Ferill 6. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995. – 1064 ár frá stofnun Alþingis.
119. löggjafarþing. – 6 . mál.


45. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á áfengislögum, nr. 82 2. júlí 1969, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta allsherjarnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á fund til sín Ólaf W. Stefánsson og Högna S. Kristjánsson frá dómsmálaráðuneyti, Indriða H. Þorláksson og Jón Guðmundsson frá fjármála ráðuneyti, Snorra Olsen, ríkisskattstjóra og formann þeirrar nefndar sem samdi frumvarpið, og Jón Sigurðsson, Kristján Andrésson og Stefán Valdimarsson víneftirlitsmenn. Þá bárust nefndinni umsagnir um málið frá lögreglustjóranum í Reykjavík, Verslunarráði Íslands, Kaup mannasamtökum Íslands, starfsmönnum ÁTVR, BSRB, Samtökum iðnaðarins, ÁTVR, ríkis skattstjóra, Kvenfélagasambandi Íslands og áfengisvarnaráði. Nefndin fékk einnig umsagnir frá meiri og minni hluta heilbrigðis- og trygginganefndar um málið og eru þær umsagnir birtar sem fylgiskjal með áliti þessu.
    Með lagafrumvarpi þessu ásamt þeim breytingum sem lagðar eru til í frumvarpi sem efna hags- og viðskiptanefnd hefur til umfjöllunar um breytingu á lögum nr. 63/1969, um verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf, er lagt til að einkaréttur ríkisins á innflutningi og heildsölu áfengis verði afnuminn. Fyrir efnahags- og viðskiptanefnd liggur einnig frumvarp til laga um gjald af áfengi sem gerir ráð fyrir að tekjur ríkisins af áfengissölu verði framvegis í formi skatts af innflutningi og framleiðslu á áfengum drykkjum í stað þess að fá tekjurnar sem hagn að af starfsemi einkasöluaðila. Þá er í því frumvarpi, sem hér er til umfjöllunar, gert ráð fyrir nokkrum breytingum á áfengislögunum sem ekki tengjast sérstaklega afnámi einkaréttarins. Má þar helst nefna breytingu á ákvæði um upptöku sérhæfðra eimingartækja og að sérákvæði um vinnuskyldu samfara afplánun sekta vegna brota á lögunum falli brott, enda er nú almennt ákvæði um vinnuskyldu fanga í lögum nr. 48/1988, um fangelsi og fangavist.
    Með hliðsjón af því sem fram kemur í umsögn meiri hluta heilbrigðis- og trygginganefndar telur nefndin ástæðu til að gera nokkrar breytingar á frumvarpinu sem gerð er grein fyrir á sér stöku þingskjali. Breytingarnar fela í sér:
     1.     Í 2. tölul. b-liðar 5. gr. frumvarpsins er gerður greinarmunur á innflytjendum áfengra drykkja og þeim sem hafa leyfi til að endurselja áfengi í heildsölu samkvæmt lögunum um verslun með áfengi og tóbak (nú um verslun með áfengi, tóbak og lyf). Þá er bætt við að innflytjandi áfengis hafi heimild til að selja áfengi til umræddra heildsala. Jafnframt snýr 3. tölul. nú eingöngu að framleiðendum áfengis og er m.a. tekið fram að þeir geti selt til heildsala skv. 2. tölul. Þá þykir nauðsynlegt að fram komi að þeir aðilar, sem um ræðir í 2. og 3. tölul., hafi heimild til að selja áfengi úr landi.
     2.     Lögreglunni verði gert að gefa sérstakar gætur að starfsemi innflytjenda áfengis sem leyfi hafa til heildsölu, framleiðenda áfengra drykkja og þeirra sem hafa leyfi til að endurselja áfengi í heildsölu sem og að gefa gætur að þeim sem fá leyfi til áfengisveitinga í einstök skipti af sérstöku tilefni, svokölluð „tækifærisvínveitingaleyfi“. Þannig á að vera tryggt að sambærilegt eftirlit verði haft með þeim nýju aðilum sem nú fá leyfi til að dreifa áfengi og hingað til hefur verið haft með veitingahúsum. Jafnframt er lagt til að skatt stjórum verði gert skylt að láta lögreglustjórum í té skrá yfir þá aðila sem eru gjaldskyldir skv. 1. mgr. 2. gr. laga um gjald af áfengi. Sú skrá hefur að geyma upplýsingar um alla aðila sem flytja áfengi til landsins og er því mikilvægt fyrir lögreglu að hafa aðgang að henni í sambandi við þau auknu eftirlitsstörf sem henni verða falin eftir að áfengislögun um hefur verið breytt á þann hátt sem hér er gert ráð fyrir.
     3.     Inn í áfengislögin verði tekin reglugerðarákvæði um áfengisauglýsingar sem gilt hafa um alllangt skeið, auk þess sem þau ákvæði verði gerð skýrari en hingað til. Lögreglustjórar víðs vegar um landið hafa til þessa talið erfitt að hafa eftirlit með banni við áfengisaug lýsingum. Þá hafa nýlega fallið bæði hæstaréttardómur og héraðsdómar sem túlka má svo að núgildandi reglugerð nr. 62 20 febrúar 1989, með breytingum nr. 317 26. júní 1991, þrengi um of framkvæmd þess áfengisauglýsingabanns sem kveðið er á um í 4. mgr. 16. gr. laganna. Í þeim dómum hefur m.a. verið bent á nauðsyn þess að skilgreina í lögum hvað sé áfengisauglýsing.
     4.     Refsiákvæði laganna skulu ná til þeirra er hafa áfengi í vörslu sinni sem látið hefur verið af hendi andstætt ákvæðum 18. gr. laganna, en í þeirri grein segir að öllum sem ekki hafa leyfi til að selja áfengi sé óheimilt að veita, selja eða láta af hendi áfengi til annarra manna gegn því að gjald eða annað verðmæti komi fyrir.

Alþingi, 7. júní 1995.



    Sólveig Pétursdóttir,     Hjálmar Jónsson.     Árni R. Árnason.
    form., frsm.          

    Magnús Stefánsson.     Ólafur Örn Haraldsson.     Kristján Pálsson.

Lúðvík Bergvinsson.



Fylgiskjal.

Umsagnir heilbrigðis- og trygginganefndar.


(7. júní 1995.)



    Heilbrigðis- og trygginganefnd hefur, sbr. bréf allsherjarnefndar frá 29. maí sl., fjallað um frumvarp til laga um breytingu á áfengislögum, nr. 82/1969, með síðari breytingum.
    Við umfjöllun um málið fékk nefndin á sinn fund Höskuld Jónsson, forstjóra ÁTVR, Sig ríði Kristinsdóttur, formann Starfsmannafélags ríkisstofnana, Unni Halldórsdóttur frá For eldrasamtökunum Heimili og skóla, Elísu Wiium og Árna Einarsson frá Vímulausri æsku, Valdimar Jóhannesson frá átakinu Stöðvum unglingadrykkju, Helga Seljan frá Landssambandi gegn áfengisbölinu, Jóhannes Bergsveinsson og Ólaf Hauk Árnason frá áfengisvarnaráði, Matthías Halldórsson aðstoðarlandlækni, Þórarin Tyrfingsson frá SÁÁ, Indriða Þorláksson, skrifstofustjóra í fjármálaráðuneytinu, og Dögg Pálsdóttur, skrifstofustjóra í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu.

Umsögn meiri hluta nefndarinnar.
    Meiri hluti heilbrigðis- og trygginganefndar, sem skipaður er Láru Margréti Ragnarsdóttur, Siv Friðleifsdóttur, Guðmundi Hallvarðssyni, Sólveigu Pétursdóttur, Guðna Ágústssyni og Sigríði A. Þórðardóttur, er þeirrar skoðunar að þó að aðrir en Áfengis- og tóbaksverslun ríkis ins geti flutt áfengi til landsins hafi það almennt ekki í för með sér aukna hættu á heilsutjóni landsmanna af völdum áfengisneyslu. Byggist þetta á því að samkvæmt frumvarpinu er aðeins tilteknum aðilum heimil endursala á áfengi til neytenda. Þykja því ekki rök til að álykta að al menningur muni eiga greiðari aðgang að áfengi en áður vegna umræddra lagabreytinga. Þó telur meiri hlutinn ástæðu til að leggja það til við allsherjarnefnd að eftirtöldum ákvæðum frumvarpsins verði breytt í samræmi við tillögur samráðsnefndar heilbrigðis- og trygginga málaráðuneytis, dómsmálaráðuneytis og fjármálaráðuneytis.

A. Breytingar á 5. gr. frumvarpsins.

    2. tölul. b-liðar greinarinnar orðist svo:
2.    Innflytjendur áfengis sem hafa leyfi til heildsölu á áfengi, sbr. lög um verslun ríkisins með áfengi og tóbak; þó einungis til þeirra sem um ræðir í 1., 3.–5. og 7. tölul., svo og til sölu úr landi, til þeirra sem njóta úrlendisréttar og í tollfrjálsar forðageymslur.

    3. tölul. b-liðar greinarinnar orðist svo:
3.    Framleiðendur áfengra drykkja og þeir sem hafa leyfi til að endurselja áfengi í heildsölu, sbr. lög um verslun ríkisins með áfengi og tóbak; þó einungis til þeirra sem um ræðir í 1., 4. og 5. tölul., svo og til sölu úr landi, til þeirra sem njóta úrlendisréttar og í tollfrjálsar forðageymslur. Þá hefur framleiðandi áfengis heimild til að selja áfengi til þeirra sem hafa leyfi til að endurselja áfengi í heildsölu.


    Hér er skerpt orðalag um þá sem framvegis munu hafa heimild til að selja áfengi innan lands. Þannig er í 2. tölul. skýrt tekið fram að um sé að ræða innflytjendur sem leyfi hafa til heildsölu með áfengi og er vísað í lög um verslun ríkisins með áfengi og tóbak. Jafnframt þyk ir nauðsynlegt að fram komi að þessir aðilar megi selja áfengi úr landi. Í 3. tölul. er gerður greinarmunur á framleiðendum áfengra drykkja og þeim sem hafa leyfi til að endurselja áfengi í heildsölu samkvæmt lögunum um verslun ríkisins með áfengi og tóbak. Skýrt er tekið fram hverjum framleiðendur og þeir sem hafa leyfi til að endurselja megi selja og jafnframt er því bætt við að þessir aðilar geti selt áfengi úr landi. Þá er því einnig bætt við að framleiðandi áfengis hafi heimild til að selja áfengi til aðila sem hefur leyfi til að endurselja áfengi í heild sölu. Í frumvarpinu eins og það var lagt fram var slík heimild ekki fyrir hendi.

B. Breytingar á 15. gr. laganna.
    Í stað 2. og 3. mgr. 15. gr. áfengislaga komi eftirfarandi:
    Auk eftirlits með veitingastöðum sem leyfi hafa til áfengisveitinga, sbr. 5. og 6. mgr. 12. gr., skulu lögreglumenn gefa sérstakar gætur að starfsemi þeirra sem hafa leyfi til að veita áfengi skv. 2. mgr. 20. gr. Í reglugerð skal kveða nánar á um eftirlit þetta.
    Skattstjórar skulu láta lögreglustjórum í té skrá yfir þá aðila sem eru gjaldskyldir skv. 1. mgr. 2. gr. laga um gjald af áfengi.


    Til að tryggja nægilegt eftirlit með þeim aðilum, sem nú fá leyfi til að selja áfengi í heild sölu, framleiða áfengi og flytja það inn, eru sett ný ákvæði í 15. gr. með sama orðalagi og nú er í 5. mgr. 12. gr. laganna. Þannig skulu lögreglumenn með sama hætti og þeir gefa sérstakar gætur að starfsemi veitingastaða einnig gefa sérstakar gætur að starfsemi innflytjenda áfengis sem hafa leyfi til heildsölu, framleiðenda áfengra drykkja og þeirra sem hafa leyfi til að end urselja áfengi í heildsölu. Sömuleiðis skal gefa sérstakar gætur þeim sem fá leyfi til áfengis veitinga í félagsherbergjum eða almennum veitingastöðum, sbr. 2. mgr. 20. gr. laganna. Með þessum hætti er tryggt að sambærilegt eftirlit verður haft með þeim nýju aðilum sem nú fá leyfi til að dreifa áfengi og hingað til hefur verið haft með veitingahúsum.
    Þá er skattstjórum gert skylt að láta lögreglustjórum í té skrá yfir aðila sem eru gjaldskyldir skv. 1. mgr. 2. gr. laga um gjald af áfengi. Skrá þessi hefur að geyma upplýsingar um alla að ila sem flytja áfengi til landsins. Þessar skrár hafa að geyma mikilvægar upplýsingar fyrir lög reglu vegna eftirlits hennar, bæði með veitingahúsunum, sbr. 12. gr., og hinum nýju aðilum sem nú fá heimild til að dreifa áfengi, sbr. hina nýju 2. mgr. 15. gr. Aðgangur lögreglu að þessum skrám skiptir því sköpum fyrir framkvæmd alls eftirlits.

C. Breyting á 16. gr. laganna og nýtt ákvæði, 16. gr. a.

     4. og 5. mgr. 16. gr. laganna falli brott.
    Á eftir 16. gr. laganna komi ný svohljóðandi grein sem verði 16. gr. a:
    Hvers konar auglýsingar á áfengi og einstökum áfengistegundum eru bannaðar. Enn frem ur er bannað að sýna neyslu eða hvers konar aðra meðferð áfengis í auglýsingum eða upplýs ingum um annars konar vöru eða þjónustu.
    Með auglýsingu er átt við hvers konar tilkynningar til almennings vegna markaðssetningar þar sem sýndar eru í máli eða myndum áfengistegundir eða atriði tengd áfengisneyslu, áfeng isvöruheiti eða auðkenni, eftirlíkingar af áfengisvarningi, spjöld eða annan svipaðan búnað, útstillingar, dreifingu prentaðs máls, vörusýnishorn og þess háttar.
    Bannið tekur með sama hætti til auglýsinga sem eingöngu fela í sér firmanafn og/eða firmamerki áfengisframleiðanda. Þó er framleiðanda, sem auk áfengis framleiðir aðrar drykkj arvörur, heimilt að nota firmanafn eða merki í tengslum við auglýsingu þeirra drykkja enda megi augljóst vera að um óáfenga drykki sé að ræða í skilningi laganna og að ekki sé vísað til hinnar áfengu framleiðslu.
    Undanþegið banni við áfengisauglýsingum er:
1.    Auglýsing á erlendum tungumálum í erlendum prentritum sem flutt eru til landsins, nema megintilgangur ritsins eða innflutningsins sé að auglýsa áfengi.
2.    Auðkenni með firmanafni og/eða firmamerki á venjulegum búnaði til áfengisveitinga á veitingastað þar sem áfengisveitingar eru heimilaðar.
3.    Auðkenni með firmanafni og/eða firmamerki á flutningstækjum áfengisframleiðanda, vöruumbúðum, bréfsefni eða öðru sem beinlínis tengist starfsemi hans.


    Nauðsynlegt er talið að setja inn í áfengislögin þau ákvæði sem gilt hafa um alllangt skeið um áfengisauglýsingar. Í áfengislögum segir nú einvörðungu að áfengisauglýsingar séu bann aðar og að nánari ákvæði skuli setja um bannið með reglugerð, sbr. 4. og 5. mgr. 16. gr. Rétt þykir að fella þessar tvær málsgreinar brott úr 16. gr. og setja inn nýja grein, 16. gr. a, sem fjallar um bann við áfengisauglýsingum og tilgreinir nokkrar undanþágur.
    Lögreglustjórar víðs vegar um landið hafa talið erfitt að framkvæma eftirlitið með banni við áfengiauglýsingum. Nýlega hafa fallið bæði hæstaréttardómar og héraðsdómar sem túlka má svo að reglugerðin þrengi um of framkvæmd þess áfengisauglýsingabanns sem er í 4. mgr. 16. gr. Meðal aannars hefur verið gerð athugasemd við það í áðurnefndum dómum að lögin sjálf tilgreini ekki hvað sé áfengisauglýsing og á það bent að það skuli gert með lögum. Með þessari breytingu er lagt til að þær reglur, sem nú er að finna í reglugerð um bann við áfengis auglýsingum, verði settar í áfengislögin. Þó eru gerðar tvær breytingar. Fyrri breytingin lýtur að því að skýra betur hvað er auglýsing og er breytingin gerð til að tryggja að almenn umfjöll un um áfengi í fjölmiðlum sé heimil, enda sé hún ekki í markaðssetningarskyni. Síðari breyt ingin lýtur að breytingum sem gerðar eru á orðalagi um bann við notkun vörumerkis og/eða firmamerkis. Er það hér fært til þess vegar sem það var upphaflega í reglugerðinni um bann við áfengisauglýsingum nr. 62/1989. Breyting, sem gerð var á ákvæði þessu með reglugerð nr. 317/1991, hefur síst gert framkvæmd eftirlits með áfengisauglýsingum auðveldari. Því er talið rétt að færa orðalag til eldri vegar enda er eldra ákvæðið þá skýrara og þar með auðveld ara fyrir lögregluyfirvöld að framfylgja ákvæðinu.

D. Breyting á 7. gr. frumvarpsins.

     Á eftir 1. mgr. 19. gr. komi svohljóðandi ný málsgrein sem verði 2. mgr.:
    Vörsluaðila ólögmæts áfengis skal refsa samkvæmt lögum þessum.
    Í stað „Enn fremur er þeim heimilt“ í 2. mgr., sbr. 194. gr. laga 19/1991 (sem verður 3. mgr.), kemur: Heimilt er.
    Af þessum breytingum leiðir að 8. gr. frumvarpsins fellur brott þar sem hún verður ónauð synleg.


    Í 1. mgr. 17. gr. laganna eru ákvæði um öfuga sönnunarbyrði gagnvart aðila sem finnst með áfengi sem ekki er merkt innsigli ÁTVR. Þessi grein er felld brott bæði í ljósi þess að ekki verður lengur skylt að merkja áfengi, heldur er gert ráð fyrir að ráðherra verði fengin reglu gerðarheimild fyrir auðkenningu áfengis. Sömuleiðis eru ákvæði um öfuga sönnunarbyrði þungbær þeim sem hún er lögð á og æskilegt er að hafa sem fæst slík ákvæði í lögunum. Þess í stað er kjarni 1. mgr. 17. gr. færður þannig að regluna verður nú að finna í 2. mgr. 19. gr., þ.e. að refsa skuli samkvæmt áfengislögum vörsluaðila ólögmæts áfengis. Af þessu leiðir að breyting, sem gerð er á 8. gr. frumvarpsins, verður ónauðsynleg, sbr. bréf meiri hluta nefndar innar til efnahags- og viðskiptanefndar þar sem lagðar eru til breytingar á þessum reglum.
    Þá vill meiri hlutinn einnig benda á að skv. 2. mgr. 1. gr. frumvarpsins er Áfengis- og tó baksverslun ríkisins einni heimilt að flytja inn vínanda sem er 80% að styrkleika eða meira. Er þarna um að ræða spíra til lyfjagerðar og dauðhreinsunar. Samkvæmt þeim frumvörpum um breytingar á áfengislöggjöfinni, sem nú hafa verið lögð fram, er innflutningur þessi skatt skyldur líkt og innflutningur annars vínanda. Í 7. gr. frumvarpsins um breytingar á lögum um gjald af áfengi, sem efnahags- og viðskiptanefnd hefur til umfjöllunar, er heimild fyrir fjár málaráðherra til að ákveða með reglugerð að áfengisgjald skuli fellt niður eða endurgreitt í ákveðnum nánar tilgreindum tilvikum. Ekki verður séð að ákvæði greinarinnar taki til inn flutnings á spíra til lyfjagerðar. Meiri hlutinn telur að innflutningur á vínanda, sem er 80% eða meira að styrkleika, ætti að vera undanþeginn áfengisgjöldum þeim sem kveðið er á um í um ræddum frumvörpum.
    Loks lýsir meiri hlutinn yfir ánægju sinni með ákvæði 3. gr. frumvarpsins sem felur það í sér að bannað verði að eiga, flytja inn, útbúa eða smíða sérhæfð áhöld til að eima áfengi eða til að gera ódrykkjarhæft áfengi drykkjarhæft, nema hafa til þess sérstakt leyfi. Er breyting þessi mjög til bóta og nauðsynleg vegna aukinnar ólöglegrar framleiðslu áfengis.

Umsögn Össurar Skarphéðinssonar.
    Erindi nefndarinnar til heilbrigðis- og trygginganefndar var að leggja mat á hvaða afleið ingar þær breytingar, sem lagðar eru til í frumvarpinu, kynnu að hafa á áfengisneyslu og þar með heilbrigði landsmanna.
    Fulltrúar allra samtaka nema SÁÁ voru eindregið þeirrar skoðunar að breytingarnar, sem felast í frumvarpinu, mundu stuðla að því að „duldar“ áfengisauglýsingar ykjust og það, ásamt auknum fjölda söluaðila, leiddi til meiri neyslu á áfengi.
    Fulltrúi SÁÁ taldi hins vegar ekki að samþykkt frumvarpsins hefði aukna áfengisneyslu í för með sér.
    Fulltrúi STR benti sérstaklega á að eftir breytingarnar yrði mun erfiðara að bregðast við ef upp kæmi að mengað áfengi væri í umferð þar sem erfiðara yrði að rekja það og stöðva sölu en meðan innflutningur áfengis var á einni hendi.
    Fulltrúar allra samtaka sem komu á fund nefndarinnar, nema SÁÁ, létu í ljós ótta við að breytingarnar gætu leitt til þess að í hóp innflytjenda kæmust óæskilegir einstaklingar er ekki mundu skirrast við að fara á svig við lög til að auka umsvif sín í áfengissölu. Þetta töldu þau m.a. líklegt að yki framboð á áfengi til neytenda utan hefðbundins verslunartíma og jafnframt til barna og unglinga.
    Eftirfarandi upplýsingar komu þó einnig fram: (1) Fulltrúar allra félagasamtaka, sem komu á fund nefndarinnar, voru sammála um að ótrúlega auðvelt væri fyrir unglinga að verða sér úti um áfengi með ólögmætum hætti og lýstu vel skipulögðu kerfi leynivínsala sem einbeita sér að sölu til fólks undir lögaldri. (2) Samkvæmt upplýsingum þeirra er einnig ljóst að verð á ólögmætu áfengi sem unglingum býðst með þessum hætti er verulega lægra en á löglega seldu áfengi samkvæmt frumvarpinu.
    Þessar upplýsingar styðja ekki staðhæfingar um að breytingar hefðu í för með sér aukna unglingadrykkju.
    Til að draga úr mögulegum neikvæðum áhrifum frumvarpsins á áfengisneyslu er m.a. nauð synlegt: (1) Að lög kveði á um að fjármálaráðherra verði gert að setja reglur um hæfi innflytj enda. (2) Sömuleiðis er nauðsynlegt að stórefla eftirlit með ólögmætri áfengissölu, ekki síst þeirri sem skipulögð er gagnvart börnum og unglingum. (3) Ákvæðum laga um bann við aug lýsingum á áfengi verði fylgt út í æsar og ef þörf krefur að ákvæði laga um „duldar“ auglýsingar sem hvetja til neyslu áfengra drykkja verði hert. (4) Nauðsynlegt er að fylgt verði fast eftir þeirri stefnu stjórnvalda að draga um fjórðung úr neyslu áfengis fram til aldamóta.
    Frá heilbrigðisráðherra komu breytingartillögur við umfjöllun sem stuðla að því að mark miðum þriggja fyrstu framangreindra liða verði náð. Til viðbótar þeim er nauðsynlegt að gera breytingar á frumvarpinu sem tryggja að áfengisgjald verði ekki lagt á 80% spíra er ÁTVR mun áfram flytja inn til notkunar við lyfjagerð og á sjúkrahúsum. Upplýst var af fulltrúa ÁTVR að ella yrði ekki kleift að ná fram hagstæðu verði með magninnkaupum sem mundi hafa í för með sér aukinn kostnað fyrir framangreinda starfsemi.
    Jafnframt er vert að geta eftirfarandi: Fulltrúi heilbrigðisráðherra upplýsti að þrátt fyrir að sátt hefði að lokum náðst innan ríkisstjórnarinnar um breytingartillögur við upphaflega gerð frumvarpsins hefði heilbrigðisráðherra ekki tekist að koma sjónarmiðum sínum um nauðsyn legar breytingar fram að öllu leyti. Það er því ljóst að frá sjónarhóli heilbrigðisráðherra má enn gera breytingar á frumvarpinu sem tryggja betur að frumvarpið hafi ekki neikvæð áhrif á heilbrigði landsmanna. Ekki tókst að fá upplýst hvað það er sem heilbrigðisráðuneytið telur að mætti betur fara með tilliti til heilsuverndar landsmanna. Komi það hins vegar fram við 2. umr. kann það að gefa tilefni til frekari breytingartillagna.
    Niðurstaðan er því sú að verði samþykktar þær breytingartillögur sem kynntar voru af hálfu heilbrigðisráðuneytisins við umfjöllun nefndarinnar sé ekki tilefni til að ætla að samþykkt frumvarpsins hafi neikvæð áhrif á heilsufar landsmanna.
    Enn fremur er vert að ítreka að þær upplýsingar, sem komu fram um ólögmæta framleiðslu á áfengi til sölu handa börnum og unglingum, gefa ótvírætt til kynna að framkvæmd laga gegn slíkri háttsemi er í algerum molum og besta vörnin gegn aukinni áfengisneyslu í landinu væri að stórefla eftirlit með slíkri starfsemi og herða viðurlög. Það tengist þó almennri stefnu stjórnvalda um áfengisvarnir en ekki þeim frumvörpum sérstaklega sem voru til umfjöllunar.

Umsögn Ögmundar Jónassonar og Ástu R. Jóhannesdóttur.
    Telja verður að ekki hafi komið fram sannfærandi rök með því að þörf sé á þeirri lagabreytingu sem frumvörp þau, sem nefndin hefur til umfjöllunar, fela í sér. Þvert á móti hafi verið færð rök fyrir því að hugsanleg álitamál varðandi EES megi leysa með einföldum skipulags breytingum og minni háttar lagabreytingum þar sem fest yrði í lög að ÁTVR mætti ekki mis muna viðskiptavinum.
    Við 1. umr. málsins á Alþingi kom fram að heilbrigðisráðherra hefði hug á að láta málið til sín taka. Innan nefndarinnar kom fram formleg ósk um að heilbrigðisráðherra gerði nefnd inni skriflega grein fyrir sjónarmiðum sínum og yrði málið ekki afgreitt úr nefndinni fyrr en sú greinargerð lægi fyrir. Enda þótt ráðherra lýsti yfir því að slík greinargerð yrði send nefnd inni barst hún ekki og ákvað meiri hluti nefndarinnar að afgreiða málið frá sér við svo búið. Fulltrúi utanríkisráðuneytisins kom þó ekki á fund nefndarinnar eins og óskað hafði verið eftir. Ætlunin var að hann kæmi á fund nefndarinnar til að gera grein fyrir fullyrðingu utanríkisráðu neytis frá því í júlí 1992, sbr. bréf frá BSRB, dags. 22. júní 1992, og svarbréfi ráðuneytisins, sem dreift var til nefndarinnar, um að engar breytingar þyrfti að gera á starfsemi eða fyrir komulagi ÁTVR til að uppfylla skyldur samkvæmt EES-samningnum og til að skýra nefndinni frá þróun þessara mála annars staðar á Norðurlöndum.
    Á hinn bóginn komu á fund nefndarinnar fulltrúar allra helstu hagsmunaaðila sem láta áfengisvarnir til sín taka, sbr. hér að framan. Að undanskildum fulltrúa SÁÁ, sem taldi að á ferðinni væru „almennar breytingar sem hefðu aukið frjálsræði í för með sér“, mæltu fulltrúar samtakanna eindregið gegn lagabreytingunum. Fulltrúi SÁÁ sagði að ekki væri um „stórbreytingar“ að ræða en tók undir það sjónarmið að þær væru til þess fallnar að auka samkeppni um sölu á áfengi. Þá væri ljóst að „horfið væri frá aðhaldsstefnunni“. Þrátt fyrir þetta mælti hann ekki gegn lagabreytingunum. Það gerðu hins vegar fulltrúar allra hinna almannasamtakanna, sem létu málið sig varða og komu á fund nefndarinnar, mjög eindregið og færðu ítarleg rök fyrir máli sínu. Aðstoðarlandlæknir taldi frumvarpið ekki til bóta, enda væri hér verið að stíga „fyrsta skrefið“ og opna fyrir „duldar auglýsingar“. Tók fulltrúi landlæknisembættisins undir það sjónarmið að með lagabreytingunum væri áfengi gert að verslunarvöru í ríkari mæli en verið hefur og þar með mundi aukast áhersla á að koma áfengi á markað.
    Almannasamtök gegn áfengisneyslu vöruðu almennt við því að fyrirhugaðar breytingar mundu leiða til aukinnar samkeppni í áfengisverslun og auglýsingar mundu aukast. Þá töldu þessir aðilar að ljóst væri að aukin áfengisneysla mundi ekki hafa sparnað í för með sér. Þvert á móti mundu útgjöld í heilbrigðiskerfinu aukast.
    Í frumvörpum þessum, sem nú liggja fyrir, er ekki tekið á áfengisvörnum né forvörnum eins og gert hefur verið á Norðurlöndum. Þar er ætlunin að forvarnir verði fjármagnaðar með þeim gjöldum sem áfengisinnflytjendur þurfa að greiða fyrir leyfi til starfseminnar.
    Þær breytingar, sem samráðsnefnd þriggja ráðuneyta hefur lagt til, eru harla óljósar. Í stuttu máli er nú gert ráð fyrir að ráðherra þurfi að veita innflytjendum áfengis sérstakt leyfi. Ekki er ljóst á hvaða grundvelli slík leyfisveiting á að byggjast. Lagabreytingin er merkingar laus þar til reglugerð liggur fyrir.
    Í annan stað er í umræddum breytingartillögum lagt til að eftirlitsmenn eigi að gefa tiltekn um aðilum „sérstakar gætur“. Ekki er ljóst hvað hér er átt við.
    Þá er gert ráð fyrir að setja eigi ákvæði reglugerðar sem nú gildir um áfengisauglýsingar inn í áfengislöggjöfina. Þetta er algerlega óháð hinum breytingunum og gæti staðið sjálfstætt. Hins vegar er rétt að fram komi að gerðar eru efnisbreytingar sem í raun heimila aukna um fjöllun um áfengi í fjölmiðlum.
    Þessar breytingar og þær afleiðingar, sem þær munu hafa á heilbrigði og velferð þjóðarinn ar að áliti umsagnaraðila, stangast á við þá heilbrigðisáætlun sem Alþingi hefur samþykkt, en í 9. gr. hennar segir að draga þurfi úr almennri neyslu áfengis og útrýma ofneyslu þess. Árið 1986 samþykkti ríkisstjórn Íslands að farið skyldi að ráðum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunar Sameinuðu þjóðanna og stefnt að því að draga úr áfengisneyslu þjóðarinnar um 25% frá þeim tíma til aldamóta. Mjög veigamikil rök hníga í þá átt að þessi markmið náist síður verði sú breyting gerð á áfengislöggjöfinni sem nú er lögð til.
    Lýsa áðurnefnd sig því andvíg frumvörpum þessum og leggja til að þau verði felld.