Ferill 28. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.1995. – 1064 ár frá stofnun Alþingis.
119. löggjafarþing. – 28 . mál.


56. Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á l. nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta sjávarútvegsnefndar.    Nefndin hefur fjallað um málin og fengið á fund til sín Árna Kolbeinsson og Ara Edwald frá sjávarútvegsráðuneyti, Stefán Friðriksson frá Fiskistofu, Arthur Bogason og Örn Pálsson frá Landssambandi smábátaeigenda, Sævar Gunnarsson og Hólmgeir Jónsson frá Sjómannasambandi Íslands, Helga Laxdal frá Vélstjórafélagi Íslands, Guðjón A. Kristjánsson og Benedikt Valsson frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Arnar Sigurmundsson og Ágúst Elíasson frá Samtökum íslenskra fiskvinnslustöðva, Jón Ásbjörnsson frá Samtökum fiskvinnslustöðva án útgerðar, Þórð Skúlason frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Gylfa Geirsson frá Landhelgisgæslunni, Jón Leví Hilmarsson frá Vita- og hafnamálastofnun, Sæmund E. Þorsteinsson og Brand Guðmundsson frá kerfisverkfræðistofu Háskóla Íslands, Esther Guðmundsdóttur og Pál Ægi Pétursson frá Slysavarnafélagi Íslands, Guðmund Malmquist og Emil Bóasson frá Byggðastofnun og Kristján Ragnarsson og Svein Hjört Hjartarson frá LÍÚ. Þá bárust nefndinni skriflegar umsagnir um málið frá eigendum Húnarastar hf., Samtökum iðnaðarins, Skipatækni hf. og Smábátafélagi Grímseyjar.
    Nefndin leggur til að málið verði samþykkt með breytingum sem gerðar eru tillögur um á sérstöku þingskjali. Í þeim felst:
1.    Inn í frumvarpið verði bætt ákvæði um að viðhalda rétti skipa sem leyfi fengu til veiða í atvinnuskyni fyrir 1. janúar 1986 til breytinga án sérstakrar úreldingar þeirra vegna, enda verði ekki tekið tillit til þeirra breytinga við endurnýjun skipanna síðar. Í þessu sambandi skal bent á að stór hluti nótaveiðiflotans er eldri en frá 1986. Til að standast samkeppni á erlendum markaði og færa heim vinnsluhæft hráefni frá fjarlægum miðum þarfnast þessi skip breytinga til að koma við nýrri tækni við flutning og geymslu aflans. Talið er að hin nýja tækni krefjist um það bil 30% meira rýmis til að flytja sama aflamagn. Einnig skal bent á að ákvæði laga um fullvinnslu botnfiskafla um borð í veiðiskipum krefjast breytinga og aukins rýmis í skipum vegna búnaðar til vinnslu eða flutnings sjávarfangs að landi.
2.    Lagt er til að ráðherra geti ákveðið með reglugerð að krókabátar velji sóknardaga í stað viðbótarbanndaga. Skal þar kveðið nánar á um fyrirkomulag og eftirlit með veiðum. Jafnframt er lagt til að í stað þess að ráðherra flytji frumvarp til að lögtaka sóknardaga, eins og gert er ráð fyrir í frumvarpinu, verði honum falið að gera það með reglugerð jafnskjótt og tæknilegar og fjárhagslegar forsendur eru fyrir hendi.
3.    Í gildistökuákvæðum er sérstaklega vikið að þeim samningum um kaup eða smíðar á krókabátum sem gerðir hafa verið. Vegna ákvæða í 1. gr. frumvarpsins sem skerða mjög endurnýjunarrétt krókabáta þykir réttmætt að eldri reglur gildi um þá báta hafi þeir fengið haffæriskírteini útgefið fyrir 31. ágúst nk.
    Með þessum breytingartillögum nefndarinnar er lagður grundvöllur að nýju stjórnkerfi, sem byggir á valkostum krókabáta um þorskaflahámark annars vegar og sóknardaga að eigin vali hins vegar, en fastir banndagar verði óbreyttir.

Alþingi, 8. júní 1995.    Árni R. Árnason,     Stefán Guðmundsson.     Vilhjálmur Egilsson.
    frsm.          

    Einar Oddur Kristjánsson.     Hjálmar Árnason.     Guðmundur Hallvarðsson.