið að koma fram skelfi legar upplýsingar um ástand mála í Írak. Ljóst er að lífskjör þar eru afar bágborin og aðstæður alls þorra almennings hörmulegar. Fer þar allt saman, langvarandi vígbúnaðarkapphlaup, harð stjórn og styrjaldarrekstur og síðan alþjóðlegt viðskiptabann sem leitt hefur til vöruskorts og efnahagshruns.
    Fórnarlömb þessa ástands eru ekki valdhafar, því að harðstjórn landsins virðist fastari í sessi en nokkru sinni, heldur almenningur, ekki síst börn. Viðskiptabannið er því ekki að skila neinum sýnilegum árangri varðandi það að knésetja harðstjórn Saddams Hussein eða knýja írösk stjórnvöld til að bæta framferði sitt. Írakar þverskallast enn við að veita fullnægjandi upplýsingar um kjarnorku- og eiturefnaumsvif sín. Afleiðingar viðskiptabannsins eru enn sem komið er ólýsanlegar hörmungar almennings, vöruskortur og hungursneyð, skortur á lyfjum og læknishjálp o.s.frv. Hið alþjóðlega samfélag getur ekki horft upp á slíkt ástand og enn síður borið ábyrgð á því með viðskiptabanni.
    Hvað Íslendinga varðar var ákvörðun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna um viðskiptabann fullgilt með auglýsingu frá utanríkisráðuneytinu. Sú sem nú er í gildi er dagsett 28. apríl 1992. Við berum því ábyrgð á þessu ástandi til jafns við aðra.
    Íslendingar eiga samkvæmt hefð sinni sem óvopnuð smáþjóð að leggja áherslu á friðsam legar aðgerðir og mannúðarstefnu í alþjóðastjórnmálum. Endurskoðun viðskiptabannsins á Írak og þessara mála í heild á alþjóðavettvangi er slíkt verkefni.

Fylgiskjal I.


Auglýsing nr. 160 1992, um ráðstafanir til að framfylgja


ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 661 (1990)


vegna innrásar Íraka í Kúvæt.


(Lögbirtingablaðið 29. júní 1994.)



    Samkvæmt 3. gr. laga nr. 5/1969, um framkvæmd fyrirmæla öryggisráðs Sameinuðu þjóð anna, hefur ríkisstjórnin ákveðið að beita ákvæðum laganna til að breyta ráðstöfunum sem ákveðnar voru í fyrirmælum, dags. 9. október 1990, sbr. auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda nr. 331/1990, til að framfylgja ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 661 (1990) frá 6. ágúst 1990 vegna innrásar Íraka í Kúvæt og setur hér með eftirfarandi fyrirmæli:
     1 .     Óheimilt er að flytja til Íslands vörur sem upprunnar eru í Írak og fluttar eru út þaðan eftir 6. ágúst 1990.
     2 .     Starfsemi íslenskra ríkisborgara, eða starfsemi sem fer fram á Íslandi, sem ætlað er að stuðla að útflutningi eða umfermingu vara frá Írak, er óheimil. Auk þess eru viðskipti ís lenskra ríkisborgara eða viðskipti, sem fara fram á Íslandi, með vörur, sem upprunnar eru í Írak og fluttar eru út þaðan eftir 6. ágúst 1990, óheimil, ásamt notkun íslenskra skipa í slíkum viðskiptum.
     3 .     Íslenskum ríkisborgurum er óheimilt að selja eða útvega aðilum í Írak vörur, eða selja eða útvega vörur í þágu fyrirtækis sem rekið er í Írak eða stjórnað er þaðan. Auk þess er óheimilt að selja eða útvega slíkar vörur frá Íslandi eða nota til þess íslensk skip. Starf semi íslenskra ríkisborgara eða starfsemi, er fer fram á Íslandi, sem ætlað er að stuðla að slíkri sölu eða útvegun, er enn fremur óheimil.
     4 .     Íslenskum ríkisborgurum og öðrum aðilum á Íslandi er óheimilt að útvega ríkisstjórn Íraks eða fyrirtækjum í Írak fjármuni eða veita þeim aðra fjárhagslega eða efnahagslega fyrirgreiðslu, eða inna af hendi greiðslur til annarra aðila í Írak.
     5 .     Undanþegin ákvæðum 3. tölul. hér að framan eru sjúkragögn og matvæli notuð í mannúðarskyni. Enn fremur eru undanþegnar ákvæðum 4. tölul. hér að framan greiðslur til sjúkrahjálpar, greiðslur í mannúðarskyni og matvæli notuð í mannúðarskyni.
    Hver sá, sem brýtur gegn ofangreindum fyrirmælum, skal sæta viðurlögum samkvæmt 2. gr. laga nr. 5/1969, nema þyngri viðurlög liggi við samkvæmt öðrum lögum.
    Auglýsing þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi auglýsing nr. 331/1990.

Utanríkisráðuneytið, 28. apríl 1992.



Jón Baldvin Hannibalsson.


Þorsteinn Ingólfsson.




Fylgiskjal II.


Jóhanna Kristjónsdóttir:

FYRRI GREIN



Heil kynslóð íraskra barna að þurrkast út


og þið virðist kæra ykkur kollótt.


(Morgunblaðið 14. maí 1995.)



    Börnin deyja eins og flugur í Írak — og það tekur enginn eftir því. Ég var í landinu nokkru eftir að Flóastríðinu lauk og var skelfingu lostin að horfa upp á þjáningarnar, skortinn og eyði legginguna. Svo var ég þar í síðasta mánuði og fannst að júní 1991 hefði bara verið brandari.

    Ahmed Hassan, yfirlæknir við barnasjúkrahúsið Al Aliya í Bagdad, fór með mér um nokkr ar stofur þótt mér væri ljóst að hann hefði öðru mikilvægara að sinna en mér. Hvarvetna horfði ég upp á fárra mánaða gömul börn berjast fyrir lífi sínu, sum voru að dauða komin. Þau deyja úr hörgulsjúkdómum, meltingarsjúkdómum, niðurgangssjúkdómum, sýkingum, öndunarsjúk dómum, lungnasjúkdómum. Sum sem þjást af meltingarsjúkdómum eru beinlínis að skrælna upp vegna þess að sjúkrahúsið fær ekki nema fáeina poka af vökva á hverjum degi. Það hrekk ur ekki langt til að reyna að vinna á móti vökvatapinu. „Ég tel að af 80 börnum hér núna eigi um helmingur lífsvon,“ sagði Hassan læknir.
    Ég nam staðar hjá örlitlu barni sem virtist varla meira en fjórar merkur, leit spyrjandi á Hassan. „Nei þessi er orðinn fjögurra mánaða og orðinn sex merkur, hann á eftir að pluma sig,“ sagði læknirinn og móðirin sem sat hjá barninu ljómaði af fögnuði.
    Það er óbærilegt að koma á spítalana, horfa á þessi hrjáðu, veiku börn, sum eins og gamal menni í framan; þótt þau lifi þá spyr maður sig hvort þau verði nokkurn tíma eðlilega heil brigð.

Heil kynslóð er að þurrkast út.
    Mér fannst óbærilega tilgerðarlegt að ganga þarna um með myndavél og hripa niður línur, smella myndum af veikum börnum og mynda þessar svartklæddu konur, mæðurnar sem sátu með steinrunnin andlit á rúminu hjá börnunum.
    Mörg barnanna eru fjórar merkur við fæðingu — ekki vegna þess að þau séu fyrirburar heldur af því að móðirin hefur verið meira eða minna vannærð á meðgöngutímanum. Seinna sagði Das Gupta, starfsmaður UNICEF í Bagdad, mér að vannæring væri nú að verða slík að í bráðri hættu mætti telja 2,5 millj. ófrískar konur og börn.
    Á Al Aliya sjúkrahúsinu er líka skortur á hitakössum svo að stundum gat að líta tvö eða þrjú börn, sum á stærð við fingur, saman í einum kassa.
    „Röntgentækin eru meira og minna í lamasessi svo að börnin eru dáin áður en við getum greint sjúkleikann — svo fremi hann liggur ekki í augum uppi. Það sama gildir um aðra spítala. Þó erum við betur sett en sumir aðrir, barnaspítalarnir eru látnir ganga fyrir með lyf og vökva poka. Það er ekki síst vökvapokar sem okkur vantar og stundum verðum við að skipta einum milli 2–3 barna.“
    „Það sem er að gerast hér má orða mjög stuttlega: Það er að þurrkast út heil kynslóð af íröskum börnum og menn virðast kæra sig kollótta,“ sagði hann og reyndi að sefa móður sem sat með dáið barn í fanginu og var ófáanleg til að láta hjúkrunarkonuna taka það.

Fólk yfir sextugt fær ekki inni á sjúkrahúsum.
    Ég fór seinna á 800 manna spítala í fátækrahverfinu Saddam City í Bagdad. Þar búa um milljón manns, kannski þó fleiri. Forstjórinn Nasser sagði mér að ástandið væri þannig að spít alinn tæki ekki lengur við sjúklingum eldri en 60 ára. „Það eru venjulega hjartaáföll, heilablóðfall eða nýrnasjúkdómar sem hrjá þetta fólk. Við höfum engin lyf og engin tæki í lagi til að hlynna að því. Það verður að deyja drottni sínum heima, stundum eftir miklar raunir. Fjöl skyldur tóku þessu illa fyrst, en nú er kominn svo mikill sljóleiki yfir fólk að það lætur sig þetta litlu skipta. Fólk deyr ekkert síður í heimahúsum og það sama á reyndar við um mörg börn líka. Samt reynum við með hjálp Írösku kvennasamtakanna að ýta undir að komið sé með þau. Svo að við getum að minnsta kosti reynt.“

Þið blaðamenn og ykkar skrif skiptið engu.
    Á barnadeildinni voru krakkarnir 2–8 ára og í loftinu þessi þögla, þrúgaða skelfing. Við eitt rúmið sat amman hjá sonarsyninum sem var fjögurra ára. Hann var útblásinn í andliti og á handleggjum. Hún benti mér að koma nær og vafði dulunum utan af neðri hluta líkamans, maginn belgdur, fæturnir tvöfaldir, kynfærin bólgin. Drengurinn var með hálflokuð augu og brjóstið gekk upp og niður.
    „Það var komið með hann fyrir nokkrum dögum, líklega er þetta sýking vegna mengaðs vatns eða af skemmdu mjöli. Við vitum það ekki enn því röntgentækin eru biluð og við eigum ekki von á varahlutum fyrr en eftir mánuð. Þessi drengur verður dáinn þá. Og margir, margir fleiri,“ sagði Nasser.
    Hann horfði reiðilega á mig og myndavélina mína. „Af hverju tekurðu ekki mynd af honum. Hann er náttúrlega ekki frýnilegur. En það skiptir engu máli hvort þið blaðamenn komið eða ekki. Ég hef gengið um með mörgum blaðamönnum og sumir hafa þurft að kasta upp eða brotnað niður. Væntanlega hafið þið skrifað um þetta eða hvað? En það hefur ekkert að segja.“
    Ég kastaði hvorki upp né brotnaði niður en ég tók ekki nema fáeinar myndir. Sama tilfinn ingin kom yfir mig og á barnaspítala dr. Hassans; það var svo mikið plat að svipta sér þarna inn eins og fín manneskja, með fylgdarmann frá ráðuneyti, úti beið bílstjórinn, hraðganga um stofurnar og svo var ég laus allra mála og gat bara farið. Ekki út í gleði borgarinnar, en altjent farið og eftir voru börn að þjást og deyja og svartklæddar starandi konur með kvöl í andlitinu.

400 börn á aldrinum 0–5 ára deyja á degi hverjum.
    Eftir því sem ég kemst næst eftir að hafa einnig blaðað í skýrslum frá UNICEF í Bagdad deyja að minnsta kosti 400 börn á aldrinum 0–5 ára á dag. Það eru 146 þúsund börn á þessum aldri á ári. Þetta gildir um þau börn sem er komið með á spítalana og má ætla að þessi tala sé nærri lagi. Tölur þær, sem ríkisstjórnin hefur birt, eru miklu hærri en þeim skyldi tekið með fyrirvara. Því ekki er skirrst við að nota barnadauðann í Írak sem tæki í áróðursstríðinu við umheiminn.

Hin þögla neyð.
    Das Gupta komst svo að orði að Írak væri „hin hljóða neyð“. „Þú sérð ekki börn hér með útblásna maga eins og í sumum hungursneyðum Afríkulanda. Því reynir fólk að gera
sem minnst úr þessum ótrúlegu hörmungum. Ástæðan fyrir því er sú að matarskömmtunarkerf ið, sem ríkisstjórnin kom á eftir stríðið, gerir ráð fyrir að fólk geti fengið að kaupa bráðnauð synlegustu matvæli á stórlega niðurgreiddu verði. Þetta hefur haldið hungurvofunni í skefjum. Þessi matarskammtur dugir fyrir um 70% af því sem talið er að fólk þurfi og þá er ég auðvitað að tala um lágmark. Og hvað segir þetta okkur svo: á þessum fimm árum er hægt og rólega verið að murka lífið úr þjóðinni því að í fimm ár hefur allan þorra fólks skort á hverjum degi 30% af því sem talið er að það þurfi til að lifa af. Fólk getur þolað slíka skömmtun í eitt ár án þess að bíða verulegt eða varanlegt heilsutjón, jafnvel í tvö eða þrjú, en nú eru senn liðin fimm ár og mig hryllir við hvað hér fer að gerast á allra næstu mánuðum ef svo heldur fram sem horfir.“
    Hann sagði að þeir sem hefðu skuldbundið sig til að leggja fram fé til UNICEF-hjálpar Íraks yrðu æ tregari til að reiða framlögin af hendi og ástandið hefði versnað mjög mikið síð asta árið.
    Sjálf tel ég ekki nokkurn vafa á því að sú tregða stafar ekki hvað síst af andstyggð vest rænna stjórnmálaforingja á Saddam Hussein — þrátt fyrir orð og yfirlýsingar um að saklausir borgarar eigi ekki að líða fyrir illsku hans.
    Því Írak er ríkt land, sannkallað gnægtaland, og ef efnahagsþvingunum Sameinuðu þjóð anna væri aflétt mundi lífið smátt og smátt verða eðlilegt á ný og fólkið — þrátt fyrir dauða og hörmungar — gæti öðlast von um framtíð og kannski blómstrað aftur.

Glas af vatni.
    Mánaðarlaun starfsmanns hjá ríkinu eru 6 dollarar á mánuði eða sem svarar um 380 krón um og fæstir hafa annað en skömmtunarseðlana og atvinnuleysi er gríðarlegt. Ég sá fólk betla á götum úti. Betl þykir ekki tiltökumál í mörgum íslömskum ríkjum. En að þessu leyti hafa Írakar um margt verið einstakir, stoltir með afbrigðum og ég hef aldrei nokkurn tíma séð þá betla fyrr.
    Ef Íraki hefur hug á að fara til Jórdaníu eða Jemen sem eru einu ríkin sem hleypa þeim inn um stundarsakir verður hver að reiða fram 350 dollara. Þessi upphæð hafði verið 175 dollarar en var hækkuð þennan tíma sem ég var í landinu.
    Það þarf engan að undra þótt Bagdad sé reið borg, skítug og svo ólýsanlega hrygg. „Við erum að verða eins og dýr, við hugsum bara um að ná okkur í mat. Áður fyrr lásum við bækur, ortum ljóð og máluðum myndir. Þetta er liðin tíð. Hvernig ættum við að hafa hugann við ann að en það að kíló af hrísgrjónum kostar mánaðarlaun og mjólkurduftspakki kostar sexföld mánaðarlaun.“
    Þetta sagði Karim, kunningi úr fyrri Íraksferðum. Hann vinnur í upplýsingaráðuneytinu. Hann bauð mér heim til sín og kona hans bar fram góðgjörðir: eitt glas af köldu vatni.
    Karim drakk vatnið og leit svo á mig, hálfafsakandi: „Ég er vanari vatninu hérna, það gæti verið hættulegt fyrir þig.“
    Mér skilst að vatnshreinsistöðvar í landinu afkasti um það bil 50% af því sem var fyrir Flóastríðið.
    Þegar ég var gestur þeirra hjóna fyrir fjórum árum eftir að efnahagsþvinganir höfðu verið í gildi í eitt ár svignuðu borðin á notalegu heimili þeirra undan kræsingunum. Nú var snaut legra um að litast, teppi, myndir og alls konar „óþarfa dótarí“, eins og Karim orðaði það, hefur verið selt fyrir mat. „Það gekk vel að selja fyrst, nú eru bara varla nokkrir nema fáeinir útlendingar sem hafa efni á að kaupa neitt.“
    Að upplagi eru Írakar mestu höfðingjar heim að sækja allra Araba. Þessi „veisla“ hjá Karim nú segir æði mikla sögu þeim sem þekkja arabíska gestrisni.
    Þau áttu von á frænku Karims frá Amman í vikunni á eftir og vonuðu að hún kæmi með brauð og mjólkurduft. Hann sagðist þó hreint ekki vera svo illa settur. Hann vinnur í þessu ráðuneyti sem sér um erlenda blaðamenn og á því möguleika á að útvega sér dollara sem hann getur komið í verð.

Saddam við hvert fótmál.
    Þrátt fyrir allar efnahagsþrengingar hafa Írakar gert eða endurreist allar brýrnar yfir Tígris sem rennur gegnum Bagdad. Og meira að segja byggt eina splunkunýja á tveimur hæðum. Þar af leiðir að nú er á ný harðbannað að mynda þessar brýr, þær flokkast undir hernaðarmann virki. Við hvorn brúarsporðinn er stytta af Saddam Hussein forseta þar sem hann réttir út höndina, föðurlegur og ábyrgur.
    Þeir hafa reist Saddam-turn, gríðarlega voldugan, sem er miðstöð fjarskipta. Það er líka harðbannað að mynda og dugir ekki að veifa dollurum framan í fylgdarmanninn. Ný málverk eða dýrðlegar mósaíkmyndir af Saddam sem voru ærin fyrir hafa sprottið upp og eru við hvert fótmál, hann í alls konar hlutverkum en umfram allt landsföðurlegur og mildur. Það er svona allt að því ógerningur að snúa sér í hring án þess að sjá forsetann að minnsta kosti tvisvar á leiðinni.
    Og meðan ég var í Bagdad var birt tilkynning í blöðunum: á afmælisdegi hins elskaða leið toga 28. apríl skyldi hafist handa við að reisa tvær moskur og sagt að önnur þeirra, Mikla moska, yrði sú næststærsta í öllum Miðausturlöndum.

Hér er ekkert að gerast — bara börn að deyja.
    Það eru fáir erlendir blaðamenn í Bagdad þessa dagana. „Ég er að verða vitlaus úr leiðindum. Það er ekkert að gerast hér — bara börn að deyja, það er engin frétt í því,“ sagði fréttamaður AP sem er ein fárra fréttastofa sem hafa mann að staðaldri í Írak.
    Hann sagði að nokkru fyrr hefðu erlendir blaðamenn flykkst til landsins þegar Írakar hand tóku tvo Bandaríkjamenn sem fóru í óleyfi yfir landamærin frá Kúveit. Sumir bjuggust við að Saddam Hussein mundi nota þetta mál sér til framdráttar og láta þá fá væga dóma. Að svo stöddu benti ekkert til þess, kunngert hafði verið um átta ára fangelsi yfir þeim og þegar ekkert gerðist næstu daga pökkuðu flestir saman og fóru.
    En það er óhætt að segja að þeir erlendu blaðamenn sem eru hér þurfi að greiða háu verði þá þjónustu sem þeir fá og auðvitað allt í dollurum. Það þarf að múta háum sem lágum ef mað ur á að fá leyfi fyrir því sem annars staðar teldist algert smámál. Fylgst er með blaðamönnum svona allt að því allan sólarhringinn og maður verður að vera yfirmáta klókur eða þekkja vel til í Bagdad til að geta hitt fólk sem ráðuneytið vill ekki að maður hitti.

Beiskja í garð Kúrda.
    Á Vesturlöndum eiga ýmsir erfitt með að skilja hvers vegna Írakar afþökkuðu nýverið „tilboð“ sem Sameinuðu þjóðirnar gerðu þeim þar sem átti að leyfa þeim að selja olíu fyrir millj arð á þriggja mánaða fresti til að geta keypt lyf og mjólkurduft. Þetta gæti virst einfalt en er ögn flóknara.
    Af þessum milljarði dollara yrðu Írakar að greiða til Kúveita um 300 milljónir dollara í stríðsskaðabætur og að minnsta kosti 150 milljónir til Kúrda í norðurhlutanum sem ekkert samband er við nú.
    „Því er þetta „boð“ ekki annað en ein auðmýkingin enn. Það er sannarlega ekki eins höfðinglegt og það virðist hljóma í vestrænum eyrum. Það er ekkert annað en afskipti af íröskum innanríkismálum og brot gegn fullvalda ríki og gróf móðgun,“ sagði Sahti Mehti Saleh, forseti íraska þingsins, við mig.
    Mér fannst ekki laust við að fólk almennt hefði þessa skoðun. Menn bentu iðulega á að „fyrir þvingunina“, eins og þeir kalla það, hafi Írak verið eitt mesta olíuveldi heims. „Við þolum ekki þessa hrokafullu góðvild Kananna,“ sögðu ýmsir.
    Það var einnig fróðlegt að heyra hvað menn, háir sem lágir, höfðu að segja um innrás tyrk neska hersins á svæði Kúrda í Norður-Írak.
    Kamal Hossain, yfirmaður blaðamannamiðstöðvarinnar skóf ekki utan af því „Okkur er hjartanlega sama hvað Tyrkir gera við Kúrdana. Við hvorki hugsum um það né tölum um það því það kemur okkur ekki við. Kúrdar sviku okkur þrátt fyrir að við hefðum veitt þeim sjálfs stjórn, virtum trú þeirra og leyfðum að tungumálið þeirra væri kennt í skólum sem er meira en hægt er að segja um aðrar þjóðir sem hafa Kúrda innan sinna landamæra. En Kúrdarnir stukku í fangið á Ameríkönum og nú kæra Ameríkanar sig kollótta hvort Tyrkir drepa þá.“
    Og víst er að ég fann beiskju í garð Kúrda víða. Satt að segja er æði langt síðan ég komst sjálf að þeirri niðurstöðu að það væri sannleiksvottur í því að Kúrdar í Írak hefðu notið að mörgu leyti betra lífs og meira frelsis en Kúrdar í Íran, Sýrlandi, að ekki sé nú minnst á hið vestræna ríki Tyrkland. Þó má ekki skilja orð mín svo að ég sé að gera lítið úr eitursprengju árásum á kúrdíska bæi fyrir nokkrum árum þar sem mikill fjöldi manna lét lífið. Írakar hafa að sönnu aldrei gengist við þessum verknaði og segja að erkióvinurinn Íran hafi staðið að þessu til að sverta Íraka, þeir hafi málað flugvélar sínar í íröskum litum og dengt eitri yfir sak laust fólk.
    Háttsettir menn ýmsir sögðu að lausnin væri í rauninni fjarska einföld. Það ætti að skila norðurhlutanum á ný til lögmætra stjórnvalda í Bagdad og þar með mundi stöðugleiki og ör yggi á ný ríkja í þessum héruðum. Ég gef ekki mikið fyrir það. En auðvitað vita allir að Kúrdar virðast ekki geta komið sér saman um sín mál og endalaus barátta þeirra innbyrðis síðan þeir fengu norðurhluta Íraks, einkum milli sveita tveggja forustumanna, hefur veikt málstað þeirra mjög alvarlega.

Leitað að Hameed Saeed.
    Þegar ég kom til Íraks hið fyrsta sinn haustið 1988, skömmu eftir að stríðinu milli Íraks og Írans lauk, kynntist ég skáldinu Hameed Saeed. Mér var beint á hans fund þegar ég bað um að hitta íraskan rithöfund. Hann var þá einnig ritstjóri Al-Thawra, stærsta blaðs Íraks. Með okkur tókust góð kynni.
    Seinna átti hann án efa drjúgan þátt í að lausn fannst á máli íslensks læknis þegar Írakar héldu vestrænum gíslum haustið 1990. Við höfðum hist síðast þegar ég kom eftir stríðið. Síðan hafði ég fregnað það eitt að hann væri hættur sem ritstjóri og enginn vissi hvar hann var. Opin bera skýringin var að hann væri að yrkja ljóð í heimabæ sínum, Hilla. Bréf, sem ég sendi hon um, voru endursend, merkt „viðtakandi óþekktur“.
    Það var hvíslað að hann hefði kannski verið líflátinn. Kannski væri hann í fangelsi. Kannski bara eitthvað annað. Ég var staðráðin í að fara ekki frá Írak fyrr en ég vissi hvað hefði orðið af honum. Því hóf ég nú leit að Hameed Saeed.





SEINNI GREIN



Við erum að rotna sem manneskjur.


(Morgunblaðið 21. maí 1995.)



    Fyrir fáeinum árum var staða konunnar í Írak betri en gekk og gerðist í arabalöndum. Fyrir Flóastríðið voru til dæmis stúlkur í framhaldsskólum og háskólanámi fleiri en piltar. Konur unnu hvers kyns störf í samfélaginu og áhersla var lögð á að jafna laun karla og kvenna.
    Nú er allt með öðrum brag. Efnahagsþvinganir Sameinuðu þjóðanna — sem settar voru upphaflega eftir að Írakar gerðu innrásina í Kúveit og hernámu landið í ágúst 1990 — hafa víðtæk og skelfileg áhrif á allt þjóðfélagið. Lyf og matvæli skortir og börn hrynja niður. „En það er fleira að gerast, við erum að rotna innan frá. Konan — og raunar karlinn ekki heldur — hefur hvorki orku né tök á því að leggja rækt við sjálfa sig, hún má hafa sig alla við ef hún á að geta sinnt fjölskyldu sinni. Hún fær enga örvun til eins né neins því hugurinn er bundinn við að búa til einhvers konar naglasúpu úr engu, reyna að láta skömmtunarkortin hrökkva, bæta og staga í föt sín og sinna. Tilfellið er að íraskir karlar sættu sig bærilega við að konur ynnu utan heim ilis og stæðu þeim jafnfætis í launum. Öllu þessu ástandi nú fylgir mikið álag á heimilin sem aftur smitar út í þjóðfélagið. Það er hættulegt svo ekki sé dýpra í árinni tekið.“

Konur vildu halda sínum hlut eftir Íran-Írakstríðið.
    Þetta sagði Fadhela Humaidi, sem er í framkvæmdastjórn Írösku kvennasamtakanna, þegar við hittumst á skrifstofu hennar í Bagdad. Hún sagði að verksvið samtakanna hefði breyst þessi fimm ár. „Við vorum komnar vel á veg, leiðbeiningar- og fræðslustarf var mikilvægur þáttur í starfinu. En ekki síður að veita konum hvers kyns hvatningu og andlega örvun. Sjá til þess að þær nytu sín. Sjadorinn — svarti kuflinn — var allt að því óþekkt fyrirbæri hér í Bagdad nema hjá þeim efnaminnstu. Menntun var komin á mjög hátt stig. Konur gegndu mikilvægu hlutverki meðan Íran-Írakstríðið stóð yfir; ég staðhæfi að þær hafi beinlínis haldið þjóðfélag inu gangandi. Þær voru staðráðnar í að halda sinni stöðu og karlar voru yfirleitt sáttir við það og virtu sjónarmið þeirra. Ástæðan fyrir því að varla sést nú kona nema í sjador er ekki að við eigum að klæðast honum af trúarlegum ástæðum; með honum reyna konur að fela hvað þær eru fátæklega til fara. En auðvitað skiptir klæðnaðurinn ekki öllu máli. Það sem er ekki síður alvarlegt er að börn, einkum telpur, detta út úr skólunum og hætta að læra. Þær eru látnar hjálpa til heima, heimilisstörf, og vinna við þau hefur færst aftur um marga áratugi og einnig er móðirin svo þreklítil af langvarandi næringarskorti að hún á fullt í fangi með heimilisstörf in. Það er reynt að búa til eitthvert glingur og krakkarnir eru send með það út á götur til að selja frekar en fara í skólann. Það er varla hægt að lá þeim það þegar ekkert er til matarkyns á heimilinu. Oft eru þær sendar út að betla.“

Það líður stundum yfir telpurnar af hungri.
    Einn morgun fór ég með frú Asmaai frá kvennasamtökunum í telpnaskóla fyrir 6–12 ára í Bagdad. Fólk í þessu hverfi var áður mjög þokkalega sett efnalega. Fardos Rahman skóla stjóri tók á móti mér. Hún sagði að ekki hefði borið mjög mikið á því að stelpurnar hættu að mæta. „Það kemur æ oftar fyrir að telpur koma í skólann án þess að hafa fengið morgunverð og hafa ekkert nesti heldur. Það sem verra er, þær vita ekki hvort þær fá að borða um kvöldið nema kannski einhverja brauðmola og súpugutl. Einnig er farið að bera á því síðustu vikur og mánuði að stúlkur hafa liðið út af, þær eru orðnar svo þróttlitlar.
Við höfum þungar áhyggjur, en getum lítið gert,“ sagði hún, enda er ekkert mötuneyti í skól anum. Með hjálp samtakanna væri reynt að hafa matargjafir til þeirra barna sem kennarar vissu að byggju hvað bágast. Hún sagði að margar telpurnar væru vannærðar og gengi illa að einbeita sér við námið. „Við höfum lítið sem ekkert getað endurnýjað skólabækur og við verðum að notast við gamlar og stundum úreltar bækur. Við erum með naumt af öllum kennslu gögnum og skömmtum alla blýanta og stílabækur.“

Lengi lifi okkar mikli leiðtogi.
    Hún bauð mér að ganga með sér inn í bekkjardeildirnar. Þegar við stigum inn í þá fyrstu hrökk ég í kút þegar sex ára stelpur stukku á fætur, réttu fram hægri höndina og hrópuðu há stöfum: „Lengi lifi hinn mikli leiðtogi okkar og elskaði forseti, Saddam Hussein.“ Þessu mátti venjast en svo brá við þegar við komum í tvo elstu bekkina og það hafði spurst út að útlend blaðakona væri stödd í skólanum að stúlkurnar réttu ekki upp höndina heldur sögðu hátt og snjallt á ensku: „Vertu velkomin, frú.“
    Fardos hefur stýrt þessum skóla í 30 ár og þegar við settumst inn á skrifstofuna hennar sagði hún í afsökunartón að ég mætti ekki skilja þetta svo að þessar stúlkur virtu ekki leiðtog ann: kennararnir hefðu greinilega viljað láta mig heyra að telpurnar væru vel að sér í ensku. Hún horfði á mig brosandi en ég uppgötvaði að hún var hrædd — hrædd um að Asmaai, fulltrúi kvennasamtakanna, mundi klaga hana. Hræðsla hennar var þykk í loftinu um stund, en ég full vissaði hana um að mér væri ljós hollusta stúlknanna og hefði hlýnað um hjartaræturnar að heyra þessa kveðju til mín. „Það er bara svo ekkert verði misskilið,“ sagði hún og horfði á frú Asmaai þegar við kvöddumst. Ég lá ekki á því við Asmaai þegar við vorum komnar inn í bíl inn að þessi kveðja hefði glatt mig og hvað Fardos væri fínn skólastjóri. Hún féllst á það með kurteislegum semingi.

Dínarinn jafnvirði 10 aura.
    Fyrir nokkrum árum voru 3 dollarar í einum íröskum dínar. Nú er 1 dollar sama og 600 dín arar á opinbera genginu og 1.200 á svarta markaðnum sem lengi hefur þrifist. Hótað er hörðum viðurlögum og jafnvel fangelsi ef menn selji dollara á svörtu. En það breytir því ekki að allir reyna hafi þeir nokkur tök á að komast yfir dollara.
    Ég tók þá áhættu að biðja Hiyad, bílstjóra minn — eftir að hann hafði sagt mér að hann væri Palestínumaður — að skipta 100 dollurum ólöglega og fékk 120 þúsund dínara fyrir, alla upphæðina í 100 dínara seðlum og lá við borð að ég þyrfti að kaupa mér nýja tösku fyrir vikið. Það hefði dugað að skipta 50 dollurum og reyndist þrautin þyngri að koma þessum 120 þúsund dínörum í lóg. Þar sem ég var útlendingur var ætlast til þess hvar sem ég fór að ég borgaði í dollurum og það var allt að því ógerningur að nota íraska dínara sem mútur.

Moskurnar í Karbala endurreistar fyrir Saddam-gull.
    Ég fékk leyfi til að fara til hinnar helgu borgar shita-múslima, Karbala, sem er 100 km suð ur af Bagdad. Þar gerðu shitar blóðuga uppreisn gegn stjórninni fáum vikum eftir að Flóastríð inu lauk. Stjórnarhernum tókst loks að brjóta uppreisnina á bak aftur, fjöldi manna lá í valnum og stórir borgarhlutar voru rjúkandi rústir. Tvær helgustu moskurnar voru sundurskotnar og útmálaðar í slagorðum gegn Saddam Hussein.
    Hluti Karbala er enn í rúst en moskurnar hafa verið fagurlega endurbyggðar. „Hinn mikli leiðtogi sendi okkur persónulega tonn af gulli svo að við gætum endurreist dýrð þeirra,“ sagði borgarstjórinn við mig.
    Karbala er sem sagt enn í rúst en samt er þetta túristastaðurinn í Írak nú. Þangað streyma shitapílagrímar frá Indlandi, Pakistan og Írak sjálfu til að biðjast fyrir. Þeir búa á hrörlegum gistiheimilum en flestir þó í tjöldum og virðast ekki láta það á sig fá.
    Það var veitt leyfi til að ég fengi að fara inn í moskurnar ef ég sveipaði mig sjador. Það er heldur sjaldgæft að sá sem er ekki múhameðstrúarmaður fái að fara inn í mosku. En rétt og skylt er að taka fram að það er aðalsmerki Íraka — og skal þá meðtalinn Saddam Hussein — að þeir eru víðsýnir í trúmálum. Hvort menn eru kristnir, shitar, eða súnnar skiptir ekki máli og ég minnist þess ekki að hafa heyrt dæmi þess að menn séu ofsóttir fyrir trú sína. Og eins og margir vita er Tarik Aziz kristinn, sá maður sem hvað þekktastur er og af mörgum virtur á alþjóðavettvangi.
    Inni var fjöldi manns að snerta helga dóma og biðjast fyrir af innileik. Ég horfði í kringum mig og undraðist að þetta skyldi vera sama moskan og ég kom að rjúkandi rúst fyrir fjórum árum.
    Það mæltist ekki vel fyrir hjá ráðuneytismönnum frá Karbala sem höfðu bæst í hópinn að ég tæki myndir af rústunum við moskurnar. „Þetta gefur ekki rétta mynd af uppbyggingunni. Við höfum í hyggju að reisa hótel og verslunarmiðstöðvar hérna,“ sögðu þeir hreyknir þegar við komum út úr dýrðinni í óhrjálegt umhverfið.
    Ég hef minnst á það hvað allir eru reiðir. Reiðir vegna þess ástands sem er. En þessi reiði — þrátt fyrir að einhverjir spyrji lágum rómi hvers vegna eigi að byggja moskur fyrir tugmilljónir eða meira þegar lífsnauðsynleg lyf eru ekki til — þessi reiði beinist ekki að Saddam Hussein heldur að Flóaaröbum og Bandaríkjamönnum.
    Þegar gengið er inn í Al Rasheed hótelið verður maður að stíga á ljóta mósaíkmynd af „stríðsglæpamanninum Georg Bush“. En mér finnst ekki gæta útlendingaandúðar í Bagdad. Viðmótið er jafn hlýtt og vinalegt, forvitnin um hvaðan maður sé — og kannski gæti ég verið aflögufær um fáeina dollara.

Komast öfgatrúarmenn til áhrifa í Írak?
    Síðustu mánuði hafa menn velt fyrir sér hvort ástandið í Írak gæti leitt til að öfgatrúar mönnum yxi fiskur um hrygg. Þeir sem ég spurði aftóku það. Ef svo fer yrði Írak, sem áður var eitt þróaðasta ríki arabaheimsins, næst til þess að verða gleypt af heittrúarmönnum með þeim ömurlegu afleiðingum sem það hefur haft annars staðar.
    Sumir telja að Saddam muni — ef til þessa kemur — bregðast við með því að virkja öfgatrúarmennina til hollustu við sig þótt forsetinn sé ekki talinn trúaður maður. Þótt þetta hljómi fá ránlega er rétt að hafa í huga að það hefur oftar en ekki verið erfitt að reikna rök og skynsemi inn í orð og gerðir forsetans.

Allir kostir okkar og hæfileikar eru að hverfa út í buskann.
    „Við erum að breytast, Írakar, hæfileikar okkar og kostir eru að hverfa út í buskann og gildismat okkar hefur brenglast. Glæpatíðni, sem var mjög lág, er að verða stórmikið vandamál og Bagdad er hættuleg borg nú. Við hugsum með eftirsjá til þeirra dáyndistíma þegar stríðið geisaði milli Írans og Íraks. Við vorum auðvitað oft hrædd. Margir misstu eiginmenn, syni og feður. En við höfðum nógan mat og að sumu leyti gekk lífið sinn vanagang. Og við nutum vel vilja og samúðar umheimsins. Nú erum við úrhrök sem allir forðast að hafa samneyti við. Og það skrítna við þetta allt saman er að þjáningarnar hafa leitt til þess að margt fólk elskar Saddam Hussein forseta enn meira. Finnst hann vera ranglega ofsóttur og við sem þjóð niður lægð. Við lítum ekki svo á að hann eigi sök á þessu ástandi, heldur er þetta allt Bandaríkja mönnum og gullfurstunum við Flóann . . .
    Þetta sagði Amal Murad, kunningjakona sem rekur teppaverslun. Ég komst til að hitta hana þegar Hiyad bílstjóra seinkaði úr hádegisverði og tók leigubíl til hennar. Amal hafði áður mik il umsvif, var forrík og gift lækni með há laun. Nú selur hún stöku sinnum eitt og eitt teppi, kannski á 50 dollara, sem í eðlilegu ástandi kosta tífalt meira. Ég held að orð hennar bergmáli rödd meiri hluta íbúa Bagdad. Írak er óskapleg þversögn. Og það er íraska þjóðin ekki síður nú um stundir.

Grennslast fyrir um Hameed.
    Ég minntist á vin minn, skáldið og ritstjórann Hameed Saeed, í fyrri grein. Hann er þekktur utan Íraks og var í allmörg ár forseti arabíska rithöfundasambandsins. Hann sat í byltingarráð inu og var náinn samstarfsmaður Saddams Hussein er hann gegndi um árabil ritstjórastarfi á Al-Thawra, langstærsta dagblaðinu. Við kynntumst í fyrstu för minni fyrir sjö árum og hitt umst alltaf þegar ég kom til Íraks.
    Skömmu eftir Flóastríðið skrifaði hann leiðara þar sem hann ýjaði að því að íraskir fjölmiðlar ættu að fá meira frelsi. Þetta sætti tíðindum því að ritfrelsi var ekkert og flestir héldu að þetta væri skrifað með vitund og vilja forsetans.
    En þess í stað hvarf Hameed Saeed og enginn virtist vita hvar hann var niðurkominn. Nýr ritstjóri settist í stólinn hans, vel ættaður maður, Uday Saddamsson.
    Ég leitaði m.a. upplýsinga hjá June, samferðakonu minni til Bagdad, sem var að heimsækja bræður sína. Ég fékk Hiyad bílstjóra til að keyra mig heim til þeirra og hann hét að segja ekki frá því í blaðamannamiðstöðinni. Ég vissi auðvitað ekki hvort ég gæti treyst honum.
    Bróðir June sagði mér að fyrst eftir að Hameed Saeed hvarf hefði verið talið að hann hefði verið líflátinn. Öruggt væri að hann hefði a.m.k. um tíma verið í fangelsi. En honum hafði sést bregða fyrir og menn hölluðust að því hann væri í stofufangelsi í Bagdad og hefði mjög tak markað ferðafrelsi.
    Ég gætti þess að vita ekkert um þetta og óskaði glaðlega eftir því að fá að hitta hann. Herra Hossain í blaðamannamiðstöðinni gaf lítið út á það. Þegar ég vildi svör var mér sagt að þeir myndu ekki símanúmerið hans. Síðan að hann væri ekki í Bagdad, heldur í heimabæ sínum, Hilla, önnum kafinn við að yrkja ljóð. „Þá fer ég bara til Hilla,“ sagði ég hin kátasta. Þá var hann allt í einu í Bagdad. Einn daginn var hann lasinn, þann næsta óskaplega upptekinn við vinnu á skrifstofu sinni. Þeir sögðust hafa náð í hann og hann bæði að heilsa, því miður hefði hann ekki tíma til að hitta mig.
    Ég lét mér ekki segjast og bað um símanúmerið á skrifstofunni en þeir voru búnir að týna því. Þeir sögðust ekki hafa talað sjálfir við Hameed, einhver hafði hringt fyrir þá. Þeir voru búnir að gleyma hvað sá náungi hét. Þeir höfðu ekki hugmynd um hvar skrifstofan hans var.
    „Þetta nær ekki nokkurri átt,“ sagði ég við Hossain. „Þið getið ekki verið að eyða ykkar tíma í þetta. Ég hringi bara í Saleh þingforseta, kunningja minn. Ég hef símanúmerið hans heima á hóteli.“
    Og þá fylltist Hossain örvæntingu og bað mig að bíða aðeins. Starfsmennirnir, sem sátu iðjulausir daginn út og daginn inn af því það eru svo fáir erlendir blaðamenn til að fylgjast með, fylltust líka örvæntingu. Það var hlaupið í alla síma og hringt út um allar trissur.
    Loks kallaði Hossain mig inn á einkaskrifstofu sína. Horfði á mig, ásakandi og mæddur í senn. „Þú veist að þú hefur ekki leyfi til að hringja í þingforsetann. Þú veist að allt svona á að fara um okkar hendur. Það er ekki vinnandi vegur að finna Hameed Saeed, hann er svo afskap lega upptekinn. En hann bað nú að heilsa. Er það ekki fínt.“
    Ég hafði í fórum mínum gamalt símanúmer á skrifstofu Saddams Husseins sem ég gróf upp þegar ég var hér í fyrsta skipti. Auðvitað var eins víst að búið væri að skipta um númer eftir að höllin hans var sprengd í tætlur í stríðinu. En það mátti nú samt reyna það með öðru. Ég hallaði mér yfir skrifborðið. „Þið vitið ég er að fara í fyrramálið. Þið bannið mér náttúrlega ekki að hringja það sem ég vil. Ég er líka með símanúmer forsetans heima á hóteli. Nú fer ég og skrifa nokkur póstkort. Ég er tilbúin að hitta Hameed Saeed klukkan 6. Eftir það hringi ég í þingforsetann, kunningja minn og á forsetaskrifstofuna.“ Ég rétti honum höndina í kveðju skyni, hann flýtti sér að stinga 100 dollara seðlinum á sig.
    Og hókus-pókus. Klukkan hálfsex hringdi Hossain á hótelið. „Hameed Saeed kemur að hitta þig í blaðamannamiðstöðinni klukkan 6. Hann getur talað við þig í tíu mínútur.“

Hann er hættur að reykja og skrifa.
    Hann mætti á mínútunni, fjórir óeinkennisklæddir og kæruleysislegir menn fylgdu honum en biðu úti. Við vorum drifin inn í skrifstofu Hossains og maður sem ég hafði ekki séð fyrr sagðist ætla að túlka.
    Hameed var snyrtilega klæddur að venju. Hann hafði horast og virkaði óstyrkur en ekki óöruggur. Og ég áttaði mig strax á því að hann hafði ekki haft hugmynd um að ég væri í Bagdad.
    Við vissum áreiðanlega bæði að við urðum að gæta okkar. Svo við notuðum góðan tíma til að skiptast á skilmerkilegum upplýsingum um líðan fjölskyldna okkar. Hann hafði sagt mér að í stríðinu hefði hann skrifað 23 ljóðabréf til vina við kertaljós meðan sprengjurnar féllu á Bagdad. Ég spurði hvort bókin væri komin út. Hann brosti dauflega og hristi höfuðið. Hvort hann saknaði aldrei blaðamennskunnar. Jú, það kom fyrir, sagði hann.
    Ég dirfðist að spyrja túlkinn hvort við gætum ekki fengið te. Meðan hann fór að skipa fyrir bauð ég Hameed sígarettu. Hann reykti áður eins og skorsteinn. Hann hristi höfuðið og sagði fljótmæltur: „Ég er hættur að reykja — og að skrifa.“
    Þegar túlkurinn kom aftur spurði ég Hameed hvað hann væri að fást við. Hann sagðist vinna að sérstökum verkefnum fyrir stjórnina. „Við förum ekki nánar út í það,“ sagði túlkurinn.
    Þegar við höfðum drukkið teið sagði túlkurinn að tíminn væri liðinn, nú yrði hinn önnum kafni maður að fara. Það hefði verið talað um tíu mínútur. „Ég hef nógan tíma,“ sagði Hameed rólega en ákveðið á ensku. „Ég hef yfrið nógan tíma og hún er vinur minn.“
    Þegar við fylgdumst að fram í almenninginn og ég rétti honum höndina dró hann mig að sér, kyssti mig þrisvar sinnum á kinnar og hvíslaði: „Viltu líka hafa samband við mig næst.“
    Fréttamaður frá CNN kom hlaupandi: „Heyrðu, var þessi náungi ekki ritstjóri Al-Thawra? Við höfum reynt að hafa upp á honum í marga mánuði og svo er hann allt í einu hér og kyssir þig fyrir framan alla. Hvert fór hann — við verðum að fá viðtal við hann.“
    Hann hljóp út með myndatökumann á hælunum. Ég fór í humátt á eftir. Mennirnir fjórir sáust hvergi. Og Hameed Saeed var horfinn inn í myrkrið.