Ferill 47. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.1995. – 1064 ár frá stofnun Alþingis.
119. löggjafarþing. – 47 . mál.


115. Frumvarp til lagaum þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað.

Flm.: Geir H. Haarde, Ólafur Örn Haraldsson, Svavar Gestsson,


Össur Skarphéðinsson, Kristín Ástgeirsdóttir.I. KAFLI

Þingfararkaup.

1. gr.

    Greiða skal alþingismanni mánaðarlega þingfararkaup úr ríkissjóði. Þingfararkaup greiðist frá fyrsta degi eftir kjördag og til síðasta dags þess mánaðar er kjörtímabili eða þingsetu lýkur. Kaupið greiðist fyrsta hvers mánaðar fyrir fram.

2. gr.

    Forseti Alþingis nýtur sömu launa- og starfskjara og ráðherrar.

3. gr.

    Varaforsetar Alþingis skulu fá greitt 15% álag á þingfararkaup.

4. gr.

    Alþingismaður á rétt á leyfi frá opinberu starfi, sem hann gegnir, í allt að fimm ár. Afsali hann sér starfinu eftir fimm ára leyfi á hann að öðru jöfnu forgang í allt að fimm ár frá þeim tíma að sambærilegri stöðu hjá hinu opinbera.
    Nú gegnir alþingismaður starfi hjá ríki eða ríkisstofnun með þingmennsku og skal hann þá njóta launa fyrir það starf samkvæmt mati viðkomandi ráðuneytis, þó aldrei hærri en 50%.

5. gr.

    Ráðherra, sem er ekki alþingismaður, fær greitt þingfararkaup, sbr. 51. gr. stjórnarskrár.

II. KAFLI

Þingfararkostnaður.

Húsnæðis- og dvalarkostnaður.

6. gr.

    Greiða skal alþingismanni fyrir kjördæmi utan Reykjavíkur og Reykjaness mánaðarlega húsnæðis- og dvalarkostnað til þess að hafa dvalarstað í Reykjavík eða grennd, eigi hann heimili utan Reykjavíkur eða nágrennis, eða til þess að hafa starfs- eða dvalaraðstöðu í kjör dæmi sínu eigi hann heimili utan kjördæmisins.
    Alþingismaður, sem á heimili utan Reykjavíkur eða nágrennis en fer að jafnaði milli heim ilis og Reykjavíkur um þingtímann, á rétt á að fá endurgreiddan ferðakostnað, auk þriðjungs af greiðslu skv. 1. mgr. mánaðarlega.
    Haldi alþingismaður, sem á aðalheimili utan Reykjavíkur eða nágrennis, annað heimili í Reykjavík er heimilt, meðan svo stendur, að greiða honum álag, allt að 40%, á fjárhæð skv. 1. mgr.

Ferðakostnaður.

7. gr.

    Alþingismaður fær mánaðarlega fjárhæð til greiðslu kostnaðar við ferðalög innan kjör dæmis hans. Enn fremur skal endurgreiða alþingismanni ferðakostnað milli heimilis eða starfsstöðvar og Reykjavíkur.
    Endurgreiða skal alþingismanni kostnað við aðrar ferðir er hann þarf að fara innan lands í tengslum við störf sín, svo og gisti- og dvalarkostnað í þeim ferðum. Heimilt er að ákveða að kostnaður við ferðir umfram tiltekna vegalengd frá heimili eða starfsstöð innan kjördæmis verði endurgreiddur þrátt fyrir ákvæði 1. mgr.

8. gr.

    Alþingi greiðir kostnað við ferðir sem alþingismaður fer á vegum þingsins til útlanda.

Almennur starfskostnaður.

9. gr.

    Alþingi leggur alþingismanni til almenna skrifstofuaðstöðu og nauðsynlegan búnað og greiðir kostnað af því. Endurgreiða skal alþingismanni símakostnað.
    Endurgreiða skal alþingismönnum annan starfskostnað samkvæmt reglum sem forsætis nefnd setur. Heimilt er að greiða starfskostnað samkvæmt þessari málsgrein sem fasta fjárhæð í stað endurgreiðslu samkvæmt reikningum.

III. KAFLI

Önnur starfskjör.

Forföll alþingismanna og greiðslur til varaþingmanna.

10. gr.

    Nú þarf alþingismaður að vera fjarverandi vegna starfa á vegum ríkisstjórnar, sem fulltrúi Alþingis eða í öðrum opinberum erindum, í a.m.k. fimm daga eða lengur, og varamaður tekur sæti hans á Alþingi á meðan, sbr. 2. mgr. 53. gr. þingskapa, og skal hann þá eigi að síður halda þingfararkaupi og öðrum föstum greiðslum meðan forföll vara. Forsætisnefnd getur sett nánari reglur um framkvæmd þessa ákvæðis og er þá heimilt að víkja frá ákvæðum þessarar máls greinar um lágmarkstíma fjarveru ef sérstaklega stendur á og fyrir liggur beiðni þingflokks þar að lútandi.
    Hverfi þingmaður af þingi um sinn vegna slyss eða veikinda fær hann þingfararkaup og aðrar fastar greiðslur samkvæmt lögum þessum eigi að síður allt að einu ári.
    Nú er þingmaður forfallaður af öðrum ástæðum en getur í 1. og 2. mgr. og varamaður tekur sæti hans á þingi, og missir hann þá þingfararkaups og annarra kjara þann tíma sem hann er fjarverandi.

11. gr.

    Varaþingmaður fær greitt þingfararkaup skv. 1. gr. meðan hann situr á Alþingi og endur greiddan þingfararkostnað samkvæmt lögum þessum eftir nánari reglum sem forsætisnefnd setur.

Fæðingarorlof og tryggingar.


12. gr.


    Alþingismaður á rétt á fæðingarorlofi þann tíma sem lög eða kjarasamningar opinberra starfsmanna ákveða. Tekur varamaður þá sæti á meðan en þingmaðurinn skal einskis í missa af launum og föstum greiðslum samkvæmt lögum þessum meðan á fæðingarorlofi stendur.
    Alþingismaður nýtur slysa- og ferðatrygginga.

Biðlaun.


13. gr.


    Alþingismaður á rétt á biðlaunum er hann lætur af þingmennsku. Biðlaun jafnhá þingfarar kaupi skv. 1. gr. skal þá greiða í þrjá mánuði. Eftir þingsetu í tvö kjörtímabil eða lengur skal þó greiða biðlaun í sex mánuði.

IV. KAFLI


Ákvörðun þingfararkaups og þingfararkostnaðar.


14. gr.


    Kjaradómur ákveður þingfararkaup skv. 1. gr., sbr. lög nr. 120/1992.
    Forsætisnefnd Alþingis ákveður aðrar greiðslur samkvæmt lögum þessum og setur nánari reglur um þær.

15. gr.

    Skrifstofa Alþingis úrskurðar um reikninga þá sem alþingismanni skulu endurgreiddir sam kvæmt lögum þessum. Vilji alþingismaður ekki una úrskurði skrifstofunnar getur hann skotið honum til forsætisnefndar sem fellir endanlegan úrskurð.
    Ef vafi leikur á um rétt alþingismanns samkvæmt lögum þessum sker forsætisnefnd úr.

16. gr.

    Greiðsla þingfararkostnaðar skv. 6., 7. og 9. gr. er framtalsskyld, sbr. lög um tekjuskatt og eignarskatt, nr. 75/1981, en ekki skattskyld. Um greiðslur skv. 8. gr. fer eftir þeim reglum sem ríkisskattstjóri setur.

V. KAFLI


Gildistaka.


     17. gr.


    Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 1995. Frá þeim tíma falla úr gildi lög nr. 75/1980. Úrskurðir byggðir á þeim lögum halda gildi sínu þangað til forsætisnefnd hefur sett nýjar reglur skv. 6. og 7. gr., sbr. 2. mgr. 14. gr.
    Í stað orðanna „þingfararkaup og önnur starfskjör alþingismanna skv. 12. gr. laga nr. 75/1980, um þingfararkaup alþingismanna“ í 2. gr. laga nr. 120/1992, um Kjaradóm og kjara nefnd, kemur: þingfararkaup samkvæmt lögum um þingfararkaup alþingismanna og þingfarar kostnað.

Greinargerð.


    Með frumvarpi þessu er gerð tillaga um heildarendurskoðun laganna um þingfararkaup. Lögin eru að stofni til þrjátíu ára gömul en þar er að finna ýmis ákvæði sem í reynd eru mun eldri. Margt rekur á eftir endurskoðun laganna nú:
     a.     Alþingi starfar nú í einni málstofu og hafa þingmenn starfsskyldur í nefndum allt árið.
     b.     Skyldur þingmanna eru miklu fjölþættari en áður. Ferðir í kjördæmi eru tíðari en fyrr, ekki síst vegna bættra samgangna, fundir fleiri og skyldur þingmanna við kjósendur eru einnig margbreytilegri en áður.
     c.     Gerðar eru meiri kröfur til þingmanna um þátttöku í alþjóðlegu samstarfi.
     d.     Ný samskiptatækni skapar nýja möguleika en líka ný verkefni án þess að eldri verkefni hafi fallið niður.
    M.a. af þessum ástæðum hefur um nokkra hríð verið unnið að endurskoðun laga um þing fararkaup. Markmið endurskoðunarinnar var:
—    að draga skýr mörk annars vegar milli kostnaðar sem eðlilegt er að Alþingi greiði á hverjum tíma og telja verður kostnað við starfsemi þingsins og hins vegar launa alþingismanna,
—    að sníða lögin að nútímaaðstæðum og skapa forsætisnefnd aðstöðu til að bregðast við nýjum verkefnum jafnóðum og þau falla til.
    Frumvarpið skiptist í fimm efniskafla. Í þeim fyrsta er fjallað um þingfararkaupið. Það hef ur verið og verður áfram samkvæmt frumvarpinu ákveðið af Kjaradómi. Í lögum um Kjaradóm segir að hann skuli halda þannig á málum að þingmenn hafi laun „í samræmi við laun í þjóðfélaginu hjá þeim sem sambærilegir geta talist með tilliti til starfa og ábyrgðar“ (5. gr.). Í því sambandi hlýtur að verða að hafa í huga hlutverk Alþingis gagnvart öðrum stoðum ríkisvalds ins, dómsvaldi og framkvæmdarvaldi, sem og sveitarfélögum og hagsmunasamtökum í þjóðfé laginu. Er því eðlilegt til samanburðar um kjör þingmanna að líta m.a. til héraðsdómara, ráðu neytis- og skrifstofustjóra í Stjórnarráðinu, forsvarsmanna almannasamtaka og yfirmanna ým issa bæjarfélaga. Frumvarp þetta fjallar hins vegar ekki um laun þingmanna heldur fyrst og fremst um önnur starfskjör þeirra.
    Í öðrum kafla frumvarpsins er fjallað um „þingfararkostnað“ en það er nýtt heiti í lögunum. Með þingfararkostnaði er átt við eftirfarandi þætti:
     1.     Húsnæðis- og dvalarkostnað sem kveðið er á um í 6. gr. Þessi ákvæði snerta aðallega kostnað þeirra þingmanna sem kjörnir eru utan Reykjavíkur og Reykjaness. Jafnframt eru felldar niður svokallaðar fæðispeningagreiðslur til þessara þingmanna sem hafa verið 1.700 kr. á dag um þingtímann. Þær greiðslur þykja ekki lengur vera í takt við tímann.
     2.     Ferðakostnað sem kveðið er á um í 7. gr. Breytast þær reglur talsvert þar sem tryggja á að Alþingi borgi allan nauðsynlegan ferðakostnað þingmanna innan kjördæma þeirra en það er breyting frá því sem verið hefur. Margir þingmenn hafa nú verulegan kostnað af fundum og ferðum í kjördæmum sínum sem eru þó óumdeilanlega hluti af starfsskyldum þingmanna og er eðlilegt að þingið greiði slíkan kostnað frekar en einstakir þingmenn.
     3.     Annan starfskostnað en húsnæðis- og ferðakostnað má einnig endurgreiða samkvæmt sérstökum reglum sem forsætisnefnd setur. Forsætisnefnd getur ákveðið fasta upphæð sem greidd yrði öllum þingmönnum mánaðarlega samkvæmt þessu ákvæði þannig að greiðsla fari ekki fram úr fyrir fram ákveðnum mörkum. Gera verður ráð fyrir því að þessar reglur verði endurskoðaðar a.m.k. einu sinni á ári.
    Þá er miðað við að Alþingi greiði skrifstofukostnað þingmanna, svo sem póstkostnað og kostnað af síma, tölvum og þess háttar, eins og verið hefur.
    Miðað er við að skattaleg meðferð greiðslna þeirra sem um ræðir í kaflanum um þingfarar kostnað verði sú sama og verið hefur en settar um það skýrari reglur.

Almennar athugasemdir.


    Lög um þingfararkaup alþingismanna eru eins og áður segir að stofni til þrjátíu ára gömul, voru sett snemma árs 1964. Þau lög komu í kjölfar mikillar breytingar á kjördæmaskipuninni 1959. Með þeim lögum varð gerbreyting á launakjörum alþingismanna. Horfið var frá því ald argamla fyrirkomulagi að greiða alþingismönnum dagkaup meðan Alþingi var að störfum. Í stað þess var tekið upp árskaup og litið svo á að störf alþingismanna væru heilsársstörf. Þótt hér væri um mikla breytingu að ræða fyrir alþingismenn, einkum þá sem ekki höfðu önnur föst störf, voru laun þeirra lág. Voru þau í fyrstu miðuð við laun gagnfræðaskólakennara. Allmikil breyting varð svo um sjö árum síðar þegar ákveðið var að miða kaup alþingismanna við launa flokk æðri embættismanna í þjónustu ríkisins. Jafnframt voru þá sett ákvæði um að alþingis menn gætu aðeins fengið hluta launa fyrir önnur störf hjá hinu opinbera. Með því var staðfest að starf alþingismanna væri eigi aðeins heilsársstarf heldur líka aðalstarf.
    Árið 1980 voru lög um þingfararkaup síðast endurskoðuð. Þá var sú breyting gerð að þing fararkaupsnefnd, sem ákveðið hafði þingfararkaup og annan starfskostnað, var lögð niður og ákvörðun um laun og starfskjör alþingismanna færð undir Kjaradóm. Jafnframt voru þá tekin inn í þingfararkaupslögin ákvæði sem sett höfðu verið á árinu 1978 um biðlaun alþingismanna. Hins vegar hafa ekki verið ákvæði í lögunum sem tryggja þingmönnum ýmis samningsbundin réttindi launþega, svo sem orlof, fæðingarorlof og ýmsar uppbætur, t.d. desemberuppbót.
    Síðan gildandi lög um þingfararkaup voru sett hefur orðið mjög mikil breyting á störfum alþingismanna, eins og rakið er í inngangi greinargerðarinnar. Þau hafa aukist verulega, þing tíminn lengst og gerðar eru vaxandi kröfur til alþingismanna um önnur störf, t.d. þátttöku í fundum og ráðstefnum, auk ferðalaga bæði hér á landi og til útlanda. Þá gefur afnám deilda skiptingarinnar og sú breyting að Alþingi starfar nú allt árið, auk nefndarstarfa utan hefðbund ins þingtíma, tilefni til að endurskoða þingfararkaupslögin. Mörg ákvæði laganna taka ekki mið af breyttum aðstæðum, svo sem því að langflestir þingmenn utan þéttbýlisins verða vegna aukinna umsvifa að hafa tvöfalt heimili, annaðhvort aðalheimili í kjördæmi og dvalarstað í Reykjavík eða aðalheimili í Reykjavík og dvalarheimili, eða starfsaðstöðu, í kjördæmi.
    Vegna breytinga á starfsháttum Alþingis, svo og vegna almennra þjóðfélagsbreytinga, hef ur skrifstofu þingsins reynst erfitt að setja skýrar reglur um starfskostnað alþingismanna á grundvelli núgildandi laga. Sem dæmi má nefna að æ fleiri þingmenn, sem búsettir eru í sveit arfélögum á suðvesturhorni landsins, aka milli heimilis og þingstaðar, æ færri þingmenn utan af landi búa einir í Reykjavík um þingtímann, fjarri fjölskyldum sínum, o.s.frv. Enn fremur verður að hafa í huga að eftir því sem á þingsetu utanbæjarmanna líður verður algengara að þeir komi sér upp aðstöðu í Reykjavík eða nágrenni sem verður í raun aðalheimili þeirra meg inhluta ársins þótt þeir hafi líka aðstöðu í kjördæmi sínu. Gildandi ákvæði um lögheimili al þingismanna eru því ekki lengur eðlileg til viðmiðunar um húsnæðis- og dvalarkostnað þeirra um þingtímann.
    Á árinu 1992 voru samþykkt ný lög um Kjaradóm og kjaranefnd. Samkvæmt þeim lögum ákveður Kjaradómur þingfararkaup alþingismanna og hefur í því efni hliðsjón af vinnutíma, starfsskyldum og ábyrgð. Ekki stendur til að gera breytingu að þessu leyti, en Kjaradómur hef ur ekki enn kveðið upp úrskurð um þingfararkaup eftir að hin nýju lög tóku gildi. Hins vegar felst í þessu frumvarpi sú breyting að starfskostnaður alþingismanna, þingfararkostnaður, og önnur starfskjör verða í höndum forsætisnefndar Alþingis en samkvæmt lögum um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991, 10. gr., ber forsætisnefnd að gera fjárhagsáætlun fyrir Alþingi og setja almennar reglur um rekstur þingsins. Því er talið eðlilegt að forsætisnefndin geti sett reglur um endurgreiðslur á kostnaði sem þingmenn þurfa að inna af hendi við störf sín.
    Frumvarp þetta er samið á vegum skrifstofu Alþingis á grundvelli hugmynda sem ræddar hafa verið í hópi formanna þingflokka undanfarin missiri. Hliðsjón hefur verið höfð af fyrir komulagi á greiðslu starfskostnaðar hjá þingum í nágrannalöndum, svo og skýrslum og álits gerðum sem unnar hafa verið að beiðni þingforseta á undanförnum árum.
    Helstu nýmæli frumvarpsins eru þessi:
     1.     Forseti Alþingis njóti sömu launakjara og ráðherrar.
     2.     Varaforsetar fái 15% álag á þingfararkaup.
     3.     Reglur um húsnæðiskostnað verði einfaldaðar þannig að allir þingmenn utan Reykjavíkur og Reykjaness fái greiddan húsnæðiskostnað, án tillits til lögheimilis, ýmist til þess að kosta dvalarheimili í Reykjavík eða til þess að hafa starfs- og dvalaraðstöðu í kjördæmi. Þeir alþingismenn, sem þurfa að halda tvö heimili, eiga jafnframt rétt á viðbótargreiðslu.
     4.     Dagpeningagreiðslur (svokallaðir fæðispeningar), sem þingmenn með lögheimili utan Reykjavíkur og Reykjaness fá um þingtímann, verði felldar niður.
     5.     Ferðakostnaðarreglur í kjördæmi verði rýmkaðar þannig að alþingismenn fái endurgreiddan kostnað við lengri ferðir til fundahalda innan kjördæmis.
     6.     Alþingismenn fái greiddan sérstakan starfskostnað til að mæta tilgreindum útgjöldum, svo sem til bóka-, blaða- og tímaritakaupa, námskeiðs- og ráðstefnugjalda og fleira þess háttar.
     7.     Settar verði skýrar reglur um leyfi alþingismanna frá opinberum ströfum þegar þeir eru kosnir á Alþingi.
     8.     Alþingismenn fái að jafnaði því aðeins greitt þingfararkaup meðan þeir sinna opinberum erindum, einkum erlendis, og taka inn varamann að för þeirra standi í a.m.k. fimm daga. Er vonast til að þessi breyting dragi úr kostnaði við þingsetu varamanna.
     9.     Almennar reglur um fæðingarorlof og tryggingar gildi um alþingismenn.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Greinin er efnislega óbreytt frá ákvæðum gildandi laga að öðru leyti en því að greiðsla þingfararkaups hefst daginn eftir kjördag. Þróunin hefur orðið sú á síðari árum að nýkjörnir þingmenn eru kallaðir til margvíslegra starfa þegar að loknum kosningum og því þykir eðlilegt að kaupgreiðslur hefjist strax en ekki frá og með næstu mánaðamótum eins og segir í gildandi lögum.

Um 2. gr.


    Greinin er nýmæli. Eðlilegt er, með hliðsjón af þeim breytingum sem gerðar voru á skipu lagi Alþingis árið 1991 og til viðurkenningar á stöðu forseta Alþingis sem er einn af handhöf um forsetavalds í fjarveru forseta Íslands, að hann hafi sömu launakjör og oddvitar fram kvæmdarvaldsins. Því er gert ráð fyrir að forsetinn njóti sömu launa- og starfskjara og ráðherr ar.

Um 3. gr.


    Greinin er nýmæli. Eins og kunnugt er hafa varaforsetar Alþingis enga sérstaka greiðslu fyrir störf sín við skipulagningu og stjórn þingsins. Víðast hvar í nágrannalöndunum fá vara forsetar aukagreiðslu fyrir þessi störf.

Um 4. gr.


    Í fyrri málsgrein er sett nýtt ákvæði um rétt alþingismanna til leyfis frá störfum sem þeir gegna hjá hinu opinbera er þeir eru kjörnir til þings. Um þetta atriði er ekki ákvæði í lögum. Eðlilegt þykir að alþingismaður geti fengið leyfi frá störfum fram á annað kjörtímabil sitt, þ.e. að hann verði að sleppa starfinu ef hann er kosinn á Alþingi í annað sinn í röð. Sanngjarnt þyk ir líka að þingmaður, sem þannig verður að velja milli opinbers starfs og þingmennsku, hafi tryggingu fyrir hliðstæðu starfi hjá hinu opinbera í nokkurn tíma, fimm ár, ef hann afsalar sér því starfi sem hann er skipaður eða ráðinn í. Áherslu ber að leggja á í þessu sambandi að um lágmarksrétt alþingismanns er að ræða samkvæmt greininni og ekkert er því til fyrirstöðu að hann njóti rýmri réttar ef stofnun ákveður svo, en dæmi eru um að það, m.a. í Háskóla Íslands. Loks ber að nefna að í 48. gr. stjórnarskrárinnar voru ákvæði hliðstæð þessu, þ.e. að embættis menn, sem kosnir eru til Alþingis, þurfi ekki „leyfi stjórnarinnar til þess að þiggja kosninguna“. Málsgreinin, 2. mgr. 48. gr., var hins vegar felld brott með stjórnarskipunarlögum 1991.
    Síðari málsgrein greinarinnar er samhljóða gildandi ákvæðum um launagreiðslur til alþing ismanna sem starfa hjá ríki eða ríkisstofnun samhliða þingmennsku. Til greina kom að fella niður ákvæði þessarar málsgreinar þar sem fátítt er nú orðið að þingmenn gegni öðrum launuð um störfum hjá hinu opinbera en frá því var horfið, m.a. vegna þess að ákvæðið getur tryggt rétt varamanna sem koma inn á Alþingi um stuttan tíma en gegna að einhverju leyti störfum sínum utan þings þann tíma.

Um 5. gr.


    Greinin er efnislega óbreytt frá ákvæðum gildandi laga. Ráðherra, sem ekki er alþingis maður, á skv. 51. gr. stjórnarskrárinnar sæti á Alþingi.

Um 6. gr.


    Greinin felur í sér talsverðar breytingar frá ákvæðum gildandi laga um húsnæðis- og dval arkostnað alþingismanna. Greiðsla húsnæðis- og dvalarkostnaðar verður einfölduð frá því sem nú er og fæðiskostnaður meðan á þingtíma stendur felldur niður. Þykir sú greiðsla ekki lengur vera í takt við tímann. Samkvæmt greininni eiga allir þingmenn svokallaðra landsbyggðarkjör dæma, kjördæma utan Reykjavíkur og Reykjaness, rétt til að fá greiddan mánaðarlega húsnæð is- og dvalarkostnað. Eðlilegt er að miða hann við leigu- og rekstrarkostnað meðalíbúðar í Reykjavík. Greiðsla þessi gengur líka til þeirra þingmanna landsbyggðarkjördæma sem eiga heimili í Reykjavík og kemur í stað greiðslu samkvæmt gildandi lögum fyrir dvalarkostnað í kjördæmi. Með þessu móti eiga alþingismenn utan Reykjavíkur og Reykjaneskjördæmis val um það hvort þeir fá greitt fyrir að koma sér upp dvalarstað í Reykjavík eða flytja þangað heimili sitt meðan á þingsetu stendur og koma sér í staðinn upp dvalarstað í kjördæmi sínu án þess að það hafi áhrif á greiðslur til þeirra. Það er ljóst að þeir þingmenn, sem eru búsettir í Reykjavík, eða eiga þar lögheimili, þurfa að hafa starfs- eða dvalarstöð a.m.k. á einum stað í því kjördæmi sem þeir eru fulltrúar fyrir. Fylgir ekki síður mikill kostnaður dvöl þingmanns í kjördæmi um lengri eða skemmri tíma en hann á ekki rétt á greiðslu dagpeninga þegar svo stendur á og er því hluta fjárhæðarinnar ætlað að standa undir þeim kostnaði.
    Ekki verður lengur miðað við hvar þingmenn eiga lögheimili eins og nú er. Þótt þingmenn eigi lögheimili á þeim stað þar sem þeir bjuggu er þeir voru fyrst kjörnir til þingsetu hafa margir þeirra komið sér upp öðru heimili nálægt þingstaðnum, þ.e. í Reykjavík, svo sem eðli legt er, en halda enn, að meira eða minna leyti, aðstöðu sinni þar sem þeir bjuggu áður sem starfs- eða dvalaraðstöðu. Er sanngjarnt að þeir fái kostnað sem af þessu leiðir endurgreiddan samkvæmt því sem áður segir.
    Í 2. mgr. er nokkurt nýmæli. Færst hefur í vöxt á undanförnum árum, m.a. vegna bættra samgangna, að þingmenn, sem búsettir eru í Vesturlands-, Suðurlands- og Reykjaneskjördæmi, aki frá heimili sínu til Reykjavíkur um þingtímann. Um sérstöðu þessara þingmanna hafa ekki gilt neinar lagareglur fram að þessu. Margir þessara þingmanna hafa þó komið sér upp ein hverri aðstöðu í Reykjavík til þess að eiga þar athvarf ef þingfundir standa fram á kvöld eða nótt, svo og í ófærð yfir vetrarmánuði; aðrir gista þá á hótelum. Samkvæmt frumvarpinu eiga þessir þingmenn kost á því að fá þriðjung húsnæðis- og dvalarkostnaðar eins og hann er ákvarðaður skv. 1. mgr., auk endurgreiðslu ferðakostnaðar frá heimili að þingstað.
    Í 3. mgr. eru sérákvæði um þá alþingismenn sem halda tvö heimili, annað í kjördæmi sínu en hitt í Reykjavík. Kostnaður, sem þessir þingmenn þurfa að bera, er meiri en svo að greiðsla skv. 1. mgr. nægi. Tímabundinni dvöl utan aðalheimilis fylgir óhjákvæmilega allnokkur dval arkostnaður auk rekstrarkostnaðar íbúðar sem greiðsla skv. 1. mgr. á að ganga upp í. Því er lagt til að þeir eigi rétt á viðbótargreiðslu, allt að 40%, til að mæta þessum kostnaði. Er gert ráð fyrir að forsætisnefnd setji skýrar reglur um þetta atriði.

Um 7. gr.


    Fyrri málsliður fyrri málsgreinar er efnislega óbreyttur frá ákvæðum gildandi laga um ferðalög innan kjördæmis. Hér er hins vegar ekki gert ráð fyrir mismunandi hárri greiðslu milli kjördæma. Þar sem í síðari málsgrein er ákvæði um að heimilt verði að endurgreiða lengri ferðir innan kjördæma þykir eðlilegast að þessi fjárhæð verði sú sama fyrir alla alþingismenn. Síðari málsliður er samhljóða fyrri málsgrein 3. gr. gildandi laga.
    Í síðari málsgrein eru nýmæli. Þingmenn hafa orðið fyrir talsverðum kostnaði, mismunandi eftir kjördæmum, þegar þeir ferðast frá heimili sínu eða dvalarstað til funda annars staðar í kjördæmi þeirra. Sú greiðsla, sem þeim er ætluð til að standa undir ferðum innan kjördæmis, hefur ekki verið nægilega rúm í öllum tilvikum. Kostnaður af þessu tagi er einnig mjög mis munandi eftir árstíma, eftir kjördæmum og þingmönnum. Frumvarpið gerir því ráð fyrir að þingmenn fái greidda fasta upphæð, eins og kveðið er á um í fyrri málsgrein, til styttri ferða laga innan kjördæma en lengri ferðir verði greiddar eins og aðrar ferðir sem þingmenn þurfa að fara annars staðar á landinu til funda og annars sem af starfi þeirra leiðir. Með þessu móti ræðst það meira af þörf hvað hver þingmaður fær endurgreitt af slíkum ferðum. Forsætisnefnd hefur þó heimild til þess að setja nánari reglur um endurgreiðslur samkvæmt þessari grein, þar á meðal um hámark þeirra. Reiknað er með að forsætisnefnd setji reglur um hvað teljist lengri ferðir, en við undirbúning frumvarpsins hefur verið miðað við að það gætu verið ferðir um fram 20 km frá heimili eða starfsstöð og að með ferðakostnaði teldist einnig óhjákvæmilegur dvalarkostnaður sem þingmenn verða fyrir á slíkum ferðum.

Um 8. gr.


    Greinin er nýmæli í lögunum en aðeins staðfesting á langri framkvæmdarvenju. Ákvæðið tekur til ferða á vegum alþjóðanefnda þingsins, ferða forseta og annarra ferða sem forsætis nefnd ákveður sérstaklega í hvert sinn.

Um 9. gr.


    Fyrri málsgrein er efnislega samhljóða gildandi ákvæðum. Þó er bætt við greinina ákvæði um að alþingismenn fái vinnuaðstöðu og að Alþingi greiði kostnað af henni. Hér er verið að staðfesta það skipulag sem gilt hefur um starfsaðstöðu þingmanna. Miklar framfarir hafa orðið í alls kyns skrifstofubúnaði og er með orðalagi greinarinnar verið að veita forsætisnefnd heim ild til þess að greiða kostnað af ýmsum tækjum sem nú þykja nauðsynlegur búnaður, eins og farsíma, faxtæki, tölvum o.fl., bæði á skrifstofum og utan. Til skrifstofukostnaðar telst einnig allur póstkostnaður sem leiðir af starfi þingmanna og þingflokka og því þykir ekki ástæða til að tiltaka hann sérstaklega. Alþingismenn fá enn fremur endurgreiddan kostnað af heimasíma samkvæmt nánari reglum sem forsætisnefnd setur.
    Í síðari málsgrein er hins vegar um nýmæli að ræða. Ljóst er að alþingismenn hafa ýmsan kostnað, auk ferða- og dvalarkostnaðar, við störf sem af þeim er krafist. Nægir þar að nefna kostnað við kaup á tímaritum, bókum og blöðum, þátttöku í ráðstefnum og námskeiðum og ýmiss konar risnu, t.d. á fundum sem þeir þurfa að standa fyrir sem þingmenn, svo að eitthvað sé nefnt. Fram að þessu hafa þingmenn greitt kostnað af þessu tagi af launum sínum, að mestu leyti, en samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir því að alþingismenn fái kostnað af þessu tagi endurgreiddan. Er forsætisnefnd veitt heimild til þess að greiða alþingismönnum mánaðarlega fasta fjárhæð til að standa straum af slíkum kostnaði. Fyrirkomulag líkt þessu er viðhaft í þing um nágrannalandanna enda þykir eðlilegt að þingmenn hafi sjálfdæmi innan ákveðins ramma um hvernig fé er ráðstafað í starfskostnað en eigi það ekki undir ákvörðunum embættismanna þingsins eða stjórnarráðsins.
    Beiti forsætisnefnd heimild samkvæmt greininni til að greiða starfskostnað sem jafna mán aðarlega fjárhæð er gert er ráð fyrir að hún verði hin sama til allra alþingismanna, einnig til þeirra sem jafnframt gegna ráðherrastörfum.

Um 10. gr.


    Greinin er að meginefni samhljóða ákvæðum gildandi laga. Þó eru í henni settar nokkrar skorður við því að þingmaður haldi kaupi sínu meðan hann er fjarverandi í opinberum erindum taki varamaður sæti hans á meðan. Nú eru ekki í lögum nein ákvæði um þetta, en samkvæmt greininni skal lágmarksfjarvera vera fimm dagar, eða í raun ein starfsvika þingsins. Varamenn sitja að jafnaði a.m.k. tvær vikur og er talið hæfilegt að aðalmaður haldi launum sínum þurfi hann að vera fjarverandi í a.m.k. helming þess tíma.
    Nauðsynlegt þykir hins vegar að hafa ákvæði í lögunum um að víkja megi frá þessum regl um ef sérstaklega stendur á, t.d. ef stjórnarflokkar hafa mjög nauman meiri hluta og hætta er á að vægi fylkinga raskist nema inn komi varamaður.
    Í 1. málsl. 1. mgr. greinarinnar er tilgreint hvaða ástæður þurfa að vera fyrir hendi til þess að alþingismaður geti kallað til varamann en þó haldið þingfararkaupi og öðrum greiðslum samkvæmt lögum þessum. Við ákvæði gildandi laga þar sem tilgreindar eru tvær ástæður, op inber erindi á vegum ríkisstjórnar eða sem fulltrúi Alþingis, hefur verið bætt orðunum „í öðrum opinberum erindum“. Með því er verið að auka svigrúm forsætisnefndar til að heimila al þingismönnum, einkum forustumönnum flokka og þeim sem eru í trúnaðarstörfum á vegum alþjóðasamtaka sem alþingismenn, að kalla til varamenn þegar þeir þurfa að sinna slíkum starfsskyldum.

Um 11. gr.


    Greinin er efnislega samhljóða gildandi ákvæðum, en forsætisnefnd hefur heimild sam kvæmt frumvarpinu til að setja nánari reglur um greiðslur til varamanna meðan þeir sitja á þingi, einkum um greiðslur þingfararkostnaðar þann tíma.

Um 12. gr.


    Greinin er nýmæli. Sjálfsagt og eðlilegt þykir að taka í lög um þingfararkaup hliðstæð ákvæði og gilda um rétt starfsmanna ríkisins til fæðingarorlofs. Konum, sem sæti hafa átt á Alþingi, hefur fram að þessu verið veittur þessi réttur án beinnar lagastoðar en með ákvæðum greinarinnar eru tekin af tvímæli um þetta efni, svo og rétt feðra, rétt vegna ættleiðingar o.s.frv.
    Í síðari málsgrein eru ákvæði um tryggingar alþingismanna en slík ákvæði hafa ekki verið fyrir hendi.

Um 13. gr.


    Greinin svarar til 8. gr. gildandi laga. Á henni hafa verið gerðar tvær efnisbreytingar. Hin fyrri er sú að hver sem tekið hefur fast sæti á Alþingi, þ.e. hefur orðið alþingismaður, á rétt á biðlaunum, en í gildandi lögum segir að þeir þingmenn, sem setið hafa eitt kjörtímabil, eigi þennan rétt. Greinin hefur reyndar verið túlkuð svo að allir alþingismenn eigi þennan lágmarksrétt enda hefði önnur túlkun leitt til ósanngjarnrar niðurstöðu. Síðari breytingin felst í því að þingmenn fá rýmri rétt, sex mánaða biðlaun, hafi þeir setið á Alþingi tvö kjörtímabil. Samkvæmt gildandi ákvæðum er markið nú 10 ár.
    Á undanförnum árum hafa komið fram tillögur um að skerða biðlaunarétt þeirra sem hverfa til annarra starfa þegar að lokinni þingmennsku. Var allmikið um það rætt við undirbúning málsins hvort breyta ætti ákvæðum greinarinnar þannig að biðlaun yrðu ekki greidd, eða að eins hluti þeirra ef fyrrverandi þingmaður tekur við öðru starfi, annaðhvort í þjónustu ríkis, sveitarfélaga, hjá opinberri stofnun eða fyrirtæki eða hjá einkafyrirtækjum. Þá var einnig rætt í þessu sambandi hvort jafnframt skyldi lengja biðlaunatímann. Að vandlega athuguðu máli var horfið frá því. Hafa ber í huga í þessu sambandi að samkvæmt lögunum eiga þingmenn rétt til biðlauna en þau eru ekki sjálfkrafa launagreiðsla. Það er því komið undir hverjum og einum sem á þennan rétt hvort til biðlaunagreiðslu kemur.

     Um 14. gr.


    Haldið er þeirri reglu að Kjaradómur ákveði þingfararkaup samkvæmt þeim lögum sem um dóminn gilda, en þau eru frá árinu 1992. Eins og áður er rakið verður gerð sú breyting að for sætisnefnd ákveður aðrar greiðslur til þingmanna fyrir þingfararkostnað. Stór hluti þessa kostnaðar, svo sem ferðakostnaður, símakostnaður o.fl., hefur verið úrskurðaður og endur greiddur af skrifstofu Alþingis en Kjaradómur hefur ákveðið húsnæðiskostnað, dvalarkostnað um þingtímann og fastan ferðakostnað í kjördæmi. Þessar greiðslur verða nú ákvarðaðar af for sætisnefnd þingsins sem hefur umsjón með fjárreiðum þess og ber að setja almennar reglur um rekstur Alþingis samkvæmt þingsköpum. Byggir hún þá á upplýsingum frá skrifstofu þingsins eða á öðrum almennum viðmiðunum.
    Í síðari málsgreininni er ákvæði um að forsætisnefnd setji nánari reglur um greiðslur sam kvæmt lögunum. Er þá átt við allar kostnaðargreiðslur. Lögð er áhersla á að þær reglur verði skýrar og öllum aðgengilegar.

Um 15. gr.


    Skrifstofa Alþingis skal samkvæmt greininni úrskurða um reikninga frá alþingismönnum en þeim úrskurði má vísa til forsætisnefndar ef þingmaður unir honum ekki og fellir nefndin þá endanlegan úrskurð um ágreiningsefnið. Ákvæði þetta er hliðstætt 13. gr. gildandi laga.
    Þá þykir eðlilegt að í greininni séu ákvæði sem heimili forsætisnefnd að skera úr um vafatilvik og setja reglur um aðstæður sem ekki verða séðar fyrir að öllu leyti við setningu nýrra ákvæða um þingfararkostnað.

Um 16. gr.


    Nauðsynlegt er að skýrar reglur gildi um skattalega meðferð á þingfararkostnaði. Margir alþingismenn þurfa að halda tvö heimili eða hafa starfsaðstöðu í kjördæmi séu þeir ekki bú settir þar. Sömuleiðis þurfa þeir að ferðast mikið á eigin bifreiðum. Eiga þeir þá að jafnaði ekki val um hvort þeir nota eigin bifreið, bifreið stofnunar eða t.d. bílaleigubíl. Fastar greiðsl ur húsnæðis- og dvalarkostnaðar og ferðakostnaðar í kjördæmi eru ákvarðaðar samkvæmt mati á hvað megi teljast hóflegt eða meðaltal kostnaðar. Með hliðsjón af því þykir eðlilegast að kostnaður sem af þessu leiðir, þ.e. húsnæðis- og dvalarkostnaður, ferðakostnaður innan lands og annar starfskostnaður, sé ekki skattskyldur. Greiðslur þessar verða þó framtalsskyldar sam kvæmt almennum reglum. Húsnæðis-, dvalar- og fastur ferðakostnaður hefur fram að þessu verið skattfrjáls samkvæmt úrskurði ríkisskattstjóra. Hér er því ekki um efnislega breytingu að ræða frá því fyrirkomulagi sem nú er. Hér liggur enn fremur það almenna sjónarmið til grundvallar að þær greiðslur, sem löggjafarvaldið telur hæfilegan starfskostnað þingmanna, séu ekki háðar skattalegu mati embættismanna framkvæmdarvaldsins frekar en almennur rekstrarkostnaður Alþingis. Á þessu sjónarmiði er líka byggt í mörgum nágrannaríkjum okkar að því er varðar starfskostnað þingmanna.

Um 17. gr.


    Gert er ráð fyrir að lögin öðlist gildi 1. júlí nk. Ekki liggur fyrir að forsætisnefnd muni fyrir þann tíma setja nýjar reglur um þingfararkostnað skv. II. kafla og því er nauðsynlegt að eldri úrskurðir Kjaradóms gildi þangað til, þ.e. um húsnæðis- og dvalarkostnað og um fastan ferða kostnað í kjördæmi.
    Loks er nauðsynlegt að fella brott úr lögunum um Kjaradóm þau ákvæði að Kjaradómur ákveði „önnur starfskjör alþingismanna“ til samræmis við ákvæði þessa frumvarps um að slíkar ákvarðanir verði framvegis í höndum forsætisnefndar Alþingis.