Ferill 42. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995. – 1064 ár frá stofnun Alþingis.
119. löggjafarþing. – 42 . mál.


83. Frumvarp til laga



um úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna.

(Lagt fyrir Alþingi á 119. löggjafarþingi 1995.)


    

1. gr.


    Setja skal á fót nefnd er hafi það hlutverk að ákveða fiskverð sem nota skal við uppgjör á aflahlut áhafnar einstakra skipa svo sem nánar er kveðið á um í lögum þessum.
    Í nefndinni eiga sæti sjö menn, einn tilnefndur af Farmanna- og fiskimannasambandi Ís lands, einn af Sjómannasambandi Íslands, einn af Vélstjórafélagi Íslands, þrír af Landssam bandi íslenskra útvegsmanna og formaður sem sjávarútvegsráðherra skipar að höfðu samráði við framangreind samtök sjómanna og útvegsmanna. Varamenn skulu skipaðir á sama hátt og aðalmenn.
    Úrskurðarnefnd ræður starfsfólk eða semur við aðra aðila um að annast starfsemi fyrir nefndina eftir því sem hagkvæmt þykir.
    

2. gr.


    Úrskurðarnefnd skal afla ítarlegra gagna um fiskverð. Skal hún með skipulögðum hætti vinna úr upplýsingunum sundurliðað yfirlit um fiskverð á einstökum landsvæðum. Nefndin skal reglulega birta upplýsingar um fiskverð þannig að þær gagnist útvegsmönnum og sjó mönnum sem best. Þá skal nefndin afla gagna um afurðaverð og horfur um þróun þess.
    

3. gr.


    Takist ekki samningar milli útgerðar og áhafnar fiskiskips um fiskverð, sem nota skal við uppgjör á aflahlut þegar afli skipsins er afhentur eða seldur aðila sem telst skyldur útgerðinni, geta þau heildarsamtök sjómanna og útvegsmanna sem standa að tilnefningu úrskurðarnefndar skv. 1. gr. hvor um sig skotið málinu til úrlausnar nefndarinnar, í samræmi við ákvæði kjara samninga aðila þar að lútandi.
    Á sama hátt geta heildarsamtök sjómanna skotið til nefndarinnar ákvörðun fiskverðs í við skiptum útgerðar við aðila sem ekki telst skyldur útgerðinni ef samningar um slíkt verð hafa ekki tekist innan viku frá því að áhöfn skips óskaði slíkra samninga.
    Útgerð og viðskiptaaðili hennar teljast skyld í þessu sambandi ef þau eru í eigu eða rekstri sama aðila, eða ef sami aðili á meiri hluta beggja fyrirtækjanna, svo sem meiri hluta stofnfjár eða hlutafjár eða fer með meiri hluta atkvæðisréttar í þeim báðum eða hefur með öðrum hætti raunveruleg yfirráð þeirra beggja. Sama á við ef annað fyrirtækið hefur raunveruleg yfirráð yfir hinu með eignaraðild, atkvæðisrétti eða með öðrum hætti.

4. gr.


    Úrskurðarnefnd skal ákvarða fiskverð til uppgjörs á aflahlut sjómanna í þeim tilvikum sem til hennar er skotið skv. 3. gr. Gildir ákvörðunin eingöngu um fiskverð gagnvart áhöfn þess skips sem málskotið varðar en ekki gagnvart áhöfnum annarra skipa sömu útgerðar. Ákvörðun nefndarinnar um fiskverð í viðskiptum milli óskyldra aðila, sbr. 3. gr., gildir um verð í öllum slíkum viðskiptum á gildistíma ákvörðunar.
    Ákvörðun nefndarinnar nær til verðs fyrir afla sem landað er eftir að málinu var skotið til hennar ef ákvörðun varðar viðskipti milli skyldra aðila, en til verðs fyrir afla sem landað er eftir að ákvörðun nefndarinnar er tilkynnt aðilum ef hún varðar viðskipti milli óskyldra aðila. Nefndin ákveður sjálf hversu lengi ákvörðun hennar skuli gilda. Þó skal hún aldrei gilda leng ur en í þrjá mánuði.
    Ákvörðun nefndarinnar um fiskverð, hvort sem hún varðar viðskipti milli skyldra aðila eða óskyldra, gildir ekki þegar afli er seldur á innlendum eða erlendum uppboðsmörkuðum.
    

5. gr.


    Úrskurðarnefnd skal við ákvörðun sína taka mið af upplýsingum sem safnað hefur verið á hennar vegum skv. 2. gr.
    Nefndin skal við ákvörðun sína taka mið af því fiskverði sem algengast er við sambærilega ráðstöfun afla. Skal í því sambandi tekið mið af verði í nærliggjandi byggðarlögum fyrir sam bærilegan fisk að stærð og gæðum. Þá skal nefndin taka tillit til líklegrar þróunar afurðaverðs. Varði ákvörðun nefndarinnar fiskverð í skiptum óskyldra aðila skal og taka tillit til heildarráð stöfunar á afla skips.
    

6. gr.


    Úrskurðarnefnd skal leita upplýsinga hjá útgerð og áhöfn um öll þau atriði er máli kunna að skipta varðandi úrlausn í tilteknu máli. Er þessum aðilum svo og þeim aðilum sem hafa átt viðskipti með afla við útgerðina skylt að veita nefndinni allar þær upplýsingar er máli geta skipt og aðgang að öllum gögnum sem þýðingu hafa.     
    

7. gr.


    Þegar eftir að máli er skotið til úrskurðarnefndar skulu þeir nefndarmenn sem tilnefndir eru af heildarsamtökum sjómanna og útvegsmanna taka málið til umfjöllunar. Nái þeir ekki sam komulagi um ákvörðun fiskverðs innan 14 daga skal málið tekið fyrir í fullskipaðri nefnd og skal hún kveða upp úrskurð innan 7 daga.
    Samkomulagi nefndarinnar um fiskverð skulu fylgja forsendur þess en úrskurður fullskip aðrar nefndar skal vera rökstuddur.
    

8. gr.


    Ákvörðun úrskurðarnefndar um fiskverð hvort sem hún byggir á samkomulagi eða úrskurði er bindandi gagnvart útgerð og allri áhöfn skips á gildistíma hennar og er óheimilt að semja um annað fiskverð við einstaklinga í áhöfn. Skal ákvörðun nefndarinnar lögð til grundvallar fyrir dómi, nema svo sé ástatt sem um er rætt í 2. mgr. 13. gr. laga nr. 53/1989, um samnings bundna gerðardóma. Hafi skip landað afla hjá aðila er telst skyldur útgerð eftir að máli var skotið til nefndarinnar en áður en úrskurður er upp kveðinn getur nefndin úrskurðað um afla hlut áhafnar vegna þess afla. Er sá úrskurður aðfararhæfur, sbr. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 53/1989.
    

9. gr.


    Þegar úrskurður er kveðinn upp ræður afl atkvæða úrslitum í úrskurðarnefnd. Um hæfi nefndarmanna til meðferðar einstaks máls og málsmeðferð að öðru leyti fer samkvæmt ákvæð um stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, eftir því sem við getur átt.
    

10. gr.


    Nefndarmönnum er óheimilt að skýra óviðkomandi aðilum frá því sem þeir komast að í störfum sínum.
    

11. gr.


    Kostnaður af störfum nefndarinnar greiðist úr ríkissjóði. Þó skulu heildarsamtök útvegs manna og sjómanna hver um sig bera kostnað af þeim fulltrúum sem hlutaðeigandi samtök hafa tilnefnt til setu í nefndinni.
    

12. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi 1.–9. gr. laga nr. 79 19. maí 1994, um samstarfsnefnd sjómanna og útvegsmanna og um breytingu á lögum nr. 24 7. maí 1986, um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins, með síðari breytingum.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Hinn 25. maí sl. hófst verkfall á fiskiskipaflotanum utan Vestfjarða. Meðal þess sem deilan snerist um var ákvörðun fiskverðs til viðmiðunar við hlutaskipti þegar fiskur er ekki seldur á uppboðsmarkaði innan lands eða erlendis. Samningaviðræður gengu erfiðlega en aðilar náðu þó efnislega samkomulagi um mörg þeirra atriða sem um var deilt, þar á meðal um ákvörðun skiptaverðs. Að kvöldi 9. júní lagði ríkissáttasemjari síðan fram miðlunartillögu í deilunni. Hafði hún að geyma alla þá þætti sem samkomulag hafði náðst um í viðræðum aðila en fjallar ekki um önnur atriði. Er miðlunartillagan birt sem fskj. I með frumvarpi þessu. Tillagan verð ur borin undir atkvæði sjómanna mánudaginn 12. þessa mánaðar.
    Í þriðja kafla miðlunartillögunnar eru ákvæði um skiptaverð og sölu afla. Er þar gert ráð fyrir því að sé fiskur seldur aðila sem telst skyldur útgerð skuli útgerð og áhöfn gera með sér samning um fiskverð. Þá er gert ráð fyrir því að áhöfn geti krafist að samningur sé gerður við útgerð varðandi fisk sem seldur er óskyldum aðila, enda sé hann ekki seldur á innlendum eða erlendum uppboðsmarkaði. Náist ekki samkomulag um fiskverð í framangreindum tilvikum má skjóta málinu til sérstakrar úrskurðarnefndar er ákveður fiskverð eftir nánar tilgreindum viðmiðunum. Aðilar að kjaradeilunni höfðu eins og að framan getur náð samkomulagi um þessi atriði þegar miðlunartillagan var flutt og byggir hún alfarið á því samkomulagi. Telja samtök útvegsmanna og sjómanna að nauðsynlegt sé að skjóta lagastoðum undir störf úrskurð arnefndarinnar og fóru þess á leit við sjávarútvegsráðherra að hann flytti frumvarp um það efni ef kjarasamningar tækjust á þessum grundvelli. Er með flutningi frumvarps þessa orðið við þeirri ósk og hefur texti frumvarpsins verið saminn í samráði við heildarsamtök sjómanna og útvegsmanna.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Lagt er til að í úrskurðarnefndinni eigi sæti sjö manns er ráðherra skipar. Skulu heildarsam tök sjómanna hver um sig tilnefna einn mann en Landssamband íslenskra útvegsmanna þrjá. Ráðherra skipar nefndinni formann, án þess að fá til þess tilnefningar, en samráð skal haft við heildarsamtök sjómanna og útvegsmanna áður en formaður er skipaður. Varamenn yrðu skip aðir með sama hætti og aðalmenn.
    

Um 2. gr.


    Í þessari grein er lögð sú skylda á nefndina að leita viðeigandi upplýsinga, vinna úr þeim með skipulögðum hætti og birta upplýsingar um fiskverð. Er greinin hliðstæð ákvæðum 2. gr. laga nr. 79/1994, um samstarfsnefnd sjómanna og útvegsmanna og um breytingu á lögum nr. 24 7. maí 1986, um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins, með síðari breyt ingum. Í lögum nr. 121/1989, um skráningu og meðferð persónuupplýsinga, eru lagðar marg víslegar hömlur á skráningu og vinnslu upplýsinga með skipulögðum hætti. Orðalag 2. gr. fel ur í sér að þar sem þörf er á ganga ákvæði laga þessara framar ákvæðum tilvitnaðra laga frá 1989.
    

Um 3. gr.


    Samkvæmt miðlunartillögu sáttasemjara skulu útgerðarmaður og áhöfn gera sín í milli samning um fiskverð þegar útgerð selur afla til eigin vinnslu, þ.e. í viðskiptum milli skyldra aðila. Er í I-lið 3.0 tölul. miðlunartillögunnar kveðið nánar á um hvernig að gerð slíks samn ings skuli staðið. Ef samkomulag næst ekki milli útgerðar og sjómanna um slíkan samning geta þau heildarsamtök sjómanna og útvegsmanna er standa að tilnefningu úrskurðarnefndar innar hvor um sig skotið málinu til úrlausnar nefndarinnar.
    Í III-lið 3.0 tölul. miðlunartillögu sáttasemjara er kveðið á um ráðstöfun afla í skiptum milli óskyldra aðila. Er þar kveðið á um að sé afli seldur til óskyldra aðila án milligöngu upp boðsmarkaðar geti áhöfn krafist samnings um uppgjörsverð fyrir þann afla. Takist slíkir samn ingar ekki innan viku geta fyrrnefnd heildarsamtök sjómanna skv. 2. mgr. greinarinnar skotið málinu til úrlausnar úrskurðarnefndarinnar.
    Í 3. mgr. er leitast við að skilgreina hvenær útgerð og viðskiptaaðili hennar teljist skyld í merkingu laganna. Er þar m.a. leitað fyrirmynda í 2. gr. laga nr. 34/1991.
    

Um 4. gr


    Í 1. mgr. er kveðið á um gildissvið einstakra ákvarðana úrskurðarnefndar. Hver ákvörðun nefndarinnar gildir einungis um fiskverð gagnvart áhöfn þess skips sem málskotið varðar en ekki gagnvart áhöfnum annarra skipa sömu útgerðar. Því er vel hugsanlegt t.d. að samkomulag náist um fiskverð í viðskiptum milli útgerðar og áhafnar eins skips útgerðar en að ákvörðun nefndarinnar komi ekki til gagnvart áhöfn á öðru skipi útgerðar. Þá getur nefndin t.d. úrskurð að um viðskipti milli óskyldra aðila gagnvart skipi þar sem þegar hefur gengið ákvörðun um viðskipti milli skyldra aðila og tvær ákvarðanir nefndarinnar því verið í gildi samtímis um fiskverð milli útgerðar og áhafnar tiltekins skips. Ákvörðun sem nefndin tekur um fiskverð milli óskyldra aðila gildir hins vegar að sjálfsögðu um verð í öllum slíkum viðskiptum á gild istíma ákvörðunarinnar.
    Í 2. mgr. er kveðið á um gildistíma ákvörðunar. Í samræmi við sáttatillöguna er upphaf gildistíma mismunandi eftir því hvort ákvörðunin varðar viðskipti milli skyldra eða óskyldra aðila. Nefndin ræður sjálf gildistíma ákvörðunar sem þó skal að hámarki vera þrír mánuðir.
    

Um 5. gr.


    Hér eru tilgreind hin almennu atriði sem úrskurðarnefnd skal taka mið af við ákvarðanir sínar. Er í þeim efnum byggt á II-lið í 3.0 tölul. miðlunartillögunnar.
    
    

Um 6. gr.


    Hér er lögð sú skylda á úrskurðarnefnd að leita upplýsinga hjá útgerð og áhöfn um þau atriði er máli skipta við úrskurð nefndarinnar. Jafnframt er kveðið á um aðgang nefndarinnar að upplýsingum er máli skipta.
    

Um 7. gr.


    Gengið er út frá því að ákvörðun úrskurðarnefndar geti ýmist verið í formi samkomulags eða úrskurðar. Ákvörðun í samkomulagsformi er því aðeins gild að allir þeir sex nefndarmenn, sem tilnefndir eru af hálfu samtaka sjómanna og útvegsmanna, séu henni sammála. Ef slíkt samkomulag næst ekki innan 14 daga frá því máli er skotið til nefndarinnar skv. 3. gr. frum varpsins skal nefndin öll fjalla um málið og kveða upp úrskurð innan sjö daga þaðan í frá, þ.e. innan þriggja vikna frá því málið barst nefndinni.
    Forsendur skulu fylgja samkomulagi, ef það næst, og rökstuðningur skal fylgja úrskurði nefndarinnar. Um efni rökstuðnings vísast til 22. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, sbr. 9. gr. frumvarpsins.
    

Um 8. gr.


    Ákvörðun úrskurðarnefndar er bindandi fyrir þá útgerð og áhöfn sem í hlut á hvort sem hún byggir á samkomulagi eða úrskurði. Samningur sem kynni að hafa verið gerður um annað verð við uppgjör á aflahlut áhafnar væri því ógildur. Venjulegast lyti ákvörðun nefndarinnar aðeins að því viðmiðunarverði sem aflahlutir einstakra skipverja yrðu reiknaðir út frá. Slík ákvörðun væri bindandi fyrir báða aðila á sama hátt og gerðardómsúrskurður ef til dómsmáls kæmi, t.d. vegna ágreinings um útreikning á aflahlut eða vegna vanefnda á greiðslu hlutar. Um atvik sem gætu leitt til þess að úrskurði nefndarinnar yrði hnekkt fyrir dómi vísast til 12. gr. laga nr. 53/1989, um samningsbundna gerðardóma, en þau gætu t.d. verið vanhæfi nefndarmanna eða verulegir ágallar á málsmeðferð.
    Í því tilviki að skip hafi landað afla hjá skyldum aðila eftir að máli hefur verið skotið til nefndarinnar, en áður en úrskurður er upp kveðinn, er nefndinni þó veitt heimild til að kveða upp úrskurð um tiltekinn aflahlut áhafnar. Slíkur úrskurður er aðfararhæfur skv. 1. gr. laga nr. 90/1989, um aðför, á sama hátt og þegar gerðardómur hefur kveðið upp aðfararhæfan úrskurð.
    

Um 9. gr.


    Ef skoðanir eru skiptar meðal nefndarmanna í úrskurðarnefnd gildir sama regla og í fjöl skipuðum dómi, þ.e. að afl atkvæða ráði niðurstöðu. Ef ekki næst samstaða um tiltekið verð meðal meiri hluta nefndarmanna og þeir standa að þremur eða fleiri sérálitum skal byggja á áliti þeirra fjögurra eða fleiri sem hæst verð vilja ákveða, þó þannig að miðað sé við það verð sem lægst er meðal þeirra sem mynda þannig meiri hluta. Þetta skýrist best með dæmi: Ef þrír nefndarmanna vilja ákveða verð 100 krónur, fjórði nefndarmaðurinn 90 krónur og þrír nefnd armanna 80 krónur, þá mynda þeir fjórir fyrsttöldu meiri hlutann og niðurstaða nefndarinnar yrði 90 krónur.
    Þar eð nefndin er skipuð af ráðherra er eðlilegt að um hæfi nefndarmanna til meðferðar ein stakra mála og málsmeðferð að öðru leyti fari eftir ákvæðum stjórnsýslulaga eftir því sem við getur átt. Það þýðir m.a. að gefa skal aðilum kost á að tjá sig fyrir nefndinni sem væntanlega yrði gert um leið og leitað væri eftir upplýsingum hjá þeim skv. 6. gr. frumvarpsins.

Um 10. gr.


    Þetta ákvæði um þagnarskyldu nefndarmanna þarfnast ekki skýringa.
    

Um 11. gr.


    Lagt er til að heildarsamtök útvegsmanna og sjómanna beri hvor um sig kostnað af þeim fulltrúum sem þau tilnefna í nefndina, en að öðru leyti greiðist kostnaður úr ríkissjóði.
    

Um 12. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.


Fylgiskjal I.


Miðlunartillaga ríkissáttasemjara til lausnar kjaradeilu.




(14 bls. myndaðar.)




Fylgiskjal II.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga


um úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna.


    Með frumvarpi þessu er lagt til að sett verði á fót sérstök úrskurðarnefnd er hafi það hlut verk að ákveða fiskverð sem nota skal við uppgjör á aflahlut áhafna einstakra skipa. Nefndin verður alls skipuð sjö mönnum og sjö til vara, þremur frá samtökum sjómanna, jafnmörgum frá útvegsmönnum og oddamanni skipuðum af sjávarútvegsráðherra. Nefndin skal ráða starfs fólk eða semur við aðra um að annast starfsemi fyrir nefndina.
    Samkvæmt 11. gr. skal greiða kostnað af störfum nefndarinnar úr ríkissjóði. Þó skuli heild arsamtök sjómanna og útvegsmanna hvor um sig bera kostnað af þeim fulltrúa sem hlutaðeig andi samtök hafa tilnefnt til setu í nefndinni.
    Þegar lagt er mat á kostnað er það haft til hliðsjónar að fjárveiting til forvera úrskurðar nefndarinnar, skiptaverðsnefndar, sem jafnframt er lögð niður skv. 12. gr. nemur 8 m.kr. í fjár aukalögum 1994 og rúmum 15 m.kr. á fjárlögum 1995. Bókaður kostnaður af starfi skipta verðsnefndar nam 2,6 m.kr. árið 1994 og 900 þús. kr. það sem af er á þessu ári. Sjálf nefndar launin verða lítil; aðeins formaður mun fá nefndarlaun úr ríkissjóði. Kostnaður við gagnasöfn un og feril úrskurða kann hins vegar að verða nokkuð umfangsmikill. Af þessu verður að ætla að kostnaður ríkissjóðs við hina nýju nefnd muni rúmast vel innan þeirrar fjárveitingar sem nú er ætluð skiptaverðsnefnd.